Færslur

Þinghóll

Ef litið er á sögu fornleifafræðinnar á Íslandi þá er hún í rauninni ekki mikið styttri en hefur gerst og gengið annarstaðar í heiminum. Hins vegar hefur kannski minna gerst og þróunin orðið hægari hér en víða annarsstaðar. Það hefur þó varla komið að sök í ljósi stöðu greinarinnar. Hún hefur tekið allmiklum breytingum í seinni tíð með tilkomu nýrra og áreiðanlegri rannsókna í hinum ýmsu stuðningsgreinum hennar. Virkni fornleifafræðinnar hefur enn aukist á allra síðustu árum með tilkomu aukins fjármagns frá yfirvöldum þótt vissulega megi deila um forræði og skiptingu þess til tiltekinna verkefna.

Fornleifar

Í þróunarsögu fornleifafræðinnar hér á landi er stuðst að nokkru við frásagnir í kennslugögnum HÍ í fræðigreininni. Í þeim kemur m.a. fram að aðdragandi að kenningarsmíð og hugmyndafræðikenningum í fornleifafræði hér á landi sé bæði tilkominn vegna áhuga, reynslu og þekkingar útlendinga á fornleifum (Danska fornminjanefndin, Kålund, Daniel Bruun) sem og heimamanna, einkum á fornsögulegum staðbundnum mannvirkjum (Hið íslenska bókmenntafélag, Jónas Hallgrímsson) og skráningu fornminja. Með skráningunni voru efnisflokkar fornminja m.a. afmarkaðir, s.s. haugar, þingstaðir, rúnasteinar og hof. Og hvað sem ólíkum rannsóknaraðferðum leið, þá var ljóst að á árunum 1860-’75 hafi fornleifaskráning verið á blómaskeiði hér á landi.
Eftir miðja 19. öld hélt fræðimaðurinn Hans Hildebrand (1842-1913) röð fyrirlestra í Stokkhólmi um sögu og menningu Íslendinga til forna Árið 1867 komu þeir út í bók sem nefndist “Daglegt líf á Íslandi á söguöld”. Í bókinni reynir höfundur að láta heimildir fornleifafræðinnar tala sínu máli um hina sögulegu tíma. Hún stendur eins og minnisvarði um stöðu rannsókna og heimilda á þessum árum. Horfa ber til þess að höfundi var þá og þegar ófært að gefa yfirlit yfir fyrstu aldir Íslandssögunnar því hér á á landi voru ekki hafnar reglubundnar rannsóknir, hvort heldur uppgröftur eða skráning á fornleifum, enda kvartaði hann undan skorti á gögnum um fornleifar.

