Tag Archive for: Nauthóll

Reykjavíkurflugvöllur

Í „Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsveg“ árið 2019 segir m.a. um nokkra uppistandandi bragga og hús ofan Nauthólsvíkur:

Braggi 1

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 100.

„Þyrping húsa við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Um er að ræða nokkur sambyggð, steinsteypt og hlaðin hús ásamt áföstum bragga.
Þessi hús, ásamt stökum bragga norðar á lóðinni (sjá mhl. 10), voru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „Transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.

Reykjavíkurflugvöllur

Herkampar við Reykjavíkurflugvöll og Nauthólsvík.

Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. Um skeið (1947-1948) var reksturinn í höndum einkaaðila og hótelið þá nefnt Hótel Ritz. Árið 1948 tók Ferðaskrifstofa ríkisins við rekstri hótelsins sem var eftir það kallað Flugvallarhótelið og var starfrækt til 1951, þegar því var lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn. Árið 1971 fékk Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey, aðstöðu í hluta bygginganna og er þar enn í dag (2019). Í júlílok 2008 skemmdist austurhluti húsanna í eldi. Húsin voru í umsjón Flugmálastjórnar Íslands til 2010 en þá urðu þau eign Reykjavíkurborgar.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1946.

Frá 1998 var svæðið ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri
stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að húsaþyrpingin yrði hverfisvernduð.
Árið 2016 fékkst leyfi til að taka niður braggann austast í þyrpingunni sem dæmdur var ónýtur og byggja nýjan í sömu mynd og innrétta þar veitingastað, einnig endurbyggja og lyfta þaki svokallaðs náðhús norðan við braggann og innrétta þar fyrirlestrarsal, sem og endurbæta áfasta skemmu vestan við braggann og innrétta þar frumkvöðlasetur, auk þess að byggja nýja tengibyggingu milli húsanna í stað eldri millibyggingar. Breytingarnar hafa verið framkvæmdar að hluta (2019).“

Braggi 2

Nauthólsvík

Braggi að Nauthólsvegi 100.

„Stakur braggi af gerðinni BUTLER (bandarísk gerð), matshluti 10 á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Þessi braggi, ásamt húsaþyrpingu sunnar á lóðinni, var upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.
Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum, eins og þessum, sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í syðri húsunum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o fl.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 15. 10. 1942. Þarna er ekki búið að reisa „Camp Transit“.

Eftir stríð var rekið þarna flughótel á vegum flugmálastjórnar og seinna Ferðaskrifstofu ríkisins (Flugvallarhótelið) en árið 1951 var hótelinu lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn.
Af loftmyndum má sjá að bragginn hefur upphaflega verið um helmingi lengri en hann er í dag. Í honum munu hafa verið átta herbergi og gangur eftir honum endilöngum. Einhvern tíma á tímabilinu 1954-1965 hefur vesturhelmingur hans verið fjarlægður. Ekki er ljóst hvort þá var komið fyrir stórum skúrdyrum sem eru á vesturgafli. Að öðru leyti virðist bragginn að mestu óbreyttur að ytra byrði. Á stríðsárunum voru reistir mörghundruð braggar af þessari gerð í Reykjavík. Í dag (2019) stendur þessi braggi eftir sem eini upprunalegi bragginn af þessari gerð á svæðinu.

Nauthólsvík

Nauthólsvík 1942.

Svæðið sem bragginn stendur á var frá 1998 ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að þetta hús ásamt húsaþyrpingunni á lóðinni yrði hverfisverndað.
Bragginn hefur undanfarin ár hýst félagsheimili víkingafélagsins Einherja. Við braggann stendur dreifistöðvarskúr, byggður 1990-1995.“

Braggi 3

Nauthólsvík

Braggar við Nauthólsveg 99.

