Urriðakot

Eftir að framkvæmdir hófust við vegagerð á Urriða[kots]holti (2007) spurðist FERLIR fyrir um hvað hefði orðið að letursteininum frá 1846 er verið hafði skáhalt til suðurs neðan frá bænum – því við vettvangsferð um svæðið virtist hann við fyrstu eftirgrennslan vera horfinn.

Steinninn þar sem hann er nú (2008)

Bæjarverkfræðingur Garðabæjar sendi erindið áfram til hlutaðeigandi aðila. Svar kom um hæl: “Verktakinn hafði fært steininn til á meðan á framkvæmdum stendur og er ætlunin að koma honum aftur fyrir á sínum stað að þeim loknum”.
Farið var aftur á vettvang að þessu sögðu. Rétt neðan við suðvesturhorn bæjartóftanna lá myndarlegur steinn. Á honum var áletrunin og vístaði hún upp. Það verður því að teljast bæjaryfirvöldum og verktakanum til hróss að hafa hlíft steininum, eins og sagt hafði verið.
Örnefnalýsing Urriðakots segir m.a.: “Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti).”
Í Jarðabók Árna og Páls segir: “Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir.”
Áður en hlíðinni var rótað upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna), brunni, heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er og enn letursteinn með áletruninni “JTh 1846″. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi.”
Efst á holtinu er listaverkið “Táknatréð”. Við listaverkið eru útlistingar á höfundunum, M. Augustyniak, M. Amzalag og G. Friðriksdóttur, hugmyndum þeirra og stefnum.

Táknatréð

Um Gabríelu segir m.a.: “Sagt er um verk Gabríelu að í þeim birtist innra landslag, þar sem ímyndaður kynjaheimur forsögulegs tíma rennur saman við samtímann. Hún framkallar heim þar sem engin rökvís orð geta dregið skýr mörk á milli myrkra tilfinninga og gleði, og í stað öryggiskenndar þarf áhorfandinn að kljást við djúpstæð mannleg tákn og minni, á andartaki þar sem allt virðist í þann mund að tortímast og fæðast á ný.” Flest í textanum er auðvitað bara bull (að slepptum hinum listræna mælikvarða), en taka þarf viljan fyrir verkið (með fullri virðingu fyrir listafólkinu).
Sennilega hefði farið langbest á því að staðsetja mjög nærtækan friðaðan leturstein á þeim stað þar sem listaverkið “Táknatréð” er nú. A.m.k. hefur hann hvorki tortímst né endurfæðst, einungis legið þarna áfram, bæði með litlum tilkostnaði og auk þess með áletruninni, sem hann hefur borið í rúmlega öld – tákni þeirrar handa sem þá markaði sögu Urriðakots. Væri það vel við hæfi í ljósi allra þeirra umbreytinga, sem bæði landslagið er nú að ganga í gegnum á svæðinu og á aðbúnaði mannanna m.v. fyrri tíð.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Eitt pínulítið kríuegg, sem fyrir ótrúlega heppni hafði sloppið í hreiðri sínu millum hjólfara ofurstórvirkra vinnuvéla, var kannski hin mesta áminning (sanna og áhrifamesta minnismerkið) á Urriða[kots]holti þetta síðdegið. Kríumóðirin flaug yfir með tilheyrandi verndarlátum, líkt og mæður hafa gert svo lengi sem vitað er – og mun vonandi verða um ókomna tíð – líka í hinu nýja uppbyggjandi mannfólkshverfi á Urriða[kots]holti.
Málið er að stundum ferst bæjarráðsmönnum og -konum ekki fyrir í allri vitleysunni. Í dægurþrasinu er nefnilega svo mikilvægt að hafa bæði skynsemi og gáfur til að sjá í gegnum orðskrúðið. “Elítan” fágæta lifir og hrærist í orðskrúðinu líkt og dvergbleikjan í grunntjörninni. Hún er í mjög svo afmörkuðu umhverfi, en líkt og dvergbleikjan er henni sama um það og þá er búa ofan og utan tjarnarinnar. Þar búa bara miklu, miklu, mun fleiri…. og þeim er ekki sama….
Þegar gengið var um Urriðaholtið og hið smá gaumgæft virtist augljóst hvað skipulagsaðilum og öðrum hönnuðum svæðisins hafði yfirsést. Líkt og árstíðirnar eiga sér mjög svo ákveðna stund og tiltekinn stað á holtið sér nærtæka nálgun. Hana sjá einungis þeir/þau er gefa sér tíma og hafa vilja til að skilja.
Kríuegg á Urriðaholti