Fornleifar “Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi fór fyrst fram á vegum Konunglegu dönsku fornminjanefndarinnar. Árið 1817 sendi hún út spurningalista til allra sóknarpresta í landinu og eru svör þeirra enn eina heildstæða yfirlitið sem til er um íslenskar fornleifar á landsvísu.
Undir miðja 19. öld var annarri fornleifaskráningu ýtt úr vör. Hið íslenzka bókmenntafélag sendi sóknarprestum spurningalista árið 1838, en viðbrögð presta voru öllu minni en fyrr á öldinni og töldu margir þeirra engar fornleifar að finna í sínum sóknum. Er líða tók á 19. öld fór þjóðerniskennd Íslendinga vaxandi og henni fylgdi aukinn áhugi á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum, en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem hægt var að fella saman við lýsingar í fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna.
Það var danski norrænufræðingurinn Kristian Kaalund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í þeim tilgangi að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-1882 (íslensk þýðing Haraldar Matthíassonar var gefin út 1984-1986 undir heitinu Íslenskir sögustaðir), er enn þann dag í dag undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir.
Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra víðsvegar um landið næstu þrjá áratugina. Þar voru í broddi fylkingar Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kaalunds; að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöldinni.
Um aldamótin 1900 voru einnig á ferð hér danski kafteinninn Daniel Bruun og skáldið Þorsteinn Erlingsson, en þeir beittu til muna hlutlægari aðferðum en þeir Sigurður og Brynjúlfur höfðu gert. Báðir reyndu þeir að lýsa mismunandi tegundum fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum frá síðari tímum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fornleifar Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar, burtséð frá því hversu merkilegar þær kunna að þykja á hverjum tíma, hófst fyrst í Reykjavík á 7. áratugnum og hefur staðið þar með löngum hléum síðan. Ólíkt fornleifakönnun á 19. öld, sem hafði það að meginmarkmiði að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðastliðin 20-30 ár fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði.
Auk fornleifaskráningar á vegum opinberra aðila, hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Síðast en ekki síst er rétt að minnast á að víða um land hefur áhugasamt fólk skráð fornleifar að eigin frumkvæði og á eigin kostnað. Slíkar skrár eru misjafnar að gæðum, enda upplýsingar skráðar á ýmsan hátt og misnákvæmlega, en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.”
Daniel Bruun var afkastamesti fornfræðingurinn á árunum 1894-1910. Hann rannsakaði minjastaði í öllum landshlutum , og ekki aðeins víkingaaldarminjar, heldur frá öllum tímaskeiðum íslenskrar menningarsögu.
Kristján Eldjárn var fyrsti Íslendingurinn, sem hlaut sérstaka menntun erlendis í fornleifafræði og þjálfun í fornleifarannsóknum undir leiðsögn fornleifafræðinga – (einkum í fornleifafræði Norðurlanda) á afmörkuðum fornminjum, s.s. kumlum , má segja að aðstaða hafi skapast til nánari skilgreininga á aldri, tilurð og uppruna þeirra. Einnig voru gerðar tilraunir til að horfa til þess frá hvaða fólki þær voru komnar, við hverjar aðstæður og reynt að leita svara við spurningunum “hvernig” og af hverju”. Á litlu öðru en skriflegum heimildum var þá að byggja lengi framan af – og í sumum tilvikum allt til vorra tíma. Í seinni tíð hefur athyglinni verið beynt að húsum og híbýlum þess fólks, sem hér nam land um og eftir 870 og síðar, þróun þeirra og gerð.
“Upp úr jarðvegi fornmenningaráhugans uxu tvær öflugar rannsóknarstefnur. Var það annars vegar um að ræða rannsóknir á hinum sameiginlega fornnorræna menningararfi frá lokaskeiði járnaldar, þ.e. hin svokallaða “víkingamenning”, og hinsvegar mjög þjóðleg fræði þars em áhersla er lögð á þjóðleg einkenni; þjóðmenningu”. Segja má því að þjóðmenningaráhuginn hafi verið undanfari menningarumleitunnar í fornfræðilegri merkingu. Hæg þróun var þó í þeirri viðleytni þangað til á allra síðustu árum. Hin menningarsögulega áhersla snerist fyrst og fremst um söfnun og varðveislu forngripa. Kristian Kålund skráði allt sem hann gat fundið um daglegt líf til forna(P.E.K. Kålund, Familielivet på Island í den förste sagaperiode (indtil 1030), Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1870) og Valtýr Guðmundsson tilfærði hverja vísun í húsagerð og húsbúnað og skrifaði um það heila doktorsritgerð en þetta eru aðeins dæmi um annars fjölskrúðuga fræðahefð þeirra daga.
Fornleifar Mikilvægt skref var tekið þegar athyglin beindist fyrst og fremst að forngripunum sjálfum og menningarsögulegu samhengi þeirra, en eftir sem fyrr í rómantísku ljósi. Í stað fornmenningar var sjónum nú beint að “venjulegri” bændamenningu og þekking um hana fengin úr áþreifanlegum munum, sem oft voru skýrðir með hliðsjón af gömlum hefðum, gömlu verklagi eða visku sem gamalt fólk bjó yfir og kunni. Nú hefur þessum þætti fornleifafræðinnar enn fleygt fram hvað áhuga, þekkingu og áreiðanleika varðar. Þar kemur að þætti hinnar kennilegu fornleifafræði – nálgun með nýjum hætti.
Klæði, tréskurður, íslenski torfbærinn og grafir sem og einstakir gripir eru m.a. nokkur af viðfangefnum kennilegrar fornleifafræði. Það er athyglisvert sérkenni á íslenskri fornleifafræði hve sjaldan hefur verið reynt að taka saman árangur rannsókna og draga upp þann heildarsvip sem vitnisburður fræðigreinarinnar hefur af sögu lands og menningar. Kaalund reið á vaðið árið 1882, en þá var frá litlu að segja. Bruun hafði gert sér grein fyrir gagnsemi þess, en enginn Íslendingur reyndi að draga fram heildarmyndina fyrr en á s.hl. 20. aldar. Það féll í hlut Krisjáns Eldjárns að semja fyrsta, frumlegasta og langítarlegasta yfirlitið um alla helstu þætti fornleifarannsókna hér á landi. Var það í tilefni af 1100 ára búsetu hér á landi; Saga Íslands. Þar er að finna jarðsögu Íslands, sögu veðurfars, gróðurs og eldvirkni, vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám mannsins og menningu, og upphaf allsherjarríkis, upphaf kirkju og samskipti við útlönd. Hlutverk fornleifafræðingsins í þessu riti var mikilvægt og hefur framlag hns að geyma heildarmynd sem enn hefur ekki verið hrakin þótt vissulega hafi ágreiningur vaxið um einstök atriði á síðustu árum þar sem nýjar áherslu hafa komið fram. T.a.m. hafa fundist leifar af kornrækt, áhöld, rauðablæstri og ýmslegar aðrar efnislegar leifar manna. Kristján og samverkamenn hans skilgreindu fornleifafræðina fyrst og fremst se aðferð til að afla heimilda um verkmenningu, en ekki t.a.m. andlegt líf, samfélagsgerð, efnahag og fleira. Áherslan var lögð á að lýsa þeim þáttum daglegs lífs sem finna mátti áþreifanleg ummerki um. Þótt engin áhersla hafi verið lögð á að rannsaka samfélagið eða samfélagsgerð, þá er ljóst að menningarsögurannsóknir byggja á annarri pólitískri afstöðu en t.d. rómantíski skólinn. Rannsóknarsviðið er víðtækara, fornmennirnir verða nafnlaus almúgi, höfuðbólið er ekki tekið fram yfir hjáleiguna, hvert mannsins verk er jafnmerkilegt, ekki aðeins skrautmunir eða vopn. Það er alþýðumenningin sem verður lykilatriði. Virðing er borin fyrir lítilmagnanum í sögulegri framvindu. Það kostaði Kristján hörku að sannfæra menn um gildi smárra hluta, um verklag, um hag fátækrar alþýðu.
Fornleifar Uppgraftartækni, aldursgreiningar, byggðaþróun, áhrif veðurfars og meðvitund um gildi efnahags hefur knúið fram breytta hugsun; nýjar og þróaðri aðferðir. Framan af takmarkaðist hinar hefðubundnu spurningar í íslenskri fornleifafræði við hag þjóðarinnar, þ.e. hvers vegna ákveðnar byggðir lögðust í eyði, og hvers vegna járngerð, kornrækt og svínarækt lögðust af. Í stað mjög almennra rannsóknaspurninga um búsetuþróun, hefur orðið mikill vöxtur í nýjum upplýsingum um bústeuskilyrði á öllum tímum. Í stað þess að einblína á afdrif og örlög einstakra búsetuþátta hefur athyglin beinst að heildinni, hinu efnahagslega kerfi sem þróaðist í landinu frá landnámi og fram til iðnvæðingar og þéttbýlismyndunar. Starf fólks er ekki lengur skoðað sem fornir landbúnaðarhættttir eða verklag, heldur sem framleiðsluþættir, orka og afurðir, neysla og vöruviðskipti. Spurt er hvernig var kerfið, hvernig virkaði það, hvað olli breytingunum. Til þessar rannsókna hefur verið, sem fyrr sagði, notast við margvíslega tækni, s.s. frjókornagreininu, dýrabeinagreiningu og jarðvegsathuganir. Frjókornamælingar staðfesta að birkiskógar hopa fyrir graslendi og helstu dýrabein úr úrgangslögum landnámsbæja birta heildarsvip hefðbundins búfénaðar á hverju býli; nautgripir, sauðfé, geitur, svín og hestar. Jarðvegsrannsóknir á áhrifum mannsins á umhverfið sýna að framvindan þegar á landnámsöld hafi ekki aðeins verið hröð heldur hafi landnám mannsins haft mikil og afgerandi áhrif á gróður, jarðveg og landslag.
Rannsóknir á dýrabeinum og öskuhaugum hefur fleytt fram síðustu ár og árangur þeirrar myndar meginstofn heimilda um lífsviðurværi og afkomu fólks á fyrri tíð. Rannsóknir og greining á einstökum efnisleifum, s.s. keramiki, málmi og gleri, geta orðið sagt bæði til um tímatilurð og upprunastað og þar með um verslun og viðskipti sem og jafnvel um innihald. Nýjustu rannsóknir á ískjörnum geta mögulega auðveldað túlkun á breytingum sem birtast í t.d. húsagerð, landnýtingu, bústetumynstrum, samsetningu búfjárstofna eða mataræði.
Af fornvistfræðirannsóknum eru það einkum dýrabeinarannsóknir sem upp úr standa. Dýrabein eru heimild um efnahag til forna og þau endurspegla lífsviðurværi fólks á ýmsum tímum, þ.e. sýna hvaða veiðar voru stundaðar og hver var bústofn heimilanna.
Fornleifar Engar ritaðar heimildir eru til um lífsviðurværi þjóðarinnar fyrr en á síðari öldum og eru allar rannsóknir á þessu sviði því vel þegin viðbót fyrir aðrar vísbendingar sem forleifafræðin gefur um hina sögulausu fortíð. Beinin er talin og flokkuð og greind til dýrategunda, stærð og aldur dýranna metinn og jafnvel áverkar á beinunum, sem stundum gefa til kynna verkunaraðferð eða slátrun. Á grundvelli talningarinnar er hægt að áætla hlutföll á milli mismunandi tegunda og skoða vægi þeirra, s.s. fiðurfénaðar og fiska, sauðfé, nautgripa og svína. Þessi rannsókn býður upp á nýtt sjónarhorn til að skoða efnahag fólks á forsöguskeiðum. En hún kallar jafnframt á töluverða fyrirhöfn og enn er langt í land að hægt sé að lýsa með nokkurri nákvæmni lífsviðurværi eða afkomu þjóðarinnar á grundvelli beinarannsóknanna. Þó er ljóst að með þessum rannsóknum verður unnt að komast nær um ýmsa þætti, s.s. þátt veiðimennsku í upphafi landnáms og á síðari tímum, efnahagslegan mun á stórum býlum og smáum og í hverju hann felst, þróun sauðfjárbúskapar, nýtingu sjávarafurða, stærð og samsetningu búpenings á ýsum tímum, áhrif veðurlagsbreytinga á þjóðarhag og þróun íslensks efnahags frá landnámi fram á síðustu aldir.
Auk rannsókna á fornleifum og beinum og plöntuleifum, hafa einnig verið gerðar nýstárlegar athuganir á öllum smærri einingum, sem finnast við fornleifarannsóknir. Er þar annarsvegar um að ræða athuganir á leifum skordýra, sem varðveist hafa í jarðvegi, og hinsvegar míkróskópískar athuganir á innihaldi gólfefna húsa. Ýmis skordýr hafa fylgt manninum og tekið þátt í mannlífinu á ýmsa vegu í dul smæðar sinnar. Í undirlaginu spretta fram heillandi myndir af lítt könnuðum hliðum mannlegs eðlis, s.s. fornum mannasaur og innihaldi hans, hland, lýs og flær. Þessar athuganir sýna líf fólks og samfélag þeirra í nýju ljósi. Árangur umhverfisrannsókna í þágu fornleifafræðinnar er fyrst og fremst fólginn í nýrri aðferðafræði og umbótum á þessum aðferðum. Þessi fræði eru enn í mótun. En hafa ber í huga að ekki dugir að einblína á raunvísindalegar niðurstöður sem sýna breytingar eða þróun og orsakasamband milli náttúru og mannlífs, heldur þurfi einnig að þróa kenningar sem gera ráð fyrir samfélagslegum og pólitískum áhrifum breytinga eða kyrrstöðu. Vandinn liggur í fjölbreyttum möguleikum á túlkun gagnanna og reynslan á eftir að leiða í ljós að hve miklu leyti fornvistfræðin mun breyta núverandi hugmyndum um efnahag og áhrif umhverfis á hann á fyrri kynslóðir, eða staðfesta ríkjandi skoðanir sem sprottnar eru af sagnfræði og hefðbundinni fornleifafræði.

