Út frá Kaldráseli eru margar greiðfærar og skemmtilegar gönguleiðir.
Til dæmis er hægt að leggja af stað frá húsi K.F.U.M. og K., ganga til suðurs að Kaldá, þar sem hún rennur neðan við húsið, og yfir göngubrú, sem þar er á henni. Kaldá rennur á mótum tveggja hrauna. Annað rann úr suðri, en hitt rann úr Búrfelli löngu fyrr, eða fyrir u.þ.b. 4700 árum, norðaustur af Kaldárseli.
Gjárnar norðan Kaldársels eru mótaðar af því mikla hraunrennsli. Að sunnanverðu, á hægri hönd þegar farið er yfir, má enn sjá tótt á árbakkanum. Eftir stutta göngu að girðingu framundan er komið inn á hluta gömlu Krýsuvíkurleiðarinnar. Hún er augljós í Kaldárhrauninu og auðvelt að fylgja henni í átt að Kaldárselshnjúkum. Við hnjúkana greindist Krýsuvíkurvegurinn, annar lá upp fyrir Undirhlíðar, Dalaleiðin, og hinn út með Hlíðunum.
Gamli bærinn í Kaldárseli stóð á túnblettinum, sem núverandi hús stendur á, þ.e. á móts við miðju þess er snýr að árbakkanum. Útihúsin voru þar sem flaggstöngin er nú (árið 2011). Áður tilheyrði landið Garðakirkju og hafði hún þar í seli fram til ársins 1836. Frá árinu 1873 hafði Hvaleyri þar leigusel. Sel Garða og Álftnesinga voru flest í Selgjá vestan Búrfellsgjár; 11 (12) talsins.
Enn sjást þar tóttir selja með hraunbarminum beggja vegna, einkum að sunnanverðu, svo og fallegir fjárhellar, bæði í gjánni og efst í Urriðavatnshrauni.
Hafnarfjarðarbær keypti árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, Kaldársel þar með.
Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að Hvaleyri eigi selstöð þar sem heitir Hvaleyrarsel suður af Hvaleyrarvatni í Selshöfða, auk selstöðvar í Kaldárseli. Aðrir munu ekki hafa nýtt það sel. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866.
Í húsvitjunarbók Garðaprestakalls má sjá að árið 1867 er kominn ábúandi í Kaldársel.
Hann hét Jón Jónsson, en hann var þar stutt. Eftir það lagðist búskapur niður um nokkur ár. Árið 1876 kom þangað Þorsteinn Þorsteinsson eða Þorsteinn í Selinu, eins og hann var jafnan nefndur. Enn er efst í Heiðmörkinni fallegur fjárhellir, Þorsteinshellir, sem lengi var talinn týndur. Þorsteinn var nokkuð sérkennilegur í háttum. Á hans tíma voru í Kaldárseli nokkar byggingar, matjurtargarður [nú fremst ofan árinnar], sem lá frá bænum niður að ánni mót suðri og vörslugarður. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð. Í því var baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Tætturnar voru allar vel hlaðnar úr sléttum og þykkum hraunhellum, en hvergi mold eða torf á milli, svo sem venja var.
Jón Guðmundsson á Setbergi keypti húsin í Kaldárseli sem og kindur. Þau voru öll rifin, nema baðstofan, sem stóð uppi fram undir aldamót.
Hún var einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá heldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högum. Einnig var gott fyrir Krýsvíkinga að hafa þarna afdrep á ferðum sínum. Haustleitarmenn Grindvíkinga leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Þá var mikil umferð útlendra ferðamanna til Krýsuvíkur, einkum til að skoða hinar nýyfirgefnu brennisteinsnámur, sem þar voru. Þeir gistu margir í Kaldárseli. Baðstofan bar þess merki. Í sperrur og súð voru skorin ófá mannanöfn af ýmsum þjóðernum.
Að liðnum aldamótum 1900 var ekkert hús lengur í Kaldárseli. Ferðum útlendinga fækkaði, Krýsvíkingar týndu ört tölunni, fjallleitir Grindjána styttust og hið stóra Setbergsheimili tvístraðist. Og fénaðurinn hvarf úr högunum.
Árin 1906-1908 fékk Kristmundur Þorláksson Kaldársel til afnota, síðar stórbóndi í Stakkavík. Hann kom upp smáheyhlöðu í Kaldárseli fyrir sínar 50 kindur með því að byggja yfir hina gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallinn. Þá byggði hann þar lambahús. Ekki hafði hann not af gömlu tóttunum að öðru leyti en því að hann gat nýtt úr þeim hraunhellurnar, sem hann gerði af miklum dugnaði.
Kristmundur lá við í Hafnarfirði, en fór fótgangandi um veturinn beitarhúsaveginn í Kaldársel í myrkri kvölds og morgna. Ærnar hafði hann við gömlu hellana, sem eru skammt norður af Selinu.
Lömbin voru í húsi, en músin vildi leggjast á þau. Kristmundur flutti loks fé sitt í Hvassahraun þar sem honum bauðst vist. Hann var því síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Framundan eru Kaldárhnjúkar Syðri. Hlíðin á vinstri hönd og hraunið á þá hægri. Eftir stutta göngu er gengið framhjá Kúadal, en talið er að selssmalinn hafi rölt kvölds og morgna um þessa sömu götutroðninga með kýr úr og í haga. Vestan Kúadals taka Undirhlíðarnar við. Gengið er framhjá Kýrskarði og áfram útfyrir Múla á hægri hönd. Þar á horninu er hellisskúti er nefnist Árnahellir, kenndur við Árna Gíslason í Brekkubæ í Hafnarfirði.
Með Hlíðunum eru tré, sem plantað var af Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sum fyrir áratugum síðan. Þar er minnisvarði um fyrsta formann Skógfræktarfélagsins, Ingvar Gunnarsson. Afturhlíðar Undirhlíða heita Bakhlíðar eða Gvendarselshæð. Þar er Gvendarsel vestan í hlíðinni. Sjást tóttir selsins og hlaðinn stekkur framan þess.
Framundan undir Hlíðunum, sem áður nefndust Gvendarselshlíðar, eru Kerin. Þau eru fallegir tvíburagígar. Hægt er að ganga upp í efri gíginn úr þeim neðri um gat á milli þeirra, en þar uppi er tilvalinn, skjólgóður áningastaður.
Þegar FERLIR var nýlega á gangi um svæðið var ákveðið að staldra við og gaumgæfa það betur en fyrr. Komu þá í ljós tvírýma mannvirki og tvö stök hús skammt frá; sennilega eldhús og geymsla. Afstaða minjanna minnti á dæmigerða tímabundna selstöðu. Svo virðist sem svæði það er geymir fjárskjólshellana hafi verið notað sem slíkt. Gæti það hafa hugsanlega hafa verið í tíð Þorsteins, Krýsuvíkur-Gvendar eða Kristmundar frá Stakkavík. Hin ókláruðu hús austan undir Fremstahöfða gætu hafa tengst tímabundinni dvöl fjárbónda á nefndum stað.
Hvað sem öllum vangaveltum líður er þarna um að ræða sérstaklega ahugaverðan stað með hliðsjón af fyrri búskaparháttum á svæðinu.
-ÓSÁ tók saman.