Þingnes

“Heimildarritin geta eigi nema tveggja þinga hér á landi áður en alþingi var sett á stofn, Þórsnesþing og Kjalarnesþing. En að leiða út af þessu þá ályktun, að fleiri þing hafi eigi verið til hér á landi fyrir 930, virðist nokkuð hæpið. Það er auðvitað, að þinganna hér á landi er eigi getið nema í sambandi við einhverja atburði, eða þá af einhverjum öðrum sérstökum ástæðum. Að öðrum kosti er gengið þegjandi fram hjá þeim, eins og gengið er þegjandi fram hjá svo mörgum öðrum merkum atburðum, því fornsagan er fyrst og fremst viðburðasaga, en eigi réttarsaga eða þjóðmenningarsaga.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Ari fróði, sem bezt og og áreiðanlegast þræðir réttarsögu landsins og framvaxtarsögu þjóðfélagsins, þótt fljótt sé yfir farið, minnist eigi einu sinni á Þórsnesþing. Aftur á móti getur hann um Kjalarnesþing á talsvert einkennilegan hátt. Hann segir svo frá: “Alþingi vas sett at ráþi Ulflíótz oc alra lanzmanna, þar es nú es, en áþr var þing á Kialarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr lannámamannz, faþeer Þorkels mána lögsögumannz, hafþi þar, oc höfþingiar þeir es at þuí hurfu”. Beinast liggur við að skilja orð þessi þannig, að eigi hafi verið til nema eitt þing hér á landi áður alþingi var sett á stofn, – Kjalarnesþing. Nú vitum vér með fullri vissu, að Þórsnesþing að minsta kosti, var sett löngu fyrir þann tíma, og þar er sjálfsagt, að Ara fróða var fullkunnugt um það líka, því hann var ættaður að vestan, afkomandi Þórðar gellis, er deiluna jafnaði [með liðum á Þórsnesþingi]. Hlýtur þá eitthvað og sérstakt að hafa verið einkennilegt við Kjalarnesþing, úr því hann minnist á það með þannig löguðum orðum, og getur það varla eftir atvikum verið annað en það, að Kjalarnesþing hafi haft líka þýðingu fyrir landið í heild sinni eins og alþingi hafi síðar, eða með öðrum orðum, að það hafi verið eins konar allsherjarþing, og verðum vér að hallast að þeirri skoðun. Þangað var skotið málum úr öðrum héruðum, sektarfé það, sem þar var dæmt, var gert að almannafé, þvert ofan í allar venjur, hefði þingið verið skoðað eingöngu sem héraðsþing, og goði sá, sem Kjalarnesþingi stýrði, var síðar við stofnun alþingis gerður að allsherjargoða. Allt bendir þetta í þá átt, að Kjalarnesþing hafi verið sameiginlegt fyrir land allt, og var þá engin furða, þótt endurminningin um það geymdist bæði vel og lengi”.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Á öðrum stað (bls. 62-63) segir um Kjalarnesþing: “Kjalarnesþing hefir eflaust eins og nafnið bendir á verið haldið á Kjalarnesi, þótt nú sjáist þess lítil eða engin merki. Kjalnesingasaga segir, að það hafi verið haldið “suðr við sjóinn”, og þótt hún sé í flestum greinum á áreiðanleg, er eigi ólíklegt að hún hafi rétt fyrir sér í þessu, því endurminningin um hið forna, merka Kjalarnesþing hlaut að geymast lengi í minnum manna. Skammt út frá Mógilsá undir kleifunum við sjóinn er nefnt “Leiðvöllur”, og bendir það nafn á, að þar hafi einhvern tíma verið þing haldið. Leiðvöllur er breið grjóeyri, sem gengur út í sjóinn. Fyrir ofan eyrina liggur síki, og þar upp af að austanverðu er lítill grasgeiri, sem nú heitir Kirkjuflötur. Á henni sjást leifar af lítilli tóft, og þó mjög óglöggt. Önnur mannvirki sjást þar nú eigi, og mun sjórinn hafa rótað til og brotið af. Upp af eyrinni er brekka, víða grasi vaxin; hefur það eflaust verið “Þingbrekkan”. Slíkar þingbrekkur eru víða nefndar í fornsögunum, og hyggjum vér, að fornmenn hafi jafnan valið sér þingstað með tilliti til þess, að brekka eða hæð væri í nándinni, þaðan er vel mætti heyra mál manna, því frá þingbrekku fóru fram löglýsingar allar og tilkynningar”.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Af framangreindum skrifum að dæma virðist Kjalarnesþing upphaflega verið sem önnur hinna 13 vorþinga, en vegna tengslaleysis þeirra við setningu laga og dómauppkvaðningu virðist hafa orðið þörf fyrir samræmt þing þegar fyrir árið 900. “Víða í sveitum var orðið svo þéttbýlt þegar laust eftir 900, að brýn nauðsyn var á þingum eða einhverju öðru í þeirra stað til að ræða nauðsynjamál héraðanna og jafna deilur, og má nærri geta að örðugt hefir þótt að leita í aðra landsfjórðunga með hvert smáræði. Vér höfum því fyrir satt, að þing hafi risið smám saman víðsvegar um land, þótt eigi sé þess getið í sögunum.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Í hverju þingi fyrir sig hafa menn komið sér saman um helztu lagaákvæði og reglur, er fylgja skyldi, og hafa þær sjálfsagt verið nokkuð mismunandi í ýmsum héruðum landsins og sóttar sitt í hverja áttina. Meðan um innanhéraðsdeilur einar var að ræða, hefir þetta sjálfsagt getað bjargast og eigi orðið svo mjög að meini. En þegar landsbúum tók að fjölga og viðskifti og samgöngur á milli héraða að aukast, þá hlutu menn von bráðar að festa sjónir á annmörkum þeim, sem á þessu voru. Þegar sækja skyldi mál í önnur þing, kom það upp úr kafinu, að þar var allt öðrum reglum fylgt um málatilbúnað, sókn og vörn, eiðspjöll og sakarvætti, en í varnarþingi málshefjanda, og úrskurðir ef til vill byggðir á allt öðrum lagagrundvelli. Þetta hefir gert mönnum ókleift eða að minnsta kosti mjög örðugt að ná rétti sínum, er leita skyldi í önnur þing. Hlaut það því að verða eitt af brýnustu nauðsynjamálum landsins, að koma föstu skipulagi á þingin og mynda sameiginlega löggjöf fyrir allt land”.
Þetta gæti hafa verið hlutverk þingsins á Þingnesi, þ.e. að vera undanfari Alþingis, sem síðar var sett á Þingvöllum.

Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 26-28.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi.