Tag Archive for: landnám

Esjuberg

Í Úrskurði Óbyggðarnefndar, máli nr. 3-4/2004 um  Kjalarnes og Kjós frá 31. maí 2006 má lesa eftirfarandi fróðleik um „Landnám í Kjós„:

Kjósarhreppur

Kjósarhreppur – bæir og mörk (rauð lína).

„Landnámabók getur ýmissa manna, sem námu land á þessu svæði. Fyrstur landnámsmanna var Ingólfur Arnarson: En Ingólfr nam land milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli
ok Öxarár, ok öll nes út.
Eins og getið er um varðandi Kjalarnes var Mýdalsá (nú Miðdalsá og Kiðafellsá) takmark landnáms Helga bjólu. Norðan Mýdalsár var landnám Svartkels hins katneska: Svartkell hét maðr katneskr; hann nam land fyrir innan Mýdalsá milli <ok> Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri.

Kiðafell

Kiðafell.

Svartkell hét maðr; hann fór af Englandi til Íslands ok nam land fyrir innan Mýdalsá ok millum Eilífsdalsár ok bjó at Kiðjafelli fyrst en síðan á Eyri. Eilífsdalá heitir nú Dælisá eða Bugða.
Gera má ráð fyrir að landnám Svartkels hafi náð upp í Esjuna, milli upptaka Mýdalsár og Eilífsdalsár. Valþjófr, son Örlygs hins gamla frá Esjubergi, nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli; frá honum eru Valþjóflingar komnir.

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Valþjófr, er fyrr var getit, son Örlygs at Esjubergi, hann nam Kjós alla ok bjó at Meðalfelli. … Valbrandr hét annarr son Valþjófs, faðir Torfa, er fyrst bjó á Möðruvöllum. Þeir feðgar gerðu félag við Tungu-Odd; af því bjöggu þeir síðan á Breiðabólstað í Reykjardal hinum nörðra. Landnám Valþjófs hefur því náð yfir Kjós vestan Laxár og ofan Bugðu.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár ok Forsár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refr enn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Son Þórólfs smjörs var Sölmundr, faðir Þorsteins, þess er land nam í Brynjudal á millim Bláskeggsár ok Forsár; hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs Geirleifssonar, er nam Barðaströnd; þeira son var Refr í Brynjudal, faðir Halldóru, er átti Sigfúss Elliða-Grímsson.
Landnámugerðum ber ekki saman um mörk landnáms Þorsteins Sölmundarsonar, hvort þau miðast við Botnsá eða Bláskeggsá. Er hér komið út fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar sem náði til Brynjudalsár eins og segir í upphafi.

Brynjudalur

Brynjudalur. Tóftir Múla.

Bústaður Þorsteins Sölmundarsonar er ekki nefndur, en í Þórðarbók Landnámu segir að Refur sonur hans hafi búið í Múla. Sá bær þekkist ekki og hafa menn velt vöngum yfir líklegum stað án niðurstöðu.
Maðr hét Ávangr, írskr at kyni; hann byggði fyrst í Botni; þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip.  Ávangr hét maðr írskr, er bjó í Botni fyrstr manna, ok bjó þar allan aldr sinn; þá var þar svá stórr skógr, at hann gerði þar hafskip af ok hlóð þar sem nú heitir Hlaðhamarr. Hér er átt við Stórabotn í Botnsdal, sem á land báðum megin Botnsár. Ekki kemur fram, hversu stórt land Ávangur hefur haft til umráða. Haraldur Matthíasson telur hann hafa numið allan Botnsdal.“

Heimild:
-Úrskurður Óbyggðarnefndar, mál nr. 3-4/2004 – Kjalarnes og Kjós; 31. maí 2006.

Brynjudalur

Í Brynjudal.

Víkingaskip

„Fornleifarannsóknir í Höfnum á Reykjanesi gefa til kynna að menn hafi vanið komur sínar til Íslands fyrir árið 870 og nýtt sér gæði landsins hluta úr ári. Fornleifafræðingur segir fyrri kenningar þegar vera fallnar.
Vog-2Fornleifarannsóknir á mannvistarleifum í Höfnum á Reykjanesi benda til þess að þar sé fundinn skáli sem hafi verið byggður talsvert fyrir hið hefðbundna landnám undir lok níundu aldar. Fornleifafræðingur telur að í skálanum felist nánari skýring á ástæðum þess að landnámsmenn settust að á Íslandi.

Byggðasafn Reykjanesbæjar og Fornleifafræðistofan standa að rannsóknum við Kirkjuvogskirkju, sem hófust árið 2009. Þá var um það bil fjórðungur skálans grafinn upp og benti margt til þess að um merkilegan fund hafi verið að ræða, segir dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur í samtali við Fréttablaðið en hann stýrir rannsókninni.

„Þegar skáli finnst á Íslandi er að öllu jöfnu gengið út frá því að þar sé um venjulegan bóndabæ að ræða en þá verða að vera fleiri byggingar í næsta nágrenni, líkt og fjós, smiðja, búr og skemmur og þess háttar. Þrátt fyrir mjög ítarlega leit, bæði með jarðsjá, prufuholum og loftmyndum, finnast engin önnur hús í næsta nágrenni við skálann og þá veltir maður því fyrir sér hverslags byggingu er um að ræða.“

Vog-3

Bjarni bætir því við að niðurstöður kolefnisaldurs-greiningar gefi nú til kynna að skálinn hafi verið yfirgefinn á árabilinu 770 til 880, sem gefi tilefni til að áætla að hann hafi verið byggður fyrir hið „sagnfræðilega landnám“ sem er jafnan miðað við árið 874.