„Tveir samsíða braggar við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 99. Þessi braggar voru reistir af breska setuliðinu og eru af gerðinni Nissen. Annar þeirra, sá sem stendur sunnar, virðist sjást á loftmynd sem tekin var í október 1942 og báðir sjást á loftmynd sem tekin var sumarið 1943 (en byggingarár skv. Fasteignaskrá er 1945). Þeir hýstu meðal annars skósmíðaverkstæði og saumastofu hersins á stríðsárunum. Eftir stríð var þarna lengi aðstaða fyrir Flugbjörgunarsveitina.

Nauthólsvík

Flugröst.

Braggarnir eru nú (2019) í eigu ríkissjóðs. Í öðrum þeirra hefur í mörg ár verið félagsheimili starfsmanna Flugmálastjórnar Íslands sem kallað er Flugröst. Hinn (mhl. 02) er skráður sem vörugeymsla (Fasteignaskrá 2019).

Sportkafarafélagið

Nauthólsvík

Nauthólsvegur 100a.

Timburhús við Nauthólsvík, með staðfangið Nauthólsvegur 100a. Um er að ræða hús sem Sportkafarafélag Íslands reisti sem félagsheimili á árunum 1989-1990. Félagið fékk leyfi fyrir byggingu bráðabirgðahúss á lóðinni í júlí 1989, með þeirri kvöð að húsið yrði rifið borgarsjóði að kostnaðarlausu, þegar krafist yrði. Húsið teiknaði Einar Ingimarsson arkitekt.
Um byggingu hússins segir á vefsíðu félagsins:
„Árið 1987 var ákveðið að fara í að reisa félagsheimili Sportkafarafélags Íslands. Keypt var notað timbur frá trésmiðjunni Völundi sem þá var verið að rífa og síðan hófst leit að stað.

Nauthólsvík

Merki Sportkafarafélags Íslands.

Fleiri en einn staður komu til greina en erfitt var að fá leyfi hjá viðkomandi yfirvöldum. Árið 1989 fékkst fjárstyrkur frá borgaryfirvöldum og fékk félagið úthlutaða lóð í Nauthólsvík og bygging félagsheimilisins hófst. Húsnæðið var tekið í notkun 1994 og hefur verið við haldið af natni síðan“ (www.kofun.is: Um SKFÍ – Sagan, sótt í mars 2019).
Árið 2004 fékk húsið staðfangið Hlíðarfótur 81a en árið 2010 var götuheitinu breytt og húsið fékk þá staðfangið Nauthólsvegur 100a.
Húsinu virðist ekki hafa verið breytt að ráði frá því að það var byggt.

Braggi  við Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur – braggi.

Þyrping húsa við Reykjavíkurflugvöll. Húsin eru öll skráð undir heitinu Flugvöllur 106748 í Fasteignaskrá en tölunar vísa í landnúmerið. Elsta húsið er byggt árið 1941 en það yngsta árið 1997. Flest eru þau byggð frá 1941-1960. Í dag (2013) eru húsin notuð sem flugskýli, tækjageymsla, fjarskiptastöð, spennistöð, geymslur, skrifstofur og fleira.
Bragginn var upphaflega einn fjögurra sambyggðra skemmubragga. Bragginn var upphaflega notaður af setuliðinu en eftir að flugvöllurinn komst í eigu íslenskra flugmálayfirvalda var hann í fyrstu notaður sem geymsla en síðan flutti slökkvilið flugvallarins aðsetur sitt í braggann.

Reykjavíkurflugvöllur

Bragginn við Reykjavíkurflugvöll.

Árið 1962 brunnu hinir þrír braggarnir. Við suðurhlið braggans hefur verið hlaðin viðbygging og settur steinsteyptur umbúnaður fyrir akstursdyr. Ekki er finna heimildir um hvenær það var gert.
Síðustu áratugi hefur bragginn verið notaður sem vélageymsla flugvallarins.“

Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá fimmta áratug síðustu aldar hefur bröggum, stríðsminjunum, ofan við Nauthólsvík og við Reykjavíkurflugvöll fækkað svo um munar.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2013.