Heimildir:
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-198.
-Úr “Lesköflum í íslenskri fornleifafræði” – handrit – HÍ, Adolf Friðriksson tók saman – 2003.
-Hans Olof Hildebrand, Livet på Island under sagotiden, Stockhom, Joseph Seligmanns bokhandel, Jos, 1867.
-http://www.instarch.is/instarch/rannsoknir/skraning/saga/
-Daniel Bruun, Fortidsminder og Nutidshjem paa Island (2°édition), Kaupmannahöfn, Gyldendal, 1928.
-Í handriti að varnarræðu Kristjáns við doktorsvörn hans 1956 sést að hann var undir handleiðslu Johannes Bröndström hjá National Museet í Kaupmannahöfn.
-Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé 2, útg. 2000.
-Adolf Friðriksson – Leskaflar í fornleifafræði – HÍ – 2003.
-Valtýr Guðmundsson, Privatboligen paa Island I Sagatiden samt delvis I det övrige Norden, KH, 1889.
-P:E:K: Kaalund, Islands fortidslævninger, Aarböger for nordisk Oldkyndighed og Historie, 1882.
-Daniel Bruun, Fortidminder og nutidshjem paa Island, 1987 og 1928.
-Sigurður Línda ritstj., Saga Íslands, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélagið, I – 1974.
-Andrew J. Dugmore, Anthony J. Newton, Guðrún Larsen og Gordon T. Cook, Tephrochronology, Environmental Change and the Norse Settlement of Iceland, Environmental Archeaology, 2000.
-Thomas Amorsi, An Archaeofauna from Storaborg, Southern Iceland, Unpublished report on file at the National Museum and Hunter College, 1986.

Húshólmi

Minjasvæði í Húshólma.

Kápuskjól

Vanda þarf til fornleifaskráninga. Allt of mörg dæmi eru um hið gagnstæða. Allar slíkar virðast vera samþykktar nánast athugasemdalaust af hálfu hins “opinbera”.

Borgarhólaborg

Borgarhólaborg.

Eftir að fornleifaskráning um fyrirhugaðan Suðurstrandaveg var gerð opinber og auglýst hafði verið eftir athugasemdum sendi undirritaður inn 23 slíkar. Þær voru listaðar upp og nánar tiltaldar – hver og ein. Vísað var m.a. til þess að tiltekin fjárborg, staðsett í skráningunni við Litlaháls, var í u.þ.b. 7 km fjarlægð – á Borgarhólum. Fleiri slík dæmi voru tiltekin og öðrum óskráðum bætt við. Skráningaraðilanum var í framhaldinu gefinn kostur á að bæta skráninguna með því að taka tillit til athugasemdanna. Ný skýrsla var birt í framhaldinu. Með því hafði a.m.k. einhverjum áður vanskráðum fornleifum á svæðinu verið bjargað frá eyðileggingu. Undirrituðum var þó ekki þakkað sérstaklega fyrir ábendingarnar.

Gjásel

Gránuskúti.

Skipulagsstofnun auglýsti síðar eftir athugasemdum við fyrirhugaða Suðurlínu frá Hengli vestur eftir Reykjanesskaganum. Undirritaður sendi inn 32 athugasemdir vegna vanskráningu fornleifa á og við línuleiðina. Í framhaldinu barst honum eftirfarandi svar: “Þú verður að tiltaka hverjar þessar tilteknu fornleifar eru.”
Svaraði, vegna fyrri reynslu: “Er ekki í vinnu hjá ykkur að skrá fornleifar. Þið þurfið bara að yfirfara skráningarsvæðið að teknu tilliti til þess að í fornleifaskráninguna vantar a.m.k. 32 fornleifar.” Um var m.a. að ræða óskráðar fornar leiðir, fjárskjól, markavörður, grensvörður, leitarvörður, skráð greni, refagildrur sem og önnur söguleg og jarðfræðileg merkilegheit.
Viðbrögð Skipulagsstofnunar komu svo sem ekki á óvart: “Fyrst þú getur ekki tiltekið einstakar fornleifar teljum við ekki ástæðu til að taka mark á athugasemdunum.”
Einhverjum efasemdafræjum virðist hins vegar hafa verið sáð hjá hinu heilaga yfirvaldi því í framhaldinu var fenginn annar fornleifafræðingur til að yfirfara fyrri skráninguna á svæðinu. Sá hafi samband við undirritaðan. Í framhaldinu bættust við fornleifaskráninguna 56 áður óskráðar fornleifar.
Vandvirkni skiptir máli, hvort sem um er að ræða fornleifaskráningar, eða annað…

Gjáselsstígur

Gjásels- og Fornaselsstígur.

Ísólfsskáli

Jafnan er þess gætt að vitnað sé í skráðar heimildir um nýskrif við hinu og þessu. Háskólanemendum er t.d. kennt að setja ekkert á blað, nema þeir geti vitnað í skráðar heimildir. Sjálfstæð öflun heimilda eða hrakning skráðra heimilda er yfirleitt ekki metin að verðleikum.

Heimildir
Háskólalært fólk forðast sjálfstæða heimildaleit, t.d. á vettvangi. Það dirfist heldur ekki að efast eða gagnrýna áður skráðar heimildir, jafnvel þótt þær virðist augljóslega rangar. Málið er að áður skráðar heimildir þurfa alls ekki að vera réttar, eins og dæmin sanna.

Fræðafólk vitnar yfirleitt í skráðar heimildir, gjarnan ritaðar. Flest gerir það athugasemdalaust þótt augljóst megi virðast að sumar heimildarnar eru í besta falli ótrúverðugar, ef ekki beinlínis rangar.

Þá er í skrifum oftlega stuðst við skráðar heimildir, t.d. við fornleifaskráningar. Það gerir það jafnan að verkum að u.þ.b. 40% minja á tilteknum svæðum fær nákvæmlega enga athygli, þrátt fyrir raunverulega tilvist þeirra. Dæmi um slíkt má nefna fjárborgirnar þrjár ofan við Staðarborgina á Vatnsleysuströnd. Þeirra var hvergi getið í skráðum heimildum og rötuðu því ekki inn í nýlega fornleifaskráningu af svæðinu.

Brunntorfufjárskjól

Brunntorfufjárskjóls er ekki getið í skráðum heimildum. Samt er það á þeim stað, sem það er.

Örnefnalýsingar eru oftast skráðar eftir einum aðila. Frásögn hans ratar inn í lýsinguna, en allt þar fyrir utan virðist ekki vera til, a.mk.  þegar vitnað er í skráðar heimildir, s.s. minjar, sem voru aflagðar löngu fyrir tíð hlutaðeigandi, eða minjar, sem voru þá í nýtingu, en þóttu ekki sérstaklega í frásögu færandi. Ágætt dæmi um slíkt eru selsminjar. U.þ.b. þriðjungi þeirra er getið í skráðum heimildum, þriðjungur finnst auk þess eftir áður óskráðum viðtölum við fólk, sem þekkir vel til staðhátta, og þriðjungur finnst við leit eftir fyrirliggjandi óskráðum örnefnum.

FERLIRshöfundi leiðist gjarnan þegar fræðafólk virðist svo upptekið að sjálfu sér við að vitna í skráðar heimildir að allt annað, sem engu minna máli virðist skipta, er látið liggja óskipt hjá garði.

Sjá dæmi um stakar ólíkar heimildir varðandi sama viðfangsefnið HÉR.

Einnig dæmi um beinlínis rangar skráðar heimildir, sem oftlega hefur verið vitnað til, að athuguðu máli, HÉR.

Meiri umfjöllun um ritaðar heimildir HÉR og HÉR.

Heimildir:
-https://skrif.hi.is/ritver/skraning-heimilda/
-https://www.ru.is/bokasafn/heimildavinna/apa-stadallinn/munnlegar-heimildir/
-https://is.wikipedia.org/wiki/Heimild

Túnakort

Á vefsíðu Þjóðskjalasafns Íslands má finna samantekin fróðleik um Túnakort, auk þess sem stofnunin hefur auðveldað áhugasömum aðgang að kortunum rafrænt.

