Tómas Jónsson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn á Selfossi, ættaður og trjáuppræktandi í gegnum árin á Þóroddsstöðum í Ölfusi, nú búsettur á Selfossi, hafði samband.
Tómas er mikill áhugamaður um örnefni og minjar á svæðinu. Í framhaldinu mætti FERLIRsfélaginn á hlaðið á Þoroddsstöðum daginn eftir á umsömdum tíma. Tómas og sonur hans, Hjalti, skipuðu móttökunefndina. Viðfangsefnið var örnefnið “Seldalur” suðvestast á Núpafjalli. Vegur lá þangað á stríðsárunum síðari – en nú getur hann varla talist nema jeppaslóði. Loftskeyta- og eftirlitsstöð var á fjallinu ofan við Urðarástjörnina. Vestan hennar, alveg við hraunkantinn, mótar glögglega fyrir gamalli selstöðu, væntanlega frá Saurbæ í Ölfusi. Örnefnið “Seldalur” gefur vísbendingu um að þar hafi verið selstaða fyrrum – og þá væntanlega frá Núpum.
Tilgangur ferðarinnar að þessu sinni var að staðsetja Seldalinn og minjar, sem þar mætti finna. Bæði Tómas og Hjalti voru greinilega vel kunnugir á svæðinu. Staðnæmst var við gólf fyrrum bragga. Útsýni frá honum yfir Atlantshafið sunnan strandarinnar var óvéfengjanlegt. Vestan við braggagólfið voru leifar af ferhyrndu gerði. Svo virtist sem það gæti verið eldra en braggaleifarnar, en hluti úr vegghleðslunum hafi verið teknar í undirbyggingu hans, líkt og torfskurðurinn neðanundir gaf til kynna.
Skammt vestar var öskuhaugur byggðarinnar, sprengigýgur o.fl. Veðrið að þessu sinni gaf ekki tækifæri til nákvæmrar skoðunnar í dalnum; þoka, rigning og hvassvirðri. Seldalurinn er afmarkaður af skornum hlíðum að norðaustanverðu og austurbrún Þurárhrauns að vestanverðu. Mögulegir minjastaðir virtust hvarvetna, en ljóst var að lækjarskornar hlíðarnar gætu reynst villugjarnar. Sennilega væri svarsins að leita undir brúnum hraunsins. Ákveðið var að skoða það nánar síðar.
Þegar niður að Þóroddsstöðum var komið benti Tómas upp eftir frá hlaðinu til norðvesturs, að hinum “efri brúnum”. Sagði hann þær geyma tóftir, sem ekki hafi verið skilgreindar, en örnefnin þarna væru Stekkatúnshólar og Stekkatún. Lýsingin gaf til kynna heimaselstöðu.
Þegar FERLIR var næst á leið um Þóroddsstaði var staðnæmst ofan við bæinn og mögulegur selsstígur fetaður áleiðis að Stekkatúnshólum. Gatan var augljós uns komið var upp í hólana. Þegar upp fyrir það var komið þurfti ekki nánari sannana við; leifar hlaðins stekks og gróinnar tóftar austan hans; dæmigert heimasel, sennilega frá 18. og 19. öld. Hleðslurnar voru heillegar, en hliðsett tóftin óljósari. Mögulega gæti þarna hafa verið endurbyggð selstaða upp úr annarri eldri. Um það verður þó ekki hægt að fjölyrða nema með frekari rannsóknum.
Að uppdrætti loknum var stefnan tekin upp á Hnúkamosa ofan Seláss með það að markmiði að finna hlaðna rétt inni í hrauninu. Loftmynd hafði gefið til kynna hvar hana var að finna, auk þess sem réttarinnar er getið í einni örnefnalýsingu; fyrir Þurá: “Uppi á Hnúkum er heiðlendi nokkurt sem heitir Hnúkamosar. Inn af þeim er allstór hóll eða ás sem heitir Selás, og eru lægðir allt í kring um hann. Í hraunbrúninn rétt austan Selás er ógreinilegar rústir, sem gætu verið selrústir. Við Selás voru setin lömd, meðan fært var frá. Við afréttargirðinguna skammt fyrir inna Selás er Fjárrétt, byggð um 1930 fyrir vorsmalanir. Hún hlaut aldrei nafn.” Tómas segir að réttin hafi verið lagfærð árið 1927, en hluti hennar er miklu mun eldri.
Nefndar seljarústir austan Seláss voru staðsettar að þessu sinni þótt það hafi áður verið gert að hluta árið 2006. Þó má vel vera að enn ein ferðin verði farin þangað inn eftir á grundvelli framangreindra gagna – en ekki síst í ljósi upplýsinga er þessi gönguferð um heiðina gaf til kynna. “Sá lærir, sem les… – landið”.
Þegar gengið var til baka var komið niður um Fagurlindarskarð. Ætlunin var að koma niður Smalaskarð, en vegna ókunnugleika varð þetta raunin (sem í rauninni skipti engu máli að þessu sinni. Í næstu ferð frá Þóroddsstöðum og Þurá er ætlunin að ganga Suðurferðargötuna um fyrrnefnda skarðið með það fyrir augum að skoða fleiri mögulegar selstöður á tilgreindum stað, sbr. örnefnaskrá Núpa: “Selás: Lítil hæð, grasbrekkur í kring, Selásbrekkur. Seldalur: Gróin dæld upp frá Núpastíg. Þar lá gata. Stundum var slegið og flutt á klökkum niður Núpastíg”.
Um suðurferðargötuna um Smalaskarð upp frá Þóroddsstöðum og Þurá segir: “Suðurferðagata (Skógargata), sjá nánar við Þórodsstaði, liggur rétt innan, norðan, við Selás að Hlíðarhorni, suðaustur yfir hraunið, brunahrauntunguna, og austur á þjóðveginn á Hellisheiði hjá 40 km-steininum, rétt fyrir vestan Loftin.
Smalaskarð er stærsta skarðið í efri hlíðina. heita Hnúkar vestan þess. Austan við Smalaskrað er Fagurlindarhnúkar og austan hans Fagurlindargil. Austar í brúninni er bratt skarð en grunnt. Það heitir Folaldaskarð.”
Stekkurinn, fallega hlaðinn undir sléttum smáhömrum, er nú í landi Þurár. Ekki er ólíklegt að hann hafi áður verið í landi Þóroddsstaða ef tekið er mið af fyrri landamerkjum og sýnilegum girðingum. Þarna gæti vel hafa verið heimaselsstaða fyrrum.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Þóroddsstaði, Þurá og Núpa.
-Tómas Jónsson og sonur, Hjalti.