Reykjavíkurflugvöllur

Nauthólfsvík 1946 – braggahverfið.

Nauthóll
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma og einn af sex bæja er byggðust út frá Skildinganesi. Hann var því hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og var hann þá brenndur. Tóftirnar sjást enn auk garða og fleiri mannvirkja er tilheyrðu.
Nauthóll

Nauthóll.

„Nauthóllinn, sem bærinn dró nafn sitt af, stendur enn óhreyfður þrátt fyrir að setuliðið hafi flatt flest út á þessum slóðum á stríðsárunum. Bærinn, umgirtur garði, stóð austan við hólinn.
Gamli bærinn á Skildinganesi var rifinn á árunum 1869-1870 og byggður nýr bær. Bærinn var byggður úr grjóti og torfi. Tvíbýlt var á Nesinu og stutt bil milli bæjanna. Á göflunum voru tveir gluggar en báðir bæirnir voru eins. Sex rúðu gluggi niðri en fjögurra rúðu gluggi uppi. Það var ekki hátt til lofts í nýja bænum. Niðri var varla manngengt og urðu stórir menn að ganga hálfbognir eftir göngunum.

Nauthóll

Nauthóll á korti frá 1903.

Á nesinu voru þrjár aðalvarir, austurvör, miðvör og vesturvör. Hafa bæirnir verið byggðir 140-150 faðma upp af vörunum. Í Austurvörinni lenti bóndinn í Austurbænum og vesturvörin var fyrir bóndann í Vesturbænum en miðvörin var fyrir kotin.
Á milli bæjanna var ekki nema tveggja faðma bil eða traðir og þessar traðir lágu áfram norður túnið að túngarðinum, en traðirnar voru hlaðnar upp til beggja handa til varnar túninu. Útihús voru nokkur.

Nauthóll

Nauthóll – matjurtargarður.

Auk aðalbýlanna á nesinu voru þar sex kot. Í túninu stóðu þessi kot. Margrétarkot, Harðarkot og Austurkot. Þetta voru smábýli og fylgdi hverju þeirra eitt kýrgras, nema Harðarkoti.
Margrétarkot var vestast í túninu og bjuggu Árni og Valgerður foreldrar Árna læknis á Akranesi þar.
Fjórða kotið var Nauthóll sem stóð austarlega á landinu, næstum því austur undir Öskjuhlíð, sem fyr var nefnt.
Fimmta kotið var Þormóðsstaðir. Sjötta býlið var Lambhóll sem stóð fast við landamerki Skildinganess og Grímstaðaholts niður við sjó.

Nauthóll

Minjar í bæjarstæði Nauthóls.

Árið 2006 vann Minjasafn Reykjavíkur fornleifaskráningu væntanlegrar lóðar Háskóla Reykjavíkur vestan Öskjuhlíðar að beiðni skipulagsfulltrúa Reykjavíkur vegna deiliskipulagsvinnu. Í henni er m.a. fjallað um jörðina Nauthól ofan Nauthólsvíkur.
„Nauthóll er ein af sex hjáleigum Skildinganess, og var hann kominn í byggð um 1850. Bærinn stóð skammt norður af samnefndri vík. Hann var við vegarslóða sem fyrrum var allfjölfarinn og lá hann með sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Um síðustu aldamót mun taugaveiki hafa stungið sér niður í Nauthóli og var hann þá brenndur að ráði Guðmundar Björnssonar landlæknis. Síðan hefur ekki verið búið þar.

Nauthóll

Nauthóll – útihús.