Túnakort

Túnakortsbækur.

“Gerð uppdrátta af túnum og matjurtagörðum, túnakort, á rót að rekja til frumkvæðis Ræktunarfélags Norðurlands og Búnaðarfélags Íslands í upphafi tuttugustu aldar. Á búnaðarþingi árið 1913 var samþykkt að beina þessu máli til alþingis sem samþykkti lög um mælingar á túnum og matjurtagörðum númer 58 3. nóvember 1915. Á grundvelli laganna var sett reglugerð 28. janúar 1916.

Atvinnumálaskrifstofa stjórnarráðsins, síðar atvinnumálaráðuneytið, hafði yfirumsjón með framkvæmd mælinganna. Sýslunefndir og búnaðarsambönd sáu um framkvæmdina og réðu búfræðinga eða aðra sem metnir voru hæfir til að annast mælingar og uppdrætti.

Samkvæmt reglugerðinni skyldi mæla öll tún og matjurtagarða á landinu, utan kaupstaða, og átti mælingunum að vera lokið árið 1920. Það gekk að mestu leyti eftir, en þó lauk mælingum í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu ekki fyrr en 1927 og 1929.

Mæla skyldi flatarmál túnanna „og stærð þeirra tilgreind í teigum (hektörum) með einum desimal.“ Einnig átti að gera ummálsuppdrátt af túnunum í mælikvarðanum 1:2000. Þrátt fyrir þetta ákvæði er notaður mælikvarðinn 1:1000 á nokkrum hluta uppdráttanna úr Múlasýslum og Austur-Skaftafellssýslu af því að það þótti auðveldara með þeim tækjum sem menn höfðu. Stærð matjurtagarða átti að mæla „í flatarskikum (fermetrum).“

Stjórnarráðið ákvað hvernig pappír skyldi nota og útvegaði hann. Mest voru notuð teikniblöð af stærðinni 38 x 56 cm, en stundum var blöðunum skipt í tvennt eða jafnvel fleiri hluta.

Uppdrættirnir eru yfirleitt greinargóðir, en mjög misjafnlega hefur verið vandað til þeirra. Sumir eru hreinustu listaverk en aðrir miklu einfaldari að allri gerð. Í Þjóðskjalasafni eru varðveittir ríflega 5.500 uppdrættir úr 205 hreppum. Í sumum tilvikum eru uppdrættir af túnum og matjurtagörðum fleiri en einnar jarðar á sama blaði.

Myndir af túnakortunum eru á vefsetri Archives Portal Europe. Hægt er að skoða túnakortin með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.”

Skoða túnakort í skjalaskrá Þjóðskjalasafns.
Skoða túnakort hjá Archives Portal Europe.

Elín Ósk Hreiðarsdóttir ritaði um “Íslensk túnakort frá upphafi 20. aldar” árið 2017.

Inngangur

“Heimatún bæja eru áhugavert rannsóknarefni. Túnin eru í raun réttri hjarta hverrar jarðar, þar bjó fólk, hélt skepnur, byggði smiðjur, ræktaði land o.s.frv. Í þeim standa sjálfir bæirnir, gjarnan á uppsöfnuðum bæjarhólum sem hafa að geyma ómetanlegan fróðleik um lifnaðarhætti og sögu lands og þjóðar. Umhverfis þá er svo oftast að finna fjölmörg hús og mannvirki, en dreifing minjastaða er hvergi eins þétt eins og innan gömlu túnanna sem hafa gjarnan verið á sama stað um aldir.
Með vélvæðingu um og eftir miðbik 20. aldar tóku íslensku heimatúnin miklum breytingum með stórfelldri sléttun, niðurrifi gamalla húsa og byggingu nýrra og eru forn útihús úr torfi og grjóti sá minjahópur sem hvað verst hefur orðið úti á 20. öld. Í langflestum tilfellum hafa hús úr torfi og grjóti horfið, oftast verið rifin og jafnað yfir hússtæðin eða ný hús úr steypu byggð á rústum hinna eldri. Ýmislegt bendir til að í gegnum aldirnar hafi verið talsverð samfella í notkun húsa, þannig að nýjum húsum hafi verið fundinn staður á grunni þeirra eldri. Lauslega má áætla að um 40.000 forn útihús hafi staðið í túnum landsins á einhverjum tímapunkti en líklega er innan við 2% þeirra enn við lýði í upprunalegri mynd.
Sökum þess að byggð í sveitum hér á landi er ekki eins þétt og víða annars staðar er landrými meira sem þýðir að minjar eru ekki í eins mikilli hættu og þar sem búið er mjög þétt og hver þumlungur lands ræktaður. Heimatún bæja eru þó undantekning frá reglunni og sá hluti menningarlandslagsins sem hvað verst er farinn hér á landi. Algengast er að lítil sem engin ummerki um eldri mannvistarleifar sjáist þar á yfirborði.
Túnakort
Að samanlögðu er ekki að undra að fornleifafræðingar hafi lagt á það talsverða áherslu á undanförnum árum að afla sér upplýsingar um minjar í túnum í þeim tilgangi að skrá þær og staðsetja.
Í fornleifaskráningu eru skráðar allar tiltækar upplýsingar um minjastaði, líkt og gömul bæjarstæði og útihús, og þeir staðsettir á vettvangi. Um útihúsin eru fáar heimildir og engar heildstæðar aðrar en túnakort sem gerð voru fyrir mestallt landið á árunum 1916-1925.
Á túnakortin voru merkt bæir, útihús og kálgarðar. Túnakortagerðina má með réttu telja fyrstu stórfelldu kortagerð Íslendinga og er hún gríðarlega merkileg sem slík. Túnakortin eru ólík flestri annarri kortagerð frá þessum tíma að því leyti að kortin voru teiknuð í mjög stórum mælikvarða (1:2000) og þau voru ekki ætluð til birtingar, heldur voru þau gerð til að styðja við framfarir í jarðrækt og auka yfirsýn yfir stöðu landbúnaðarins.
Kortin virðast hafa gleymst fljótt og lágu að stóru leyti ónýtt í skjalageymslu Þjóðskjalasafns Íslands allt fram á síðustu áratugi. Kortin voru því í raun gleymd heimild þegar fornleifafræðingar rákust á þau við yfirferð um heimildir í leit að vísbendingum um fornleifar á 10. áratug 20. aldar.
Þeir hófu skipulega notkun á þeim í tengslum við skráningu fornleifa og hefur notkun túnakortanna aukist gríðarlega á undanförnum árum enda túnakortin veigamesta heimildin um menningarlandslag og minjar í túnum á Íslandi fyrir vélaöld.
Þrátt fyrir að höfuðmarkmið túnamælinganna hafi verið að safna áreiðanlegum upplýsingum um stærðir túna og kálgarða er ljóst að það sem gerir túnakortin einstæð og gefur þeim gildi enn í dag er sjálf kortateikningin, þ.e. uppdrættirnir af sjálfum túnunum sem sýna tún, bæi og útihús. Túnakortin eru einstæð þar sem þau eru e.k. svipmynd (ensk. snapshot) af íslensku menningarlandslagi um áratugatímabili í upphafi 20. aldar.
Til að koma til móts við stækkandi notendahóp og bæta aðgengi að túnakortunum voru kortin nýlega ljósmynduð og gerð aðgengileg á vef Þjóðskjalasafns og á evrópsku gagnaveitunni Archives Portal Europe. Árið 2016 hlutu túnakortin svo talsverða upphefð en þá voru þau valin á landsskrá Íslands um Minni heimsins.

Túnakort

Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.

