Hvassahraunssel

Ákveðið var að freista þess að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli. Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hraunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings. Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.

Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krossstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu.

Urðarásgreni

Urðarásgreni.

Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring. Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar. Önnur gildran virðist hafa verið hlaðin upp úr merkjavörðu, sem þarna var.
Þegar gengið er um ofanverð hraunin má segja að minjar séu við hvert fótmál. Mikilvægt er að kunna að lesa úr þeim. Vörðurnar eru t.d. af margvíslegum toga, s.s. leiðarvörður við götur og stíga, staðsetningavörður við einstaka merkilega staði, grenjavörður (þrjár umhverfis greni – tveir steinar í hverri), sögulegar vörður (er staðsetja sögulega atburði) og refagildrur í vörðulíki.
Gangan tók 2 og ½ klst. Veður var frábært – fjórðungssól og hlýtt.

Hvassahraunssel

Rjúpur við Hvassahraunssel.