Snorri

Upplýsingar höfðu fengist um jarðfall austan Geitahlíðar. Jarðfallið átti að vera nokkrir metrar í ummál og um sex metra djúpt. Þar ofan í sást í rásir.

Snorri

Haldið upp í Snorra.

Haldið var upp slóða, sem liggur upp með girðingunni vestan Sýslusteins og honum síðan fylgt upp hraunhlíðina. Á slóðanum er einn og einn girðingastaur á stangli, en hann hefur verið ruddur þarna upp með það fyrir augum að leggja girðingu eftir fjallgarðinum. Þegar komið var upp á hæðina heldur slóðinn áfram uns hann beygir til vinstri við beygju á girðingunni. Úr hornstaurnum liggja strengir í henni áfram til norðurs, upp grasbrekkur. Ekið var slóðann upp brekkuna. Þegar komið var upp beygir girðingin og slóðinn enn til vinstri og heldur áfram yfir hraunbreiðu. Þarna vinstra megin, við hornið, er melhóll. Af honum á að taka mið á jarðfallið.

Snorri

Á leið í Snorra.

Ekið var áfram eftir slóðanum, en útsýni er þarna allfagurt; Geitahlíð til suðurs, fjórir fallegir eldgígar til vesturs, Sveifluháls norðar, Sandfell og Vörðufell til norðurs, Austurásar, Vesturásar og Herdísarvíkurfjall til austurs. Inni í hrauninu beygir girðingin enn í nær 45° til vinstri. Litið var á einn gíginn, næst slóðanum, en hann er mosagróinn og opnast til suðvesturs. Þegar komið er út úr hrauninu beygir girðingin til norðausturs með hraunkantinum. Slóðinn liggur þar að mestu í grasi og virðist liðast með honum langleiðina að Vörðufelli. Mikil vinna og mikill kostnaður hefur legið í bæði vegavinnunni og girðingavinnunni, en strengirnir liggja víðast hvar niðri og er girðingin því ónothæf með öllu.

Snorri

Leitin að Snorra.

Haldið var aftur að melhólnum og gengið út frá honum til vesturs, eins og lýsingin sagði. Þarna er nýtt hraun á eldra hrauni á kafla, en nýja hraunið er mjög mosagróið. Jarðfallið átti að vera þarna í 50-100 metra fjarlægð frá melhólnum, en það fannst ekki þrátt fyrir leit.

Haft var samband við upplýsingagjafann. Hann sagðist hafa farið að rifja staðsetninguna betur upp, en nokkuð er um liðið síðan hann var þarna á ferð. Sagðist hann hafa verið að koma frá Vörðufelli, komið að hæsta melhólnum vestan girðingarinnar og ætlað að stytta sér leið yfir hraunið því hann hafi ætlað niður í Sláttudal á milli Æsubúðar-Geitahlíðar og Geitahlíðar. Hann hafi gengið ofan hraunbrúnarinnar áður en hraunið tekur að halla undan til suðurs. Þegar hann hafi verið kominn 50, 100 eða 200 metra inn í hraunið hafi hann allt í einu staðið á barmi jarðfallsins. Hann hefði ekki séð það tilsýndar. Steinbogi er yfir því. Hann taldi að hægt væri að fara ofan í jarðfallið án búnaðar. Rétt væri því að ganga frá melhólnum með stefnu á Geitahlíð, þ.e. meira til suðvesturs og fara með hraunbrúninni.

Björn Hróarsson

Björn Hróarsson við Snorra.

Á leið til baka sást op vinstra megin við slóðann þar sem hann liggur niður hraunhlíðina. Þarna er um hraunrás í katli að ræða. Í katlinum er gat, ca. 3×4 metrar að ummáli og er um 6 metrar niður á botn. Ekki er hægt að komast þar niður nema á stiga eða síga. Rás virðist liggja þar til suðvesturs. Uppi liggur rás til norðurs, u.þ.b. 20 metra löng. Hún endar í hruni og lausu hrauni. Í katlinum má einnig sjá inn í reglulega fallega, en mjóa rás. Innan hennar sést í þrifalega hraunrás. Neðri rásina þarf að skoða síðar með viðeigandi búnaði.

Ætlunin er að gera aðra tilraun fljótlega með það fyrir augum að finna jarðfallið – FERLIR er þekktur fyrir allt annað en að gefast upp.

Snorri

Snorri – kort.