„Mín vinnukenning er sú að um sé að ræða útstöð frá Norður-Evrópu, Skandinavíu eða bresku eyjunum, þar sem menn komu hingað í þeim erindagjörðum að nýta sér þær auðlindir sem hér var að finna, til dæmis bjargfugl og egg, fisk, hvalreka, og ekki síst rostungstennur.“

Bjarni segir þetta kollvarpa hefðbundnum skýringum á landnámi Íslands. „Þannig hefur búseta á Íslandi þróast úr því að vera útstöð hluta úr árinu yfir að endanlegu landnámi. Það kemur í stað þess að ímynda sér síðhærðan, reiðan kóng í Noregi sem rak höfðingja í burtu til Íslands. Það er hreinasti tilbúningur og rómantísering á upphafi okkar, til að réttlæta Íslendinga sem hluta af efri stétt Skandinava.“

Bjarni bætir við að þó að ljóst sé að gamlar „kreddukenningar“ um upphaf Íslandsbyggðar séu fallnar að hans mati, eigi aðrar kenningar erfitt með að rata inn í sögubækur vegna hinnar eðlislægu íhaldssemi sagnahyggjunnar.

Rannsóknum í Höfnum er þó ekki að öllu lokið þar sem nú stendur yfir uppgröftur á miðhluta skálans og lokahnykkurinn verður næsta sumar.“

Heimild:
Fréttablaðið 4. júní 2011, bls. 4Vog-1

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur „Tyrkjunum“ þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir „kaupstaðir“ á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnir

Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.

Hafnir

Fornleifarannsókn í Höfnum.

Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum).

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili. Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog.

Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.

Hafnir

Gönguferð um Hafnir.

Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu.

Hafnir

Hafnir – frumdrög af meintum landnámsskála.

Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins.

Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum. Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli.

Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanesbaer.is/
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Hafnir

Hafnir – uppgröftur.

Reykjavík

Eftirfarandi um „Upphaf útgerðar í Reykjavík“ birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1986:
„Ingólfur útvegsbóndi bóndi í Vík hefur ekki getað komizt með yfir hafið þann kvikfénað, sem nægt gæti heimilisfólki hans og því hefur það verið hans fyrsta verk að senda þræla sína á sjó á eftirbátnum, en svo hétu þeir bátar, sem landnámsmenn og landafundamenn þessa tíma drógu með sér og einnig höfðu þeir með sér léttbát til ,,skjóta út“, litla byttu, sem þeir höfðu á hvolfi uppi í skipi sínu og var hún þar þá einnig til skjóls.
sjo-1Ekki hefur Ingólfi litist á að stunda róðra frá Ingólfshöfða, þar sem er lending brimasöm, og tekur sig upp og fer að leita fyrir sér að betri stað til sjósóknar; hann fer yfir grösug héruð, girnileg til landbúskapar, en lýkur ekki ferð sinni fyrr en á uppgrónum hraunkarga vestur við sjó, þar sem nes og víkur og eyjar búa honum góða lendingu og þó jafnframt stutt róið á fengsæla slóð. Svo einföld er skýringin á staðarvali Ingólfs til búsetu, að hann finnur ekki álitlegan stað á suðurströndinni til róðra, og honum var nauðsynlegt að finna skjólgóða vík fyrir brimi, þar sem hann hafði ekki nema tveggja eða þriggja manna far til sóknar, en þær litlu fleytur voru illa fallnar til brimlendingar, ekki sízt eins og hann brimar fyrir suðurströndinni.
Það er hljótt um Reykjavík í fyrri alda fiskveiðisögu, það er varla að nafninu bregði fyrir í heimildum í sambandi við fiskveiðar. Það er margt, sem veldur því, að Reykjavík verður ekki sögufrægt sjávarplass á áraskipatímanum. Reykjavík verður t.a.m. aldrei verstöð og því veldur lega hennar, að þar er alla tíð á árabátaöldunum róið í heimræði.
Það er rangt, sem margir þeir hafa gert, sem reynt hafa að rekja fiskveiðisögu Reykjavíkur, að slá saman fiskveiðum og útvegi Seltirninga og Reykvíkinga.

Reykjavík

Örfirisey fyrrum.

Það eru allir sammála um að Reykjavík sé það svæði, sem kaupstaðurinn reis á og það er spildan frá Rauðará og út af Örfiriseyjargranda eða út að Seli, gegnt honum. Það hefur ekki verið minna en þriggja kortéra róður úr vörunum austan við Örfiriseyjargrandann og út á móts við yztu varir á Nesinu, svo sem Nesvör og Bygggarðsvör og fengsælasta þorsklóðin, Sviðið, því ekki nýtzt Reykvíkingum til sóknar á tveggja manna förum sínum, sem sókn þeirra byggðist á að heimildir segja. Það verða snemma skörp skil milli útvegsins á Reykjavíkursvæðinu og Seltjarnarness, sem varð verstöð snemma, en verstöðvar mynduðust á yztu nesjum og víkum yzt við firði. Það varð bæði allt annar útvegur og allt annað fólk á Nesinu en í Reykjavík. Á Nesið flykktust vermenn, mest austan yfir fjall, hraustir piltar, sem gerðu Nesstúlkum börn, og settust þar að, og þarna óx upp sterkur stofn harðsækinna sjómanna, sem sóttu út á Sviðsslóð og veiddu stórþorsk.

Reykjavík

Reykjavík 1935.

Á Nesinu myndaðist útvegsbændastétt, öflugir karlar, sem gerðu út fjagramannaför, sexæringa og áttæringa og notuðu tveggjamannaför aðeins í grásleppuna og eitthvað til sumarróðra. Það má sjá það í sagnfræðibókum, að Reykvíkingar hafi sótt fyrri hluta vertíðar suður í Garð og Leiru; um þetta má finna einstakt dæmi á 19du öld, — en það voru Seltirningar, sem höfðu þennan háttinn á almennt, ekki Reykjavíkingar.
Þar sem Reykjavík varð ekki verstöð byggðist útvegurinn þar á róðrum heimamanna, og byggðin ekki fjölmennari en 100—150 manns framá daga Innréttinganna. Þá hefur það gert þeim örðugra fyrir að sameinast um róðra á stærri bátum en tveggja manna förum, að Lækurinn klauf byggðina og menn austan Lækjar ekki sameinast mönnum til róðra, sem reru úr Grófarvörunum. Lækurinn hefur oft verið illur yfirferðar áður en brú kom á hann.

