Færslur

Hóp

Bjó Molda-Gnúpur að Hópi? Eða kannski einhver sona hans?
Í Landnámu (IV.hluti) segir að “Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn Loftmynd af Hópimiklir og járnsmiðir …. Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.”
Hér að framan er einungis sagt Grindavík en ekki nákvæmlega hvar í Grindavík. í önefnalýsingu um Hóp í Grindavík sem Ari Gíslason skráði segir m.a. um jörðina Hóp, sem hefur um langt skeið verið miðsvæðis og ein af lykiljörðum byggðalagsins: “Hóp í Grindavík er næsta jörð vestan við Þorkötlustaðahverfi. Bærinn stendur niður við sjó, við Hópið, sem hann dregur nafn af. Sagt er, að hann hafi upphaflega verið nefndur Hof, og er hér gömul goðatóft til. Sagt er, að Hofsnafnið finnist og í gömlum heimildum. Ekki hef eg kannað það. Þó hef eg flett upp einum slíkum stað, en þar er bærinn nefndur Hóp. Þjóðvegurinn liggur rétt ofan við túnið. Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum. Lón það, sem bærinn stendur upp frá og dregur nafn af, heitir Hóp…
Goðatóftin fremst - og gamli bæjarhóllinnAustur af gömlu traðartóftinni neðan bæjar er Goðatóft, gamalt goðahús friðlýst, sem má ekki róta. Vestan við túnið á Hópi er Eystri-Vikradalur. Vestan hans er stór hóll, sem heitir Miðaftanshóll. Hann er eyktamark frá gamla bænum.
FERLIR flaug nýlega yfir Hóp með Ólafi Ólafssyni, bæjarstjóra. Tilefnið var m.a. að ljósmynda gömlu bæjartóftirnar og næsta nágrenni. Útkoman var ótrúleg; á túninu umhverfis gamla bæinn voru jarðlægar tóftir og garðar svo til við hvert augnmál. Garðarnir eru greinilega misgamlir og hafa flestir verið sléttaðir út. Ofan við gamla bæjarhólinn, norðvestan fjárhúsanna má greina 5 tóftir, auk matjurtargarða. Heimtröðin sést vel vestan við hólinn og suðvestan við Goðatóftina fyrrnefndu. Jarðlægur vörslugarður hefur verið í boga ofan við gamla bæinn, en hann síðan verið færður út og stækkaður og auk þess verið hlaðinn garður til norðurs. Innan gamla garðsins og ofan gamla bæjarhólsins er forvitnileg jarðlæg rúst með görðum til beggja átta er teygja sig að gamla garðinum. Við norðvesturhornið hefur verið hlið. Nokkru vestar í túninu eru tóftir nýrri útihúsa.
Forvitnilegasta rústin er þó sú minnst sýnilega í túninu. Hún virðist vera leifar af fornum skála er snýr til SV og NA. Stærðin á mannvirkinu er svipuð skála þeim er sjá má í Húshólma og lögunin er áþekk.
Aðrar minjar eru þekkjanlegar á loftmyndinni, en verða ekki raktar hér. Hins vegar er hér um áhugaverðar minjar að ræða, sérstaklega með hliðsjón af framangreindri lýsingu Landnámu.

Heimildir m.a.:
-Landnámabók – IV. hluti.
-Örnefnalýsing AG fyrir Hóp – ÖÍ.

Hópið

Landnámsmenn

Hér á eftir fylgir listi yfir landnámsmenn á Reykjanesskagnum (landnámi Ingólfs) og landnám þeirra. Listanum fylgir upptalningu Landnámabókar sem byrjar á Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík og telur þaðan réttsælis um skagann.

Letursteinn– Ingólfur Arnarson nam land milli Ölfusár og Brynjudalsár í Hvalfirði og öll nes út. Hann bjó í Reykjavík.
Ingólfur Arnarson (stundum nefndur Björnólfsson) er jafnan talin fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt fóstbróður sínum og mág, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki á Noregi og ákvað því að flytja til Íslands. Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi. Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir.

– Vífill, þræll Ingólfs. Ingólfur gaf honum frelsi og land og bjó hann á Vífilsstöðum.
Vífill var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu þrælarnir Karli og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum Vífilsgata í Reykjavík dregur nafn sitt af þrælnum Vífli.

– Þórður skeggi Hrappsson nam land með ráði Ingólfs milli Úlfarsár og Leiruvogs og bjó á Skeggjastöðum.
Þórður skeggi (fæddur um 839) nam að sögn Landnámabókar land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu), en hann hélt til Íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar. Bú hans var að Skeggjastöðum. Þórður skeggi var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur, eldri dóttir þeirra hét Helga en hennar maður var Ketilbjörn hinn gamli. Yngri dóttirin hét Þuríður. Skeggjagata í Reykjavík er nefnd eftir honum.

– Hallur goðlaus Helgason nam land með ráði Ingólfs milli Leiruvogs og Mógilsár.

– Helgi bjóla Ketilsson nam Kjalarnes milli Mógilsár og Mýdalsár og bjó að Hofi.

Forn leið– Örlygur gamli Hrappsson nam land með ráði Helga bjólu frá Mógilsá til Ósvífurslækjar og bjó að Esjubergi.

– Svartkell nam land milli Mýdalsár og Eilífsdalsár, bjó fyrst á Kiðafelli en síðan á Eyri.

– Valþjófur Örlygsson nam Kjós og bjó á Meðalfelli.

– Hvamm-Þórir, nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

– Þorsteinn Sölmundarson nam land milli Fossár og Botnsár.

– Ávangur byggði fyrst í Botni í Hvalfirði.
Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.
Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

– Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krísuvík.

– Molda-Gnúpssynir byggðu í Grindavík.

– Steinunn gamla fékk Rosmhvalanes fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi frænda sínum.

– Eyvindur fékk land af Steinunni frænku sinni milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.

– Herjólfur Bárðarson fékk land af Ingólfi frænda sínum milli Reykjaness og Vogs.

– Ásbjörn Össurarson nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og bjó á Skúlastöðum.

Heimild:
-Landnáma (Sturlubók).Landnámsmaður

Reykjavík

Á vef Fornleifastofnunar Íslands er fjallað um merkileg fornfræðileg efni – flest þó fjarri Reykjanesskaganum. Eitt verkefnanna sem finna má á www.menningarminjar.is og á www.menningarsaga.is. “Þegar minnast þarf glataðra menningarminja er ágætt að horfa til Reykjavíkur með það í huga að “fortíðin er ekki “hughrif” – hún er áþreifanlegur raunveruleiki”.