Ýmsar minjar eftir Nauthól hafa varðveist, bæði húsarústir, garðar og brunnar. Tvö kort eru til sem sýna hvernig Nauthóll var í stórum dráttum. Annað kortið er frá árinu 1903, hitt er frá 1933. Með hjálp þeirra er hægt að glöggva sig á rústunum. Hóllinn, Nauthóll, er einnig á sínum stað, þrátt fyrir tilhneigingu setuliðsins á árunum 1940-1945 til að slétta land á þessum slóðum. Kortinn sýna nánast það sama en síðari mælingin er nokkuð nákvæmari, bærinn er þá löngu farinn í eyði.“ Mógrafirnar voru fyrir norðan og norðvestan bæinn, nú jafnan fullar af vatni.

Nauthóll

Nauthóll  og nágrenni 1903.

Um bæjarhúsin í Nauthóli greinir Sigurður í Görðum svo frá í æviminningum sínum, en hann ólst upp í Skildinganesi. „Á Nauthóli var tvíbýli. Bæjarhúsin voru byggð hvort sínu megin við allmikið bjarg og myndaði bjargið sameiginlegan gafl húsanna. Á stríðsárunum, 1940-1945, setti setuliðið upp mastur með steyptri undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin höfðu staðið, svo að nær ekkert er eftir af tóftum þeirra.“ Bjargið sem Sigurður í Görðum minntist á enn á sínum stað.
„Á bæjarhólnum voru nokkur útihús og matjurtagarðar. Greinilegt er að rústunum hefur aðeins verið breytt, frá því að þær voru mældar upp 1933, og má trúlega rekja það til hersetunnar á svæðinu.“

Nauthóll

Nauthóll -Bæjarstæðið árið 1933.

Í fornleifaskráningunni er auk þessa staðháttum lýstþars em m.a. er vitnað í Sigurð í Görðum: „Fjórða kotið á nesinu var Nauthóll. Hann stóð austarlega á landi Skildinganess, næstum því austur undir Öskjuhlíð. Kotið var byggt við hól nokkurn og mun hafa dregið nafn sitt af honum, hóllinn stóð vestur af bænum, en dálítill túnblettur var á milli.“
Jafnframt kemur fram að „…Nauthóll var austasti bærinn í Skildinganeslandi. Uppmæling á bæjarhúsunum er til á kortum frá 1903 og 1933. Bæjarhúsin eru syðst við Hlíðarfót að vestan, ekki langt frá bröggum sem eru á vegum Flugmálastjórnar, svæðið er grasi gróið og þýft og er búið að gróðursetja í hluta af svæðinu.

Nauthóll

Nauthóll – bæjarstæðið fyrrum.

Bæjarhúsin voru 11 x 8 m skv. korti síðan 1933. Veggir voru úr torfi og grjóti, um 1,0 – 1,2 m á breidd og 0,5 – 0,7 m á hæð. Húsið hefur verið með tvær burstir. Hólfin eru nú illgreinanleg.“
Þótt hvorki býlið né búskapur að Nauthóli geti varla talist sérstakrar frásagnar virði umfram önnur kot á svæðinu hefur Minjasafn Reykjavíkur unnið sína vinnu af samviskusemi enda runnið blóðið til skyldunnar þegar boð kom frá skipulagsfulltrúanum að skrá skyldi alla byggðina. Skýrslan um svæðið hefur að öllum líkindum kostað meira en sem samsvaraði kotinu á sínum tíma. Eftir stendur vitundin um minjarnar, sem væntanlega munu hverfa sjónum fólks innan skamms undir byggingar Háskóla Reykjavíkur.

Nauthóll

Nauthóll.

