Færslur

Hausastaðaskóli

Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er afleíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistabarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Stofnun barnaskóla á Íslandi var að vísu ekki algert nýmæli, því að hinn fyrsti barnaskóli landsins var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745. Ekki fara þó langar sögu af honum. hann mun hafa verið endurbættur 1750, en nokkrum árum seinna var hann kominn í kalda kol.
Árið 1761 gerðu Finnur biskup Jónsson og Magnús amtmaður Gíslason reglugerð fyrir væntanlegan skóla, er stofnaður skyldi í Njarðvík. Það átti að vera hinn væntanlegi uppeldisskóli samkvæmt gjöf J. Þork. Skal hér birtur útdráttur úr reglugerðinni, sem var alls í 33 greinum, þar eð hún var í öllum meginatriðum tekin upp, þegar Hausastaðaskólinn var stofnaður 1791. Sýnir reglugerðin ljóslega tíðarandann og hugmyndir æðstu embættismanna þjóðarinnar um fyrirmyndar barnaskóla.
Skólahaldarinn átti að vera lærður maður, “kunnur að guðhræðslu og reglusemi og hæfur til að gegna svo þýðingarmiklum starfa”. Sé hann kvongaður “skal kona hans vera þekkt af heiðarlegum lifnaði”. Hann átti að hafa “gang og sæti á opinberum mannafundum næst á eftir prestum eða conrektorum við latínuskóla”. Í skólann mátti ekki taka yngri börn en 6-7 ára.
Um kennsluna var það tekið fram, að “með því að ótti drottins er upphaf allrar visku, hamingju og blessunar”, þá átti daglega, “kvöld og morga, að halda í skólanum bænargjörð eða lofsöng”, lesa kafla úr Biblíunni eða annarri guðsorðabók og “stuttlega skýra innihaldið fyrir börnunum”, og “aldrei gleyma að biðja fyrir guðs kirkju, fyrir hans hátign konunginum, öllu konungsfólkinu og fyrir heill landsins”. Þá átti að láta börnin sjálf lesa í Biblíunni og venja þau á að syngja “alla sálma tíðkanlega hér á landi.” Og til þess að “lærdómar Biblíunnar nái betur að festa rætur muni nokkuð af því, (skólahaldarinn) rannsaka, hvort þau muni nokkuð af því, sem lesið var og skýrt fyrir þeim morguninn eða kvöldið áður.”
Þá voru hreinlætisreglur. Börnin áttu að vera með hreinar hendur og kembt hár. Um matinn er þess getið, að þau skuli fá hann “eftir óbrotnum landssið, en ekki til að fylla búk þeirra eða seðja græðgi þeirra”.
börnin áttu að læra lestur, og stálpaðir piltar skyldu læra að draga til stafs. Og þau, sem til þess væru hæf, áttu að læra 4 höfuðreglur reiknings í heilum tölum. Eldri börn áttu að hjálpa þeim yngri við lestrarnámið.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þá skyldu börnin læra öll algeng störf, að þetta var jafnframt verknámsskóli. Drengirnir áttu að vera við slátt og fara til róðra með vönduðum formönnum. Stúkunum var ætluð ullarvinna, spuni, saumur, prjón og að bæta föt. – Börnin áttu að vera kurteins, ekki mátti þola þeim yfirsjónir, og skyldi þeim hengt fyrir brot á skólareglum, annaðhvort með ávítunum eða hrísvendi.
Að skólahaldi í Njarðvík varð þó ekki. Yfirstjórnendur sjóðsins [Torkelliissjóðsins)] töldu verð á byggingarefni of hátt, til þess að hægt væri að rást í skólabyggingu.
Árið 1793 var svo byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.”

Jón Þorkellsson - minnismerki

Minnismerki um Jón Þorkelsson í Njarðvík – teiknað af Ríkarði Jónssyni.

Þá er því ennfremur lýst, að í “sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkegustofunni er kaalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.” Úr forstofu lá stigi upp á loft. kennslustofur voru niðir, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Sér Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og eins telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.
Börnion, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafi starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði.

Heimild:
-Jón Skálholtsrektor; minning um Jón Þorkelsson Thorkillius á 20 ára árstíð hans. Gunnar M. Magnússon tók saman, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1950, bls. 119-127.

Hausastaðaskóla

Tóftir Hausastaðaskóla.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli – fyrsti heimavistarskólinn “Einn fyrsti vísir að reglulegu skólahaldi fyrir börn og ungmenni hér á landi var Hausastaðaskóli í Garðahverfi 1791-1812.
hausastadaskoli-991Tildrög skólahaldsins voru þau að Jón Þorkelsson, fyrrum skólameistari í Skálholti, mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að eigur hans skyldu renna í sjóð, Thorkilliisjóðinn, og átti hann síðan að standa straum af menntun fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi. Hausastaðir í Garðahverfi urðu fyrir valinu og tók skólinn til starfa árið 1791 (14. mynd) (Ragnar Karlsson & Jón Jónsson, 1992).
Börnin voru tekin í skólann sex til átta ára gömul og voru þar fram á 17. aldursár. Meðal kennslugreina var lestur og skrift sem börnin þurftu að læra til undirbúnings fermingar, reikningur og margvísleg hagnýt störf. Drengirnir áttu að kunna öll venjuleg störf við heyskap, jarðrækt og fiskveiðar, en stúlkurnar fengu tilsögn í hefðbundnum vinnukonustörfum, jafnt utan húss sem innan. Eftir að skólinn hafði verið starfsræktur í 20 ár gekk sjóðurinn til þurrðar. Ekki fékkst fjármagn annars staðar frá til skólahaldsins og var starfsemin því lögð niður árið 1812 og munir skólans seldir á uppboði (Ragnar Karlsson & Jón Jónsson, 1992).”

