Garðarholt

Sigríður B. Guðmundsdóttir á Görðum var heimsótt. Hún er fædd og uppalin á Görðum. Við hornið á íbúðarhúsinu lá steinn með áklöppuðum keltneskum krossi. Sigríður sagði son hennar, Guðmund, hafa fundið steininn fyrir stuttu þarna skammt frá húsinu. Kirkjugarðurinn er vestan við það. Í gömlum heimildum er getið um Garðalind, aðalvatnsból Garðhverfinga, aðallega Garðastaðar og bæjanna austast í hverfinu. Austan kirkjugarðsins lá Lindargata að Garðalandi. Skv. þeim átti lindin að vera undir stórum þríhyrndum steini, sem hvíldi á þremur öðrum. Áður hafa verið gerðar tilraunir til að hafa uppi á lindinni með hliðsjón af lýsingunni, en það ekki tekist.

Garðalind

Garðalind.

Sigríður fylgdi FERLIR austur fyrir kirkjugarðinn á Görðum þar sem enn má sjá hinar gömlu hleðslur umhverfis hann. Gengið var niður fyrir garðinn og síðan skammt til norðurs. Þar vestan við kirkjugarðinn er stór þríhyrndur steinn. Vestan við hann er hlaðin rás og yfir hana steinbrú, sennilega á hinni gömlu Lindargötu.

Garðalind

Garðalind.

Fast vestan við steininn er hlaðin þrep niður að lindinni, sem er undir þessum stóra steini. Hún er í nokkurs konar skál undir honum. Frá lindinni til norðurs er gamall flóraður stígur. Ofan og fast við steininn hefur verið gert múrsteinshlaðið byrgi. Sigríður sagði að þar ofan í hafi verið sett dæla fyrir löngu síðan og vatninu úr lindinni dælt heim að bæ. Hlaðna rásin vestan við lindina er enn nokkuð heilleg. Sunnan við Garðalind er gömul hlaðin tótt.
Þá sýndi Sigríður FERLIR Völvuleiði á hæðinni austan Garðaholts. Þar er völva sögð hafa verið dysjuð. Sigríður kunni ekki frekari sögu af henni. Beggja vegna hæðarinnar eru grafnar skotgrafir.
Sigríður sagðist ekki vita hvar Garðahúsabrunnur og Miðengisbrunnur væru, en benti á Guðjón frá Pálshúsum, sem er næsti bær sunnan við Garða. Vestan við Pálshús, niður við sjávarkambinn, var bærinn Bakki, sem enn sést móta fyrir þar á kambinum. Norðan við hann er “Jobbasteinninn”, sem fannst fyrir ári síðan.

Völvuleiði

Á Völvuleiði.