Reykjavík ber hin mestu verðmæti sögunnar ekki vel. Á rústum hinnar fyrstu byggðar þreytir fólkið hennar nú ýmist drykkju eða hjálpræði, boðar til þings og syngur skaparanum lof. Flest var þetta iðkað á sama stað þegar fyrstu kynslóðir Íslendinga reistu þar bú sín. Á svæðinu kringum Austurvöll og Aðalstræti hafa fundist menjar um þúsund ára gamla byggð, fornan bæ að þess tíma sið. Þar eru einnig leifar af fyrstu verulegu byggingum Reykjavíkur sem kaupstaðar, Innréttingarnar sem Skúli Magnússon fógeti lét reisa af stórhug hins upplýsta manns um miðja 18. öldina.
Og enn ber borgin merki hins fyrsta sæðis: Hún er stórhuga í smæð sinni og smá í sinni víðáttu. Gamla þorpið sem hún var, er varðveitt að hluta í miðborginni, og undir grunni nýrra bygginga búa rústir hinna gömlu – og jafnvel elstu, þar sem fornir andar landnema emja við söngva núlifandi kynslóða.
Vitaskuld er erfitt um vik að kanna til hlýtar fornleifar í miðborg nokkurrar höfuðborgar. Þó hefur þetta verið gert að talsverðu leyti í Reykjavík, einkum á umræddu svæði kringum Aðalstræti. Þar var fyrst komið niður á fornleifar við byggingaframkvæmdir á lýðveldisárinu 1944 en síðan var staðið fyrir umtalsverðum fornleifauppgrefti á svæðinu í byrjun áttunda áratugarins. Í þessum uppgrefti og öðrum sem gerður var á níunda áratugnum komu í ljós leifar af tveimur 10. aldar skálum. Annar þeirra hefur staðið neðst við Grjótagötuna, þar sem Aðalstræti og Suðurgata mætast en hinn þar sem nú er Suðurgata 7. Elsta byggð í Reykjavík hefur því verið á svæðinu frá suðurhluta Ingólfstorgs og suður að Vonarstræti. Á torginu þar sem nú stendur stytta af Skúla Magnússyni hafa fundist leifar af mjög gömlum kirkjugarði. Hvíla þar griðkonur Ingólfs og Hjörleifs? – eða jafnvel þeir sjálfir? Eins og gefur að skilja er ógjörningur að fullyrða um slíkt og í raun erfitt að draga upp heildstæða mynd af byggðasögu Reykjavíkur. Þær takmörkuðu fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið sanna þó svo ekki verður um villst að byggð í Reykjavík er jafnvel jafngömul landnáminu. Árið 1993 var grafið í Arnarhól vegna fyrirhugaðra framkvæmda um að breyta hólnum. Var þá komið niður á bæ frá 17. öld en öruggt er talið að neðan hans séu leifar af eldri byggingum. Við uppgröftinn fannst rómverskur peningur.
Það gefur auga leið að á miðöldum hefur byggð ekki verið samfelld á Reykjavíkursvæðinu eins og nú er, og fornleifar sem fundist hafa á öðrum stöðum, eins og í Laugarnesi, hafa tilheyrt annarri sveit. Frá vegarstæðinu þar sem Kleppsvegur beygir í átt að Sæbraut má greina til norðurs óljós merki fornleifa. Þar hefur verið kirkjugarður til forna en ekki hefur gefist færi á að kanna hversu umfangsmikill hann hefur verið. Vitneskja manna um byggðasögu Reykjavíkur er því jafn sundurlaus og svipur hennar.

Við vitum að hér settust landnemar að mjög snemma, og að einhver byggð hélst fram eftir öldum í kvosinni. Um miðja átjándu öldina má greina fyrstu merki þess hlutverks sem Reykjavík fékk síðar sem höfuðstaður Íslendinga. En nær allar lýsingar frá þeim tíma og 19. öldinni bera borginni slæmt orð. Hún er sóðalegt og drungalegt smáþorp, byggð af ólánsmönnum, þurrabúðarmönnum og sjógörpum í sambúð við örfáa danska embættismenn sem hingað hafa hrakist fyrir tilstilli illra örlaga. Og dágóður hluti íbúanna voru fangar og ræfilsmenn sem hafast við í húsinu þar sem ríkisstjórnin situr nú – litlu betri segja sumir.

Þegar söguleg vitund íslenskra menntamanna vaknar af löngum svefni á fyrstu áratugum 19. aldar finnst mörgum þeirra óhugsandi að velja Alþingi stað í þessu ljóta þorpi. Jónas Hallgrímsson fer fyrir hópi rómantískra hugsuða sem vilja setja þingið á sínum forna stað við Öxará. En eitthvað segir það okkur um stöðu Reykjavíkur á þessum tíma að Jón Sigurðsson og hans menn vilja setja þingið í reykjavík, af þeim sökum að þar muni þegar tímar renna rísa sá höfuðstaður sem við þekkjum nú. Hér eru æðstu menntastofnanir landsins, Reykjavíkurskóli og Prestaskólinn. Hér er dómkirkjan. Hér skulum við byggja okkar borg. Vegur Reykjavíkur vex smám saman þegar líður á nítjándu öldina og upp úr aldamótum búa hér um 6.000 manns, þar af nýfenginn ráðherra Íslendinga. Frá þessum tíma eru flest þau lágreistu hús sem nú setja svip sinn á miðborgina. En yfirbragð hennar er enn í mótun. Það er í raun aðeins nýlega sem sæst hefur verið á gildi þessara litli húsa fyrir svip borgarinnar og minna kapp lagt á að ryðja þeim burt eða kaffæra bak við reisulegri minnisvarða. En þegar slíkt hendir er mikilvægt að kann allar aðstæður frá sjónarhóli fornleifafræðinnar. Varðveisla sögulegra minja í Reykjavík felst þó kannski ekki síður í að hlúa að þessum gömlu húsum og tryggja þeim góða sambúð við síðari tíma byggingar. Sundurleysið í svip borgarinnar ber í sér töfra hennar. Og eins er um söguna. Við getum ekki státað af stórkostlegri sögu þar sem uppgangur og harðræði takast á og skilja eftir minnisvarða síðari kynslóðum til handa. Fáeinir húsagrunnar í sverði kvosarinnar og á einstaka stöðum í borginni eru einu leifar um byggð hér í fornöld. En þó hefur það ekki verið rannsakað að fullu.

Tign Reykjavíkur er af allt öðrum toga en útlendra stórborga, í stórhuga hógværð sinni ber hún skammri sögu okkar einstakt vitni og gerir enn í sinni stöðugu mótun þegar ný öld er um það bil að hefjast. Fornleifarannsóknir hafa þó fært henni sama tilverurétt og annarra höfuðborga, að því leyti að hún byggir þrátt fyrir allt á mjög gömlum grunni og er jafngömul sögu þjóðarinnar. Og hver veit nema að í framtíðinni gefist þess kostur að grafa frekar í svörð hennar þar sem vitað er um leifar fyrstu íbúanna, svo sem í kvosinni, við Alþingishúsið, á Arnarhóli og í Laugarnesi. Slík heildarathugun á byggðasögu henanr mun ekki gera Reykvíkingum fært að bera sig saman við Parísarbúa eða Lundúnarverja, en hún myndi án efa varpa frekara ljósi á uppvöxt Reykjavíkur, þann vöxt sem enn á sér stað og er samofinn lífi fólksins í borginni.