Heimild:
-Garðahverfi í fortíð og nútíð, Tinna Rut Pétursdóttir, BS 2012.
http://skemman.is/stream/get/1946/15582/37597/1/2012_BS_Tinna_Rut_Petursdottir.pdf

Hausastaðaskóli

“Í Fornleifaskráningu Garðahverfis má sjá eftirfarandi upplýsingar um Hausastaðaskóla á Álftanesi (Garðahreppi): “Skv. Örnefnaskrá 1964 (A163/B156) og Örnefnalýsingu 1976 (bls. 10) stóð Hausastaðaskóli eða Thorkiliisjóðsskólinn áður í Húsagarði (190-4) í austanverðu Hausastaðatúni.
Hausastadir-223Fyrir andlát sitt 1759 gaf Jón Þorkelsson Thorchillius, skólameistari í Skálholti, eigur sínar til skólahalds í Kjalarnesþingi. Skóli var ekki stofnaður strax en ýmsar hugmyndir voru um staðsetningu hans. Stóð m.a. til að hann yrði í Njarðvík og Thodal stiftamtmaður vildi hafa hann í nágrenni stjörnuathugunarstöðvarinnar á Bessastöðum þannig að stjörnuathugunar-maðurinn sinnti jafnframt kennslu. Að lokum fengust þó Hausastaðir endurgjaldslaust úr landi Garða og var skólinn stofnaður þar árið 1791. Þegar Manntal var tekið um aldamótin var ábúandinn á Hausastöðum, Þorvaldur Böðvarsson, einnig skólahaldari (bls. 357).
Hausastadir-224Þetta var fyrsti heimavistarskólinn á Íslandi sérstaklega ætlaður alþýðubörnum. Hann var fyrir fátækar stúlkur og pilta úr Kjalarnesþingi og höfðu börn af Álftanesi ekki forgang umfram önnur. Markmiðið var “að ala upp mest þurfandi og fátækustu börn í Kjalarnesþingi; í stofnun þessari áttu börnin auk kristilegs uppeldis, að fá húsnæði, föt og fæði, alt þrifalega, en þó alþýðilega útilátið, þangað til þau gætu sjálf unnið fyrir sjer hjá öðrum.” Börnin áttu að læra lestur og guðsorð, garðrækt og ýmis gagnleg störf. Í skipulagsskrá skólans var einnig kveðið nánar á um fæði þeirra, m.a. tekið fram að þau ættu að fá ferskt grænmeti. Börnin voru á aldrinum sjö til sextán ára en gert ráð fyrir að þau væru tólf, sex piltar og sex stúlkur. Þegar flest var voru sextán börn í skólanum en aðeins átta eða níu undir lokin. Þá var farið að sverfa að starfseminni vegna siglingateppu og dýrtíðar og var hann með öllu lagður niður árið 1812. Hreppstjórar Álftaneshrepps sendu þá sýslumanni bréf þar sem þeir fóru fram á aukið fé vegna barnanna sem komu úr skólanum: “Við beklögum Tíðanna óblíðn, sem stansa skilde þessa góðu guðlegu stiftun, og svifta mörg munaðarlaus börn uppfóstre og Forsorgun […]”. (A.Ó.B: 117 o.þ.tilv.r.). Á 20 ára afmæli Flataskóla, áður Barnaskóla Garðahrepps, 18. okt. 1978, ákvað skólastjórinn að vinna að því að reistur yrði minnisvarði um Hausastaðaskóla. Þennan minnisvarða afhjúpaði svo Ólafía Eyjólfsdóttir, síðasti ábúandi Hausastaða, og stendur hann þar sem bugða er á veginum til bæjarins. – (G.R.G: 12).”

Heimildir:
-Anna Ólafsdóttir Björnsson: Álftaness saga Bessastaðahreppur – fortíð og sagnir. 1996.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A163 / Garðaland B156.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Kristján Eiríksson: Örnefnalýsing Garðahverfis skráð eftir lýsingu heimamanna. 1976.
-Manntal á Íslandi 1801 suðuramt. Rvk. 1978.

Hausastaðaskóli

Hausastaðaskóli um 1800.

Hausastaðaskóli

Gengið var um Langeyri og Malir, skoðaðir gamlir fiskreitir og síðan haldið út með ströndinni með Bala, Dysjum og Görðum. Gengin var Lindargata að Garðalind og síðan út á Hliðsnes og að Hausastaðaskóla.

