Færslur

Elliðakot

Tóftir gamla bæjarins að Elliðakoti eru á ási norðan Nátthagavatns.

Elliðakot

Elliðakot.

Einkennandi fyrir tóftirnar, sem enn standa, eru reglulega tilhöggvnir steinar, allir að svipaðri stærð. Um er að ræða stórt skepnuhús og annað minna, líklega sauðakofa, sem breytt hefur verið í hænsnahús. Íbúðarhúsið hefur staðið á grunni vestan skepnuhússins. Heimagarðurinn er í brekku á móti suðvestri. Heimtröðin er norðan hans.

Elliðakot

Elliðakot.

Gamlir hleðslugarðar umlykja heimatúnið. Norðaustan í því eru garðar umhverfis matjurtargarð. Sunnan bæjarins, á klapparholti, er snyrtilega hlaðin tóft. Ekki er að sjá að tóftin hafi verið þekjuð eða notuð. Þó gæti hafa verið hlið í henni framanverðri. Þá gæti þana verið um að ræða “sýningarbás” í vegghleðslu með grjótinu úr námunni, en í holtinu er steinnáma og þar hefur að öllum líkindum mest af grjótinu í skepnuhúsin og önnur hlaðin hús verið sótt. Stafaáletrun (EG eða EC) er á einum steini útihúsanna. Þess má geta að Eggert Norðdal Guðmundsson bjó í Elliðakoti frá þriggja ára aldri (fæddur í Landbroti 1866). Faðir hans fluttist síðan að Geithálsi, en Eggert að Hólmi eftir að hann kvæntist. Talið er að Eggert og Skúli, bróðir hans, hafi hlaðið steinveggina í Elliðakoti seint á 19. öld. Ættarnafnið Norðdal mun vera komið frá Hvammi í Norðurárdal.

Elliðakot

Elliðakot.

Bærinn hefur staðið undir lágu hamrabelti. Ofan hans liggur gata um Miðdalsheiði, framhjá Selvatni og áfram upp með Lyklafelli, Draugatjörn og að Kolviðarhól annars vegar og hins vegar áleiðis að Grafningi við Þingvallavatn. Um er að ræða svonefnt nyrðra vegarstæði á þjóðleiðinni austur fyrir fjall, en deilur stóðu um það um 1880 á hvora leiðina ætti að leggja áherslu m.t.t. til samgöngubóta. Þessi leið var ákjósanlegri þar sem hún sneiddi ofan við Fóelluvötn og þær ófærur sem Sandskeiðið var.

Elliðakot

Elliðakot – útihús.

Leifar kots Sólheimatjarnar eru norðvestar. Skammt austar eru þrjú stór grenitré. Við þau eru hluti skorsteins, nokkurs konar minnismerki um fólkið, sem þarna lifði og hrærðist. Vestan við Elliðakot, á grónum hæðóttum túnum, eru allnokkrar mun eldri minjar, a.m.k. gamall bæjarhóll með beðasléttum. Túnið er bókstaflega allt unnið þannig, eða svo til. Þetta var víst víða gert en svo sléttað aftur þegar tæki komu í stað handa. Mjög mikil vinna, allt með höndum. Menn töldu að það fengist meira hey af slíku, þ.e. að fermetrafjöldinn yrði meiri fyrir utan það skurðirnir á milli söfnuðu til sín vatni þannig að þurrara yrði. Slétturnar eru mót suðvestri. Skammt frá eru tóftir útihúsa, garðar o.fl. Rétt er að geta þess að eldra nafn á Elliðakoti var Helliskot og gætu þarna verið um að ræða tóftir þess bæjar.

Elliðakot

Beðsléttur við Elliðakot.

Búið var í Elliðakoti fram til 1940. Brá þá síðasti bóndinn búi. Búið var þó í húsunum fram til 1948 eða 1949. Brunnu húsin þá og fór jörðin þar með endanlega í eyði.
Þegar farið er um þetta svæði er hvergi merkingar að sjá. Engar aðgengilegar upplýsingar er að fá um það. Í fornleifaskýrslum er einungis fjallað um vörður og einstaka tóft, en hvergi svo vitað sé um um býlin sjálf, fólkið og minjarnar. Svæðið í heild er mjög fallegt og ákjósanlegt til útivistar, en sagnfræðilega einangrað. Hvort það er af ásettu ráði eða ekki skal ósagt látið.

Elliðakot

Fjárhústóft ofan Elliðakots.

Fyrir ofan Lækjarbotna, liggur vegurinn um svo kallaða Fossvelli, er áin rennur yfir, og hefur hún þar oft gert usla. Svo liggur hann upp Lakheiði, en þar er ekki annað að óttast en þverrásir, sem stundum hafa orðið nokkuð dýrar. En þegar kemur upp undir Arnaþúfu, fer heldur að versna sagan. Þar liggur vegurinn á parti fram með ánum, fyrir sunnan neðri vötnin – svo er Fóelluvötnum skipt – enda flýtur hann þar burtu árlega, sem þó er enn verra, er kemur upp á Sandskeiðið. Þar má segja, að komi vatn úr hverri átt og það eigi lítið. Renna þar saman allar leysingakvíslir, er koma sunnan með öllum Bláfjöllum og hraunum og heiðum þar í kring, einnig með Vífilfelli að austan og norðan. Verður þá yfir allt Sandskeiðið og Fóelluvötnin einn hafsjór, enda sýndi það  sig best, veturinn eftir að vegurinn var þar lagður, því þá gersópaðist hann svo burtu, að eftir voru kafhlaup, þar sem hann var áður. Síðan hefur þar ekki verið vegur lagður og var það hyggilegt. Að vísu er þar allgóður vegur í þurrkatíð um hásumarið, en fram eftir öllu vori er þar oft lítt fært.

Elliðakot

Varða á Austurleið ofan Elliðakots.

Fyrir ofan Sandskeiðið taka öldurnar við og er þar ekki slæmt vegstæði í sjálfu sér, en þar er svo mikið aðrennsli, sunnan úr Sauðadölum og fjöllum þar í grennd, að vegurinn hefur orðið þar fyrir miklum áföllum og er nú svo eyðilagður, að víða er hann verri en enginn vegur. En síðast og ekki síst kemur Svínahraun, er staðið hefur eins og “þrándur í götu” fyrir allri vegasmíð á þessari suður-vegsleið, með alla sína lögnu og flóknu vegargerðasögu, er væri nóg í stóra bók, og verður henni því sleppt hér.

Austurleið

Austurleiðin sunnan við Lyklafell.

Í fáum orðum sagt, virðist vegurinn frá Hólmi upp að Kolviðarhól vera lagður um þær verstu torfærur, er voru á þessari leið og er það hrapalegt, um hinn fjölfarnasta veg upp frá sjálfum höfuðstaðnum. Þetta sýnist nú því verra, þar eð fenginn var útlendur vegfræðingur til að leggja veginn, en ætli hann hafi eða verið þá skipað að skoða, hvort ekki væri hentugra vegstæði á öðrum stað, en eitt má telja víst, að hefði vegurinn verið fyrst lagður frá Reykjavík, að þá hefði aldrei verið farið með hann suður fyrir ár, og upp í Fóelluvötn, sem nú er líka dálaglegur krókur.

Austurleið

Austurleiðin nyrðri.

Hér skal því benda á, hvar vegurinn hefði átt að liggja, eða öllu heldur, hvar hann nú ætti að leggjast, því ótrúlegt er að hann, þar, sem hann nú er líti dagsljós tuttugustu aldarinnar, og það því heldur, sem við nú höfum vegfræðing við hendina, og erum búnir að fá dálitla reynslu í vegasmíði.
Nyrðri leiðin hefur af sumum hefur verið álitin betri til vegalagningar, enda er þeim óðum að fjölga, er sannfærast um, að þar hefði hann orðið að mun styttri, ódýrari og varanlegri, því á leiðinni frá Árbæ og upp að Húsmúla, eru bara tvær leysingavatns-rásir og lækurinn milli Vilborgarkost og Elliðakots, er bæði væri hægt að brúa, og eins að fara fyrir upptök hans, ef það þætti betra, en það mætti með því móti að skilja ekki suðurveginn frá Mosfellsheiðarveginum fyr en fyrir ofan Sólheimatjörn.

Austurleið

Varða við nyrðri leiðina.

Leysingarásirnar eru, önnur fyrir vestan Lyklafell, sem sjaldan rennur og þá örlítil, en hin fyrir austan fellið og er hún nokkuð meiri, en þó hverfandi á móti öllu því vatni, er kemur úr suðurfjallinu, er nú stendur mest hætta af, hvað veginn áhrærir. Að nyrðri leiðin sé styttri, getur hver meðalgreindur maður séð og þó ekki sé mælingafróður, því frá Árbæ upp í Hellisskarð, er línan hér um bil um Elliðakot, Lyklafell og norðan til á öldunum, en bein lína milli tveggja punkta er þó stysti vegur.

Fóelluvötn

Fóelluvötn – Lyklafell fjær.

Lagt var til að þingið léti vegfr. Sigurð Thoroddsen rannsaka vegarstæði á nyrðri leiðinni, áður en veitt væri stórfé til viðgerðar suðurveginum enn á ný, því þó gert væri við hann all-rækilega þá er þó efri hlutinn í mesta óstandi, helst öldurnar, er ekki mundi veita af nokkrum þúsundum krónum til viðreisnar. Sumum þótti nú kannske nokkuð í ráðist, að hætta nú við suðurveginn, en slíkt er þó varla áhorfsmál, því þó búið sé að verja til hans allmiklu fé, þá er því þó alls ekki á glæ kastað. Fyrst hefur vegurinn verið til mikils hægðarauka og að öðru leyti hefur féð að mestu leyti runnið í hendur landsmanna sjálfra. En úr því við höfum ekki peninga til vegabóta, nema af skornum skammti, ætti þeim helst að vera varið þar, er traustast yrði með framtíðinni, en ekki fleygt út til eins fávíslegrar vegagerðar, eins og suðurvegurinn er, því á þeim stað, sem hann er nú, verður hann fyrr eða síðar dæmdur ófær.

Letursteinn

Áletrun á hornsteini Elliðakots.

Nátthagavatn er syðst, þá Selvatn (en vegarslóðinn ofan Elliðkots (Helliskots) liggur áleiðis að því, þá Krókatjörn, Nykurtjörn og Leirtjörn og loks Silungatjörn nyrst.
Í viðtölum við fólk í sumarbústað við Nátthagavatn kom fram að það teldi að vegurinn ofan við Elliðakot hafi verið gömul reiðleið austur fyrir fjall sem og að Grafningi að Þingvallavatni. Það gæti vel passað við legu gamla Þingvallavegarins, sem liggur skammt norðan nýja vegarins að Nesjavöllum.
Meira um svæðið á næstunni.
Frábært veður – sól og stilla. Ferðin um svæðið tók 1 klst og 1 mín.

Upplýsingarnar um vegagerðina eru m.a. fengnar af
http://www.vegag.is/vefur

Elliðakot

Letursteinn í Elliðakoti.

Elliðakot

Guðlaugur R. Guðmundsson skráði örnefni í Elliðakoti, er áður mun hafa heitið Helliskot. Telja verður líklegt, miðað fyrirliggjandi heimildir að þar hafi fyrrum verið selstaða, líklega frá Elliðavatni…
Ellidakot-231“Ég fór með Karli Nordahl að Elliðakoti 18. júlí 1978. Þar eru aðeins húsarústir eftir. Húsgrunnurinn stendur enn, en húsið brann 1949. Karl segir, að afi hans hafi byggt það 1887. Það var timburhús, en Elliðakot hafði þá verið í eyði. Krakkar, sem þar gistu, kveiktu í húsunum. Ósinn, sem Tryggvi nefnir Dugguós, kallar Karl Gudduós. Það er lækurinn, sem rennur frá Selvatni í Hólmsá og ræður merkjum Elliðakots til vesturs. Á herforingjaráðskortinu er lækur, nefndur Urðar-lágarlækur. Karl segir, að enginn lækur hafi verið til með því nafni. Lækurinn hafi alltaf heitað (svo) Sellækur, en Urðarlágar eru upp með læknum. Hrútslækur rennur í norðvestanvert Selvatn úr Sauðhúsamýri.
Ellidakot-232Norðan við Nátthagavatn er engjastykki, sem nefnt er Nátthagi. Austan við Nátthagavatn er ávöl hæð, Klifin. Karl sagði, að kvísl rynni í Leirdal, þegar mikið vatn væri í Fossvallaá, en hún rennur um dragið milli Vatnahæðar og Vatnaáss. Þar sem Fossvallaá rennur í Hólmsá, heita Fossvellir. Heiðin upp af Leirdal er Elliðakotsheiði. Þar langt til austurs, fyrir norðan Lyklafell, er Klakkur, 247 m á hæð. Við Elliðakot er grjótveggur, sem Skúli bóndi á Úlfarsfelli hlóð. Þegar komið er að Elliðakoti, er Dyngja fyrir ofan bæjarrústina. Fram við bæinn er Nónholt [( á teikningum Nónás)], ávalur ás í þá eyktarstefnu frá bænum.
Nátthagaá fellur frá uppsprettum við Syðstubrekkur, norðan við Hólmsá. Þegar komið er upp fyrir Litla-Lyklafell, þá er hér Sleðaás. Þar upp[i] er vindbelgur, rétt austan við veginn. Efrivötn eru fyrir ofan Vatnaás, en Neðrivötn fyr[ir] neðan hann. Fyrir neðan Vatnavelli er Syðri-Fossvallakvísl. Norðan við Vatnásinn (svo) er Fossvallaklifið. Og nálg[u]mst við þá upptök Fossvalláar, skammt frá Stangarhóli og Litla-Lyklafelli.
Ellidakot-233Ég ók með K[arli] Nordahl upp veginn fyrir ofan Elliðakot, ásinn, sem farinn er, heitir Dyngja. Vegurinn var hroðalegur, og komumst við ekki lengra en upp á há-hrygginn og snerum þar við. Þegar ekinn er vegurinn að Elliðakoti, þá er til vinstri Gudduós og síðan Nónholtið og Miðmundahóll. [(Miðmundarhóll á teikningu.)]
Vilborgarkot (og Geirland): Ég kom með Karli að Vilborgarkoti 18. júlí 1978. Hann sagðist muna eftir Vilborgarkoti í byggð. Vilb[orgarkot] fór úr byggð 1905. Síðast bjó þar Pétur Ólafsson, flutti að Elliðakoti og bjó þar í 10 ár, síðan í Þormóðsdal.
Ellidakot-234Geirland er í landi Lækjarbotna. Milli Klifanna fyrir ofan Geirland eru Klofningar. Árfarvegurinn við Lögberg, norðan við foss þar í ánni, [er] nafnlaus. Karl segir, að Klofningar tilheyra (svo) ekki Lækjarbotnum. Miðmundamýri er fyrir neðan Geirland, en Miðmundahóll fyrir ofan. Geirland for í eyði. Ólafur Sigurjónsson (sonur Ólafs í (svo)) hefur kindur í Geirlandi. Geirland var keypt úr landi Lækjarbotna 1927. Sigurjón Ólafsson bílstjóri reisti nýbýli og keypti af Guðmundi Sigurðssyni á Lækjarbotnum.”
Þegar umhverfi og heimatún Elliðakots (Helliskots/Hellis) eru skoðuð má sjá mikinn fjölda minja frá mismunandi tímum. Elstu minjarnar eru að öllum líkindum vestast á heimatúninu; forn selstaða, sem kotið hefur síðan byggst upp úr og þá á nálægum hól skammt austar. Umleikis eru bæði eldri og nýrri minjar uns bærinn Elliðakot var byggður efst og austast í heimatúninu á síðari hluta 19. aldar. Af ummerkjum að dæma var það timburhús. Útihús þess neðan heimatúngarðsins voru hlaðin úr tilhöggnu grjóti, eins og vel má augum líta enn þann dag í dag.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Elliðakot – Guðlaugur R. Guðmundsson skráði.

Elliðakot

Elliðakot 2021.

Elliðakot

Í “Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ 2006″ segir m.a. um Elliðakot (Helliskot):
Ellidakot-222
Saga Kotsins er fyrst getið árið 1395 í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá er jörðin í eyði og kallast „Hellar“ (Dipl. Isl. III, bls. 598). Í heimild frá 1704 er svo talað um „Hellirs Kot“ og virðist líklegt að um sömu jörð sé að ræða (sbr. Ólaf Lárusson 1944). Hún er þá í eigu konungs með tvo ábúendur sem búa hvor á sínum helmingi hennar (Jarðabók Árna og Páls III, bls. 288-9). Árið 1847 er jörðin hins vegar orðin bændaeign og býr eigandinn þar einn (J. Johnsen, bls. 96). Nafnið Elliðakot var tekið upp um 1883. Að sögn Karls Nordahls (f. 1898) hafði jörðin verið í eyði þegar afi hans byggði þar timburhús til íbúðar árið 1887. Samkvæmt fasteignabókum hefur kotið lagst í eyði aftur á árunum 1938-1957 (Fasteignabók) en í heimild frá 1978 kemur fram að húsið hafi brunnið árið 1949 (Guðlaugur R. Guðmundsson, bls. 1) Samkvæmt Eyðijarðaskrá 1963 er jörðin þá í eigu dánarbús Gunnars Sigurðssonar í Gunnarshólma en þar eru engin nothæf hús og hæpið talið að leggja í kostnað til búsetu (Skýrsla um eyðijarðir 1963). Gamli húsgrunnurinn stóð þó enn þá 1978 (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Ellidakot-229

Náttúrufar og jarðabætur Í eyðijarðaskránni frá 1963 segir nánar tiltekið að á jörðinni séu hvorki íbúðarhús né peningshús, ekkert hesthús, en fjárhús og heygeymsla „…gömul, mjög léleg, ónothæf.“
Önnur útihús eru ekki á jörðinni. Þar er gamalt tún, 2-3 ha., og nýrækt, ræktuð og nytjuð frá Gunnarshólma en ræktunarskilyrði léleg, „…flatlendar mýrar, óhentugar til nýræktar“. Um beitiland segir að sumarbeit sé góð í Mosfellsheiði og einnig vetrarbeit þegar snjólétt er og er þess getið að jörðin hafi síðustu árin verið notuð til slægna og beitar frá Gunnarshólma.
Samgönguaðstaða:
Ellidakot-224„Léleg heimreið frá Suðurlands-braut“ (Skýrsla um eyðijarðir 1963). Í Landamerkjabók Elliðakots frá 1890 segir að mörk jarðarinnar að sunnanverðu séu „…frá Vífilfelli niður Sandskeiðið niður fyrir Vatnasæluhús og svo eptir árfarinu fyrir súnnan Neðrivötn niður að þúfu sem stendur á Holtstanga fyrir neðan Neðrivötn, þaðan eins og ræður syðsta kvíslin af Fossvallaánni niður hjá Lækjarbotni fyrir sunnan Tröllbörn hjá Lækjarmóti niður hjá Hraúnsnefi og þaðan eptir sömú kvísl þar til hún fellur [í] Elliðaána við svokallað Heiðartagl.“
Að V- og N-verðu ræður síðan „Elliðaáin… …til austurs þar til Gudduós fellur í hana, og svo ósinn sem hann nær uppí Selvatn, og svo Selvatnið, sem það nær lengst til austurs þar sem Sellækurinn fellur í það, þaðan beina stefnu til suðausturs yfir heiðina í Lyklafell sem það er hæðst, og svo eptir árfari nú frá Lyklafelli til austurs uppað stefnú beint frá Borgarhólum í Vífilfell sem er takmörk Árnessýslu“.

Ellidakot-225

Ein tóft við Elliðakot er að öllum líkindum merkilegri an aðrar, sbr.: “Tóftir í hólnum voru skráðar árið 1982. Þær voru þá mjög ógreinilegar en skrásetjara virtist þær vera af húsum, görðum og jafnvel vegi. Þarna voru a.m.k. tóftir tveggja mannvirkja en að öðru leyti var erfitt að greina minjarnar eða sjá á þeim nokkra heildarmynd (Bjarni F. Einarsson).
Á Túnakorti Elliðakots frá 1916 eru útlínur bæjarrústa merktar inn á mitt túnið. Skrásetjari sem skoðaði gamla bæjarhólinn árið 1982 sagði hann vera um 130 m NNA vegarins (Bjarni F. Einarsson).
Í Örnefnalýsingu 1978 segir að bærinn hafi staðið undir Dyngju, norðan Lækjarbotna, í hvilft eða lægð sem heitir Nátthagi. Þar virðist að vísu vera átt við yngri bæinn sem var úr timbri og ekki er ljóst hvort hann hafi verið byggður á sama stað og gamli torfbærinn (Guðlaugur R. Guðmundsson).

Ellidakot-226

Tóftir í hólnum voru skráðar árið 1982. Þær voru þá mjög ógreinilegar en skrásetjara virtist þær vera af húsum, görðum og jafnvel vegi. Þarna voru a.m.k. tóftir tveggja mannvirkja en að öðru leyti var erfitt að greina minjarnar eða sjá á þeim nokkrar minjar. Af Túnakortinu má ráða að bærinn hafi verið byggður úr torfi og grjóti. Að sögn Karls Nordahls (f. 1898) var Elliðakot í eyði þegar afi hans byggði þar íbúðarhús úr timbri árið 1887 og hefur því verið hætt að nota gamla torfbæinn fyrir þann tíma.”

Ljóst er að nefnd fornleifaskráning er fyrir margra sakir ónákvæm og margt á eftir að koma í ljós varðandi Elliðakot við nánari rannsóknir á vettvangi; einkum það er lítur að upphaflegri nýtingu svæðisins (sjá nánar síðar).
Í Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1914, segir m.a.: “Nú veit enginn hvar Viðeyjarsel hefir verið, þar sem þeir, er sendir voru úr Hafnarfirði eftir Ögmundi biskupi að Hjalla, áðu áður en þeir lögðu á Ólafsskarð.

Ellidakot-233

En mér þykir líklegt að það hafi verið við Selvatn, rétt hjá þessum vegi, sem þar er sameiginlegur fyrir allar áðurnefndar leiðir, og að Elliðárkot  Helliskot (Elliðakot), hafi þá verið lítt bygt eða í eyði, og hið góða og mikla sumarbeitarland þess notað til beitar fyrir selfénað klaustursins”. Þess má geta að nefnt Viðeyjarsel var í Lækjarbotnum ásamt Örfiriseyjarseli. Sjást tóftir þeirra enn greinilega. Lækjarbotnaselið var um tíma notað frá Bessastöðum svo ekki er ólíklegt að Viðey hafi jafnframt haft selstöðu í Helliskoti.
Í Árbókinni 1923 segir um nafnið: “
Elliðákot (Helliskot). Nafnið Elliðakot er tekið upp fyrir nál. 40 árum, og nefna nú allir svo. Mun því réttast að láta það standa óhaggað, enda segja kunnugir menn, að enginn hellir sé þar nálægt, sem kotið gæti verið við kennt. Má vera, að Hellis- sé afbökun úr Elliða-, eins og Elliðaár afbökuðust í Hellirár”.

Heimildir:
-sbr. Skráningu fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1914, bls. 13-14.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1923, bls. 33.

-Dipl. Isl. III: Diplomatarium Islandicum.
-Íslenskt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf, gjörnínga, dóma og máldaga og aðrar skrár, er snerta Ísland og íslenzka menn. Kaupmannahöfn og Reykjavík 1857 og áfr.
Fasteignabók. Löggilt af fjármálaráðuneytinu samkvæmt lögum nr. 3, 6. jan. 1938. Reykjavík 1942-1944.
-Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkv. lögum nr. 33 frá 1955. Öðlast gildi 1. maí 1957. Reykjavík 1956-1957. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Örnefnalýsing Elliðakots og Vilborgarkots. Örnefnastofnun Íslands 1978.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Gullbringu-og Kjósarsýsla. Þriðja bindi. Reykjavík 1982.
-J. Johnsen. Jarðatal á Íslandi, með brauðalýsingum, fólkstölu í hreppum og prestaköllum, ágripi úr búnaðartöflum 1835-1845, og skýrslum um sölu þjóðjarða í landinu. Kaupmannahöfn 1847.
-Landamerkjabók í afsals- og veðmálsbók fyrir Gullbringu-og Kjósarsýslu 1890. Ólafur Lárusson. „Nokkur byggðanöfn“. Byggð og saga. Reykjavík 1944.
-Skýrsla um eyðijarðir skv. fyrirmælum 53. gr. laga nr. 75 frá 1962, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. – Ópr. 31.12.1963.
-Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980-1982. Skráningarbækur Þjóðminjasafns Íslands.
-Guðlaugur R. Guðmundsson. Örnefnalýsing kots og Vilborgarkots. Örnefnastofnun Íslands 1978.
-Túnakort Elliðakots í Mosfellssveit frá 1916.

Elliðakot

Elliðakot 2009.