Færslur

Arneshellir

Frægasti útlegumaður hér á landi, fyrir utan Fjalla-Eyvind, var Arnes Pálsson.

Arneshellir

Myndir með textanum eru teknar á Þorrablóti FERLIRs í Arneshelli.

FERLIRsfélagar fengu tækifæri til að berja hann augum þar sem þeir voru við þjóðkræsingar í Hraunsholtshelli eitt síðdegið á þorranum. Arnes birtist þá þar skyndilega í “ímynd” sinni. Á broddstaf í annarri hendi hafði hann dauða gæs, en öxi í hinni. Var hann greinilega að sækja í sjóð þann er hann hafði falið í hellinum um fjórðungsárþúsindinu fyrr. Hann komst þó undan við glettur og hvarf út í hríðina, enn einu sinni.
Arnes þessi Pálsson gerðist sekur fyrir endurtekna stórfellda þjófnaði og var að lokum dæmdur af stiftamtmanni til ævilangrar tugthúsvistar. Í bréfabók stiftamtmanns þeirra tíma var Arnes titlaður „den störste af alle Forbrydere i det islandske Tugthus“, eða mestur allra glæpamanna í hinu íslenska fangelsi. Sakaskrá Arnesar Pálssonar var löng og er á henni, rétt eins og á lífi hans öllu, mikill þjóðsagnablær.
Árið 1765 komst Arnes undir manna hendur og við réttarhöld sagðist hann vera fæddur á Seltjarnarnesi og hafa alist upp á Kjalarnesi. Hann væri 37 ára og því fæddur árið 1728. Arnesi Pálssyni er líst svo í sakamannalýsingu Arnórs Jónssonar sýslumanns Borgfirðinga sem hann birti á Alþingi árið 1756: „…smár vexti, smá-og snareygur með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur með litla hári vaxna vörtu neðarlega á kinnbeini, gjörnum á að brúka það orðtak: – Karl minn.
Arnes á að hafa brotist inn í Brautarholtskirkju og stolið þaðan 50 ríkisdölum.
Arneasarhellir Arnes fékk fyrsta dóminn fyrir slæðuþjófnað frá vinnukonu, síðan bættust við sauðir, fiskar o.fl. Úr Brautarholtskirkju rændi hann peningum (krónum og spesíudölum), en þá átti Þorvarður lögréttumaður Einarsson. Faldi Arnes peningapokann (í helli) í Garðahrauni (nálægt Hofstöðum), og sótti í hann þegar með þurfti. Var hann þar undir verndarvæng Þorkels bónda á Hofstöðum, sem seinna komst í bölvun fyrir aðstoðina og var dæmdur til kaghýðingar, brennimerkingar og þrælkunnar ævilangt í Brimarhólmi.
Armes þótti óþýður og grimmur í skapi og fégjarn mjög, grobbinn. Hann hafði stórt ör á kinn eftir klaufhamar. Hann var útilegumaður í 9 ár, en hafði þó athvarf víða á bæjum, t.d. í Borgarfjarðar-, Gullbringu- og Kjósarsýslum. Var hann í “yfirhilmings lausamennsku” eins og sagt var. Var Arnes í vinnumennsku í 3 ár hjá Fjalla-Eyvindi og Höllu þegar þau bjuggu í Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Eftir afbrot á Kjalarnesi og Akranesi stakk hann svo af til Vestfjarða en kom þaðan aftur og hafðist við í helli í Akrafjalli og svo í nokkrum kotum þar sem nú er Innri-Akraneshreppur. Á daginn hafðist Arnes við í helli sínum í fjallinu og stundaði hann sauðaþjófnað og stal auk þess af bæjunum í kring. Um nætur hafðist hann hvað mest við á bænum Másstöðum og svo í Móakoti og gerði hann heimilisfólkið að Móakoti meðsekt sér. Fræg er sagan þar sem bændur í grennd við Akrafjall söfnuðu liði til þess að fanga Arnes.
„Var ákveðinn leitardagur og mönnum skipað í leitina, og skyldu allir leitarmenn vera í hvítum sokkum, sem náðu upp á mið læri, og með hvítar húfur á höfði, svo að ekki yrði villzt á Arnesi og þeim. Við fjallsræturnar var skipað ríðandi mönnum með langar ólarsvipur, sem sveifla átti utan um Arnes, ef hann freistaði að hlaupa niður af fjallinu og út á flóana. – Sagt er, að nær áttatíu menn hafi tekið þátt í þessari leit.
En svo sagðist Arnesi sjálfum frá, að hann hefði orðið þess var, er leitin var hafin um morguninn, og séð, hversu leitarmenn voru auðkenndir. Voru góð ráð dýr, er hann sá leitarmenn nálgast. Tók hann það til bragðs, að hann reif sundur ljósleitan skyrtugarm, sem hann átti, og vafði um höfuð sér, fletti sokkunum niður á ökla, en skar upp í buxnaskálmarnar og vöðlaði þær síðan upp á læri og batt að. Laumaðist Arnes síðan í flokk leitarmann og gekk með þeim fjallið um daginn. En þegar leið að því, að niður yrði haldið í byggð, dróst hann aftur úr, en sneri síðan við, er leiti bar á milli hans og byggðarmanna.“