Byggðasaga Reykjavíkur og fornleifarannsóknir í Kvosinni
Þegar Skúli Magnússon stofnaði Innréttingarnar árið 1751 var Reykjavík aðeins venjulegur sveitabær. Verksmiðjunum var valinn staður við hliðina á bæjarhúsunum. Bærinn er talinn hafi staðið þar sem Hjálpræðisherinn er nú og byggðust því Innréttingarnar út af Aðalstræti, sem hafði verið sjávargata Reykjavíkurbóndans. Fljótlega byggðist upp hið gamla tún Reykjavíkurbæjar og er Austurvöllur leifar þess. Búskapur lagðist fljótlega af.
Reykjavíkurkirkja stóð þar sem núna er Fógetagarðurinn og hefur verið kirkjugarður kringum hana, allt þar til Dómkirkjan var byggð árið 17… Kirkjugarðurinn var þó áfram í notkun þar til kirkjugarðurinn við Suðurgötu var opnaður um miðja 19. öld. Frá upphafi samfelldrar byggðar í Reykjavík hafa menn því alltaf vitað um menjar gamla Reykjavíkurbæjarins og kirkjugarðsins. Allar götur síðan á 18. öld hafa menn rekist á fornar minjar: hleðslur, öskur, bein osfrv, við byggingaframkvæmdir frá Vonarstræti og norður undir Hallærisplanið.
Í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar var ákveðið að ráðast í meiriháttar fornleifauppgröft á gamla bæjarstæðinu. Þá var grafið á lóðunum Aðalstræti 14 og 18, Suðurgötu 5 og Tjarnargötu 6. Við þennan mikla uppgröft komu í ljós bæði leifar af húsum innréttinganna í Aðalstræðti en einnig miklu eldri leifar frá því að menn fyrst tóku land í Reykajvík. Að minnsta kosti tveir skálar hafa verið við Aðalstrætið og sá þriðji við Suðurgötuna. Ekkert virðist byggt í Aðalastræti eftir að fyrstu skálarnir þar fara í eyði. Byggðin heldur eingöngu áfram á svæðinu milli Suðurgötu, Vonarstrætis og Kirkjustrætis. Síðar hefur einnig verið grafið á lóðinni á Suðrgötu 7 og þar komu í ljós byggingar tengdar Reykjavíkurbænum. Síðast var grafið 1999 í miklum ruslalögum á bílastæðinu á móti húsi Happrættis Háskólans. Þar hefur verið mýri við nyrstu mörk Tjarnarinnar. Allt sem fannst við þann uppgröft reyndist vera yngra en frá 1500.
Hinn 9. september s.l. [2005] lauk vettvangsrannsókn á fornleifum undir húsinu í Aðalstræti 10, sem er talið elsta hús í Reykjavík. Rannsóknin fór fram vegna viðgerða og endurbyggingar á húsinu. Lækka átti jarðveg undir gólfi vegna einangrunar og lagna og einnig að grafa niður til að styrkja undirstöður hússins. Því þurfti að kanna hvort fornleifar væru þar fyrir.
Bæði var talið að þar gætu verið leifar eldri húsa frá 18. öld og jafnvel eldri ummerki um mannvist. Á ýmsum nálægum lóðum, Aðalstræti 12, 14, 16 og 18, höfðu áður fundist minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Húsið Aðalstræti 10 er byggt upp úr miðri 18. öld. Undir mestum hluta gamla hússins sjálfs hafði ekki verið kjallari og því voru þar óröskuð jarðvegslög. En viðbygging við húsið að vestan hafði verið grafin dýpra niður.

Minjar þær er fundust undir gólfi í Aðalstræti 10 reyndust vera frá 18. öld. Þar voru steinundirstöður undan timburstokkum eða plönkum sem borið hafa uppi fjalagólfið í húsinu. Þar undir voru ýmis lög með ummerkjum um umsvif manna á staðnum, m.a. töluverð lög af móösku úr eldstæðum nálægra bygginga. Nokkuð fannst af glerbrotum, einkum rúðugleri, einnig nokkuð af dýrabeinum. Meðal tímasetjanlegra gripa var nokkuð af brotum úr leirílátum, postulíni og tóbakspípum úr leir. Ekki fundust ummerki um eldri byggingar sem kann að benda til þess að hér sé komið norður fyrir bæjarstæði Reykjavíkurbæjarins gamla.

Helstu heimildir um Reykjavík:
-Kristín H. Sigurðardóttir – Fornleifarannsókn að Suðurgötu 7 í Reykjavík. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1986.
-Kristján Eldjárn – Hann byggði suður í Reykjarvík. Reykjavík í 1100 ár, Helgi Þorláksson ritstj., (Safn til sögu Reykjavíkur), Reykjavík 1974.
-Matthías Þórarson – Fundnar fornleifar í Reykjavík, 15. júní 1944.
-Else Nordahl – Landnámstid i Reykjavík. Hus, gård och bebyggelse, Guðmundur Ólafsson ritstj. Reykjavík 1983.
-Else Nordahl – Reykjavík from the Archaeological Point of View, Uppsala 1988.
-Ragnar Edvardsson – Fornleifar á Arnarhóli. Árbók hins íslenzka fornleifaféalgs 1994, 17-28.
-Þorkell Grímsson – Reykvískar fornleifar. Reykjavík í 1100 ár, Helgi Þorláksson ritstj. (Safn til sögu Reykjavíkur), Reykjavík 1974, 53-74.
-Þorleifur Einarsson og Þorkell Grímsson – Ný aldursgreining úr rannsókninni Aðalstræti 14, 16 og 18, 2000 – 2003. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1968.

