Kápuskjól

Vanda þarf til fornleifaskráninga. Allt of mörg dæmi eru um hið gagnstæða. Allar slíkar virðast vera samþykktar nánast athugasemdalaust af hálfu hins “opinbera”.

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.

Eftir að fornleifaskráning um fyrirhugaðan Suðurstrandaveg var gerð opinber og auglýst hafði verið eftir athugasemdum sendi undirritaður inn 23 slíkar. Þær voru listaðar upp og nánar tiltaldar – hver og ein. Vísað var m.a. til þess að tiltekin fjárborg, staðsett í skráningunni við Litlaháls, var í u.þ.b. 7 km fjarlægð – á Borgarhólum. Fleiri slík dæmi voru tiltekin og öðrum óskráðum bætt við. Skráningaraðilanum var í framhaldinu gefinn kostur á að bæta skráninguna með því að taka tillit til athugasemdanna. Ný skýrsla var birt í framhaldinu. Með því hafði a.m.k. einhverjum áður vanskráðum fornleifum á svæðinu verið bjargað frá eyðileggingu. Undirrituðum var þó ekki þakkað sérstaklega fyrir ábendingarnar.

Gjásel

Gránuskúti.

Skipulagsstofnun auglýsti síðar eftir athugasemdum við fyrirhugaða Suðurlínu frá Hengli vestur eftir Reykjanesskaganum. Undirritaður sendi inn 32 athugasemdir vegna vanskráningu fornleifa á og við línuleiðina. Í framhaldinu barst honum eftirfarandi svar: “Þú verður að tiltaka hverjar þessar tilteknu fornleifar eru.”
Svaraði, vegna fyrri reynslu: “Er ekki í vinnu hjá ykkur að skrá fornleifar. Þið þurfið bara að yfirfara skráningarsvæðið að teknu tilliti til þess að í fornleifaskráninguna vantar a.m.k. 32 fornleifar.” Um var m.a. að ræða óskráðar fornar leiðir, fjárskjól, markavörður, grensvörður, leitarvörður, skráð greni, refagildrur sem og önnur söguleg og jarðfræðileg merkilegheit.
Viðbrögð Skipulagsstofnunar komu svo sem ekki á óvart: “Fyrst þú getur ekki tiltekið einstakar fornleifar teljum við ekki ástæðu til að taka mark á athugasemdunum.”
Einhverjum efasemdafræjum virðist hins vegar hafa verið sáð hjá hinu heilaga yfirvaldi því í framhaldinu var fenginn annar fornleifafræðingur til að yfirfara fyrri skráninguna á svæðinu. Sá hafi samband við undirritaðan. Í framhaldinu bættust við fornleifaskráninguna 56 áður óskráðar fornleifar.
Vandvirkni skiptir máli, hvort sem um er að ræða fornleifaskráningar, eða annað…

Gjáselsstígur

Gjásels- og Fornaselsstígur.