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Nóttina eftir kúrði Arnes í klettaskoru og bjó hann sig svo til brottfarar um morguninn. Þá var ferðinni heitið inn í Hvalfjörð, nánar tiltekið Botnsdal. Nokkrir bæir á þessum slóðum eru nefndir til sögunnar sem næturgriðarstaðir Arnesar, s.s. Botn í Botnsdal, Skorhagi í Brynjudal og Brekka og Sjávarhólakot á Kjalarnesi. Nokkuð ævintýralegri dvalarstaður Arnesar er einnig nefndur, en það er hellir nokkur í norðaustur hlíðum Hvalfells. Þar gengur höfði fram í vatnið og heitir þar Arnesarhellir. Segir sagan að í þessum helli hafi Arnes haft vetursetu og eiga að hafa fundist þar bæði rúmbálkur, kambur og leifar gamalla beina.
Eftir þetta flæktist Arnes norður á Strandir, en þar notaði hann dulnefnið Jón Árnason. Þar hitti hann þau Fjalla-Eyvind og Höllu, ásamt útilegumanninum, Abraham Sveinsson. Eftir að hann hafði dvalið með þeim í nokkurn tíma kom upp misklíð í hópnum sem endaði með áflogum og fékk Arnes stórt sár á annan fótinn, að eigin sögn.
Arneasarhellir Arnes Pálsson komst loks undir mannhendur og var dæmdur í lífstíðarfangelsi á dómþingi á Esjubergi. Einnig var bætt við brennimarksdómi en Arnes slapp við þann dóm. Arnes hafði lag á að hafa hlutina eftir sínu höfði og í tugthúsinu naut hann forréttinda og hafði löngum sína hentisemi. Í tugthúsinu var hann m.a. dyravörður, eins konar verkstjóri hinna fanganna, að ógleymdu því hlutverki sem hann fékk, að fræða samfanga sína um kristindóm. Fyrir þetta fékk hann þóknun og ýmiss fríðindi. Arnes eignaðist þrjú börn í lausaleik á tugthúsárum sínum, en hann sat inni í 26 ár. Hann var þá látinn laus samkvæmt konungsúrskurði og varð síðan niðursetningur og dó árið 1805 í Engey og jarðaður í kirkjugarðinum við Surðurgötu, 86 ára gamall.

Arnesarhellir

Arnesarhellir í Akrafjalli.

Sagan af Arnesi er dæmigerð íslensk útilegumannasaga. Söguhetjan er sveipuð hetjuljóma, sleppur ævintýralega frá leitarmönnum og lifir hættulegu lífi fram á ystu nöf. Sök Arnesar var þjófnaður, og hann var nokkuð stórtækur í þeim efnum. Ekki er neitt minnst á kvennafar hans nema á seinni árum þegar hann var kominn í tugthúsið. Í þeim heimildum sem við lásum um Arnes, er honum ekki lýst sem óþokka og glæpamanni. Þó væri rangt að segja að um hann væri fjallað á hlutlausan hátt, því ekki er laust við að um hann sé fjallað á ofangreindan hátt, þ.e.a.s. sem hugrakka hetju. Fyrr á tímum var fólki oft refsað fyrir þjófnað þó svo að þjófnaður hafi oft verið algjört örþrifaráð fólks. Margir bjuggu við sára fátækt og oft stóð valið á milli þess að svelta heilu hungri eða stela og þurfa þá jafnvel að taka afleiðingunum. Það er hvergi minnst á hag Arnesar áður en hann lagðist út, en að öllum líkindum hefur hann ekki verið upp á marga fiska. Kannski hefur ævi Arnesar Pálssonar ekki verið jafn dramatísk og lýst er í sögubókum. Og þó, það er oft erfitt að greina á milli þjóðsagna, munnmæla og sögulegra heimilda.

