Flatahraun

Gengið var frá Hraunsholtstúni upp á Gjárréttarstíg með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum var fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun, framhjá Miðaftanshól og yfir Reykjanesbraut, en stígurinn er undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól, á Moldargötur og eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun að Kolanefi og þaðan stíg upp í Selgjá.

Flatahraun

Flatahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Á Flatahrauni eru hlaðnir garðar og sjá má móta fyrir öðrum minjum. Réttin er hlaðin utan í hraunhól og við hana er tóft. Sunnar liggur Hraunsholtsselsstígur upp í Hraunsholtssel sunnan undir Hádegishól og Hraunsholtsstígur um Álftanesstíg og Kirkjusstíg að Görðum. Norðvestar í hraunkantinum sést móta fyrir tóft í gróinni kvos. Hraunsholtshellir er í norðanverðum hraunkantinum skammt vestan við þar sem stígurinn liggur upp á hraunið.
Flatahraun og önnur hraun, sem nefnd verða hér á eftir, eru í rauninni öll komin frá Búrfellsgígnum; Búrfellshraun – 7270 ára gamalt -, en hafa verið nefnd ýmsum nöfnum á leið þeirra að endamörkum, s.s. Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun og Gálgahraun að austanverðu og Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun að vestanverðu.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Ofan við Miðaftanshól er járnbrautargatan yfir Garðahraunið, eða sá hluti, sem eftir er af henni. Járnbrautin átti að ganga milli Hafnarfjarðar og Vífilsstaða, en gatan er vera átti undir teinana er það sem eftir er af þeirri framkvæmd. Um er að ræða tiltölulega slétta götu og miklar hleðslur á köflum. Fallegasti hluti hennar lá ofan við fiskreitina ofan við Hafnarfjörð, en byggt hefur verið á öllu því svæði. Eftir er u.þ.b. 100 metra kafli í Garðahrauni þar sem, að því er virðist, hafi verið hætt við framkvæmdina við norðurbrún hraunsins.

Jónshellar

Jónshellar.

Austan brautarinnar var stígnum fylgt til suðurs upp með Svínahrauni, en síðan vikið af honum og Jónshellnastíg fylgt að Jónshellum. Gróið er yfir hann að mestu, en þó má á stöku stað sjá móta fyrir henni og fallegar hleðslur á köflum. Skammt ofan við hellana liggja Moldargötur. Haldið var upp með vestanverðum hraunkantinum að Urriðakotshrauni, framhjá Maríuhellum og Dyngjuhól (var svo nefndur af Urriðakotsbúum, en Hádegishóll af Vífilsstaðafólki – eyktamark þaðan) með Dyngjuhólsvörðum og götunni fylgt langleiðina upp að Stekkjartúnsrétt (efri), en áður en komið var alveg að henni beygir gatan inn í hraunið, við Hraunholtsflöt.

Þar tekur Grásteinsstígur við og liggur síðan til austurs með norðanverðum hraunkantinum, framhjá heillega hlöðnu fjárhúsi (Gráhellufjárhúsi) við Gráhellu, áfram inn á Flatir.

Urriðakot

Urriðakot – fjárhústóft í Urriðakotshrauni.

Úr þeim liggur gatan upp á hraunhrygg, framhjá fjárskjóli utan í hraunklettum og áfram framhjá Sauðahellunum nyrðri undir Kolanefi. Þaðan liggur gata upp (suður) með Vífilsstaðahlíðinni og niður í Selgjá að norðanverðu. Grásteinsstígur nær að Kolanefninu. Ekki vannst að þessu sinni tími til að skoða fjárborgina norðan götunnar sem og fjárhústóftirnar við hana. Selgjá og minjarnar í henni eru hins vegar sérstakur kapítuli og verður hvorutveggja lýst í annarri FERLIRslýsingu.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2001.

Maríuhellar

Maríuhellar.