Reykjavík

Reykjavík – þurrabúð.

Ásamt því, sem áður er sagt, að lega staðarins leiddi til sóknar á smábátum á innmið, þá hefur það einhverju valdið máski, að byggðin var klofin. Víkurbóndi hefði þó meðan hann hafði bein í nefinu átt að hafa getað gert út stærra skip, þar sem byggð var snemma nokkuð þétt í Grjótanum, og kannski hefur hann gert það, þó engar séu heimildir fyrir slíkri útgerð. Það má mikið vera, ef mikill útvegsbóndi hefði verið einhvern tímann á áraskipaöldum í Reykjavík, að hann hefði þá ekki komizt inn í söguna með nafnið sitt.

Reykjavík

Reykjavík 1789.

Reykjavík verður á 17du öld verzlunarstaður og síðan iðnaðarpláss á 18du öld og það dregur úr ástundun fiskveiðanna. Menn á kotbýlunum og þurrabúðarmenn hafa þá farið að snúast í kringum verzlunina, sem pakkhúsmenn og eyrarvinnumenn í upp- og útskipun og það dregið úr róðrum þeirra og löngun til sjósóknar og síðan komu Innréttingastofnanirnar uppúr miðri 18du öldinni og sú starfsemi hefur ekki örvað sjósókn Reykvíkinga. Skúli var meira að segja með þær tvær duggur, sem hann keypti 1752, og komu hingað 1753, í Hafnarfirði. Eins var um hina miklu Húkkortuútgerð kóngsins, 1776 — 87, að hún hafði bækistöð sína í Hafnarfirði.

Reykjavík

Reykjavík 1860.

Fyrstu heildarlýsingu á byggð og búskap á Reykjavíkursvæðinu er að finna í Jarðabók Árna og Páls (1702—14) og manntalinu 1703. Þá eru 150 manns búsettir á svæðinu frá Rauðará út að Seli og af búskaparháttum má ráða að fólkið lifir þar mest á sjófanginu og þar er getið heimræðis nær við hvert kotbýli og landskuldir greiddar í fiskum en ekki getið bátaeignar. En við höfum heimildir úr Ferðabók Eggerts og Bjarna og Frásögnum Horrebows, hvorttveggja heimildin frá miðri 18du öld, um báta Reykvíkinga.
Í Ferðabókinni er sagt frá því að í verstöðvunum sunnanlands og allt að Keflavík sé róið kóngskipum mest og það eru sexæringar áttæringar og teinæringar, en í höfnunum fyrir norðan Keflavík „sækja menn sjó allt árið á smærri skipum og fámennari.“ Á öðrum stað segir: „ .. . í Reykjavík, á ströndinni inn á móts við Viðey, í Laugarnesi og Engey, sækja menn sjó allt’ árið á smábátum.“

Reykjavík

Reykjavík 1801.

Horrebow segir: „Svo má heita að smábátar séu einungis í Gullbringusýslu og við Hvalfjörð. Víðast hvar á landinu eru þeir stærri og er þeim róið af 4,6 og 8—20 mönnum.“
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er lýst sjósókn Kjalnesinga, en þeir sóttu á sömu mið og Reykvíkingar og hafa róið á samskonar bátum. Það er athyglisvert að þeir Eggert orða sóknina við Kjalnesinga en ekki Reykvíkinga, sem getur ekki stafað af öðru en að hún hafi þá verið meiri og dæmigerðari á Kjalarnesi. Að hvorki þeir Eggert né Horrebow nefna Reykjavík í fiskveiðilýsingu segir náttúrlega sína sögu.

Reykjavík

Reykjavík 1836.

Í Ferðabókinni segir svo: „Á Kjalarnesi er sjór sóttur allt árið. Bátar eru hér litlir. Hinir stærstu eru fjagramanna för en einsmannsför þeirminnstu.
Segl Kjalnesinga eru úr þunnum, fíngerðum ullardúk, sem ofinn er með líkum hætti og léreft. Dúkur þessi kallast einskefta og notar bændafólk hann í skyrtur. Aðeins eitt segl er á hverjum bát, og er það haft fjórðungi mjórra að ofan en neðan. Siglutréin eru misjafnlega löng, en venjulegast er, að þau séu % af bátslengdinni. Í siglutoppinum er lítið hjól. Á því leikur strengur til þess að reisa og fella seglið. Siglan er fest í eina af fremstu þóftunum og bundið með taugum í framstafn og til hliðanna. Stýrið er fest á tvo króka, efst á því er þverfjöl sem stjórntaumarnir eru festir í. Þeir eru notaðir hér í stað stýrissveifar.

Reykjavík

Reykjavík – Gaimard.

Í akkeris stað nota menn kollóttan, harðan stein, og er gat í gegnum hann. Í gatið er rekið þvertré, sem taugin er bundin við og festir útbúnað þennan í botninn. Þegar róið er til fiskjar, verður hver maður af skipshöfninni að hafa færi, öngul, beitu og hníf, sem kallast sax, og auk þess að vera sjóklæddur. Allir veiða á handfæri eftir beztu getu, en að loknum róðri er aflanum skipt í jafna hluti, því að annars gæti orðið of mikill munur á afla eftir heppni manna. Bátseigandinn fær einn hlut aflans, þótt hann rói ekki með.
Aðallega veiða menn þorsk, sem er algengasti fiskurinn , en auk hans veiða menn líka flyðrur, skötur og smávaxna háfa. Flyðran er úrvals-matfiskur, en hinir eru einkum veiddir vegna lifrarinnar, en úr henni fæst sérlega gott lýsi. Á haustin og framan af vetri veiða menn smálúður á þar til gerða öngla. Þeir eru festir tveir og tveir á þvertein úr járni.

Reykjavík

Reykjavík fyrrum.

Lúðuveiði þessi er eingöngu nærri landi, sjaldan fjær en áttung úr mílu. Tittlingur, eða réttara sagt þyrsklingur, er smáþorskur. Rauði þyrsklingurinn kallast þarafiskur, af því að hann dvelst á þarabotni. Hann er oft hárauður á lit og með rauðum dröfnum á kviðnum. Þetta eru einungis tilbrigði frá aðaltegundinni, þorskinum. Á Kjalarnesi eru fiskveiðarnar auðveldari en annars staðar á Suðurlandi.“
Í sóknarlýsingu séra Árna Helgasonar í Görðum, en hún frá því um 1830, er sagt að Hafnfirðingar rói eingöngu tveggja manna förum og það er heldur engin ástæða til að ætla að Reykvíkingar hafi verið farnir, fremur en Hafnfirðingar, að breyta neitt sínum aldagömlu róðrarháttum á tveggja manna förum mest.
Það er ekki fyrr en á síðustu þremur áratugum 19du aldar, þegar upp eru komnir í Reykjavík útvegsbændur eins og Hlíðarhúsamenn og Borgarabæjarmenn í Grjótanum, að Reykvíkingar fara að róa stærri árabátum en þeir höfðu gert um aldirnar.“

 

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 49. árg 1986, 1. tbl. bls. 54-56.

Torfbær

Tofbær í Reykjavík 1925.

Ingólfur

Eftirfarandi frásögn um „Sjósókn í Reykjavík“ birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1991:
„Ósagt skal látið hvernig skipakostur var til sóknar við Flóann á Þjóðveldisöld, þegar bændur voru öflugir og gátu efnt til stærri skipa en á svörtu öldinni, sem heimildir ná til. Litlar heimildir eru um sjósókn úr Reykjavík fyrri alda, sem var spildan frá Rauðará að austan út að Eiðisgranda (Seli) að vestan, en vitað að hún var samskonar og sókn Kjalnesinga og Hafnfirðinga sem traustar heimildir eru til um. Það var sótt frá þessum stöðum, og eins Laugarnesi og eyjunum við Reykjavík á smáfleytum, mest eins til tveggja manna förum, á grynnstu mið, við innanverðan Faxaflóa. Ekki er það umdeilanlegt að sjósókn hefst hérlendis frá Reykjavík.
sjo-9Ingólfur Arnarson, svo sem aðrir landnámsmenn, varð að lifa með sitt fólk af fiskveiðum meðan hann var að koma upp bústofni. Landnámsmenn gátu ekki haft með sér hingað út kvikfénað sér til lifibrauðs, fyrr en sá litli kvikfénaður, sem þeir hafa getað flutt með sér tók að fjölga sér.
Fyrsta verk Ingólfs hefur verið að senda þræla sína á sjó á eftirbátnum, en svo hétu þeir bátar, sem landsmenn drógu með sér, en einnig höfðu þeir léttbát, litla skektu, sem þeir höfðu um borð til að skjóta út. En þótt svo sé að fyrst hefjist sjósókn hérlendis í Reykjavík þá er sem að ofan segir hljótt um Reykjavík í fyrri alda sjósóknarsögu og ber margt til þess.

Reykjavík

Reykjavík 1789.

Um aldir verður enginn stórbóndi í Reykjavík sjálfri, það er strandlengjunni sjálfri meðfram víkinni, Rauðará – Eiðisgrandi, nema þá Víkurbóndinn á bæ Ingólfs í Grjótanum, aðrir bændur hafa búið kotabúskap, fáliðaðir og efnalitlir til stórrar útgerðar, og þeirra fangaráð var að nýta innmiðin á þeim fleytum, sem þeir gátu efnað til. Byggð var strjál og fámenn, 100 til 150 manns á svæðinu Rauðará – Sel og Lækurinn klofið byggðina, en hann hefur verið stór og illfær fyrrum, og það getað gert mönnum óhægt með að róa í samlögum og manna sexæringa, enda kærðu innmiðamenn sig ekki um stóra báta. Sú var trú manna að eitt eða tvö færi á borð væru fengsælli í slítingsfiski á grunnslóð en mörg færi á borð.

Reykjavík

Reykjavík 1836.

Þegar Reykjavík varð verzlunarstaður á 17. öld og síðan iðnaðar á 18. öld, dró þetta hvorttveggja náttúrlega úr sjósókn, kotbændur og þurrabúðarmenn hafa leitað í pakkhús- og eyrarvinnu við höfnina og síðan iðnaðarvinnu við Innréttingarnar.
Allt fram til 1870 eða þar um bil var útgerð Björns í Brekkukoti dæmigerð reykvísk útgerð á árabátaöldinni. Þeirri útgerð er lýst í Ferðabók Eggerts og Bjarna og einnig í bók Horrebows. Menn reru frá Kjalarnesi og „í Reykjavík á ströndinni inná móts við Viðey í Laugarnes og Engey sækja menn sjó allt árið á smábátum.“ Mest var róið í tveggja manna förum en „hinir stærstu eru fjögra manna för en eins manns för þeir minnstu.“

Reykjavík 1911

Reykjavík um 1780.