Hausastaðaskóli

Minnismerki við Hausastaðaskóla.

Langeyri var upphaflega tómt hús í landi Garðakirkju sem stóð autt árið 1703 vegna aflabrests. Þegar fríhöndlunin gekk í garð 1787 lögðu danskir lausakaupmenn Langeyri undir sig og reistu sér íbúðarhús og vöruskemmur. Örnefnið Rauðhúsnef er frá þeim tíma er rauðlituð dönsk hús stóðu við tangann er kallast í dag Rauðsnef. Þar var í eina tíð hvalstöð sem lagðist niður þegar alvarlegt slys varð í stöðinni. Núverandi Langeyrarbær var byggður árið 1904 og telst vera dæmigerður hafnfirskur hraunbær af stærri gerðinni. Nokkru vestar eru fleiri gömul hús Eyrarhraun, Fagrihvammur og steinbærinn Brúsastaðir. Utar taka við Brúsastaðamalir eða Litlu-Langeyrarmalir og Skereyrarmalir. Hér voru fyrirtaks malir fyrir smábáta sem þurftu ekki að fara djúpt til að afla vel.
Finna mátti samskonar malarkamba inn eftir öllum Hafnarfirði í aldarbyrjun. Langeyrarmalir voru lengstar malanna og hér reisti August Flygenring fiskvinnsluhús 1904. Malirnar voru mikið athafnasvæði og var saltfiskur breiddur til þurrkunar á góðviðrisdögum á fiskreitum í hrauninu sem enn sést móta fyrir, t.d. utan við beygjuna neðan við Eyrarhraun.

Allianz-fiskreitur

Allianz-fiskreiturinn.

Fiskverkunarhúsin voru rifin á níunda tug 20. aldar. Líklegt er að þessir fiskreitir verði eyðilagðir innan skamms vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda á svæðinu. Allians-reiturinn, sem var þarna skammt ofar, var t.d. rifinn uppá einum degi þegar síðast var byggt við Hrafnistu. Í rauninni virðist það hafa verið óþarfa eyðilegging ef tekið er mið af byggingunni, sem reist var á svæðinu. Í rauninni hefði verið táknrænt að vernda þennan gamla fiskreit svo til við gaflinn á þessu dvalarheimili aldraðra sjómanna.
Þegar saltfiskverkun var sem mest í bænum á fyrrri hluta 20. aldar var fjöldi fiskreita og stakkstæða um allan bæ þar sem fiskurinn var breiddur og þurrkaður. Það er enn hægt að skoða fagurlega hlaðna fiskreiti á nokkrum stöðum í bænum þó mjög hafi verið þrengt að þeim. Alliansreitur (stundum nefndur Allanzreitur) er sunnan Hrafnistu. Hann er kenndur við Allen Major, framkvæmdastjóra hinna ensku Hellyers bræðra sem stunduðu útgerð frá Hafnarfirði 1924 – 1929. Annar þekktur fiskreitur var Einarsreitur, sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður og kaupmaður lét útbúa, er á svæðinu milli Arnarhrauns, Smyrlahrauns, Álfaskeiðs og Reykjavíkurvegar.

Fiskreitur

Fiskreitur á Einarsreit.

Byggð hefur verið í landi Garðabæjar frá landnámstíð og er talið að núverandi landsvæði bæjarins hafi tilheyrt þremur mönnum. Vestasti hlutinn hafi verið land Ingólfs Arnarsonar, landið í kringum Vífilsstaði í eigu Vífils, leysingja Ingólfs, og syðsti hlutinn í eigu Ásbjarnar Özurarsonar, sem Landnáma segir að hafi fengið land á milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og bjó á Skúlastöðum. Talið er að Skúlastaðir hafi annað hvort verið þar sem nú eru Bessastaðir eða þar sem nú er kirkjustaðurinn Garðar á Álftanesi en við hann er Garðabær kenndur.
Minnismerki stendur nú þar sem Hausastaðaskóli var. Enn má sjá tóftir hans. Skólinn var annar fyrstu skóla á Íslandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-17 ára. Skólinn starfaði á árunum 1792-1812. Skólinn var stofnaður handa fátækum börnum sem fengu ekki tækifæri til að læra. Það voru bæði strákar og stelpur í skólanum sem þótti merkilegt því stelpur gengu ekki í skóla þá. Fyrst í stað voru 6 stelpur og 6 strákar en þeim fjölgaði fljótlega. Eftir 1804 fækkaði þeim aftur. Markmið Hausastaðaskóla var ekki bara að lesa, skrifa og reikna, heldur líka að ala upp fátæk börn. Minnisvarði um Hausastaðaskóla var reistur árið 1979.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Sjá meira um Hausastaðaskóla HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.gardabaer.is/default.asp?cat_id=69
-http://www2.hafnarfj.is/hafnarfj.nsf/pages/merkir_stadir
-Jón Skálholtsrektir – minning um Jón Þorkelsson Thorkillius, Rvík 1959.Hausastaðaskóli