Reykjavik-801

Landnámssýning

Eftirfarandi umfjöllun um fyrirhugaða sýningu á víkingaaldarskála við Aðalstræti í Reykjavík er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Fornminjar hafa fundist við Aðalstræti og næsta nágrenni. Forsaga staðarins er nokkur sem og eldri rannsóknir á svæðinu. Hér verður m.a. fjallað um sannfræði upplýsinganna, upprunaleika minja og helgi þeirra.
Fornleifar í Kvosinni fundust þegar fyrir 1950. Áður var vitað að slíkar minjar kynnu að leynast á svæðinu m.a. vegna texta Landnámu um búsetu Ingólfs Arnarssonar og síðari tíma texta um að “öndvegissúlur hafi sést í eldhúsi í Reykjavíkurbænum” fram á 19. öld. Örnefnin Ingólfsnaust og Ingólfsbrekka bentu m.a. til staðsetningar bæjar Ingólfs, elsta bæjar Reykjavíkur. Þegar grafið var fyrir Tjarnargötu 4 (Happrætti Háskóla Íslands) á fimmta áratug 20. aldar, komu í ljós miklar fornminjar, dýrabein o.fl., en fáir voru upprifnir af því sem þá bar fyrir augu. Þá var líkt og nú gerist. Matthías Þórðarson skoðaði svæðið, en ekki var gerð gagnmerk rannsókn á leifunum, sem þá fundust, enda enginn sérstakur áhugi þá á að varðveita minjar tengdar Ingólfi heitnum, hvað þá að varðveita þær til sýningarhalds. Sennilega hefur mest af gamla bænum verið mokað burtu umrætt sinni – því miður.
Áskorun embættismönnum borgarinnar kom fram árið 1959 um að friða svæði á horni Túngötu og Aðalstræti – “því þar væri að finna leifar af bæ Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns”. Helgi Hjörvar gaf m.a. út bók með greinum þar sem fram kom að hann vildi staðsetja Alþingi Íslendinga á fyrrgreindum stað, “enda vel við hæfi”.
Fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu 1962. Við C14 greiningar komu í ljós mjög gamlar minjar. Uppgröftur Else Nordahl í Aðalstræti 14 og 18 og jafnframt Suðurgötu 3 og 5 fóru fram á árunum 1971-75. Hún var mjög varfærin í túlkun niðurstaðna sinna og þær skyldu því lítið eftir sig. Málið í heild hlaut litla athygli og engir minnisvarðar voru reistir á vettvangi, þrátt fyrir tilefni til þess. Ummerki fundust um landnámsbyggð.
Uppgreftir í Aðalstræti 12 og 8 og Suðurgötu 7 gáfu einnig til kynna ummerki eftir landnámsbyggð á svæðinu.
Ummerki um landnámsbyggð, allt frá elstu tíð, s.s. leifar af skálum, en fáir gripir. Skálarnir voru litlir, 12-14 m langir og eldri byggingar höfðu greinilega raskað þeim eldri.
Útbreiðsla minjanna má greina með lagni. Elstu minjar eru þar sem nú er Herkastalinn og hús Happdrættis Háskóla Íslands. Meginsvæðið nær þó lengra til norðurs að Ingólfstorgi og jafnframt lengra til suðurs. Lýsingar Matthíasar eru slíkar að líkur benda til þess að þarna hafi elstu minjarnar verið. Herkastalinn er grunnt grafinn svo ekki er með öllu útilokað að þar undir kunni að leynast minjar er gætu gefið bæjarstæðið til kynna. Hér er þó ekki komin endanleg mynd á svæðið því enn eru reitir á svæðinu, sem enn hafa ekki verið grafin upp, bæði lóðir og götur.
Alls staðar þar sem grafið hefur verið hafa fundist einhverjar minjar frá fyrstu tíð. Hið merkilega er að eftir rannsóknina á 8. áratugnum var mokað yfir rústirnar og hvergi sjást ummerki eftir uppgötvanir þær, sem þá voru gerðar.
Endurbygging Aðalstrætis 16 og uppbygging á reitnum Aðalstræti 14-18 hafa nú að mestu farið fram. Áður voru gerðar fornleifarannsóknir á útmánuðum 2001. Í ljós komu minjar frá Innréttingatíma og síðar, auk skála frá 10. öld. Skálinn var nánast heill og dæmigerður fyrir sinn tíma. Það gerði hann hentugan til sýningarhalds. En var hann “Ingólfsbær”? Fjölmiðlar voru a.m.k. upprifnir af þeirri mögulegu staðreynd. Því verður þó ekki hnikað að skálatóftin getur ekki verið eldri en frá miðbiki 10. aldar og síðar. Við norðurenda skálans fundust veggjabrot er bendir til að sé eldra en textalandnám segir til um, þ.e. fyrir 870. Því er hér um að ræða einn tveggja staða á landinu, sem benda til eldra landnáms en textaheimildir kveða á um. Hinn er Húshólmi í Ögmundarhrauni, í umdæmi Grindavíkur.
Einkenni skálans voru bogadregnir útveggir, langeldur í miðju hans, inngangur á öðrum langvegg og þrískipting byggingarinnar. Hið óvenjulega voru bakdyr og forskáli til hliðar er síðar kom í ljós. Langeldurinn er óvenju vel hannaður. Það bendir til þess að fólkið hafi litið stórt á sig. Skálinn er hins vegar lítill á íslenskan fornaldaskálamælikvarða. Um hefur verið að ræða meðalheimili og þar hefur verið búið í u.þ.b. 70 ár. Skálinn hefur að öllum líkindum verið yfirgefinn um 1000.
Þrjár rostungstennur fundust í skálanum. Fleiri slíkar hafa fundist í Reykjavík. Þessum var stungið undir hellu og geymdar þar. Hafa ber í huga að fyrst var, skv. heimildum, farið til Grænlands 983 svo rostungurinn gæti hafa verið veiddur hér á landi. Það eitt ætti að vera nokkuð merkilegt.
Glerbort úr litlum bikar fannst í tóftinni. Það á sér hliðstæðu úr öðrum víkingaaldargripum. Þetta mun þó vera elsta glerbrot úr uppgrefti á Íslandi. Glerið gæti verið stöðutákn og til merki um sambönd og ríkidæmi ábúandans.
Borgarstjórn ákvað að varðveita skálann. Rökin voru afgerandi, en ekki einhlít. Hönnun fyrirhugaðs hótels var því breytt og gert ráð fyrir að hægt væri að sýna þessar minjar. Sumir vildu þó ganga lengra og byggja sérstaka sýningaraðstöðu þeim til handa. Það þótti hins vegar of dýr framkvæmd. Því varð þessi málamiðlun niðurstaðan. Borgarsjóður ber kostnað af sýningarrýminu, en hann má áætla um 500 milljónir króna.
Rústin var hulin eftir uppgröftin og framhaldsrannsókn síðan gerð 2003. Sýningarundirbúningurinn hófst 2004, en sýningin er í rauyn tækifæri til að upplýsa hvernig fornleifar líta út. Með því er ekki verið að útiloka að eldri minjar kunni að leynast á svæðinu, jafnvel undir skálanum, þótt litlar líkur bendi þó til þess.
Forvarsla skálans varð erfitt viðfangsefni því ekki hafði verið tekist á við slíkt viðfangsefni hér á landi fyrr. Áætlað var að þurrka tófina, en hún myglaði. Í ljós kom að vatnslind er undir henni miðri. Efnið er í rauninni mold, sem verður að ryki við þornun. Niðurstaðan var að baða hana í sílikoni. Það hefur ekki verið gert áður svo hér er um tilraun að ræða. Óvíst er hver árangurinn kann að verða. Forvarslan nær í fyrstu til ytri gerðar tóftarinnar, en síðar verður hugað að miðju hennar.
Sérsýning verður því í fyrirhöguðu hóteli um landnám í Reykjavík.
Skálinn verður aðalsýningargripurinn. Áhersla verður lögð á fornleifarnar fremur en söguskýringu. Skýr aðgreining verður milli hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Um er að ræða málamiðlanir.
En fyrir hvern er sýningin? Erlenda eða innlenda ferðamenn?, skólabörn? eða alla? Er hún samkeppni eða viðbót við Þjms og aðrar sýningar? Líklega verður hún samkeppni þar sem ferðamenn í miðborginni munu geta á einum stað og á skömmum tíma geta kynnt sér upphaflega búsetu norrænna manna hér á landi, án þess að þurfa að fara í Þjms.
En hvað um Hallveigu og Ingólf? Í Íslendingabók Ara fróða frá því um 1130 segir að Ingólfur, maður norrænn, hafi fyrstur sest að í Reykjavík um 870. Yngri heimildir segja að afkomendur Ingólfs og Hallveigar konu hans hafi búið hér mann fram af manni. Þorkell máni, sonarsonur Ingólfs og Hallveigar gæti samkvæmt því hafa búið í skálanum, sem hér var reistur um 930.
Niðurstöður fornleifarannsóknarinnar varpa engu ljósi á sannleiksgildi hinna rituðu heimilda. Mörgum þykir hins vegar athyglisvert að fornleifafundurinn hér stangast ekki á við frásögn Ara fróða af landnámi Ingólfs í Reykjavík. En hafa ber í huga, að þótt elstu mannvistarleifarnar á þessum stað geti ekki verið yngri en frá því um 870 þá gætu þær vel verið nokkrum áratugum eldri.
Hugsanlega eiga líka eftir að finnast ennþá eldri merki um búsetu manna á Íslandi, því margt er enn órannsakað, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, s.s. í Húshólma.
Yfirskrift sýningarinnar í kjallara hótelsins verður: Reykjavík 871±2 – Landnámssýning / The settlement exhibition.
En af hverju að sýna þessar fornleifar? Og það á þessum stað? Og með þessum tilkostnaði?
Í rauninni er þetta “helgur” staður í augum Reykvíkinga? Fyrirhuguð sýning er áhersla á fornleifarnar frekar en söguna. Skálinn er aðalsýningargripurinn og sýningin snýst um hann. Um er að ræða skýr aðgreining hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Það er sérstakt.
Sýningin er fremur lítil. Tekur um 10-15 mínútur að ganga í gegnum hana, en möguleiki er á lengri viðdvöl. Fyrst, á leið niður, verður kynnt landnám á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Svolítill texti verður um Ingólf Arnarsson til þessa dags. Móttaka, sölubúð og tölvuver með ítarupplýsingum taka á móti gestum í kjallara. Sagt verður frá ritheimildum áveggjum, auk “panaorama” myndum er sýna umhverfið við landnám. Vandamálið er hversu lágt er til lofts. Það verður stærsti ókostur sýningarinnar. Við enda tóftarinnar verður lítil upphækkun, en þar verður möguleika að horfa yfir “sviðið”. Klefi verður þar sem hægt er að horfa í skjá og skoða endurgerð af rústinni. Hægt verður að fara í gegnum hana og skoða sig um. Margmiðlunarborð með líkan af rústinni leiðir gestina í gegnum hana. Skýringar og textar segja til um einstaka hluta hennar. Þarna gæti fólks staldrað við í allt að klukkustund.

Fimmtán textar verða á veggjum. Síðasti textinn fjallar um framangreindan texta um Hallveigu og Ingólf.
Nokkur umfjöllun hefur verið um þessa fyrirhugaða sýningu. Þráinn Bertelsson, dálkahöfundur, sagði m.a. í Fréttablaðinu 29. 08. 2001 eftirfarandi: “Ekkert land í veröldinni er svo ríkt af fornminjum að þar geti að líta bústað fyrsta nafngreinda fólksins sem tók sér bólfestu í landinu. Bæjarrústir Ingólfs og Hallveigar eru fornleifafundur sem er einstæður ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni. … Ingólfsbær er þjóðargersemi og þjóðargersemar á að varðveita með öðrum og myndarlegri hætti heldur en í hótelkjallara, jafnvel þótt með því sé hægt að harka inn fáeinar krónur. Þarna á að rísa safn einstakt í Evrópu og minna á landnám Íslands, landkönnun í vesturátt, íslenska þjóðveldið og þróun víkingasamfélagsins til okkar daga. Þjóð sem misbýður sögu sinni með því að vísa fyrstu landnámsfjölskyldunni til dvalar í hótelkjallara verður aumkunarverð í augum alls heimsins.”
Um svipað leyti fór fram umleitan og skoðanakönnun á nýtingu fornleifanna við Aðalstræti. Spurt var: Á að byggja yfir landnámsbæinn í Aðalstræti? Já sögðu 33%, nei sögðu 67%.
Skoðanakönnun þessi var birt á www.visir.is og í Fréttablaðinu 12.11.2001.
Gunnar Smári Egilsson, dálkahöfundur, skrifaði eftirfarandi um sýninguna í DV þann 15.01. 2002: “Það hefur heldur enginn efast um að landnámsskáli hafi verið í Aðalstræti. Þær rústir sem menn hafa nú grafið upp bæta þar engu við – það er líklegra að þær skyggi á hugmyndir okkar af bænum en auðgi þær.
GrafiðOg þótt við drögum túrista að rústunum mun það ekki auðga líf þeirra – eða skilning þeirra á sjálfum sér eða okkur. Það er því óþarfi að byggja viðhafnarskála kringum heimsókn túristanna að rústunum. Eðlilegast er að moka yfir grjótið og halda lífinu áfram.”
Varðveisla skálans er véfengjanleg sem og túlkun fornleifafræðinga. Skörð hafa myndast í veggi tóftarinnar, hún varð hvít að lit, kostnaður varð mikill, lágt er til lofts og erfitt er fyrir gesti að skynja tóftina. Til hvers er þá sýningin? Forvarsla varð bæði kostnaðarsöm og hæpin þar sem umbreyting á eðli efnisins (torf í plast) er að ræða. Önnur áferð og litbrigði gefa varla rétta sýn á minjarnar sem slíkar. Og hvað er þá upprunalegt? Staðurinn, formið, steinefnin? Nóg er eftir til að hægt sé að halda því fram að tóftin sé upprunaleg. En hvers vegna ekki að hlaða veggina á nýtt og jafnvel skipta um þá reglulega? Hversvegna ekki að lækka rústina svo hægt verði að sjá yfir hana? Hér er einungis fárra álitamála getið.
Ljóst er að fornleifar frá landnámsöld í Kvosinni eru helgistaðir íslensks þjóðernis. Helgin er aðdráttarafl. Fjármagn skortir ei. Áhugi ferðamanna mun vissulega verða fyrir hendi – a.m.k. sumra.
Hvert er þá hlutverk fornleifafræðinga í þessu öllu saman? Hver er ábyrgð þeirra? Fornleifafræðingar hljóta að spyrja sig; hvað er hægt að tala um og hvað ekki? Sýningin opnar a.m.k. á aðrar túlkanir og aðra sýn á landnámið en tíðkast hefur. Hugsanlega gæti hún breytt ríkjandi skoðunum. Fleira kemur og til greina.
Hið sérstæða, og þó, er að enginn höfundur er að fyrirhugaðri sýningu í kjallara hótelsins. Leiktjaldahönnuður sér um útlit og verkefnastjóri stýrir hópi vísindamanna um álitamál og textagerð. Enginn ber heildarábyrgð á sýningunni sem slíkri. Ritstjóri er yfir sýningarbók og bæklingi (textum) og umskrifari fer yfir og gengur frá textum. Ljóst er að vandað verður til útlits og allra formlegheita. Forðast þarf alla meinbugi því þeir munu verða öðrum eftirminnilegri en kostirnir og megináherslur.
Segja má að í gegnum tíðina, m.a. vegna meðvitunar- og eftirtektarleysis, hafi Reykvíkingar gloprað niður tækifærinu til að uppgötva að nýju hinn raunverulega forna landnámsskála Ingólfs Arnarssonar.
Gaman verður að sjá hvernig til tekst.

Framangreint er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006. Texti er á ábyrgð ritara.

Landnámssýning

Landnámsýningin.

Landnámssýning

Eftirfarandi punktar um landnám Íslands eru fengnir úr nokkrum af fjórtán erindum sem flutt voru á ráðstefnu Vísindafélags Íslendinga haustið 1990. Fengnir voru 17 fræðimenn á ýmsum sviðum til að fjalla um viðfangsefnið. Efnið var síðan gefið út í bókinni “Um landnám Íslands” árið 1996.