Á útnesjum, þar sem verstöðvar mynduðust reru menn stærri bátum. Reykjavík var aldrei verstöð á áraskipaöldinni. Þangað komu menn ekki með báta sína til veiða né reistu verbúðir, og aðrir staðir geta ekki með réttu nafni kallazt verstöðvar. Það hefur alltaf komið eitthvað af aðkomumönnum úr nærsveitunum til vorróðra í Reykjavík, þótt fleytur væru smáar, en sóknin verið frá heimabæjunum og Reykjavík alltaf á árabátatímanum verið heimver, og þar hvorki verbátar né verbúðir. Á Seltjarnarnesi aftur á móti reru menn snemma úr veri og þar náðist snemma að myndast útvegsbændastétt, sem sótti útá Svið á sexæringum. Sá var munurinn þar á fyrir Reykvíkingum og Seltyrningum, að það var þriggja kortera róður úr vörum í Reykjavík, út á móts við yztu varir á nesinu.
reykjavik 874Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir að allt gildi hið sama um útgerð Reykvíkinga sem Kjalnesinga: „Á Kjalarnesi var sjór sóttur allt árið. Bátar eru hér litlir. Hinir stærstu eru fjagra manna för, en eins manns för hinir minnstu,“ og segla og reiðabúnaði og sjósókn er lýst svo, og gildir sú lýsing einnig um reykvísku sjósóknina. „Segl Kjalnesinga eru úr þunnum, fíngerðum ullardúk, sem ofin er með líkum hætti og léreft. Dúkur þessi kallast einskefta og notar bændafólk hana í skyrtur. Aðeins eitt segl er á hverjum bát, og er það haft fjórðungi mjórra að ofan en neðan. Siglutréin eru misjafnlega löng, en venjulegast er, að þau séu 2Á af bátslengdinni. Í siglutoppinum er lítið hjól. Á því leikur strengur til þess að reisa og fella seglið. Siglan er fest í eina af fremstu þóftunum og bundið með taugum í framstafn og til hliðanna. Stýrið er fest á tvo króka, efst á því er þverfjöl sem stjórntaumarnir eru festir í. Þeir eru notaðir hér í stað stýrissveifar. Í akkerisstað nota menn kollóttan, harðan stein, og er gat í gegn um hann. Í gatið er rekið þvertré, sem taugin er bundið við og festir útbúnað þennan í botninn.

Reykjavík

Reykjavík fyrrum.

Þegar róið er til fiskjar, verður hver maður af skipshöfninni að hafa færi, öngul, beitu og hníf, sem kallast sax, og auk þess að vera sjóklæddur. Allir veiða á handfæri eftir beztu getu, en að loknum róðri er aflanum skipt í jafna hluti, því að annars gæti orðið of mikill munur á afla eftir heppni manna. Bátseigandinn fær einn hlut aflans, þótt hann rói ekki með.
Aðallega veiða menn þorsk, sem er algengasti fiskurinn, en auk hans veiða menn líka flyðrur, skötur og smávaxna háfa. Flyðran er úrvals matfiskur, en hinir eru einkum veiddir vegna lifrarinnar, en úr henni fæst sérlega gott lýsi. Á haustin og framan af vetri veiða menn smálúður á þar til gerða öngla. Þeir eru festir tveir og tveir á þvertein úr járni. Lúðuveiði þessi er eingöngu nærri landi, sjaldan fjær en áttung úr mílu.

Reykjavík

Reykjavík 1847.

Tittlingur, eða réttara sagt þyrkslingur, er smáþorskur. Rauði þyrsklingurinn kallast þarafiskur, af því að hann dvelst á þarabotni. Hann er oft hárauður á lit með rauðum dröfnum á kviðnum. Þetta eru einungis tilbrigði frá aðaltegundinni, þorskinum.
Á Kjalarnesi eru fiskveiðarnar auðveldari en annars staðar á Suðurlandi.“ Og Horrebow segir: „Svo má heita að smábátar séu einungis í Gullbringusýslu og við Hvalfjörð. Víðast hvar á landinu eru þeir stærri og er þeim róið af 4-6 og 8-20 mönnum.“ Þessar heimildir eiga hvor tveggja við 18. öldina og eru eflaust dæmi um sjósóknina í þessum byggðum um aldirnar.
Þegar kom fram um 1870 tók að færast mikið líf á árabátasóknina í Reykjavík á almennt stærri bátum, sexæringum og áttæringum og Reykvíkingar fóru að sækja á útmiðin.
sjo-10Saltfiskverkun var farin að stóraukast, en skreiðaverkun að dragast saman, og stórfiskur varð verðmætari í salt en minni fiskur. Verzlanir tóku að heimta stærri fisk til útflutnings. Upp risu í Reykjavík vestan Læks öflugir útvegsbændur í Grjótanum og á Hlíðarhúsatorfunni og vestur að Eiðisgranda, og þeir tóku að sækja á sexæringum og áttæringum útá Svið og liggja við í Garði og Leiru líkt og Seltirningar og Álftnesingar og Garðhverfingar og Hafnfirðingar. Það var mikill kraftur í þessum útvegsmönnum í Reykjavík og þróttur í árabátasókninni. Róið var í hverri vör frá Bryggjuhúsi, þar sem nú er Vesturgata 2, og vestur að Eiðisgranda, Austasta vörin, sú fram af Bryggjuhúsinu, Grófarvörin, var stærst varanna, en hana nýttu útvegsbændur í Grjótanum, Grandabótin var vestast.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Lievog.

Nú sést ekkert orðið af þessum vörum, sem Ágúst Jósefsson telur upp í ævisögu sinni. Austan Læks voru áfram aðallega smáfleytur og róið af því svæði almennt sem fyrr á innmiðin.
Bönn við netalögnum á tilteknum slóðum voru í gangi mishörð allt frá 1772 sem fyrr á innmiðin. Þeir, sem sóttu á grynnstu mið við Ströndina töldu netalagnir Útnesjamanna hamla göngu fisks á sín mið, og voru Hafnfirðingar, Vatnsleysustrandar- og Vogamenn harðastir grunnslóðarmanna.
Árið 1874 var bannað að leggja net í sunnanverðan Flóann fyrir 14. marz, utan línu dregin úr Hólmsbergi við Keflavík í Keilisnes, og 1885 náði bannið til 14. apríl. Við þetta misstu þeir, sem sóttu í Garðsjó að stórum hluta af vetrargöngunni á þau mið. Reykvíkingar eins og aðrir Innnesjamenn fóru ekki varhluta af þessu banni og varð af styrjöld og harðvítugust 1886.

Reykjavík 1786

Reykjavík 1786.

Uppúr 1890 hófust aflaleysisár við Faxaflóa og 1895 komu ensku togararnir til veiða í Flóann og allt þetta þrennt dró úr árabótasókn sjávarstaða við innanverðan Faxaflóa. Þá var og kominn hugur í marga að efla þilskipaútgerð, sem í gang var komin. í Hafnarfirði og Reykjavík og Seltjarnarnesi tók við ný gerð þilskipa — kútterar.
Árabátaútvegur helzt áfram víða um land í verstöðvum, sem lágu vel við árabátamiðum, þar til vélbátar leystu þá útgerð af hólmi. Allt fram um 1906 var árabátaafli landsmanna tvöfalt meiri en þilskipanna, enda voru árabátar í landinu jafnan um 2000 allt til 1905 og 8-9 þúsund manna í þeirri útgerð.“

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 54. árg. 1991, 1. tbl., bls. 10-15.

Aðalstræti

Skálar í Aðalstræti.

Aðalstræti

Fyrir nokkru sendu 14 þjóðkunnir menn bæjarráði, borgarstjórn, forsætisráðherra og forseta sameinaðs alþingis ávarp um friðhelgi á bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar.
larus-1Nú er það svo að fáir vita með hokkurri vissu hvar bæjarstæðið er, og hafa komið fram margar tilgátur um það mál. Blaðið hefur nú snúið sér til Lárusar Sigurbjörnssonar skjala-. og minjavarðar Reykjavíkurbæjar, og spurt hann um álít hans á málinu. Lárus hefur sem kunnugt er mikinn áhuga fyrir máli þessu, og hefur viðað að sér miklum fróðleik um allt, er viðkemur staðsetningu á bæjarstæðinu. Fyrsta spurning okkar er þessi:
— Hvar telur þú að bær Ingólfs hafi staðið?
— Mín skoðun á málinu er sú, að bærinn hafi staðið þar sem n ú eru gatnamói Kirkjustrætis og Suðurgötu. Mörg allsterk rök liggja til grundvallar þessari skoðun minni.
— Hver eru helztu rökin?
— Þegar grafið var fyrir Steindórsprenti fannst haugur, sem ég tel að hafi verið haugur frá bæ Íngólfs. En í haug þessum fundust m.a. geirfuglabein og svínabein. Annað er svo það, að staðurinn hefur margt til síns ágætis hvað snertir veðursæld, þarna hefur verið harður tjarnarbakkinn til að byggja á, og kaldavermsl til að sækja vatnið í hefur verið skammt frá bænum. Til er safn sagna frá 1860, sem Sigurður Guðmundsson listmálari hefur safnað. Safn þetta samanstendur af sögnum um hvar bær Ingólfs hafi stáðið. Ein sögnin er höfð eftir gamlalli konu, sem var vinnukona í Viðey. Segir hún að bær Ingólfs hafi verið þar sem gamla klúbbhúsið var, og seinna var útbygging byggð 1914 við hús Hjálpræðishersins.
Mikllar líkur eru fyrir að þessar skoðanir mínar fáist sannaðar eða afsannaðar áður en langt um líður, því innan skamms á að byrja að grafa grunn á fyrrnefndu horni fyrir nýju húsi.
— Er nokkuð fleira, sem þér finnst benda í þá átt, að þarna hafi bærinn verið?
larus-2— Já, það mætti kannski benda á, að eftir líkani, sem ég hef látið gera eftir hugmyndinni, kemur ljóslega fram sú götuskipan, sem er í nágrenni bæjarstæðisins, og hefði getað orðið til eftir staðsetningu húsanna.
— E r nokkuð fleira, sem þú vilt taka fram í þessu sambandi?
— Já, ég vil minnast á það, að þó að skoðanir mínar á þessu máli séu aðrar en þeirra, sem telja að bærinn hafi staðið þar, sem nú eru Uppsalir, er ekki þarmeð sagt, að ég hafi nokkuð á móti friðhelgun bæjarstæðisins. —
Þvert á móti. Þetta eru aðeins mínar skoðanir á málinu. Við þökkum Lárusi svörin.
Myndin af líkaninu sýnir, hvernig Lárus hefur hugsað sér að byggingarnar hafi staðið. No. 1 er skáli. No. 2 eru útihús. No. 3 er eldhús. No. 4 er gamli kirkjugarðurinn. No. 5 er smiðja. Á myndinni sést hvernig afstaða Túngötu og Aðalstrætis er við hugmynd Lárusar.

Heimild:
-Alþýðublaðið 26. febrúar 1960, bls. 7.

Aðalstræti

Skálar í Aðalstræti.

Kjalarnes

Í upphafi Kjalnesinga sögu segir frá frumbýlingum á Kjalarnesi:
„Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvogs ok Botnsár, ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. Hann var nýtmenni mikit í fornum sið, blótmaðr lítill, spakr ok hægr við alla. Helgi átti Þórnýju, dóttur Ingólfs í Vík, er fyrst bygði Ísland. Þeirra synir voru þeir Þorgrímr ok Arngrímr; þeir voru báðir miklir ok sterkir, ok hinir vaskligustu menn. Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á kjalarnes - ornefniTindsstöðum, ok þar hverjum sem honum þótti fallit vera. Maðr hét Örlygr; hann var írskur at allri ætt; í þann tíma var Írland kristið; þar réð fyrir [Konufögr Írakonungr. Þessi fyrnefndr maðr varð fyrir konungs reiði; hann fór at finna Patrek biskup, frænda sinn; en hann bað hann sigla til Íslands: því at þangat er nú, sagði hann, mikil sigling ríkra manna; en ek vil þat leggja til með þér, at þú hafir iij hluti: þat er vígð mold, at þú látir undir hornstafi kirkjunnar, [ok plenarium ok járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan at Íslandi; þá skaltu sigla vestr fyrir, þartil er fjörðr mikill gengr vestan í landit; þú munt sjá í fjörðinn inn iij fjöll há, ok dali í öllum“; þú skalt stefna inn fyrir hit synnsta fjall; þar muntu fá góða hafn, ok þar er spakr formaðr, er heitir Helgi bjóla; hann mun við þér taka, því hann er lítill blótmaðr, ok hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli, er fyr sagði ek þér frá; þar skaltu láta kirkju gjöra’, ok gefa [hinum heilaga Kolúmba. Far nú vel, sagði biskup, ok geym trú þinnar sem bezt, þótt þú verðir með heiðnum. Eptir þat býr Örlygr ferð sína, ok er frá ferð hans þat fyrst at segja, at allt gekk eptir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn; síðan fór hann at finna Helga bjólu, ok tók hann vel við honum; reisti Örlvgr þar nú hú ok kirkju, ok bjó þar síðan til elli.
Esja-233Á ofanverðum dögum Konufögrs kom skip í Leiruvog; þar voru á írskir menn. Maðr hét
Andríðr, ungr ok ókvongaðr, mikill ok sterkr. Þar var þá kona sú, er hét Esja, ekkja ok mjok auðig. Sá maðr er nefndr Kolli, er þar var á skipi með þeim. Helgi tók við þeim öllum; Kolla setti hann niðr í Kollafjörð; en með því at Örlygr var gamall ok barnlauss, þá gaf hann upp land ok bú, ok tók Esja við; settist hún þá at Esjubergi. Allir þessir menn voru kallaðir skírðir; en þó var þat margra manna mál, at Esja væri [forn í brögðum. Andríðr fór um vetrinn til vistar til Hofs; var þar þá fóstbræðralag ok með sonum Helga. Andríðr bað Helga fá ser bústað ok kvonfang; Hann hafði auð fjár. Þá var skógi vaxit allt Kjalarnes, svo at þar at eins [var rjóðr, er menn ruddu til bæja eða vega. Braut mikil var rudd eptir holtinu frá Hofi; þangat riðu þeir Helgi ok Andríðr um vorit; ok er þeir komu út á holtið, þá mælti Helgi: ber vil ek, Andríðr, sagði bann, gefa þér jörð, ok at þú reisir þér bæ; mér þykkir sem þeir synir mínir vilji, at þér sitið nær. Eptir þat reisti Andríðr bæ í brautinni ok kallaði Brautarholt, því at skógrinn var svo þykkr, at honum þótti allt annat starfameira; Andríðr setti þar reisuligt bú saman.
Kjalarnes-239Maðr hét Þormóðr, hann bjó í Þormóðsdal; með honum var systir hans, er Þuríðr het; hun var fríð sjónum ok auðig at fe. Þessar konu bað Helgi til banda Andríði, ok þessi konu var honum heitið. Þetta sumar var ok heitið Þorgrími Helgasyni Arndísi, dóttir Þórðar skeggja af Skeggjastöðum, ok voru brullaupin bæði saman at Hofi, ok var veitt með hinu mesta kappi; var þar ok allfjölmennt. Eptir boðit fór Þuríðr í Brautarholt, ok tók við [búi fyrir innan stokk; var þat brátt auðsætt, at hon var mikill skörungr. Þau höfðu margt gangandi fjár, ok gekk allt nær sjálfala úti í skóginum um nesið. Þetta haust [var honum vant kvígu þrévetrar, myrkrar; hon hét Mús. Þessi kvíga fannst [þrem vetrum síðar á nesi því, er liggr til vestrs undan Brautarholti, ok hafði hon þá með sér ij dilka, annann vetrgamlan, en annann sumargamlan; því kölluðu þeir þat Músarnes. Þann vetr, er Andríðr bjó fyrstan í Brautarholti, andaðist Helgi bjóla; þat þótti mönnum hinn mesti skaði, því at hann var hinn vinsælasti maðr. Um vorit skiptu þeir bræðr föðrarfi sínum, hafði þorgrímr föðrleifð þeirra ok mannaforráð, því at hann var eldri, en Arngrímr utjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn, er hann kallaði Saurbæ…“

Heimild:
-Íslendinga sögur, Kjalnesinga saga,1843, bls. 397-401.

Esja

Esja á Kjalarnesi.

Reykjavík

Á vef Fornleifastofnunar Íslands er fjallað um merkileg fornfræðileg efni – flest þó fjarri Reykjanesskaganum. Eitt verkefnanna sem finna má á www.menningarminjar.is og á www.menningarsaga.is. „Þegar minnast þarf glataðra menningarminja er ágætt að horfa til Reykjavíkur með það í huga að „fortíðin er ekki „hughrif“ – hún er áþreifanlegur raunveruleiki“.

Aðalstræti

Uppgraftarsvæði í og við Aðalstræti.

