Elliðakot

Í “Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006″ segir m.a. um Elliðakot (Helliskot):
Ellidakot-222
Saga Kotsins er fyrst getið árið 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá er jörðin í eyði og kallast „Hellar“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Í heimild frá 1704 er svo talað um „Hellirs Kot“ og virðist líklegt að um sömu jörð sé að ræða (sbr. Ólaf Lárusson 1944). Hún er þá í eigu konungs með tvo ábúendur sem búa hvor á sínum helmingi hennar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 288-9). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign og býr eigandinn þar einn (J. Johnsen, bls. 96). Nafnið Elliðakot var tekið upp um 1883. Að sögn Karls Nordahls (f. 1898) hafði jörðin verið í eyði þegar afi hans byggði þar timburhús til íbúðar árið 1887. Samkvæmt fasteignabókum hefur kotið lagst í eyði aftur á árunum 1938-1957 (Fasteignabók) en í heimild frá 1978 kemur fram að húsið hafi brunnið árið 1949 (Guðlaugur R. Guðmundsson, bls. 1) Samkvæmt Eyðijarðaskrá 1963 er jörðin þá í eigu dánarbús Gunnars Sigurðssonar í Gunnarshólma en þar eru engin nothæf hús og hæpið talið að leggja í kostnað til búsetu (Skýrsla um eyðijarðir 1963). Gamli húsgrunnurinn stóð þó enn þá 1978 (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Ellidakot-229

Náttúrufar og jarðabætur Í eyðijarðaskránni frá 1963 segir nánar tiltekið að á jörðinni séu hvorki íbúðarhús né peningshús, ekkert hesthús, en fjárhús og heygeymsla „…gömul, mjög léleg, ónothæf.“
Önnur útihús eru ekki á jörðinni. Þar er gamalt tún, 2-3 ha., og nýrækt, ræktuð og nytjuð frá Gunnarshólma en ræktunarskilyrði léleg, „…flatlendar mýrar, óhentugar til nýræktar“. Um beitiland segir að sumarbeit sé góð í Mosfellsheiði og einnig vetrarbeit þegar snjólétt er og er þess getið að jörðin hafi síðustu árin verið notuð til slægna og beitar frá Gunnarshólma.
Samgönguaðstaða:
Ellidakot-224„Léleg heimreið frá Suðurlands-braut“ (Skýrsla um eyðijarðir 1963). Í Landamerkjabók Elliðakots frá 1890 segir að mörk jarðarinnar að sunnanverðu séu „…frá Vífilfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatnasæluhús og svo eptir árfarinu fyrir súnnan Neðrivötn niður að þúfu sem stendur á Holtstanga fyrir neðan Neðrivötn, þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni niður hjá Lækjarbotni fyrir sunnan Tröllbörn hjá Lækjarmóti niður hjá Hraúnsnefi og þaðan eptir sömú kvísl þar til hún fellur [í] Elliðaána við svokallað Heiðartagl.“
Að V- og N-verðu ræður síðan „Elliðaáin… …til austurs þar til Gudduós fellur í hana, og svo ósinn sem hann nær uppí Selvatn, og svo Selvatnið, sem það nær lengst til austurs þar sem Sellækurinn fellur í það, þaðan beina stefnu til suðausturs yfir heiðina í Lyklafell sem það er hæðst, og svo eptir árfari nú frá Lyklafelli til austurs uppað stefnú beint frá Borgarhólum í Vífilfell sem er takmörk Árnessýslu“.

