Í „Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsveg“ árið 2019 segir m.a. um nokkra uppistandandi bragga og hús ofan Nauthólsvíkur:
Braggi 1
„Þyrping húsa við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Um er að ræða nokkur sambyggð, steinsteypt og hlaðin hús ásamt áföstum bragga.
Þessi hús, ásamt stökum bragga norðar á lóðinni (sjá mhl. 10), voru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „Transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.
Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. Um skeið (1947-1948) var reksturinn í höndum einkaaðila og hótelið þá nefnt Hótel Ritz. Árið 1948 tók Ferðaskrifstofa ríkisins við rekstri hótelsins sem var eftir það kallað Flugvallarhótelið og var starfrækt til 1951, þegar því var lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn. Árið 1971 fékk Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey, aðstöðu í hluta bygginganna og er þar enn í dag (2019). Í júlílok 2008 skemmdist austurhluti húsanna í eldi. Húsin voru í umsjón Flugmálastjórnar Íslands til 2010 en þá urðu þau eign Reykjavíkurborgar.
Frá 1998 var svæðið ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri
stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að húsaþyrpingin yrði hverfisvernduð.
Árið 2016 fékkst leyfi til að taka niður braggann austast í þyrpingunni sem dæmdur var ónýtur og byggja nýjan í sömu mynd og innrétta þar veitingastað, einnig endurbyggja og lyfta þaki svokallaðs náðhús norðan við braggann og innrétta þar fyrirlestrarsal, sem og endurbæta áfasta skemmu vestan við braggann og innrétta þar frumkvöðlasetur, auk þess að byggja nýja tengibyggingu milli húsanna í stað eldri millibyggingar. Breytingarnar hafa verið framkvæmdar að hluta (2019).“
Braggi 2
„Stakur braggi af gerðinni BUTLER (bandarísk gerð), matshluti 10 á lóðinni Nauthólsvegi 100 (áður Hlíðarfótur 81). Þessi braggi, ásamt húsaþyrpingu sunnar á lóðinni, var upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins.
Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum, eins og þessum, sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í syðri húsunum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o fl.
Eftir stríð var rekið þarna flughótel á vegum flugmálastjórnar og seinna Ferðaskrifstofu ríkisins (Flugvallarhótelið) en árið 1951 var hótelinu lokað fyrir fullt og allt. Á seinni hluta 6. áratugarins var stór hluti bragganna í þyrpingunni rifinn.
Af loftmyndum má sjá að bragginn hefur upphaflega verið um helmingi lengri en hann er í dag. Í honum munu hafa verið átta herbergi og gangur eftir honum endilöngum. Einhvern tíma á tímabilinu 1954-1965 hefur vesturhelmingur hans verið fjarlægður. Ekki er ljóst hvort þá var komið fyrir stórum skúrdyrum sem eru á vesturgafli. Að öðru leyti virðist bragginn að mestu óbreyttur að ytra byrði. Á stríðsárunum voru reistir mörghundruð braggar af þessari gerð í Reykjavík. Í dag (2019) stendur þessi braggi eftir sem eini upprunalegi bragginn af þessari gerð á svæðinu.
Svæðið sem bragginn stendur á var frá 1998 ætlað fyrir stríðsminjasafn í deiliskipulagi en því var breytt 2013 og lóðin skilgreind fyrir veitingastað eða aðra starfsemi og þjónustu og leyfð endurbygging á byggingum sem tæki mið af upprunalegri stærð þeirra og útliti. Í skýrslu Minjasafns Reykjavíkur nr. 161/2013 var lagt til að þetta hús ásamt húsaþyrpingunni á lóðinni yrði hverfisverndað.