Af http://www.fva.is/~isl703/dhs/arnes.html

Heimildir:
-Frásagnir – Árni Óla – 1955
-Kristján Jóhannsson -Innsveitir Hvalfjarðar – Höfundur gefur út Reykjavík 1989
-Borgarfjarðarsýsla sunnan Skarðsheiðar – Jón Helgason -Ferðafélag Íslands – Reykjavík, 1979
-Söguferð – bæ frá bæ um Borgarfjörð – Samantekt efnis: Ingibjörg Bergþórsdóttir
-Ferðamálasamtök Mýra- og Borgarfjarðarsýslu – Reykjavík, 1994

Arneshellir

Í Arneshelli.

 

Arnesarhellir

Oscar Clausen ritar um Arnes útileguþjóf í Lesbók Morgunblaðsins árið 1941:

Arneshellir

Í Arneshelli í Garðabæ.

“Frá Arnesi útileguþjóf er sagt í þætti Gísla Konráðssonar [Lbs. 1259 4to.] af Fjalla-Eyvindi, Höllu og fjelögum þeirra, en af því að Arnes er eiginlega sögulegasta persónan í þessu fjelagi, að Eyvindi undanskildum, er ekki úr vegi að segja nokkuð sérstaklega frá honum.
Arnes var Pálsson og ættaður af Kjalarnesi og er sagt að foreldrar hans hafi haft mikið dálæti á honum í uppvextinum og alið hann upp í eftirlæti, og ekkert vandað um við hann þó að hann sýndi varmensku og ójöfnuð á unglingsárunum. Hann var þegar á unga aldri hinn knálegasti maður og svo fóthvatur að fáir hestar tóku hann á hlaupum, þó að þeir væru vel fljótir, en harðgeðja var hann og grimmur í skapi og fram úr hófi fégjarn. — Þegar Arnes var orðinn iitileguþjófur var lýst eftir honum á Alþingi 1756 og er honum þá lýst svo, að hann væri smár vexti, smá- og snareygður, með mjóa höku og lítið skarð í, hálsgildur, með litla vörtu hárvaxna neðarlega á kinninni, gjörnum á að brúka það orðtak „karl minn”. En síðar er honum lýst svo: „Lágur vexti, þrekinn, kringluleitur, þó kinnbeinahár, munn við hæfi, litla höku, snar og dökkeygur, dökkur á háralit, mælti við völu”. —
Eftir Akrafjallsveruna sprettur Arnes, fyr en varir, aftur upp á fornum stöð um og gjörir nú vart við sig við Elliðaárnar fyrir innan Reykjavík. Þar var þá þófaramylla frá klæðaverksmiðjum Skúla fógeta, í Reykjavík og gætti hennar danskur maður, — bóndi frá Sjálandi — og bjó hann á Bústöðum. Einn morgun var sá danski snemma á ferli og gekk til myllunnar, en sá þá að gluggi var þar brotinn og þegar hann gáði inn, sá hann hvar maður lá sofandi á gólfinu og hafði staf og poka sjer við hlið. — Sá danski greip þetta hvorutveggja og hljóp með það heim til Bústaða, en skömmu síðar vaknaði hinn sofandi maður og elti hann. Bóndinn kallaði þá til konu sinnar og sagði henni að senda ,,meystelpu”, sem hjá þeim var til Reykjavíkur og láta bókhaldara verksmiðjanna vita hvað í efni væri. Hann sagði henni að láta ,,meystelpuna” fara út um reykháfinn á eldhúsinu svo lítið bæri á og biðja menn í Reykjavík að bregða þegar við og koma sem fljótast, því að sjer litist mjög illa á gestinn, sem kominn væri til sín. —

Arnesarhellir

Arnesarhellir við Elliðaár.

Í bæjardyrunum snjeri sá danski sjer við og hafði járn í hendinni, en í því bar komumann þar að, en það var Arnes og heimtaði hann nú staf sinn og poka. Bóndi neitaði að láta það af hendi og sagði Arnesi að hann skyldi þá reyna að ná því úr greipum sjer. Ekki þorði Arnes að ráðast á karlinn, en eftir nokkur orðaskifti og heitingar á milli þeirra varð það úr, að Arnes gekk í bæinn og þáði heita mjólk, hefir eflaust verið orðinn langsoltinn. — Bústaðabóndinn gerði nú allt til þess að tefja fyrir Arnesi og var altaf, öðru hvoru, að hlaupa fram í bæjardyrnar til þess að gá að hvort nokkur kæmi úr Reykjavík. Hann var í þungu skapi og setti járnið um þverar dyrnar, en var svo sjálfur fyrir framan svo að Arnes kæmist ekki út. Arnes var hvergi smeikur og gjörði nú skyndiáhlaup á þann danska. Hann hljóp til og greip járnið, en snaraði sjer síðan að bónda og skelti honum flötum á ganginn, tók staf sinn og poka og hljóp út úr bænum og yfir á Digranesháls. Þaðan sá hann svo til hóps manna úr Reykjavík, sem voru komnir innan til á Öskjuhlíðina og hjeldu nú með Bústaðaholti. Bóndi hjelt nú til móts við þá og svo labbaði allur skarinn inn. að Elliðaám. Þegar þangað kom, þorðu þeir ekki yfir árnar, þótti þær ófærar gangandi mönnum og hjeldu upp með þeim, en Arnes hafði hlaupið yfir þær þar efra og sáu þeir á eftir honum. Snjór hafði fallið og var því sporrækt. Eltu þeir nú Arnes þrjátíu í hóp, flest vefarar úr Reykjavík, en þegar Arnes sá þá veita sjer eftirför, sneri hann við og hvarf þeim. Þeir ráku þá för hans suður að Hofsstöðum norðan Vífilsstaðavegs. Hljóp hann þaðan í Garðahraun yfir Vífilsstaði eða Hraunlæk, en þeir eltu hann enn. Arnes tók nú það ráð að halda sig hrauninu og stikla á hraunstríkum, svo að ekki sáust spor hans, enda mistu þeir af honum og leyndist hann í hrauninu um nóttina. Ekki gáfust Reykvíkingar samt upp við þetta og var nú safnað enn meira liði til leitarinnar að Arnesi. —  Um kvöldið var sent til Hafnarfjarðar, um Álftanes og í Garðahverfið að smala mönnum og skipuðu þeir sjer kringum hraunið uni nóttina, því að ekki átti Arnes að sleppa. Allan daginn eftir var hans leitað, en alt var það að árangurslausu og að svo búnu fóru leitarmenn hver heim til sín og þótti ver farið en heima setið. Ekki var grunlaust um, að einhverjir þarna ekki langt frá hefðu hjálpað Arnesi og leynt honum, og voru hjónin á Hofsstöðum tekin föst og sökuð „um bjargir” við Arnes, en að lÖgum mátti honum enginn bjargir veita eða verða honum að nokkru liði, og er það harla einkennilegt þar sem hvergi sjest að hann hafi þá verið dæmdur fyrir þjófnað. Þessi Hofstaðahjón meðgengu það, að þau hefðu ..haldið Arnes á laun” tvo eða þrjá vetur, soðið fyrir hann matvæli og hjálpað honum á ýmsa vegu. — Sýslumaður í Gullbringusýslu var þá Guðmundur Runólfsson, Jónsson frá Höfðabrekku. Hann hafði þessi mál með höndum og dæmdi hann hjónin á Hofsstöðum í miklar fjesektir fyrir það að hafa liðsinnt þessum hælislausa afbrotamanni. — Um þessar mundir var mikið um þjófnaði á Suðurlandi og var það mest kent útileguþjófum, en samt var það nú ekki fyrr en eftir þetta að Arnes lagðist út fyrir fult og alt, og yfirgaf mannabygðir. Það er nú af Arnesi að segja, að hann leyndist í Hafnarfjarðarhrauni altaf meðan á leitinni stóð og leitarmennirnir voru þar að verki og úr hrauninu fór hann ekki fyr en leitinni var hætt og allir voru farnir heim til sín. Áður en hann yfirgaf hraunið faldi hann vel og gróf peninga sína, en þeir höfðu verið í pokanum, sem Bústaðabóndinn danski hafði hrifsað frá honum, þegar hann kom að honum sofandi í þófaramyllunni, og honum hafði verið svo annt um að ná aftur. — Ekki þorði Arnes að hafast við í nágrenni höfuðstaðarins, en brá sjer inn fyrir Hvalfjörð og gjörðist nú útilegumaður.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Síðaan brá hann sjer til æskustöðvanna, suður á Kjalanes og lagðist í Esjuna, og fór þá jafnskjótt að hverfa fjenaður manna. Í Esjunni urðu menn fyrst varir við Arnes þannig, að hann sást oft fáklæddur á hlaupum í hitum að sumrinu og var hann þá að afla sjer eldiviðar til þess að sjóða við slátur það, sem hann hafði stolið. Stundum sást hann koma hlaupandi úr fjallinu ofan í byggð til þess að stela sjer mat og öðru, sem hann þá vanhagaði um. —
Það ljek líka orð á því að Arnes ætti eitthvert hæli eða athvarf einhversstaðar í byggðinni þegar honum lægi mest á og margt þótt ust menn verða varir að hann hefði haft saman að sælda við bóndann í Saltvík á Kjalarnesi sem Þorkell hjet Tómasson, og svo fannst líka fjársjóður, sem Arnes átti og hafði falið einhversstaðar og var það ekki nein smáræðisupphæð, 20 spesíur, 8 dalir krónuverðs og 12 dalir sléttir. — Þorkell í Sandvík var bendlaður við að hafa haft þessa peninga með höndum fyrir Arnes og þótti nú augljóst að Arnes lægi einhversstaðar í Esjunni. — Þegar sýslumaðurinn, Guðmundur Runólfsson frjetti þetta, sendi hann menn til þess að ná Arnes og taka Þorkel bónda í Sandvík fastan og færa sjer þá báða. Var nú safnað liði á Kjalarnesi og leitað fjallið. Fannst hreysi Arnesar, en sjálfur komst hann undan og er sagt, að hann hafi þá átt fótum sínum fjör að launa, þó segja sumir að í þetta skifti hafi hann brugðið fyrir handahlaupum, en talið er ólíklegt að hann hafi þurft þess, þar sem hann var svo frár á fæti að fljótustu hestar höfðu hann ekki á sprettinum.
Eftir að yfirvaldið hafði komið hendur yfir Arnes og flutt í Gullbringusýslu var hann oft lánaður í vinnu að Bessastöðum og er sagt, að alt af, þegar færi gafst. Hafi hann vitjað peninga sinna, sem hann hafði grafið í Garðahrauni og tekið var eftir því, að aldrei skorti hann aura.
Arnes kom sjer svo vel í vinnunni á Bessastöðum, að Wibe amtmaður fjekk konung til þess að náða hann að fullu. Sagt er, að Arnes hafi með snarræði sínu bjargað heilli skipshöfn úr sjávarháska á Álftanesinu, en allar kringumstæður að því eru gleymdar.
Arnes varð gamall maður, en varð aldrei snauður og hafði altaf nokkur peningaráð. Þó að alt væri honum andstætt og öfugt fyrri hluta æfinnar, þá var hann á elliárunum vel látinn af öllum, sem hann kyntist. Að lokum var Arnes niðursetukarl í Engey og þar dó hann 91 árs gamall 7. september 1805 og var jarðaður fjórum dögum síðar í kirkjugarðinum í Reykjavík. Þar hvíla lúin bein hans.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 13. júlí 1941, bls. 233-235.
-Lesbók Morgunblaðsins 17. ágúst 1941, bls. 277-278.