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Ólafur Halldórsson fjallar um málið og menninguna, þ.e. þess fólks, sem kallað hefur verið landnámsmenn Íslands. Hann getur þess að ekki séu til neinar samtímaheimildir íslenskar um það mál sem landnemarnir töluðu. Hér á landi hafa engir rúnasteinar fundist frá fyrstu öldum byggðarinnar og engar heimildir eru um að Íslendingar hafi reist látnum vinum og vandamönnum bautasteina, enda hafa engir þvílíkir steinar fundist. Í Reykjaholtsmáldaga og í predikunarbók, tvö blöð, sem varðveitt eru í Árnasafni, eru elstu textar íslenskir. Þar má sjá það mál sem Íslendingar töluðu um miðja 12. öld, en þá töluðu allir Íslendingar sömu tungu og þá gekk um öll Norðurlönd, utan Finnlands. Sérhljóðakerfið var flókið, eða 27 sérhljóð. Málið tók töluverðum breytingum á 13. og 14. öld og hefur í raun haldið áfram að breytast fram á okkar daga – og er enn að breytast. Málið okkar fylgir norskunni; hún er vesturnorrænt mál. Elstu handrit norsk eru frá svipuðum tíma og elstu íslensku handritin og nægilega mikill texti er varðveittur á þeim til þess að málfræðingar hafa getað gert sér grein fyrir mállýskumun í norsku um miðja 12. öld og greint á milli vestur- og austurnorsku. Mannanöfn og örnefni eru órækur vitnisburður um að allur þorri landnámsmanna hefur verið mæltur á norræna tungu. Sum nöfn benda þó til keltnesks uppruna eða siðar, s.s. Fjallið eina og Heiðin há. Landnemarir voru flestir heiðnir og bar menning þeirra þess glögg merki, bæði í rituðum heimildum og fornleifum. Í þjóðsögum og venjum, sem landnemarnir hafa haft með sér að heiman, örlar sannarlega einnig fyrir keltneskum minnum. En hugur landnámsmanna reikar jafnan til fyrri heimkynna og má segja að hugur margra hafi verið í Noregi. Menningin í upphafi hefur að miklu leyti verið norsk bændamenning, en með ákaflega hollum áhrifum sem landnemar frá byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum hafa flutt með sér, þar á meðal sumt af keltneskum rótum runnið.

Jakob Benediktsson ritar um ritaðar heimildir um landnámið. Getur hann þar um og vitnar til Íslendingabókar og Landnámabókar. Bæði þessi rit eru upphaflega til orðin á fyrstu áratugum 12. aldar, og milli þeirra eru bein tengsl. Ritin voru afrituð nokkrum sinnum.
Ari fróði samdi tvær gerðir Íslendingabókar, en eins og kunnugt er endurskoðaði hann fyrri bókina að tilmælum biskupanna og Sæmundar fróða, og felldi út úr henni hluta. Fyrri gerðin er glötuð, en hún var til fram á 13. öld. Síðari gerðin er varðveitt í nokkurn veginn þeirri mynd, sem ætla má að Ari hafi gengið frá henni. Brynjólfur biskup lét Jón Erlendsson skrifa hana upp eftir handriti frá því um 1200. Lét hann m.a.s. gera það þrisvar. Gamla skinnbókin er þó glötuð, en tvö afritin hafa varðveist.
Elsta afrit Landnámabókar er Sturlubók (Sturlu Þórðarsonar d. 1284). Hún ein er varðveitt heil í uppskrift Jóns Erlendssonar eftir allgóðu handriti frá því um 1400, en það handrit brann 1728. Önnur gerðin er Hauksbók (Haukur Erlendsson (rituð 1306-08). Fjórtán blöð eru varðveitt úr henni, en einnig var hún til í afriti í svonefndri Styrmisbók. Melabók, kennd við Melamenn í Melasveit, var afrit frá því um 1300. Aðeins tvö blöð hafa varðveist. Skarðsárbók er samsteypa úr Hauksbók og Sturlubók, afrituð af Jóni Erlendssyni. Hún var grundvöllur fyrstu útgáfu Landnámabókar 1688.
Guðmundur Ólafsson fjallar um vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám Íslands. Þar segir hann að fornleifafræðin fáist um nafnlausa einstaklinga og þær áþreifanlegu leifar sem þeir hafa skilið eftir sig. Þær minjar sem um ræðir eru einkum forngripir, grafir og greftrunarbúnaður og mannvirkjaleifar. Í lokin segir hann að hugsanlega eiga eftir að finnast sannanir fyrir því að hér hafi menn numið land fyrr en núverandi heimildir gefa tilefni til að ætla. Í dag liggja þó engin gögn fyrir, sem réttlæta slíkar staðhæfingar.
Ólafur Jensson sagði frá erfamörkum, erfðasjúkjómum og uppruna Íslendinga. Í rannsóknum sem gerðar hafa verið benda niðurstöður til þess að okkur svipi til Norðmanna í um 63% tilvika og til Íra í um 13% tilvika. Þá svipar um 22% Íslendinga hvorki til Norðmanna né Íra.
Stefán Aðalsteinsson fjallar um uppruna íslenskra húsdýra. Hjá honum kemur m.a. fram að nautgripir hafi helst komið frá Guernsey eða jafnvel verið af gömlu norsku kúakyni. Hross hafi komið frá Hjaltlandi og sauðfé verið ættað frá Noregi. Geitur, svín og hundar voru ættuð frá Norðulöndum, kettir frá Írlandi, en óvíst er um uppruna músa.
Þá er fjallað um gjóskulagarannsóknir m.t.t. aldursgreininga, geislakolsaðferðina til nota við aldursgreiningu, frjókornagreiningu til aldursákvörðunar, ískjarnatöku úr jöklum til aldursákvörðunar, veðurfar á Íslandi um landnám, gróðurfar, landnýtingu og fleira.

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Heródes

Letursteinninn Heródes.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.Â
Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Goðatóftin við Hóp.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Garðar í Hópstúni.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.
Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Hóp

Tóft í Hópstúni.

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við. Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.
Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur “Tyrkjunum” þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir “kaupstaðir” á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Hafnir

Skáli í Höfnum.

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili. Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli “Vágs ok Reykjaness”, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið “vágr” og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.

Hafnir

Skálinn í Höfnum – uppdráttur BE.

Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar. Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu.
Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil “hús” austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanesbaer.is/
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Landnámsmenn

Ísland byrjaði að byggjast frá Noregi á 9. öld. Samkvæmt hefðbundinni söguskoðun og þeim skriflegu heimildum, sem til eru, nam Ingólfur Arnarson fyrstur manna land á Íslandi. Hann setti bæ sinn niður í Reykjavík um 870 og staðfesta fornleifarannsóknir við Aðalstræti og Suðurgötu þá tímasetningu.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Sagan segir að Ingólfur hafi valið sér Reykjavík til búsetu eftir tilvísun guðanna vegna þess að öndvegissúlur hans rak þar á land. Líklegra er þó að Reykjavík hafi verið valin vegna ótvíræðra landkosta. Þar má nefna milda veðráttu, gott skipalægi, nægt undirlendi, rekafjörur, mýrar til rauðablásturs og mótekju, heitt vatn í jörðu, gjöful fiskimið, eggver og selalátur í eyjum, ágætt beitiland, akureyjar og laxveiði í ám. Landnámsmennirnir þurftu ekki síst að treysta á veiðiskap sér til lífsviðurværis og er staðurinn sem Ingólfur kaus sér heppilegur frá því sjónarmiði.
Lítið er vitað um fjölskyldu Ingólfs og hagi hennar annað en að kona hans hét Hallveig Fróðadóttir, sonur þeirra Þorsteinn og þrælar Vífill og Karli. Þau reistu sér skála við núverandi Aðalstræti en landið, sem Ingólfur helgaði sér, var afar víðáttumikið, náði frá Brynjudalsá í Hvalfirði að Ölfusá í Árnessýslu. Afkomendur Ingólfs og Hallveigar í karllegg báru virðingarheitið allsherjargoðar vegna stöðu sinnar sem afkomendur fyrsta landnámsmannsins. Þeir beittu sér fyrir stofnun Kjalarnesþings og áttu verulegan þátt í stofnun Alþingis á Þingvöllum árið 930. Þorkell máni, sonarsonur þeirra, var lögsögumaður og sonur hans, Þormóður, var allsherjargoði er Íslendingar tóku kristni árið 1000.

Ingólfur hefur með hinu stóra landnámi sínu hugsað sér að ráða því hverjir settust að undir veldisstól hans á Suðvesturlandi. Eftir hans daga saxaðist smám saman á landnám hans. Í nágrenninu risu stórbýli sem skyggðu jafnvel á sjálfa Reykjavík, hugsanlega vegna erfða meðal afkomenda Ingólfs. Þar má nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Eftir árið 1000 er Reykjavíkur sjaldan getið í heimildum og ætt Ingólfs hverfur af sögusviðinu.
Sagan segir að Hrómundur Gripsson hafi átt tvo syni, Björnólf og Hróald. Sonur Björnólfs var Örn faðir Ingólfs og Helgu, en sonur Hróalds var Hróðmar faðir Leifs (Hjörleifs).
Þeir fóstbræður Ingólfur og Leifur fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, þar til í veislu um veturinn strengdi Hólmsteinn þess heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, og varð fátt um með þeim Hólmsteini og Leifi, er þeir skildu þar að boðinu.
Um vorið eftir bjuggust þeir fóstbræður að fara í hernað og ætluðu til móts við syni Atla jarls, en er þeir fundust lögðu þeir Hólmsteinn og bræður hanns þegar til orustu við þá Leif og Ingólf. Í þeirri orustu féll Hólmsteinn, en Hersteinn flýði en gerði för að þeim aftur um næsta vetur þar sem hann féll enda höfðu þeir haft njósn af för hans. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.
En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.
Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking. Hann herjaði á Írland og síðan var hann kallaður Hjörleifur.

En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.
Þeir bjuggu nú skip sín til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra.
Þetta sumar sem þeir Hjörleifur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi. Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.
Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða.
Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi tíðindin. Þá fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan, mælti hann: “Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé eg svo hverjum verða, ef eigi vill blóta.”
Ingólfur gekk upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu hafa flúið þangað því að báturinn var horfinn. Fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Ingólfur drap þá alla. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.
Þeir Ingólfur fóru aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.
Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

Ingólfur fór um vorið og tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu komið á land og bjó þá í Reykjarvík. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: “Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.”
Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla sonur þeirra var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður en alþingi var sett.
Samkvæmt heimildum Örnefnastofnunar er engin vík eða vogur í höfuðstaðnum sem ber nafnið Reykjavík. Upphaflega nafnið var Reykjarvík með r eins og sjá má í frásögn Íslendingabókar af því þegar Ingólfur Arnarson tók sér bólfestu á þeim stað sem seinna varð höfuðstaður Íslands. Þar segir „ … hann byggði suðr í Reykjarvík“. Örnefnið Reykjarvík hefur væntanlega átt við víkina milli Laugarness og núverandi Granda (eða Örfiriseyjar).
Vel þekkt er sú saga að Reykjavík hafi fengið nafn sitt af reyknum sem Ingólfur Arnarson sá stíga upp úr laugunum þegar hann fyrst kom á staðinn. Í bókinni Saga Reykjavíkur segir Klemens Jónsson (1944) að á landnámsöld megi gera ráð fyrir að laugarnar hafi verið heitari en nú og því borið meira á reyknum. Einnig nefnir Klemens þá gömlu sögn að í norðvestanverðri Örfirisey hafir fyrrum verið laug sem sjór sé nú genginn yfir. Sé það rétt, hafi á sínum tíma verið hverareykir bæði austan og vestan víkurinnar og því eðlilegt að kenna hana við reykina.
Orðmyndin Reykjarvík virðist hafa horfið fljótlega því að í eldri heimildum er landnámsjörðin yfirleitt nefnd Vík á Seltjarnarnesi. Með tímanum festist þó nafnið Reykjavík í sessi og eftir að þéttbýli tók að myndast er alltaf talað um Reykjavík.

Í miðaldaritum er frá því sagt að Ingólfur Arnarsson hafi fyrstur numið land á Íslandi og búið í Reykjavík. Heimildirnar, Íslendingabók frá fyrri hluta 12. aldar og Landnámabók sem er yngri, geta þess aðeins að bær Ingólfs hafi verið í Reykjavík en ekkert kemur fram um hvar nákvæmlega bær hans hafi staðið. Í Landnámabók er sagt frá því að öndvegissúlur Ingólfs hafi rekið á land við Arnarhól og hefur þess verið getið til að fyrsti bústaðurinn hafi verið þar. Á Arnarhóli var á seinni öldum bær með sama nafni og getur þetta því vel staðist. Hinn möguleikinn sem helst hefur verið nefndur er að bær Ingólfs hafi verið við suðurenda Aðalstrætis, á tjarnarbakkanum, en Tjörnin náði þá mun lengra til norðurs en hún gerir nú. Á þeim slóðum stóð Reykjavíkurbærinn á seinni öldum og þar hafa fundist fornminjar sem staðfesta byggð á seinni hluta 9. aldar. Landámabók getur þess einnig að öndvegissúlurnar sjáist “enn” í eldhúsi í Reykjavík. Þetta hefur verið ritað á 13. öld og virðist þá hafa staðið hús í Reykjavík sem menn töldu ævafornt.
Fornleifagröftur í Aðalstræti gefa til kynna að þar hafi verið skáli í fornöld.

http://www.anok.is/saga_reykjavikur/rvk/874-1200
http://www.islandia.is/systah/ing%c3%b3lfur_arnarson.htm
http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2252
http://www.instarch.is

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti – skáli.

Hóp

Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson er nam Selvog og Krýsuvík. Í Landnámabók segir svo frá Moldar-Gnúpi að hann hafi verið sonur Hrólfs höggvandi, sem bjó í Moldartúni á Norðmæri í Noregi. Þeir Gnúpur og Vémundur bróðir hans voru vígamenn miklir og vegna drápa þeirra fór Gnúpur til Íslands. Hann nam land á milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann uns byggðin spilltist af hraunstraumi en þá hélt hann vestur til Höfðabrekku og reisti sér skála, þar sem nú heita Kaplagarðar og dvaldist þar um veturinn. Þar lenti hann enn í ófriði og hélt um vorið ásamt sonum sínum vestur til Grindavíkur og tóku þeir sér þar bólfestu.

