Selstóttirnar liggja í röð undir hraunbakkanum skammt frá veginum að Stapafelli. Um er að ræða nokkur hús. Norðan vegarins er hlaðin rétt og stór stekkur. Þetta hefur verið ágæt aðstaða miðja vegu á milli þjóðleiðanna (Skipsstígur) á milli Njarðvíkur og Grindavíkur annars vegar og Voga og Grindavíkur (Skógfellavegur) hins vegar. Í gömlum heimildum er selinu lýst og er það sagt vera við Seljavatn.
Hópsselið er austan Grindavíkurvegar rétt áður en komið er að Selshálsi. Um er að ræða fremur litla tótt utan í hlíðinni. Tótt, sem líklega hefur tilheyrt því, er í lægð norðan í hálsinum skammt vestan vegarins.
Baðsvallaselin er í hraunkantinum norðan Þorbjarnarfells. Tóttir frá seljunum eru einnig rétt austan við skóg, sem þar hefur verið plantað, nálægt vatni. Ein tóttin er alveg við ystu mörk skógarins. Önnur inni í skóginum og hefur fyrir alllöngu verið plantað trjám í hana og umhverfis.
Skoðað var Einland og tóttir Móa skammt austan við Valhöll. Þá var gengið að Hraunkoti. Bæjarstæðið var fallegt á að líta þar sem sóleyjarnar mynduðu myndrænan forgrunn að upphlöðnu bæjarstæðinu á brún Slokahrauns. Í bakaleiðinni var gengið um Klappartúnið og litið á tóttir gamla Klapparbæjarins skammt sunnan Buðlungu. Vel má sjá hvernig bærinn hefur litið út, auk þess sem nýlega hefur verið mokað frá nyrsta hluta tóttanna. Má þar sjá göng, sem legið hafa að bænum. Sjávargöturnar í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Sú austasta liggur fallega flóruð og hlaðinn beint niður af Klapparbænum. Miðgatna er neðan Miðbæjar og vestasta gatna skammt vestar.
Bráðfallegt veður og kjörið til útivistar.