Arnes Pálsson

Fylgsni Arnesar í Elliðaárhólma.

Arnesarhellir

Í Huld, safni alþýðlegra fræða íslenskra, er m.a. fjallað um Arnes Pálsson útilegumann. Er frásögnin “eptir handriti séra Jóns Yngvaldssonar á Húsavík (dáinn 1876) rituðu eftir sögn séra Arnórs Jónssonar í Vatnsfirði (dáinn 1853), en Arnes sagði honum sjálfur kringum 1790.
Arnesarhellir í AkrafjalliÍ handritinu er líst ástæðu fyrir útilegu Arnesar eftir að hann varð uppvís að þjófnaði, “ei fæ jeg sagt hvílíkum”, leitinni að honum á Akrafjalli og vist hans með Fjalla-Eyvindi. Í upphafi segir frá kænvísum viðbrögðum og góðum, en iðrunarfullum úrræðum Arnesar: “Vorið 1755 þegar Magnús amtmaður Gíslason sat á Leirá, en Arnór sýslumaður bjó í Bergsholti í Melasveit varð Arnes nokkur Pálsson á Akranesi eða í Garðasókn uppvís að þjófnaði, ei fæ jeg sagt hvílíkum. En áður hann yrði handsamaður og færður sýslumanni, sem þá var títt, hvarf Arnes úr byggðinni og fannst ekki, þó hans væri víða leitað og voru ýmsar getur um, hvað af honum hefði orðið. En er áleið sumar og nótt tók að dimma, fóru menn á Akranesi og í fleiri bæjum nálægt Akrafelli [í fyrri hluta lýsingarinnar er skrifað -fell] að verða varir hvarfa ýmsra muna úr útibúrum. Ei var heldur trútt um, að smalasveinar, er árla voru uppi, sæi mann bera fyrir sig uppi’ á Akrafelli, því hvarvetna umhverfis fjallið er byggð og bæir. Af þessu öllu saman kom upp kvittur sá og grunur, að Arnes mundi hafa byggistöð sína í Akrafelli og hugðu menn ekki gott til, er hausta og vetra tæki að eiga þar vogest slíkan yfir höfði sér. Hreppstjórar sveitanna báru nú þetta vandræði undir héraðshöfðingja sína, amtmann og sýslumann, er báðir voru hyggnir og hugkvæmir; stefndu þeir þá að sér hreppstjórum öllum og virtustu mönnum af Akranesi og úr Mela- og Leirársveitum og réðu ráðum sínum um, hve hægast mundi að handtaka Arnes; var það þá afráðið að hefja skyldi fangaleit um allt Akrafell einn ákveðinn dag um haustið,
ÁrtúnÍ hreinu og björtu veðri eða fyrsta bjartan dag þar næstan og skyldu hreppstjórar allir kveða upp menn í kringum sig af hverjum bæ og var ákveðinn viss tími, þá allir skyldu jafnsnemma hefja leitina allt í kring upp á fellið. En svo Arnes skyldi á engan veg á undan skotizt, þá var svo ráðkænlega um hnútana búið, að allir leitarmenn skyldu vera á hvítum hásokkum, er næðu upp á mið læri og allir bera alhvítar húfur, svo hvar sem nokkur sæi nokkurn mann á annan veg búinn, þá væri að honum auðgengið, af öllum, er sæju hann. En til enn meiri vissu að vara, að Arnes því síður ætti nokkurn kost að komast undan, voru margir menn hér og þar, á beztu hestum, settir til aðgæzlu skammt frá fjallsrótunum, til að henda Arnes á hlaupi, ef hann einhversstaðar leitaði ofan til undanflúnings og höfðu allir þessir reiðmenn langskeptar ólarsvipur í hendi, til að hringvefja um hlauparann, ef færi gæfist, en þar sem mýrlent var, svo ei varð vel hestum viðkomið, þar voru á víð og dreif valdir hinir knáustu og fráustu menn, skammt frá fjallsrótunum, til að elta og áhenda Arnes, ef ofan kynni að vilja hlaupa einhversstaðar, svo kalla mátti að honum væri hér á allan veg allar bjargir bannaðar til undankomu.
Leifar eftir setuliðið eru víðaNú er ei meir frá tíðindum að segja, fyr en kemur sá hinn ákveðni leitardagur og voru þá um 80 menn búnir til leitarinnar og höfðu alir þann viðbúning, sem hér var gert ráð fyrir gert. Þá var veður gott og bjart og hugðu menn gott til að fá handtakið Arnes, er ekkert vissi um allt þetta kænlega ráðabrugg.
Nú er að segja frá Arnesi, að þennan sama morgun fer hann árla á ferl og flakk úr fylgsnishreysi sínu, er var hæst á Akrafjalli [í hellisskúta undir Háahnúk], þar sem víðast mátti til sjá nálægt fjallinu; getur hann þá að líta, hvar sem auga rennir, að hvaðanæva drífa ríðandi menn að fjallinu. Einnig gætir hann þess, að allir mennirnir nema þeir, er fyrstir fóru, höfðu einkennisbúning til höfuðs og fóta; flýgur honum þá skjótt í hug, hvað nú  muni á seyði og þykir heldur óvænlega áhorfast fyrir sér.
Arnes sér nú leitarmennina drífa að á allar hliðar svo búna Tóft við Selfosssem áður segir.
Hvorki átti hann alhvíta sokka né alhvíta húfu og hvorugt varð gripið upp úr grjótinu. Ei hafði hann heldur krít né hvítan lit, en hér rak bráð nauðsyn eptir að vera bæði snar og snjallráður eða gefast upp og þess kvaðst Arnes lengst síðan iðrazt hafa, að þeð ei gert hefði, en hann varð þó ei með öllu úrræðalaus. Arnes átti skyrtutötur. Af hennir rífur hann ermina, ristir sundur og vefur um höfuð sér og bindur um utan. Hvíta sokka átti hann enga og þá var þar ei hægt að fá og hvað var þá til ráða. Sokka á hann enga nema sauðsvarta og eins lita brók og buxur. Arnes fer úr sokkunum eða flettir þeim í vindil fast ofan á ristar, síðan sprettir hann upp í nærskornar stuttbuxur og brýtur þær upp fyrir mitt læri. Þannig sýndist hann klæddur í uppháa, hvíta sokka. Þá var nú enn ein þraut óunnin, sem var sú, að fá laumazt og læðast saman við aðra leitarmenn, svo enginn yrði var við. Hverju bragði hann beitti til þess man jeg ógerla, en þó tólkst honum það að og þannig gekk hann og leitaði með þeim allra manna vandlegast, allan daginn, og áminnti alltaf þá, er næst honum gengu, að leita sem vandlegast.
En af því leitarmenn, sem voru úr 4 sveitum, voru margir svo ókunnugir innbyrðis, að eigi þekktu hvorir aðra, grunaði enginn Grágrýtisbjarg við hellisskútannArnes.
En er lokið var leitinni síð dags og menn fóru að flokkast saman neðan undir fjallinu, drógst Arnes lítið aptur úr, kvaðst hafa týnt vetlingi úr barmi sér, og vilja svipast að honum og bað þá, er næst honum voru að halda áfram; hann mundi skila sér og við það skildi með þeim, að engan grunaði neitt, þótt öllum þætti undarlegt, að Arness kyldi hvergi vart verða og þóttust ei vita, hverju gegndi. En það er af Arnesi að segja, að honum þótti happ að sleppa, þótt þetta væri upphaf rauna hans, því hvað var ein ráðningarrefsing, þótt nokkuð sár væri, hjá öllu hinu illa, er langvinn, ófrjáls útilega hafði í för með sér, og að hljóta ár frá ári að lifa á ránum og stuldi, ófriðhelgi, úti á öræfum, í vetrarhörkum, og aldrei verða ugglaus um fjör og frelsi.
Næstu nótt kúrði Arnes enn í fylgsni sínu í fjallinu, en þorir þó með engu móti að haldast þar við lengur og býr sig að morgni til burtfarar, en veit þó víst ekki, hvert halda skuli, þá án alls undir vetur sjálfan. Hann hafði þá heyrt getið Fjalla-Eyvindar útilegumanns og heldur vel af honum látið, og kemur helzt í hug, að leita hans upp á líf og dauða…”

Innan við syðra opið

Að lokum segir: “Sagt er að Arnes hafi borið Eyvindi bezta orð fyrir góðmennsku og guðrækni, en vart kvaðst hann [hafa verið] óhræddur um líf sitt fyrir Höllu og Abraham syni hennar (?) meðan hann lifði.
Tvö seinustu árin, sem Arnes lá úti, hafðist hann optast við í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni, unz ellibilun knúði hann að gefa sig alveg á vald byggðamanna kringum 1790 og var þá að nafninu settur í tugthúsið, en af því þá var verið að frumbyggja dómkirkju í Reykjavík, en Arnes var þjóðhagi, var hann hafður þar við smíðar og dó fjörgamall í Engey 7. september 1805 eins og segir í þjóðsögum Jóns Árnasonar II, bls. 247.” Arnes varð einnig um tíma eins konar dyravörður í fangelsinu í Reykjavík, en sú bygging hýsir nú Stjórnarráð Íslands. Til er kansellíbréf til Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns um að láta Arnes Pálsson lausan úr fangahúsinu í Reykjvík, hinn 4. febrúar 1792. Hann lést sem niðursetningur í Engey við Reykjavík árið 1805, sem fyrr sagði, 86 ára gamall.
Og þá var bara að leita að þessu fyrrum fylgsni Arnesar við Elliðaárnar, í landi Ártúns. Framangreind lýsing gefur staðsetninguna til kynna; “…í hellisskúta hjá Elliðaám, skammt frá Ártúni”. Nyrðri hluta ánna hefur verið raskað varanlega, allt frá rafstöðvarhúsunum upp fyrir stíflu (sjá HÉR). Þá hafa árnar hlaupið fram og aftur um ársvæðin, brotið bakka og fært til.
Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla.