Við skráningu fornleifa er jafnan reynt að hafa uppi á staðkunnugum heimildamönnum sem muna liðna tíð, þekkja minjastaði og geta aðstoðað við nýtingu kortanna enda stundum erfitt að staðsetja þau mannvirki sem sýnd eru á kortunum nákvæmlega þar sem þeim hefur oft verið rutt út, tún stækkuð og umhverfi gjörbylt auk þess sem áttahorf kortanna er ekki alltaf ljóst. Þeim heimildamönnum sem muna fyrstu áratugi 20. aldar, áður en vélvæðing og túnasléttun kemst á fullt skrið fer óðum fækkandi og því standa túnakortin æ meira sem sjálfstæð heimild, óstudd af öðrum frásögnum og heimildum. En hvað vitum við um þessa umfangsmiklu og metnaðarfullu kortagerð sem minjaskráning í túnum hvílir á og hversu áreiðanleg hún er?
Flest túnakortin sýna sömu grunnupplýsingar: útlínur túna og staðsetningu bæja, útihúsa, kálgarða og gatna auk þess sem skráðar eru á þau upplýsingar um stærð túna og garða, og hversu stórt hlutfall hvers túns taldist sléttað. Sum kortin eru nánast eins og listaverk, nákvæm og ítarleg og máluð í litum, en önnur eru grófgerð og einföld, næstum eins og riss, þó öll byggi þau á mælingum. Túnakortin voru unnin af heimamönnum í hverju héraði og endurspeglar fjölbreytileiki kortanna misjafna þekkingu, metnað, handbragð og nákvæmni einstakra kortagerðarmanna. En fjölbreytileikinn veldur því einnig að heimildagildi kortanna er mismikið, nokkuð sem fram að þessu hefur ekkert verið kannað. Nýverið fékk höfundur styrk úr Rannsóknarsjóði Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur og Haralds Sigurðssonar til að kanna aðdraganda kortagerðarinnar, forsendur hennar, þær aðferðir sem notaðar voru, nákvæmniþeirra og kortanna og afla upplýsinga um mælingamennina sem unnu verkið og bakgrunn þeirra. Í ljósi sívaxandi notkunar kortanna þótti sýnt að slík rannsókn gæti orðið bæði fróðleg og nauðsynleg til að varpa ljósi á þær forsendur sem kortagerðamennirnir fylgdu við kortagerðina og nákvæmni kortanna.

Lög og reglugerðir
Þingsályktunartillaga um túnamælingar var lögð fram á Alþingi strax sama haust. Flutningsmaður var Sigurður Sigurðsson frá Langholti í Flóa, þingmaður Árnesinga, sem skoraði á Stjórnarráðið að undirbúa málið fyrir næsta Alþingi.

Túnakort

Túnakort – reglugerð.

Sigurður taldi hagkvæmast að vinna mælingarnar í samstarfi við búnaðarfélögin og nýta starfsmenn þeirra sem ynnu að mælingum vegna jarðabóta (sem búnaðarfélögin höfðu staðið fyrir). Hann lagði einnig til að kostnaði yrði skipt, t.d. að Landssjóður borgaði helming en landeigendur hinn helminginn. Til að hægt væri að framkvæma slíkar túnamælingar sagði Sigurður nauðsynlegt að semja lög og reglugerð um málið og taldi hann að ábyrgðin á því að koma slíku í framkvæmd hlyti að liggja hjá landsstjórn og löggjafarvaldi.
Helstu rök Sigurðar fyrir því að ráðast í þetta stóra verkefni sneru að upplýsingaþörf hinnar nýstofnuðu Hagfræðistofu Íslands. Stærð túna og kálgarða hafi verið skráð allt frá lokum 18. aldar (1787) þegar Rentukammerið skipaði fyrir um gerð búnaðarskýrslna. Skýrslurnar voru teknar saman af hreppstjórum en upplýsingar um stærð túna og kálgarða byggðu oftast aðeins á mati ábúenda/hreppstjóra en ekki á eiginlegum mælingum. Túnamælingin var að mati Sigurðar nauðsynleg svo að hægt væri að bæta hagfræði landsins og búnaðarskýrslur. Hann benti á að samkvæmt lögum um hagfræðiskýrslur frá 8. nóvember 1895 (3. gr.), hefði bændum verið gert skylt að veita nákvæmar upplýsingar um stærð túna sinna og sáðlands en bændur hafi engar forsendur til að meta slíkt og því væru þær skýrslur sem skilað hafi verið byggðar á ágiskunum og gagnslitlar. Sigurður lagði til að samhliða flatarmálsmælingu af túnum og matjurtagörðum yrði gerð ummálsteikning af öllum túnum og greint yrði á milli þess hlutar túnsins sem væri sléttur og þýfður. Hann fór þess á leit að landsstjórnin tæki málið upp á sína arma og legði fram frumvarp á Alþingi 1915. Þingsályktunartillagan var samþykkt í neðri deildinni.

Túnakort

Hóp – Túnakort 1918.

Rúmu ári seinna, þann 14. mars 1914, sendi Stjórnarráðið Búnaðarfélagi Íslands bréf þar sem það fór þess á leit að félagið setti fram tillögur um mælingu túna og matjurtagarða og gerði rannsókn á því hvað slíkt kynni að kosta. Stjórnarráðið fór þess einnig á leit að stjórn félagsins léti gera drög að lagafrumvarpi kæmi í ljós að nauðsynlegt væri að semja lög um framkvæmd mælinganna.
Sama sumar skrifaði Búnaðarfélagið fjórum af stærri búnaðarsamböndum sínum (Ræktunarfélagi Norðurlands og Búnaðarsamböndum Austurlands, Suðurlands og Vestfjarða) og fól þeim að kanna hver kostnaður við túnamælingar á þeirra svæði yrði. Í þessu skyni fengu samböndin fjögur mælingamenn til að mæla tún í vikutíma þá um sumarið, eftir þeim tilmælum sem komið höfðu fram í þingsályktunartillögunni. Gætt var að því að túnin væru fjölbreytileg að gerð en að sama skapi að ekki væri langt á milli túna. Mælingamönnunum var gert að greina á milli þess tíma sem fór í ferðir og mælingar og sömuleiðis að greina frá því ef einhverjar aðrar mælingar eða störf hefðu verið unnin samhliða túnamælingunum. Einnig skyldi taka fram hvaða aðstoðar mælingamennirnir nutu við mælingarnar. Niðurstöðurnar reyndust æði misjafnar. Sá mælingamaður sem var fljótastur (Jón Jónatansson á Suðurlandi) var um 5,4 klukkustund að mæla tún að meðaltali en sá sem lengstan tíma tók eyddi 19 ¼ klukkustund að meðaltali í hvert tún (Benedikt Blöndal á Austurlandi). Var þó tekið fram að stutt hefði verið á milli bæja hjá Jóni en langt hjá Benedikt og kortagerðin hjá þeim síðarnefnda hefði verið mjög vönduð og gerð í tvennu lagi. Allir mælingamennirnir höfðu með sér aðstoðarmann og einn eða tvo menn að nokkru leyti.
Niðurstaða Búnaðarfélagsins var sú að ætla mætti að mæling meðaltúns og matjurtagarða ásamt kortagerð tæki að meðaltali um 8,9 klukkustundir og væri því eitt dagsverk. Búnaðarfélagið ályktaði því að raunhæfast væri að áætla að kostnaður við mælingar og kortagerð á einu býli væri dagslaun mælingamanns, auk ferðakostaðar og launa aðstoðarmanns eða samtals um 8 krónur á býli. Þetta þýddi að ef mæld væru upp þau 6500 býli sem þá voru í landinu yrði kostnaður við mælinguna um 52.000 kr. Til að setja þessa fjárhæð í samhengi má nefna að áætlaðar meðaltals árstekjur verkamanna sama ár voru um 700 krónur. Það má því gera ráð fyrir að áætlaður kostnaður við mælingarnar hafi verið svipaður og 74 árslaun verkamanna á þessum tíma. Til samanburðar má nefna að um hundrað árum síðar (2013) voru meðalárslaun verkafólks ríflega 5 milljónir og 74 árslaun því 380 milljónir. Frá upphafi var því ljóst að allmikill kostnaður hlytist af verkinu og Búnaðarfélagið gerði ekki ráð fyrir að ráðist yrði í það strax. Það taldi þó gagnlegt að lagafrumvarp um mælingarnar yrði lagt fram á komandi þingi en ekki afgreitt, svo að kostnaður vegna þess væri ekki óvæntur heldur gætu menn þess í stað rætt málið milli þinga og undirbúið sig. Bréfi Búnaðarfélagsins fylgdu drög að lögum um mælingarnar sem innihéldu fimm greinar og skýringar við þær. Inntak laganna var að öll tún og matjurtagarða á landinu (fyrir utan kaupstaði) skyldi mæla á næstu sex árum frá lagasetningunni og gera samhliða því teikningar af túnunum. Gert var ráð fyrir að Stjórnarráðið fengi mælingar og kort til eignar en afrit af þeim skyldi gera og afhenda jarðeigendum. Sýslunefndir skyldu hafa umsjón með framkvæmd mælinganna. Tvær af lagagreinunum fimm fjölluðu um hvernig skipta skyldi kostnaði vegna mælinganna. Lagt var til að Landssjóður greiddi 2 kr. fyrir hvert býli sem metið væri til dýrleika en að auki 15 aura fyrir hvert hundrað. Hinn hluti kostnaðar átti svo að greiðast úr hreppssjóði þegar oddviti sýslunefndar hefði tilkynnt hreppsnefnd um á hvaða jörðum mælingar hefðu farið fram það árið og hver kostnaður við það hefði verið umfram þá greiðslu sem úr Landssjóði kæmi. Hreppsnefnd skyldi þá jafna kostnaði niður á þær jarðir sem mældar voru að hálfu eftir býlatölu en að hálfu eftir hundraðatölu, en það skyldi þó tryggt að kostnaður á býli vegna hundraðatölu yrði aldrei meira en 10 krónur. Í lagagreininni kom fram að ábúanda væri skylt að greiða þetta gjald og að það mætti taka lögtaki. Leiguliða væri hins vegar heimilt að halda því eftir af „eftirgjaldi“ jarðarinnar.