Grindavík

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

(Þessi saga er rituð í Sturlungabók, en í annarri gerð Landnámu, Hauksbók, segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir, Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík. Sérfræðingar geta ekki fullyrt hvort er rétt en telja meiri líkur á að Molda-Gnúpur hafi komist alla leið.)
Erfitt er að tímasetja landnámið nákvæmlega. Nýlegar rannsóknir jarðfræðinga sýna að hraun hefur runnið yfir Álftaver og þau svæði sem Moldar-Gnúpur settist fyrst að á um og eftir 934. Þessu ártali kann að skeika um 1 eða 2 ár til eða frá, en ef það er notað til viðmiðunar hefur Moldar-Gnúpur og fólks hans komið til Grindavíkur um og eftir árið 940.
Fólkinu virðist hafa gengið vel að koma sér fyrir eins og fram kemur í hinni frægu sögu um Hafur-Björn: “Björn hafði nær ekki kvikfé; hann dreymdi að bergbúi kæmi at honum og byði að gera félag við hann, en hann játti. Þá kom hafr til geita hans litlu síðar; því var hann Hafr-Björn kallaðr. Hann gerðist bæði ríkr og stórauðigr. Þat sá ófresk kona, at allar landvættir fylgdu Hafr-Birni þá er hann fór til þings en Þorsteinn ok Þórði bræðrum hans þá þeir fiskuðu”.
Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Moldar-Gnúpi og sonum hans og ekkert er vitað með vissu um byggðina og sögu hennar næstu 300 árin eftir landnám. Engu að síður verður að telja líklegt að flestar bújarðirnar hafi byggst þegar á 10. og 11. öld og með því að gefa hugarfluginu lausan tauminn til þess að reyna að lesa milli línanna í

Grindavík

Minjar í túninu á Hópi.

Landnámu og þætta saman frásögn hennar og alþekktrar þjóðsögu má geta sér til hvernig hin fyrsta byggð í Grindavík hefur risið.
Hvergi kemur fram hve margt fólk fylgdi Moldar-Gnúpi á ferð hans austan úr Álftaveri, en varla hafa það verið færri en 20-30 manns, fjölskylda og fylgdarlið.
Þegar landnemarnir voru komnir á áfangastað hafa þeir vafalaust byrjað á því að velja sér stað til vetursetu og reist þar skála. Sá staður hefur að öllum líkindum verið í námunda við Hópið, trúlega á einhverjum þeirra staða sem síðar risu bæirnir Húsatóftir, Hóp og Járngerðarstaðir. Hópið var ákjósanlegur staður til að setjast að og reisa skála. Þar var öruggt vatnsból, stutt sjávargata, góð lending fyrir báta og mikil fjörugæði. Hinn fyrsta vetur hafa landnemarnir vafalítið notað til að kanna landkosti í nýjum heimkynnum og ekkert var eðlilegra en þeir Molda-Gnúpssynir tækju að svipast um eftir löndum fyrir sjálfan sig. Að sögn Landnámu voru þeir allir fullorðnir er hér var komið sögu og frumbyggjasamfélagið krafðist þess að menn staðfestu ráð sitt og hæfu búskap eins fljótt og auðið var.

Grindavík.

Tóft á túninu á Hópi.

Við vitum ekki í hvaða röð þeir bræður giftust né hvar hver þeirra reisti sér bú. Við vitum að bræðurnir fjórir; Gnúpur, Björn (Hafr-Björn), Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjandi. Við vitum líka að Gnúpur (yngri) giftist Arnbjörgu Ráðormsdóttur og að Hafr-Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrollleifssonar. Björn og Jórunn bjuggu í Grindavík, en óvíst er hvort Gnúpur og Arnbjörg hafi gert það líka.
Flestir kannast við þjóðsöguna um þær Járngerði og Þórkötlu, sem bjuggu á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Þjóðsögur geyma oft löngu gleymda vitneskju. Það er því ekki ólíklegt að konur með þessum nöfnum hafi í fyrndinni búið í Grindavík á þessum tveimur jörðum og jarðirnar dragi nöfn sín af þeim. Er þá ekki hugsanlegt að þær hafi verið tengdardætur Molda-Gnúps, giftast Þorsteini hrugni og Þórði leggjanda, og þá fyrstu húsfreyjur á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Hafi svo verið hafa þeir bræður verið fyrstir til að búa á þessum tveim bæjum og á sama hátt getum við hugsað okkur Moldar-Gnúpur hafi búið á Hópi (Hofi), en Gnúpur eða Björn á Stað og hinn á Húsatóftum.
Þetta er aðeins tilgáta en skemmtilegt að velta þessu fyrri okkur. Það er staðreynd að allar stærstu jarðirnar í sveitinni hafa byggst strax á landnámsöld og hverfin 3 vaxið út frá höfðubólunum.
Í Krýsuvík er landnámsmaður talinn Þórir haustmyrkur. Hann hafi búið í á bæ, sem Hlíð hét og lagt veg yfir svonefnd Grindarskörð. Þar átti þá að hafa verið svo mikill skógur að hann hafi tekið börkinn af nokkrum trjám og búið til grind og sett á skarðsbrúnina vestanverða til að merkja hvar fara ætti þegar ferð lá yfir fjallið. Er ekki ósennilegt að sú skýring að örnefninu Grindavík og Grindarskörð séu dregin af veggrindum á fjöllum uppi eigi rætur að rekja til þessarar sögu.

Úr Þættir um átthagafræði Grindavíkur – Jón Gröndal tók saman 1992.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Vífilsstaðir

Á landnámstíð bjó sá maður, sem Sviði hét, í Sviðholti á Álftanesi.

Sviðholt

Sviðholt.

Bær heitir Vífilsstaðir. Hann er einni og hálfri mílu ofar en Sviðholt. Þá jörð hafði Ingólfur Arnarsson gefið húskarli sínum, sem Vífill hét. Svo er mælt, að Vífill og Sviði hafi róið tveir saman á áttæringi og hafi Vífill gengið á Vífilsfell og gáð til veðurs áður en róið var. Bendir það til þess að hann hafi verið formaður. Þótt löng væri sjávargatan, fór Vífill ætíð heiman og heim þá er þeir reru.
Þeir Vífill og Sviði komu sér saman um að búa til mið, þar sem þeir hefðu best orðið fiskst varir. Er þá sagt, að Sviði hafi kastað heiman frá sér langlegg einum. Kom hann niður fjórar sjómílur sjávar frá landi. Heitir þar Sviðsbrún vestri. Vífill kastaði öðrum legg heiman frá sér. Þar heitir Sviðsbrún grynnri. Var vika sjávar milli leggjanna. Bilið kölluðu þeir Svið og mæltu svo um, að þar skyldi jafnan fiskvart verða, ef ekki var dauður sjór í Faxaflóa.

Þjóðsögur Jóns Árnasonar II – 1961.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðahlíð.