Nauthóll
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma og einn af sex bæja er byggðust út frá Skildinganesi. Hann var því hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og var hann þá brenndur. Tóftirnar sjást enn auk garða og fleiri mannvirkja er tilheyrðu.
Nauthóll

Nauthóll.

“Nauthóllinn, sem bærinn dró nafn sitt af, stendur enn óhreyfður þrátt fyrir að setuliðið hafi flatt flest út á þessum slóðum á stríðsárunum. Bærinn, umgirtur garði, stóð austan við hólinn.
Gamli bærinn á Skildinganesi var rifinn á árunum 1869-1870 og byggður nýr bær. Bærinn var byggður úr grjóti og torfi. Tvíbýlt var á Nesinu og stutt bil milli bæjanna. Á göflunum voru tveir gluggar en báðir bæirnir voru eins. Sex rúðu gluggi niðri en fjögurra rúðu gluggi uppi. Það var ekki hátt til lofts í nýja bænum. Niðri var varla manngengt og urðu stórir menn að ganga hálfbognir eftir göngunum.

Nauthóll

Nauthóll á korti frá 1903.

Á nesinu voru þrjár aðalvarir, austurvör, miðvör og vesturvör. Hafa bæirnir verið byggðir 140-150 faðma upp af vörunum. Í Austurvörinni lenti bóndinn í Austurbænum og vesturvörin var fyrir bóndann í Vesturbænum en miðvörin var fyrir kotin.
Á milli bæjanna var ekki nema tveggja faðma bil eða traðir og þessar traðir lágu áfram norður túnið að túngarðinum, en traðirnar voru hlaðnar upp til beggja handa til varnar túninu. Útihús voru nokkur.

Nauthóll

Nauthóll – matjurtargarður.

Auk aðalbýlanna á nesinu voru þar sex kot. Í túninu stóðu þessi kot. Margrétarkot, Harðarkot og Austurkot. Þetta voru smábýli og fylgdi hverju þeirra eitt kýrgras, nema Harðarkoti.
Margrétarkot var vestast í túninu og bjuggu Árni og Valgerður foreldrar Árna læknis á Akranesi þar.
Fjórða kotið var Nauthóll sem stóð austarlega á landinu, næstum því austur undir Öskjuhlíð, sem fyr var nefnt.
Fimmta kotið var Þormóðsstaðir. Sjötta býlið var Lambhóll sem stóð fast við landamerki Skildinganess og Grímstaðaholts niður við sjó.

Nauthóll

Minjar í bæjarstæði Nauthóls.

Árið 2006 vann Minjasafn Reykjavíkur fornleifaskráningu væntanlegrar lóðar Háskóla Reykjavíkur vestan Öskjuhlíðar að beiðni skipulagsfulltrúa Reykjavíkur vegna deiliskipulagsvinnu. Í henni er m.a. fjallað um jörðina Nauthól ofan Nauthólsvíkur.
“Nauthóll er ein af sex hjáleigum Skildinganess, og var hann kominn í byggð um 1850. Bærinn stóð skammt norður af samnefndri vík. Hann var við vegarslóða sem fyrrum var allfjölfarinn og lá hann með sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Um síðustu aldamót mun taugaveiki hafa stungið sér niður í Nauthóli og var hann þá brenndur að ráði Guðmundar Björnssonar landlæknis. Síðan hefur ekki verið búið þar.

Nauthóll

Nauthóll – útihús.

Ýmsar minjar eftir Nauthól hafa varðveist, bæði húsarústir, garðar og brunnar. Tvö kort eru til sem sýna hvernig Nauthóll var í stórum dráttum. Annað kortið er frá árinu 1903, hitt er frá 1933. Með hjálp þeirra er hægt að glöggva sig á rústunum. Hóllinn, Nauthóll, er einnig á sínum stað, þrátt fyrir tilhneigingu setuliðsins á árunum 1940-1945 til að slétta land á þessum slóðum. Kortinn sýna nánast það sama en síðari mælingin er nokkuð nákvæmari, bærinn er þá löngu farinn í eyði.” Mógrafirnar voru fyrir norðan og norðvestan bæinn, nú jafnan fullar af vatni.

Nauthóll

Nauthóll  og nágrenni 1903.

Um bæjarhúsin í Nauthóli greinir Sigurður í Görðum svo frá í æviminningum sínum, en hann ólst upp í Skildinganesi. “Á Nauthóli var tvíbýli. Bæjarhúsin voru byggð hvort sínu megin við allmikið bjarg og myndaði bjargið sameiginlegan gafl húsanna. Á stríðsárunum, 1940-1945, setti setuliðið upp mastur með steyptri undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin höfðu staðið, svo að nær ekkert er eftir af tóftum þeirra.” Bjargið sem Sigurður í Görðum minntist á enn á sínum stað.
“Á bæjarhólnum voru nokkur útihús og matjurtagarðar. Greinilegt er að rústunum hefur aðeins verið breytt, frá því að þær voru mældar upp 1933, og má trúlega rekja það til hersetunnar á svæðinu.”

Nauthóll

Nauthóll -Bæjarstæðið árið 1933.

Í fornleifaskráningunni er auk þessa staðháttum lýstþars em m.a. er vitnað í Sigurð í Görðum: „Fjórða kotið á nesinu var Nauthóll. Hann stóð austarlega á landi Skildinganess, næstum því austur undir Öskjuhlíð. Kotið var byggt við hól nokkurn og mun hafa dregið nafn sitt af honum, hóllinn stóð vestur af bænum, en dálítill túnblettur var á milli.“
Jafnframt kemur fram að “…Nauthóll var austasti bærinn í Skildinganeslandi. Uppmæling á bæjarhúsunum er til á kortum frá 1903 og 1933. Bæjarhúsin eru syðst við Hlíðarfót að vestan, ekki langt frá bröggum sem eru á vegum Flugmálastjórnar, svæðið er grasi gróið og þýft og er búið að gróðursetja í hluta af svæðinu.

Nauthóll

Nauthóll – bæjarstæðið fyrrum.

Bæjarhúsin voru 11 x 8 m skv. korti síðan 1933. Veggir voru úr torfi og grjóti, um 1,0 – 1,2 m á breidd og 0,5 – 0,7 m á hæð. Húsið hefur verið með tvær burstir. Hólfin eru nú illgreinanleg.”
Þótt hvorki býlið né búskapur að Nauthóli geti varla talist sérstakrar frásagnar virði umfram önnur kot á svæðinu hefur Minjasafn Reykjavíkur unnið sína vinnu af samviskusemi enda runnið blóðið til skyldunnar þegar boð kom frá skipulagsfulltrúanum að skrá skyldi alla byggðina. Skýrslan um svæðið hefur að öllum líkindum kostað meira en sem samsvaraði kotinu á sínum tíma. Eftir stendur vitundin um minjarnar, sem væntanlega munu hverfa sjónum fólks innan skamms undir byggingar Háskóla Reykjavíkur.

Nauthóll

Nauthóll.

Reykjavíkurbærinn átti land að Skildinganesi. Margar minjarnar vestan Öskjuhlíðar tilheyrðu honum. Á mörkunum er Öskjuhlíðarselið, sem stundum hefur ranglega verið nefnt Reykjavíkursel eða Víkursel. Sú selstaða mun hafa verið við Selvatn þar sem Urðarlágarlækur rennur í vatnið. Sunnan við það voru Litlasel og Stórasel. Víkurselið er nú að mestu horfið í mýri, en þó má enn sjá hvar það var.
Skammt frá Öskjuhlíðarseli eru ýmsar minjar, s.s. fjárborg og stekkur.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Þótt selsheitið hafi í seinni tíð verið á aðstöðunni þarna undir hlíðinni er ekki fullvíst að hún hafi verið nýtt sem slík. Tóftirnar, sem nú hafa illu heilli verið lagðar undir trjárækt, gætu alveg eins gefið vísbendingu um fráfærur frá Skildinganesbæjunum, sem stóðu þeim næst.
Nauthólsvíkin og Nauthóll munu hins vegar standa vörð um Nauhólsbæjarnafnið enn um sinn þótt eggið hafi auðvitað komið á eftir hænunni. Víkin og bærinn drógu nöfn af hólnum. Þess vegna er hóllinn þar sem naut (þarfanaut til viðhalds lífi) komu fyrrum við sögu, og enn stendur, merkilegastur. Vonandi verður honum hlíft við væntanlegar framkvæmdir á svæðinu.”

Enn í dag (2024) má sjá leifar Nauthóls, s.s. úihúss, matjurtargarða og veggjarbrota, auk hólsins, þrátt fyrir að bænum hafi verið rutt um koll á síðari hluta fjórðaáratugs síðustu aldar.

Heimildir m.a.:
-http://reykjavikurborg.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/
skipulagsm_ /mal_kynningu/adalskipulag_2006/Vatnsmyri_vidauki3.pdf
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_nautholsvik.htm
-http://skildinganes.homestead.com/bok.html

Nauthólssvæðið