Innan við nyrðra opið

Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann (sjá HÉR).
Þegar gengið var upp með og innan við árbakkana beggja vegna neðan frá var hvorki hella né skúta að sjá. Einu minjarnar voru eftir setuliðið, nokkur skeifulaga hlaðin skjól. Ólíklega hefur fylgsni Arnesar við vestan Ártúns því þar er bæði flatlent; flæðihætta, og þar var aðalþjóðleiðin austur um sveitir. Enn vottar fyrir grunni þóaramylluhússins, skammt frá aðalleiðinni yfir vaðið, en það kom einmitt við sögu þegar Arnes lenti í vandræðum og gafst næstum því yfirvöldum á vald.
Hólmahraunin hækka eftir því sem ofar dregur. Spurnir höfðu fengist af hraunsprungu í efsta hólmanum (Blásteinshólma) og innundir honum svolítið rými, varla þó nógu stórt til að hýsa manneskju. Dæmi var um í dagbókarfærslu lögreglunnar að þar hefðu þjófar falið þýfi fyrrum, lítilræði þó. Ferðin yfir í hólmann var ekki árennileg því ekki verður komist í hólmann nema í vöðlum.
Ljóst er að Arnes hefur ekki gert miklar kröfur til vistavera sinna ef marka má önnur nálæg skjól, sem við hann eru kennd, s.s. í Akrafjalli (-felli), við Hraunsholt í Garðabæ og Arnersarhelli við Hvalvatn (sjá HÉR). Hann hefur þó gjarnan búið svo um að munnarnir væru ekki við fjölfarnar sljóðir og ekki auðfundnir. Í Hvalvatni þarf t.d. að vaða spölkorn út í vatnið til að komast inn í skútann. Líklega hefur hann ekki með viðvarandi dvöl á hverjum stað.
Eftir að FERLIR hafði gengið fram og aftur um Elliðaáasvæðið kom einungis einn álitlegur staður til greina. Að vísu gæti áin hafa fært fyrrum hellisskútan í kaf og fyllt hann eða hann fallið saman. Hvorugt virtist þó sennilegt því líklegt mátti telja að Arnes hafi valið sér skjól á nokkuð öruggum stað, þar sem vel sást til mannaferða, en trauðla til hans. Auk þess hefur hann, eftir svo mörg ár á flótta, lært af refsins klækjum; fundið stað með fleiri en einum útgangi, ef á þyrfti að halda – að fenginni reynslu. Fangavist yfirvaldsins á Ströndum hafði ekki verið nein sæla þótt alþýðufólkið hafi sýnt honum nærgætni. Viðbrögðin voru því, er hér var komið, að forðast yfirvaldið og þess menn með sem bestum ráðum.

Nyrðra hellisopið

Ljóst má vera að Arnes hefur gengið beina hjá Ártúnsfólkinu, en svo hafði bærinn heitið allt frá 1584 (áður hét hann Árland neðra). En vegna gestaferða um fjölfarinn túngarðinn hefur Arnes þurft öryggt afdrep. Eflaust hefur hann notað það sem skjól því sagan segir að komið hafi verið að honum sofandi í þóaramyllunni fyrrnefndu og munaði litlu að þá tækist að koma honum undir manna hendur. Flúði hann í hraunin við Álftanes, en þar má enn sjá skjól það er hann hafðist þá í um tíma.
Staðurinn, sem líklegastur er til að geyma “Arnesarhelli” í Elliðaárdal sendur hátt, við Hólmstá, reyndar á besta stað. Tvö op er á hellisskútanum, sem er um 10 metra langur. Stærra opið, það nyrðra, horfir heim að Árbæ, en bærinn er þó ekki í sjónfæri. Utan við syðra opið er lausagrjót. Nokkra slíka steina má sjá innan við opið. Hellirinn er ekki auðfundinn, enda lágur. Ofar heitir Selfoss. Milli hans og hellisins eru leifar af tvískiptri tóft, hugsanlega tímabundinni selstöðu eða aðhaldi. Sunnar er Kermóafoss (Skorarhylsfoss/Indíánafoss). Við hann eru tveir grunnir skútar, en undir hraunveggnum þar er hið ágætasta skjól. Utan við hellismunnann er stórt grágrýtisbjarg, sem ísaldarjökullinn hefur skilið eftir. Við það má auðveldlega dyljast á alla vegu fyrir mannaferðum handan árbakkanna.
Hafa ber í huga að þarna gæti Arnes, hinn þrautreyndi útilegumaður á öræfum Íslands um mörg ár, hafa hafst við þau tvö ár er hann dvaldi við Ártún.
Frábært veður.

Heimild:
-Huld – safn alþýðlegra fræða íslenskra, 1890-1898, I, bls. 31-37.
-Örnefnastofnun Íslands.

Nyrði hluti hellisins