Bragginn hefur undanfarin ár hýst félagsheimili víkingafélagsins Einherja. Við braggann stendur dreifistöðvarskúr, byggður 1990-1995.“
Braggi 3
„Tveir samsíða braggar við Nauthólsvík í útjaðri Reykjavíkurflugvallar á lóðinni Nauthólsvegi 99. Þessi braggar voru reistir af breska setuliðinu og eru af gerðinni Nissen. Annar þeirra, sá sem stendur sunnar, virðist sjást á loftmynd sem tekin var í október 1942 og báðir sjást á loftmynd sem tekin var sumarið 1943 (en byggingarár skv. Fasteignaskrá er 1945). Þeir hýstu meðal annars skósmíðaverkstæði og saumastofu hersins á stríðsárunum. Eftir stríð var þarna lengi aðstaða fyrir Flugbjörgunarsveitina.
Braggarnir eru nú (2019) í eigu ríkissjóðs. Í öðrum þeirra hefur í mörg ár verið félagsheimili starfsmanna Flugmálastjórnar Íslands sem kallað er Flugröst. Hinn (mhl. 02) er skráður sem vörugeymsla (Fasteignaskrá 2019).
Sportkafarafélagið
Timburhús við Nauthólsvík, með staðfangið Nauthólsvegur 100a. Um er að ræða hús sem Sportkafarafélag Íslands reisti sem félagsheimili á árunum 1989-1990. Félagið fékk leyfi fyrir byggingu bráðabirgðahúss á lóðinni í júlí 1989, með þeirri kvöð að húsið yrði rifið borgarsjóði að kostnaðarlausu, þegar krafist yrði. Húsið teiknaði Einar Ingimarsson arkitekt.
Um byggingu hússins segir á vefsíðu félagsins:
„Árið 1987 var ákveðið að fara í að reisa félagsheimili Sportkafarafélags Íslands. Keypt var notað timbur frá trésmiðjunni Völundi sem þá var verið að rífa og síðan hófst leit að stað.
Fleiri en einn staður komu til greina en erfitt var að fá leyfi hjá viðkomandi yfirvöldum. Árið 1989 fékkst fjárstyrkur frá borgaryfirvöldum og fékk félagið úthlutaða lóð í Nauthólsvík og bygging félagsheimilisins hófst. Húsnæðið var tekið í notkun 1994 og hefur verið við haldið af natni síðan“ (www.kofun.is: Um SKFÍ – Sagan, sótt í mars 2019).
Árið 2004 fékk húsið staðfangið Hlíðarfótur 81a en árið 2010 var götuheitinu breytt og húsið fékk þá staðfangið Nauthólsvegur 100a.
Húsinu virðist ekki hafa verið breytt að ráði frá því að það var byggt.
Braggi við Reykjavíkurflugvöll
Þyrping húsa við Reykjavíkurflugvöll. Húsin eru öll skráð undir heitinu Flugvöllur 106748 í Fasteignaskrá en tölunar vísa í landnúmerið. Elsta húsið er byggt árið 1941 en það yngsta árið 1997. Flest eru þau byggð frá 1941-1960. Í dag (2013) eru húsin notuð sem flugskýli, tækjageymsla, fjarskiptastöð, spennistöð, geymslur, skrifstofur og fleira.
Bragginn var upphaflega einn fjögurra sambyggðra skemmubragga. Bragginn var upphaflega notaður af setuliðinu en eftir að flugvöllurinn komst í eigu íslenskra flugmálayfirvalda var hann í fyrstu notaður sem geymsla en síðan flutti slökkvilið flugvallarins aðsetur sitt í braggann.
Árið 1962 brunnu hinir þrír braggarnir. Við suðurhlið braggans hefur verið hlaðin viðbygging og settur steinsteyptur umbúnaður fyrir akstursdyr. Ekki er finna heimildir um hvenær það var gert.
Síðustu áratugi hefur bragginn verið notaður sem vélageymsla flugvallarins.“
Líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum frá fimmta áratug síðustu aldar hefur bröggum, stríðsminjunum, ofan við Nauthólsvík og við Reykjavíkurflugvöll fækkað svo um munar.
Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2013.