Strandarkirkja

Í Lesbók Mbl 20. febr. 1993 ritar Konráð Bjarnason grein,  “Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896”. Greinin fjallar m.a. um hús í Selvogi, sem voru byggð úr einstakri himnasendingu – strandreka. Konráð var áður búsettur í Hafnarfirði, ættfræðingur og fræðimaður, en hefur leitað heimaslóðanna á efri árum.

Arnarbæli

“Þann 13. nóv. sl. gaf að líta eftirfarandi fyrirsögn og frétt í MBl: “Prestsbústaðurinn á Arnarbæli í Ölfusi var brenndur til grunna fyrir skömmu. Það voru slökkviliðsmenn í Þorlákshöfn sem stóðu að brunanum og notuðu tækifærið til æfinga í slökkvistörfunum. Eldurinn sást víða að enda stóð húsið á hæð og var hið reisulegasta. Það var byggt upp úr aldamótunum síðustu og var tvílyft hús á háum grunni.” Svo mörg voru þau orð. Ekki svo ókunnugleg þó í ljósi reynslunnar síðustu aldarmisserin.
Á náttúruhamfaraárinu 1896 riðu skelfingar yfir að kvöldi hins 26. ágúst með ógurlegum jarðskjálfta er lét eftir sig í fyrstu lotu mörg hundruð hruninna bæja, einkum í uppsveitum Rangár- og Árnesþings. ekki var þetta nóg því nýjar skelfingar dundu yfir Skeið, Holt og Flóa, en minni háttar í Ölfussveit.. Um kl 2 aðfaranótt sunnudagsins 6. september reið yfir Ölfussveit voðalegur kippur sem felldi til grunna 24 bæi og 20 stórskemmdust. Meðal þeirra bæja var prestsetursbærinn að Arnarbæli.”
NeshúsUm þetta leyti strandaði skip utan við Selvog. Nær hádegi hafði drifið að strandstað flestalla vinnufæra menn í byggðalaginu, en þeir voru allmargir um þessar mundir. Það bakti mikla forvitni Selvogsmanna á leið til strandsstaðar með hvaða hætti strand þetta hafði borið að í nær dauðum sjó og góðviðri… að þessu sinni var sýnt að ævintýri hafði gerst á strandstað. Skip hafði komið af hafi undir fullum seglum hlaðið unnum góðviði til húsagerðar fyrir hina fjölmörgu nærsveitunga er stóðu yfir föllnum bæjarhúsum sínum niður í grunn sinn. Skipverjar gengu nær þurrum fótum til lands eftir flúðum er komu upp á fjöru…
Þegar Gísli hreppstjóri hafði rætt við skipsstjóra farskipsins var Selvogsmönnum sagt eftirfarandi: Skipið hét “Andrés” og var frá Mandal í Noregi, á leið til Reykjavíkur með timburfarm til húsagerðar þar. Var þetta stórfarmur af unnum við, einkum panelefni. Þegar skipið nálgaðist Ísland kom mikill leki að því sem jókst og varð óstöðvandi þrátt fyrir að handdælur væru nýttar til hins ýtrasta. Skipverjar voru komnir að niðurlotum þegar þeir voru á móts við Selvog og vonlaust að n´fyrir Reykjanes. Tók skipstjóri til þess örþrifaráðs að sigla skipi sínu á grunn með stefnumið á Strandarkirkju þar sem sjór sýndist kyrrastur. Háflæði var og kenndi skipið grunns á flúðunum vestanmegin Strandarsunds.”
HlíðarendiByrjað var á því að færa skipshöfnina til lands og hlúa að henni. Þá tóku við björgunaraðgerðir farmsins. “Farmur á þilfari var fyrst borinn upp fyrir fjörukamb vestan Vindásbæjarrústa. Þar voru einkum tré er voru borin á öxlum tveggja manna. Þá komu plankar sem tveir báru og smáplankar, gólfborð, skífuborð, listar og mikið magn af plægðum viði eða panel. Svo virðist sem mestum hluta farmsins hafi verið bjargað óskemmdum á fyrstu dögum eftir strandið vegna þess hversu ládautt var. Á sama tíma var einnig bjargað silgingarbúnaði, áhöldum, tækjum og kosti. Honum uppborna viðarfarmi var staflað í aðgreind búnt eftir tegundum og síðan breitt yfir hann. Nokkuð af viði laskaðist í strandinu og var því safnað í hrúgur og selt samkvæmt sölunúmeri eins og annar viður. Hið verst farna fékk söluheitið hrak.”

Hlíðarendi í Selvogi - sögufrægt mannvirki

Uppboðið á varningnum var haldið 5. nóvember 1896. “Þegar uppboðsþing var sett var ljóst að fjölmargir væntanlegir kaupendur voru mættir á uppboðsstað. Þeir hafa komið úr mörgum hreppum Árnessýslu og víðar að en flestir úr Ölfushreppi. Þeir hafa þegar kynnt sér það sem í boði var og við blasti á malarkambi. Þeri hafa komist að raun um að hér var í boði nýr girnilegur húsbyggingarviður unninn til uppbyggingar á hærri, rýmri og betri húsakosti, en dreifbýlisfólk hafði átt að venjast hingað til. Timbrið var auk þess líklegt til að standa af sér eyðingaröfl þau er nýgengin voru yfir. Þeir sem komnir voru á strandstað með það í huga að byggja hús, allt að tveggja hæða, hafa tekið með sér smið og vinnumenn. Og þeir væntu þess óefað að gera góð kaup á rekafjörunni… Þeir sem stórtækastir voru á uppboðinu, sem stóð í tvo daga, voru stórhúsbyggjendurnir Þorbjörn í Nesi í Selvogi, séra Ólafur í Arnarbæli, Jón hrepstjóri á Hlíðarenda og Jakob í Auðsholti…” Þessi menn byggðu tvílyft hús úr nefndum húsagerðarviði. “Hús þessi vitnuðu um stórhug og metnað byggjenda sinna og gegndu menningarhlutverki hvert á sínum stað. Þau eru nú fallin, utan eitt, Hlíðarendahús.

Heimild:
-Konráð  Bjarnason – Sending af hafi jarðskjálftasumarið 1896 – Lesbók MBL 20. febr. 1993.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.