Reykjavíkurbærinn átti land að Skildinganesi. Margar minjarnar vestan Öskjuhlíðar tilheyrðu honum. Á mörkunum er Öskjuhlíðarselið, sem stundum hefur ranglega verið nefnt Reykjavíkursel eða Víkursel. Sú selstaða mun hafa verið við Selvatn þar sem Urðarlágarlækur rennur í vatnið. Sunnan við það voru Litlasel og Stórasel. Víkurselið er nú að mestu horfið í mýri, en þó má enn sjá hvar það var.
Skammt frá Öskjuhlíðarseli eru ýmsar minjar, s.s. fjárborg og stekkur.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Þótt selsheitið hafi í seinni tíð verið á aðstöðunni þarna undir hlíðinni er ekki fullvíst að hún hafi verið nýtt sem slík. Tóftirnar, sem nú hafa illu heilli verið lagðar undir trjárækt, gætu alveg eins gefið vísbendingu um fráfærur frá Skildinganesbæjunum, sem stóðu þeim næst.
Nauthólsvíkin og Nauthóll munu hins vegar standa vörð um Nauhólsbæjarnafnið enn um sinn þótt eggið hafi auðvitað komið á eftir hænunni. Víkin og bærinn drógu nöfn af hólnum. Þess vegna er hóllinn þar sem naut (þarfanaut til viðhalds lífi) komu fyrrum við sögu, og enn stendur, merkilegastur. Vonandi verður honum hlíft við væntanlegar framkvæmdir á svæðinu.“

Enn í dag (2024) má sjá leifar Nauthóls, s.s. úihúss, matjurtargarða og veggjarbrota, auk hólsins, þrátt fyrir að bænum hafi verið rutt um koll á síðari hluta fjórðaáratugs síðustu aldar.

Heimildir m.a.:
-http://reykjavikurborg.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/
skipulagsm_ /mal_kynningu/adalskipulag_2006/Vatnsmyri_vidauki3.pdf
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_nautholsvik.htm
-http://skildinganes.homestead.com/bok.html

Nauthólssvæðið

Öskjuhlíð

Í „Byggðakönnun; fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð“ frá árinu 2013 má lesa eftirfarandi um Víkursel:

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð – á kafi í gróðri.

„Vestan í Öskjuhlíðinni er merkilegur staður sem nefnist Víkursel. Nafngiftin bendir til seljabúsakapar þar. Helgi M. Sigurðsson sagnfræðingur rannsakaði sögu selsins og ritaði eftirfarandi:
Elsta ritaða heimild um seljabúskap Reykjavíkurbænda er eignaskrá, öðru nafni máldagi, frá 1379. Er selið þar sagt vera í Víkurholti, sem gæti verið eldra nafn á Öskjuhlíð en einnig eru getgátur um að það hafið verið Skólavörðuholt. Staðsetning selsins framan af er þannig óljós. Selin gætu raunar hafa verið fleiri en eitt og vísast hafa þau verið flutt til í aldanna rás.

Í máldögum frá 1397 og 1505 er ekki getið um selið. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir er mjög fáorðir um búskaparefni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, „fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband.“ Kona hans var Þórey Narfadóttir bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði. En hann hefur í raun ekki á miklu að byggja í því efni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru Öskjuhlíð sunnan- og vestanverð. Athyglisvert er að hér er talað um „gamla Víkursel.“ Það styður þá ályktun að löng hefð hafi verið fyrir selinu á þessum stað.

Víkursel

Víkursel – stekkur.

Skýrasta lýsingin á staðsetningu Víkursels er frá upphafi 19. aldar, um það leyti sem það var lagt niður. Kona að nafni Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar í Hlíðarhúsum, var síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 var hún beðin að gefa vitnisburð um landamerki milli Reykjavíkur og Skildinganess og sagði þá meðal annars: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð…“ Þessi vitnisburður færir okkur talsvert áleiðis.

Víkursel

Víkursel.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur skráði í fornleifaskrá Reykjavíkur Víkursel, en hann taldi fornleifarnar vera ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr um hvort um sel væri að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu að þetta sé Víkursel eru umhverfisaðstæður, það er að segja lækurinn og beitilandið sem hefur verið gott þarna í kring, auk þess sem stekkur er ekki fjarri. Í dag (2013) er selið hulið barrtrjám sem þarf að fjarlægja.“

Sjá meira um Víkusel HÉR.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun – Reykjavík 2013, bls. 6-7.

Víkursel

Víkursel – fjárborg.