Túnakort

Nýibær í Krýsuvík – túnakort 1918.

Frumvarp til laga um mælingar á túnum og matjurtagörðum var lagt fram á Alþingi sumarið 1915. Flutningsmenn þess voru þeir Sigurður Sigurðsson og Þórarinn Benediktsson og var frumvarpið samþykkt þann 13. nóvember 1915 með litlum breytingum. Stærstu breytingarnar fólust annarsvegar í því að fest var í lögin að mælingum ætti að vera lokið 1920 og því áætlaður styttri tími í verkið en ráðgert var í upphafi og hins vegar hafði hlutur Landssjóðs í kostnaði lækkað þar sem samþykktu lögin gerðu ráð fyrir því að Landssjóður borgaði flata greiðslu, 3 kr. fyrir hvert mælt býli í stað 2 kr. og að auki 15 aura fyrir hvert jarðarhundrað.
Í reglugerðinni er kveðið á um að stærð túna skuli tilgreind í teigum (hekturum) með einum aukastaf og stærð matjurtagarða skuli koma fram í fermetrum á uppdrættinum. Einnig kemur fram að kortin skuli vera í mælikvarðanum 1:2000 og skuli gerð á þann pappír sem Stjórnarráðið muni tilgreina og útvega (gr. 3). Í reglugerðinni er tún skilgreint sem „….það land, sem borið er á og árlega slegið“ og matjurtagarðar „þeir, sem í daglegu máli eru kallaðir garðar og sáð er í til kartaflna, rófna eða annarra matjurta“ (gr. 4 og 5). Í reglugerðinni er kveðið á um að þess sé getið sérstaklega ef tún hafi nýlega verið færð út en útgræðslan ekki komin í rækt og einnig að nátthaga skuli mæla hvort sem hann sé áfastur túni eða stakstæður, ef hann sé girtur „sauðheldri girðingu, taddur og árlega sleginn“. Í reglugerðinni kemur fram að sáðlönd, sem gera á að túnum en sáð séu til bráðabirgða höfrum eða öðru, skuli talin með túnum en jafnframt að ef óræktaðir blettir, s.s. mýrasund eða móar, nema fjórðungi eða meira af teigi innan túns skuli draga stærð þeirra frá túnstærðinni og sýna svæðið á túnakortinu (gr. 4). Í reglugerðinni kemur skýrt fram (gr. 6) að við mælingarnar eigi að nota keðju eða mæliband og hornspegil eða krosstöflu, „eftir því sem þarf“ og mælistangir en þess getið að í stað þeirra megi nota alls konar sköft. Kveðið er á um að túnið „með hússtæðum og öðru, sem innantúns er,“ skuli mælt og staðsett en draga eigi matjurtagarða, bæjarstæði og önnur hússtæði og vegi frá túnstærðinni (gr. 6 og 7).

Ráðning mælingamanna

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

Í reglugerð um túnamælingar er kveðið á um að sýslunefndir geri tillögur að mælingamönnum í samvinnu við búnaðarfélögin en að það sé svo Stjórnarráðsins að útnefna þá. Svo virðist sem búnaðarfélögin hafi ýmist gert tillögur að mælingamönnum eða samþykkt þá mælingamenn sem sýslunefndir lögðu til og skrifað bréf þess efnis til sýslumanns. Hann sendi svo tillöguna til Stjórnarráðs sem þurfti að samþykkja hana formlega og tilkynna um mælingamanninn. Af bréfaskriftum að dæma virðist æði misjafnt hvernig var staðið að ráðningu mælingamanna eftir sýslum. Í reglugerðinni um túnamælingarnar er kveðið á um að sýslunefndum sé heimilt að fela búnaðarfélögum umsjón með mælingunum svo lengi sem þau hlíta reglum Stjórnarráðsins um mælingarnar.
Í mörgum sýslum landsins útnefndu sýslunefndir einn mælingamann fyrir alla sýsluna. Sú var raunin í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu, Dalasýslu, Barðastrandarsýslum, Strandasýslu, Borgafjarðarsýslu, Mýrarsýslu og Snæfells- og Hnappadalssýslu þar sem allar mælingar voru gerðar af sama mælingamanninum. Í öðrum sýslum komu fleiri að mælingunum, oft talsvert fleiri, sérstaklega þegar fram liðu stundir. Ráðningarferli mælingarmanna virðist hafa verið mjög misjafnt. Sumstaðar virðist fyrsti mælingamaðurinn sem stungið var upp á hafa verið ráðinn án mikillar skriffinnsku en í öðrum sýslum er greinilegt að nokkrir sækja um eða bjóða í verkið og valið var úr hópnum eftir hæfni og hversu lágt mælingamennirnir buðu. Flóknast virðist ferlið hafa verið í Gullbringu- og Kjósarsýslu þar sem margir sóttu um og talsverð rekistefna varð út af því hvernig ætti að meta kostnað sökum fjölda þurrabúða.
Flestir mælingamennirnir virðast hafa verið ráðnir strax árið 1916. Síðasti mælingamaðurinn sem skjalfest er að var ráðinn til túnamælinga var hins vegar Eiríkur Ingibergur Eiríksson Sverrisson í Vestur-Skaftafellssýslu sem ráðinn var árið 1928 eftir að fyrri mælingamaður í sýslunni lést. Oftast luku þeir mælingamenn sem fyrst voru ráðnir einfaldlega því verki sem þeim var ætlað.
Þegar nánar er rýnt í störf og ævi mælingamannanna kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Margir þeirrar voru kennarar að starfi, a.m.k. hluta ævinnar, unnu fyrir búnaðarfélögin, voru sýslunefndarmenn og/eða sýslubúfræðingar, hreppstjórar eða jafnvel sýslumenn og nokkrir þeirra áttu á einhverjum tímapunkti sæti á Alþingi. Þar sem fundust minningargreinar eða skrif um mælingamenn var þeim gjarnan lýst sem framfarasinnuðum fræðimönnum sem lögðu metnað sinn í að breiða út og kenna góða búskaparhætti. Að samanlögðu má sjá að til verksins hafa verið valdir forystumenn á sviði búfræðinnar, gjarnan þekktir og virtir búfræðingar sem höfðu þegar látið talsvert að sér kveða eða áttu eftir að gera það. Kennslu í mælingaraðferðum höfðu þeir hlotið í námi sínu í búfræðinni og voru flestir útskrifaðir frá Hólum og Hvanneyri en nokkrir einnig frá Ólafsdal eða Eiðum. Svo virðist sem gert hafa verið ráð fyrir að þeir hafi haft fullkomið vald á mælitækni, a.m.k. finnast engin skrif eða skjöl um að þeim hafi verið veitt upprifjun eða þjálfun í þeim efnum áður en þeir hófust handa við mælingarnar og ekki er ólíklegt að flestir þeirra hafi unnið svipaðar mælingar áður enda virðist þjálfun í uppmælingum hafa verið hluti af námi, a.m.k. í Ólafsdal og sjálfsagt á flestum búnaðarskólunum.
Mælingamennirnir mældu mjög misjafnlega mikið. Fimm mælingamenn mældu aðeins einn hrepp og flestir, eða 24 (60%) mældu fimm hreppa eða minna. Aðrir mældu á bilinu 6-9 hreppa en fjórir mælingamenn mældu tíu hreppa eða fleiri (en þeir mældu allir heilar sýslur). Hrepparnir voru auðvitað misstórir og fjöldi bæja var mjög misjafn. Tíu mælingamenn mældu eitthundrað tún eða færri en flestir mældu á bilinu eitt til tvöhundruð tún (20 mælingamenn). Tíu mælingamenn mældu um 200 tún eða fleiri, en langflest túnin mældi Vigfús Guðmundsson í Gullbringu- og Kjósarsýslu, eða samtals ríflega 500 tún.

