Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi upp í Kerlingarskarð milli Miðbolla og Syðstubolla. Selvogsgatan hefur verið vinsæl gönguleið, en hún skiptist þarna ofan við Helluna, annars vegar upp Kerlingarskarð og hins vegar upp Grindarskörð skammt norðar, norðan Stórabolla. Ofan við Kerlingarskarð eru gatnamót, annars vegar á Hlíðargötu niður að Hlíðarskarði ofan við Hlíð við Hlíðarvatn og hins vegar inn á hina gömlu Selvogsgötu niður í Selvog.

Selvogsgata

Selvogsgata/Kerlingarskarðsvegur.

Hlíðargata er vel vörðuð leið, en við Selvogsgötuna eru flestar vörðurnar fallnar og margar orðnar jarðlægar. Gatan sjálf er þó vel greinileg og sums staðar bæði bein og breið. Hlíðargatan liggur gegnum hraunið niður með vestanverðum Hvalhnúki og Austurásum, en Selvogsgatan um Hvalskarð nokkur austar og niður í Hlíðardal. Hlíðarskarð var talið ófært klyfjahestum og því var Hlíðargatan aðallega farin af gangandi fólki t.d. vermönnum. Vegalengdin er um 15 km.
Þegar gengið var í góða veðrinu áleiðis að Kerlingarskarðinu var m.a. velt vöngum yfir nafngiftinni. Var hún til komin vegna þess að það þætti lægra eða auðveldara uppgöngu en Grindarskörðin? Nei, hvorugt á við rök að styðjast. Kom nafnið þá kannski til vegna einhverrar kerlingar, sem nú er löngu gleymd, eða hver er annars sagan á bak við nafnið?

Kerlingarskarð

Kerlingarskarð.

Á Snæfellsnesi er Kerlingarskarð. Þegar komið er þar niður brekkuna af háskarðinu, þegar komið er að sunnan, er hægt að sjá móbergsdrang skaga upp úr Kerlingarfjalli, það er hin eina sanna kerling sem Kerlingarskarð er kennt við. Í þessu Kerlingarskarði í Lönguhlíðu er hraundrangur svo til efst í því miðju. Mannsmynd hans gæti hafa komið fram í þokukenndu skarðinu eða hún veðrast. Gæti drangurinn einhvern tímann hafa heitið Kerling?
Á Snæfellsnesi eru margar sögur af Kerlingunni á Kerlingarskarði og eru margar þeirra svipaðar en nokkur smáatriði eru ólík. Eru margar sögur af uppruna hennar og erindi: Sumir segja að Kerlingin hafi verið af Barðaströnd, aðrir að hún hafi búið í Hítarhelli í Hítardal og enn aðrir að hún hafi búið í helli í Hallmundarhrauni eða á Kili.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í Kerlingaskarði. vegur sést vel neðra sem og drykkjarsteinninn í efra.

Sagt er að Kerlingin hafi verið að fara að hitta vin sinn Lóndrang, einnig er sagt að vinurinn hafi verið Korri á Fróðárheiði. Hún er einnig sögð hafa verið á veiðum í Baulárvallavatni vegna þess að hún hefur silungakippu á bakinu.

Kerlingin lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hafði hún með sér hest og á honum klifjar með skyrtunnu og heysátu, sumir segja að hún hafi einnig haft með sér hafur. Þegar Kerlingin var komin þangað sem nú er Kerlingarskarð ætlaði hún að stökkva yfir skarðið en þurfti að bíða því menn voru í skarðinu. Sumir segja að þar hafi Þangbrandur eða aðrir kristnir menn verið á ferð að boða kristni og hafi hitinn verið svo mikill að Kerling gat ekki stokkið yfir áður en sólin kom upp og varð því að steini. Einnig er sagt að ferðamaður hafi verið þar og sagt: “líttu í austur kerling” í þann mund er sólin kom upp og hafi kerlingin orðið að steini.

Kerlingaskarð

Kerlingaskarð framundan.

Í Kerlingarskarði í Lönguhlíðum eru tveir drykkjarsteinar, skessukatlar. Í þessum kötlum er alltaf vatn. Annar þeirra hafði týnst (fyllst) þangað til fyrir stuttu að FERLIR fann hann aftur. Beggja var getið í gömlum heimildum. Ekki er ólíklegt að skálar þessar hafi verið nefndar kerlingar í fyrri tíð og skarðið dregið nafn sitt af þeim.

Þekkt er nafngiftin á Grindaskörðum. Líkt og Molda-Gnúpur á að hafa girt fyrir Siglubergshálsin til að varna fé niðurgöngu á gróna Hraunssandana girti Þórir haustmyrkur Víðbjóðsson fyrir í Grindarskörðum til að varna fé sínu niðurgöngu af Selvogsafrétti. Ætla mætti að nægt girðingarefni hafi þá verið við hálsana og landslag með öðrum hætti en nú er þótt fátt virðist benda til þess að svo hafi verið. Umhverfið er þakið tiltölulega nýjum hraunum, sem komið hafa upp úr Bollunum, s.s. Tvíbollahraunin (Leiðarendi), sbr. Hellnahraun hið síðara, um og í kringum 950.

Grindarskörð

Selvogsgatan efst í Grindarskörðum.

Hvort sem ástæða nafngiftarinnar sé á rökum reist eður ei stendur hún vel fyrir sínu, líkt og svo margar aðrar. Annars er vel þekkt að nöfn hafa færst á milli staða, gömul glatast og ný tekin upp frá einum tíma til annars. Í nafnafræðunum er fátt nýtt undir sólinni, en sömu grundvallaratriðin koma þó yfirleitt byrjendum flestum á óvart. Þannig eru mörg dæmi um að ákv. staður hafi heitið fleiri en einu nafni á meðan aðrar nafngiftir virðast á reiki. En svona er lífið – margþætt og flókið, en einfalt fyrir þá sem hafa öðlast skilning á hvorutveggja.
Fyrst byrjað er að hugleiða nafngiftir: Hvers vegna heitir keilan (kvk) norðan Þráinsskjaldar Keilir, þ.e. karlmannsnafni.? Hvers vegna ekki Keila, eins og eðlilegast væri?
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Selvogsgata

Selvogsgata – kort ÓSÁ.