Ellidakot-225

Ein tóft við Elliðakot er að öllum líkindum merkilegri an aðrar, sbr.: “Tóftir í hólnum voru skráðar árið 1982. Þær voru þá mjög ógreinilegar en skrásetjara virtist þær vera af húsum, görðum og jafnvel vegi. Þarna voru a.m.k. tóftir tveggja mannvirkja en að öðru leyti var erfitt að greina minjarnar eða sjá á þeim nokkra heildarmynd (Bjarni F. Einarsson).
Á Túnakorti Elliðakots frá 1916 eru útlínur bæjarrústa merktar inn á mitt túnið. Skrásetjari sem skoðaði gamla bæjarhólinn árið 1982 sagði hann vera um 130 m NNA vegarins (Bjarni F. Einarsson).
Í Örnefnalýsingu 1978 segir að bærinn hafi staðið undir Dyngju, norðan Lækjarbotna, í hvilft eða lægð sem heitir Nátthagi. Þar virðist að vísu vera átt við yngri bæinn sem var úr timbri og ekki er ljóst hvort hann hafi verið byggður á sama stað og gamli torfbærinn (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Ellidakot-226

Tóftir í hólnum voru skráðar árið 1982. Þær voru þá mjög ógreinilegar en skrásetjara virtist þær vera af húsum, görðum og jafnvel vegi. Þarna voru a.m.k. tóftir tveggja mannvirkja en að öðru leyti var erfitt að greina minjarnar eða sjá á þeim nokkrar minjar. Af Túnakortinu má ráða að bærinn hafi verið byggður úr torfi og grjóti. Að sögn Karls Nordahls (f. 1898) var Elliðakot í eyði þegar afi hans byggði þar íbúðarhús úr timbri árið 1887 og hefur því verið hætt að nota gamla torfbæinn fyrir þann tíma.”

Ljóst er að nefnd fornleifaskráning er fyrir margra sakir ónákvæm og margt á eftir að koma í ljós varðandi Elliðakot við nánari rannsóknir á vettvangi; einkum það er lítur að upphaflegri nýtingu svæðisins (sjá nánar síðar).
Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1914, segir m.a.: “Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð.

Ellidakot-233

En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot  Helliskot (Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins”. Þess má geta að nefnt Viðeyjarsel var í Lækjarbotnum ásamt Örfiriseyjarseli. Sjást tóftir þeirra enn greinilega. Lækjarbotnaselið var um tíma notað frá Bessastöðum svo ekki er ólíklegt að Viðey hafi jafnframt haft selstöðu í Helliskoti.
Í Árbókinni 1923 segir um nafnið: “
Elliðákot (Helliskot). Nafnið Elliðakot er tekið upp fyrir nál. 40 árum, og nefna nú allir svo. Mun því réttast að láta það standa óhaggað, enda segja kunnugir menn, að enginn hellir sé þar nálægt, sem kotið gæti verið við kennt. Má vera, að Hellis- sé afbökun úr Elliða-, eins og Elliðaár afbökuðust í Hellirár”.

Heimildir:
-sbr. Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1914, bls. 13-14.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923, bls. 33.

-Dipl. Isl. III: Diplomatarium Islandicum.
-Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf, gjörnínga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland og íslenzka menn. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857 og áfr.
Fasteignabók. Löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 3, 6. jan. 1938. Reykjavík 1942-1944.
-Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkv. lögum nr. 33 frá 1955. Öðlast gildi 1. maí 1957. Reykjavík 1956-1957. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Örnefnalýsing Elliðakots og Vilborgarkots. Örnefnastofnun Íslands 1978.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Gullbringu-og Kjósarsýsla. Þriðja bindi. Reykjavík 1982.
-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu-og Kjósarsýslu 1890. Ólafur Lárusson. „Nokkur byggðanöfn“. Byggð og saga. Reykjavík 1944.
-Skýrsla um eyðijarðir skv. fyrirmælum 53. gr. laga nr. 75 frá 1962, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. – Ópr. 31.12.1963.
-Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafns Íslands.
-Guðlaugur R. Guðmundsson. Örnefnalýsing kots og Vilborgarkots. Örnefnastofnun Íslands 1978.
-Túnakort Elliðakots í Mosfellssveit frá 1916.

Elliðakot

Elliðakot 2009.