Vettvangsvinna

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

Ekki er vitað hvernig ábúendur tóku mælingamönnum og engin gögn hafa varðveist á Þjóðskjalasafni sem varpa ljósi á samskipti mælingamanna og bænda. Í upphafi var gert ráð fyrir að mælingamenn hefðu aðstoðarmann með sér en síðar var fallið frá því og sagt að þess í stað gætu þeir leitað aðstoðar á bæjum og greitt þóknun fyrir það ef þyrfti. Engar heimildir fundust um hvort slíkar þóknanir voru greiddar og þá hversu háar. Í bréfaskriftum kemur fram að leitast var við að nota unglinga til þessara verka. Ekki er ólíklegt að bændur hafi haft nokkuð misjafnar skoðanir á mælingunni, sér í lagi þar sem greiðslur fyrir verkið lentu að talsverðu leyti á þeim.
Nokkrar vísbendingar fundust í bréfasafni um að bændur hefðu ekki alltaf tekið vel í mælingu túnanna. Eigandi Arnarholts í Stafholtstungnahreppi vildi ekki láta mæla hjá sér og sagðist ætla að gera það sjálfur og því voru öll tún í hreppnum nema Arnarholt send inn og svipaða sögu virðist hafa verið að segja með jarðareiganda Höskuldsstaða í Laxárdal sem fékk leyfi mælingamanns til að mæla sitt tún sjálfur en gerði það svo ekki þannig að mælingamaður þurfti að gera sér sérstaka ferð til að mæla það.61 Í fyrirspurn frá Búnaðarsambandi Austurlands frá 1917 er leitað álits á því hvort landeigandi geti neitað því að mælt sé sérstaklega fyrir hvert býli á jörð hans en Búnaðarfélagið sem fengið var til umsagnar um fyrirspurnina segir í svari sínu að það geti hann ekki en minnir á að aðeins verði krafist greiðslu frá honum fyrir þau býli sem metin séu til dýrleika. Þrátt fyrir einstaka dæmi um að ábúendur/landeigendur hafi ekki tekið vel í mælingarnar bendir flest til að mælingamönnunum hafi víðast verið vel tekið og er t.d. ekki að finna neinar vísbendingar um að þeir hafi átt í vandræðum með að fá aðstoðarmenn á bæjunum.
Eins og gefur að skilja virðast mælingamennirnir ekki hafa farið á stúfana að vetrarlagi en þeir hafa nýtt sér sumar, vor og haust í verkið. Á sjálfum túnakortunum má sjá að sumir mælingamenn nýttu sér vetrarmánuðina til að teikna upp þau tún sem mæld höfðu verið sumarið áður.

Skil á kortum og eftirlit með gæðum

Túnakort

Kirkjuvogshverfi – túnakort 1918.

Mælingar á túnum hófust sumarið 1916 og fyrstu kortunum var skilað 1917. Þrátt fyrir að reglugerð um túnamælingar væri að mörgu leyti skýr hvað varðar mælingatækni, hvað skyldi mælt og útlit korta þá eru túnakortin talsvert misjöfn og kemur þar ýmislegt til. Inni það spilar án efa áhugasvið, metnaður og þekking mælingamanna sem og skilgreining þeirra á því hvað væri mikilvægt að skrá. Umgjörð kortanna var þó svipuð; flest voru gerð á þann pappír sem kveðið var á um og voru þau undantekningalaust blekuð, enda neitaði Stjórnarráðið að taka við óblekuðum kortum sem gerð var tilraun til að skila inn úr Hrunamannahreppi. Langflest voru kortin líka í mælikvarðanum 1:2000 eins og reglugerð um túnamælingar kvað á um en Stjórnarráðið veitti Búnaðarsambandi Austurlands leyfi til að víkja frá þessum kvarða í mælingum sínum og mæla í 1:1500 eða 1:1000 ef það hentaði betur. Árið 1921 hafði uppdráttum verið skilað úr 172 hreppum eða um 84% af hreppum landsins en þá tók að hægja talsvert á skilum og var á bilinu 3-4 hreppum að meðaltali skilað inn á ári eftir það fram til 1930. Uppdráttunum var skilað til sýslumanns sem sá svo um að senda þá í Stjórnarráðið sem kom þeim áfram til Hagstofu Íslands þegar búið var að taka á móti uppdráttunum, telja túnin og yfirfara gæði. Í Stjórnarráðinu var það Atvinnumálaskrifstofan (síðar Atvinnumálaráðuneytið) sem hafði málið á sinni könnu en greinilegt er að Búnaðarfélag Íslands bar einnig mikla ábyrgð og virðist félagið í raun hafa tekið afstöðu til nærri allra fyrirspurna og deilumála sem upp komu í sambandi við mælingarnar.
Greinilegt er að athugasemdir voru stundum gerðar við einstök kort en ekki er ljóst hvort þær hafa upphaflega komið frá ábúendum sjálfum eða annars staðar frá. Af bréfaskriftum má ráða að tvö af þeim kortum sem teiknuð voru í Mjóafjarðarhreppi í Suður-Múlasýslu voru talin röng og ný kort voru send í þeirra stað til Stjórnarráðs árið 1922. Svipað var e.t.v. upp á teningnum í Auðkúluhreppi í Ísafjarðarsýslu. Þar neituðu hreppstjóri og sýslumaður að greiða Jóni Þórarinssyni mælingamanni nema hann gerði nokkra uppdrætti aftur. Verklok töfðust talsvert út af þessu (fram til 1921) en málið endaði þannig að Jón teiknaði sex tún aftur. Samkvæmt skilgreiningu túnamælingalaga átti öllum túnamælingum að vera lokið árið 1920 en það markmið náðist ekki. Árið 1924 virðist hafa verið gert átak í því að ljúka túnamælingum. Þá fór Stjórnarráðið yfir hvaða bæi og hreppa væri búið að mæla og skila inn og hvað væri eftir.
Niðurstaðan var að einhverjar mælingar væru ókomnar úr um 30% hreppa (61 hreppi af 205). Í kjölfarið var sýslumönnum þeirra sýslna þar sem mælingum var ekki lokið (sem var í 12 sýslum) send áminning um að ljúka þyrfti mælingum sem fyrst. Yfirlit um það sem enn vantaði árið 1929 er að finna í Búnaðarskýrslu ársins 1929. Samkvæmt skýrslunni voru mælingar alveg eftir í fimm hreppum en að hluta til í 19 hreppum. Af hreppunum fimm var eitt svæði sem aldrei stóð til að skrá (Vestmannaeyjar þar sem kortagerð var nýlokið þegar túnakortverkefnið hófst, og þrír hreppar sem hafði ýmist verið skilað eða var skilað í kjölfarið (Hvammshreppur, Dyrhólahreppur og Vestur-Landeyjahreppur). Eftir stendur því bara einn hreppur sem aldrei var skilað í heild sinni en það var Villingaholtshreppur í Árnessýslu.

Túnakortasafnið

Túnakort

Járngerðastaðahverfi – túnakort 1918.

Túnakortasafnið er geysistórt en samkvæmt talningu höfundar voru gerð túnakort fyrir 5947 tún í 204 hreppum.99 Markmiðið var að kortagerðin væri mjög samræmd, að allir notuðu sömu mælingatæknina, mældu sömu atriði, notuðu samskonar pappír og teikniblek. Til verksins voru aðallega ráðnir búfræðingar sem hlotið höfðu áþekka menntun og kennslu í mælingaraðferðum og þeim var ætlað að nota samræmdar mælingaaðferðir. Allt var þetta gert til að gæta samræmis og gera kortin sem áreiðanlegust og sambærilegust. Þrátt fyrir þetta urðu túnakortin mjög fjölbreytileg að gerð, þótt helstu upplýsingar sem komi fram á þeim séu áþekkar.

Útlit og einkenni kortanna

Túnakort

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

Ákveðnar grunnupplýsingar koma fram á flestum kortunum, t.d. heiti jarðar og í hvaða hreppi hún var. Eins kemur stærð túna fram, hversu mikill hluti túnanna var sléttaður og hversu stórir kálgarðar voru á jörðinni. Að auki var algengt að mælingamenn merktu sér kortin með fullu nafni (56%) eða settu a.m.k. upphafsstafi sína á kortin (13%). Um 60% túnakortanna er einnig merkt ártali. Sum túnakort voru stimpluð með nafni mælingamanns, merki þess búnaðarfélags sem hafði umsjón með mælingunum eða mælikvarða. Kortin voru undantekningalítið gerð á pappír sem var nálægt A3 að stærð eins og kveðið var á um í reglugerðinni um túnamælingarnar, flest gerð á þykkan pappír sem Stjórnarráðið hafði milligöngu um að senda til mælingamanna en þó skera flestir hreppar í Eyjafjarðarsýslu og nokkrir hreppar í Þingeyjarsýslum sig úr þar sem þeir hafa greinilega samið við Prentsmiðju Odds Björnssonar á Akureyri um að sérprenta blöð fyrir sig. Umrædd kort eru því gerð á forprentuð blöð þar sem lykilbox voru stöðluð ásamt helstu upplýsingum og línulegum skala en mælingarmenn fylltu út aðrar upplýsingar og teiknuðu sjálft kortið. Þessi kort eiga það sameiginlegt að engar textaupplýsingar voru settar inn á sjálfa túnmælinguna og í raun lítið um aukaupplýsingar á þeim.
Í flestum tilfellum virðist afar líklegt að kortin hafi verið í mælikvarðanum 1:2000 eins og mælt var fyrir um í reglugerðinni um túnamælingar. Í um fjórðungi tilfella er sýndur línulegur mælikvarði á kortunum. Slík kort koma undantekningalítið frá Norðurlandi, úr Eyjafjarðar-, Þingeyja- og Skagafjarðarsýslum. Að auki eru kort úr Strandasýslu með línulegan mælikvarða og sömuleiðis kort úr Hofshreppi í Austur-Skaftafellssýslu.
Eitt af því sem getur valdið vandræðum við notkun kortanna í fornleifaskráningu er að áttatilvísun vantar á mörg þeirra. Í um 60% tilfella kemur ekki fram á kortinu hvernig túnið snýr við áttum. Sumir mælingamenn snéru kortum sínum kerfisbundið í tiltekna átt, eða létu kortin ávallt snúa á sama hátt gagnvart landslagi (t.d. upp í fjallshlíð dala eða út með firði), en stundum er ekki að sjá neitt augljósa reglu um hvernig kort á ákveðnum svæðum snúa. Þar sem áttatilvísun er á kortum er hún oftast í samræmi við málvenjur og legu landsins frekar en að hánorður sé merkt samkvæmt áttavita.

Nýting í fortíð og nútíð

Túnakort

Túnakort.

Ástæða þess að ráðist var í túnamælingar var sem fyrr segir þörf á því að afla áreiðanlegra upplýsinga um stærðir túna og kálgarða í sveitum landsins. Fram að þeim tíma er ráðist var í túnamælingar byggðu þær upplýsingar sem höfðu verið notaðar

í árlegum Búnaðarskýrslum um stærðir túna og kálgarða í flestum tilfellum á mati bænda en ekki á eiginlegum mælingum. Í Búnaðarskýrslum sem sendar voru inn var líka algengt að ekki væri fyllt út í reiti um túnstærð og kálgarða og því þurfti annað hvort að nota gamlar upplýsingar eða ágiskanir þegar stærð túna var áætluð í sumum hreppum/sýslum. Túnamælingunum var ætlað að bæta úr þessu.

Túnakort

Hraun – túnakort 1918.

Nýjar tölur um stærðir túna og matjurtagarða tóku að berast með túnakortum árið 1917 og var byrjað að nota þær, eins langt og þær náðu, við gerð búnaðarskýrsla strax sama ár.
Túnakortin urðu helsta heimild skýrslnanna hvað þessi atriði varðaði næstu ár. Upphaflega var gert ráð fyrir að túnamælingunum yrði lokið árið 1920 en verklokin töfðust allt fram til 1930 (þótt um 84% korta hafi verið komin inn 1921).
Strax í upphafi 20. aldar unnu bændur víða að því að stækka tún sín og matjurtagarða þótt aukningin hafi orðið enn meiri þegar komið var undir miðbik aldarinnar og vélvæðing jókst. Á tímabilinu 1900-1940 stækkuðu tún að meðaltali á landsvísu um 1-2% árlega en kálgarðar um 4%. Þegar skoðað er hvort hinar nýju mælingar hafi umbylt upplýsingum um stærð túna og kálgarða hér á landi verður að hafa þessa árlegu aukningu í huga. Þegar hún er höfð til hliðsjónar má sjá að einhverjar breytingar verða á tölum um tún- og kálgarðsstærðir umfram árlega meðaltalshækkun fyrstu árin sem tölur úr túnamælingum koma inn. Árið 1930 var síðustu túnamælingunum skilað og mætti því segja að það ári marki verklok. Þá voru 14 ár liðin frá fyrstu mælingum og elstu kortin orðin of gömul til að teljast fullkomlega sambærileg við þau yngstu. Sama ár var hætt að nota mælingar af túnakortum í Búnaðarskýrslum (nema þar sem slíkar mælingar vantaði) og má því segja að túnakortin hafið orðið úreld sem mæligögn um leið og kortagerðinni lauk. Vægi túnamælinganna fyrir hagtölur reyndist því ekki eins mikið og gert var ráð fyrir í upphafi en túnakortin urðu engu að síður gríðarlega mikilvæg heimild, þrátt fyrir að það hafi orðið á annan hátt en gert var ráð fyrir í upphafi.
Þrátt fyrir að túnakortin hafi fljótt fallið úr gildi sem heimild um stærð túna og kálgarða þá hafa kortin hlotið endurnýjun lífdaga á síðustu tveimur áratugum. Þau hafa orðið eitt helsta hjálpargagn fornleifafræðinga við að staðsetja minjar í túnum, sér í lagi þar sem yfirborðsummerki um fornar byggingar eru horfin.

Áreiðanleiki túnakortanna

Túnakort

Húsatóftir – túnakort 1918.

Fornleifafræðingar hafa nýtt sér túnakort við fornleifaskráningu allt frá upphafi og nú er svo komið að það telst sjálfsagður hluti fornleifaskráningar að skrá alla þá staði sem merktir voru á túnakortin á sínum tíma.
Til að fá mynd af notkun kortanna við fornleifaskráningu var gerð óformleg könnun á meðal þeirra fornleifafræðinga sem hvað mest höfðu skráð minjar á síðustu árum og þeir spurðir út í notkun kortanna. Spurt var um hversu áreiðanleg þeim þættu kortin og hvort þeir tækju eftir mun á nákvæmni/áreiðanleika eftir svæðum. Þar sem skrásetjarar höfðu tekið eftir áberandi villum á túnakortunum var reynt að afla upplýsinga um hvers konar villur þeir hefðu rekið sig á og hvort líklega væri um að kenna kerfisbundinni skekkju sem gæti verið afleiðing af þeim mælingaaðferðunum sem notaðar voru eða hvernig þeim var beitt, eða hvort um er að kenna mistökum eða ónákvæmni. Spurt var hvort skrásetjarar teldu algengara að finna skekkjur í stórum túnum en litlum, eða túnum í halla, hvort þeir hefðu tekið eftir meiri villum á ákveðnum svæðum en öðrum o.s.frv. Meginniðurstaða þeirrar notkunar er sú að túnakortin þykja í almennt merkilega áreiðanleg heimild hvað varðar megindrætti túna og grófa staðsetningu húsa og kálgarða.”

Heimildir:
-Íslensk túnakort frá upphafi 20. aldar; aðdragandi, aðferðir og áreiðanleiki mælinga og uppdrátta, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-http://testbirting.manntal.is/