Reykjavík ber hin mestu verðmæti sögunnar ekki vel. Á rústum hinnar fyrstu byggðar þreytir fólkið hennar nú ýmist drykkju eða hjálpræði, boðar til þings og syngur skaparanum lof. Flest var þetta iðkað á sama stað þegar fyrstu kynslóðir Íslendinga reistu þar bú sín. Á svæðinu kringum Austurvöll og Aðalstræti hafa fundist menjar um þúsund ára gamla byggð, fornan bæ að þess tíma sið. Þar eru einnig leifar af fyrstu verulegu byggingum Reykjavíkur sem kaupstaðar, Innréttingarnar sem Skúli Magnússon fógeti lét reisa af stórhug hins upplýsta manns um miðja 18. öldina.
Og enn ber borgin merki hins fyrsta sæðis: Hún er stórhuga í smæð sinni og smá í sinni víðáttu. Gamla þorpið sem hún var, er varðveitt að hluta í miðborginni, og undir grunni nýrra bygginga búa rústir hinna gömlu – og jafnvel elstu, þar sem fornir andar landnema emja við söngva núlifandi kynslóða.
Vitaskuld er erfitt um vik að kanna til hlýtar fornleifar í miðborg nokkurrar höfuðborgar. Þó hefur þetta verið gert að talsverðu leyti í Reykjavík, einkum á umræddu svæði kringum Aðalstræti. Þar var fyrst komið niður á fornleifar við byggingaframkvæmdir á lýðveldisárinu 1944 en síðan var staðið fyrir umtalsverðum fornleifauppgrefti á svæðinu í byrjun áttunda áratugarins.
Í þessum uppgrefti og öðrum sem gerður var á níunda áratugnum komu í ljós leifar af tveimur 10. aldar skálum. Annar þeirra hefur staðið neðst við Grjótagötuna, þar sem Aðalstræti og Suðurgata mætast en hinn þar sem nú er Suðurgata 7. Elsta byggð í Reykjavík hefur því verið á svæðinu frá suðurhluta Ingólfstorgs og suður að Vonarstræti. Á torginu þar sem nú stendur stytta af Skúla Magnússyni hafa fundist leifar af mjög gömlum kirkjugarði. Hvíla þar griðkonur Ingólfs og Hjörleifs? – eða jafnvel þeir sjálfir? Eins og gefur að skilja er ógjörningur að fullyrða um slíkt og í raun erfitt að draga upp heildstæða mynd af byggðasögu Reykjavíkur. Þær takmörkuðu fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið sanna þó svo ekki verður um villst að byggð í Reykjavík er jafnvel jafngömul landnáminu.

Árið 1993 var grafið í Arnarhól vegna fyrirhugaðra framkvæmda um að breyta hólnum. Var þá komið niður á bæ frá 17. öld en öruggt er talið að neðan hans séu leifar af eldri byggingum. Við uppgröftinn fannst rómverskur peningur.
Það gefur auga leið að á miðöldum hefur byggð ekki verið samfelld á Reykjavíkursvæðinu eins og nú er, og fornleifar sem fundist hafa á öðrum stöðum, eins og í Laugarnesi, hafa tilheyrt annarri sveit. Frá vegarstæðinu þar sem Kleppsvegur beygir í átt að Sæbraut má greina til norðurs óljós merki fornleifa. Þar hefur verið kirkjugarður til forna en ekki hefur gefist færi á að kanna hversu umfangsmikill hann hefur verið. Vitneskja manna um byggðasögu Reykjavíkur er því jafn sundurlaus og svipur hennar.

Við vitum að hér settust landnemar að mjög snemma, og að einhver byggð hélst fram eftir öldum í kvosinni. Um miðja átjándu öldina má greina fyrstu merki þess hlutverks sem Reykjavík fékk síðar sem höfuðstaður Íslendinga. En nær allar lýsingar frá þeim tíma og 19. öldinni bera borginni slæmt orð. Hún er sóðalegt og drungalegt smáþorp, byggð af ólánsmönnum, þurrabúðarmönnum og sjógörpum í sambúð við örfáa danska embættismenn sem hingað hafa hrakist fyrir tilstilli illra örlaga. Og dágóður hluti íbúanna voru fangar og ræfilsmenn sem hafast við í húsinu þar sem ríkisstjórnin situr nú – litlu betri segja sumir.

Þegar söguleg vitund íslenskra menntamanna vaknar af löngum svefni á fyrstu áratugum 19. aldar finnst mörgum þeirra óhugsandi að velja Alþingi stað í þessu ljóta þorpi. Jónas Hallgrímsson fer fyrir hópi rómantískra hugsuða sem vilja setja þingið á sínum forna stað við Öxará. En eitthvað segir það okkur um stöðu Reykjavíkur á þessum tíma að Jón Sigurðsson og hans menn vilja setja þingið í reykjavík, af þeim sökum að þar muni þegar tímar renna rísa sá höfuðstaður sem við þekkjum nú. Hér eru æðstu menntastofnanir landsins, Reykjavíkurskóli og Prestaskólinn. Hér er dómkirkjan. Hér skulum við byggja okkar borg. Vegur Reykjavíkur vex smám saman þegar líður á nítjándu öldina og upp úr aldamótum búa hér um 6.000 manns, þar af nýfenginn ráðherra Íslendinga. Frá þessum tíma eru flest þau lágreistu hús sem nú setja svip sinn á miðborgina. En yfirbragð hennar er enn í mótun. Það er í raun aðeins nýlega sem sæst hefur verið á gildi þessara litli húsa fyrir svip borgarinnar og minna kapp lagt á að ryðja þeim burt eða kaffæra bak við reisulegri minnisvarða. En þegar slíkt hendir er mikilvægt að kann allar aðstæður frá sjónarhóli fornleifafræðinnar. Varðveisla sögulegra minja í Reykjavík felst þó kannski ekki síður í að hlúa að þessum gömlu húsum og tryggja þeim góða sambúð við síðari tíma byggingar. Sundurleysið í svip borgarinnar ber í sér töfra hennar. Og eins er um söguna. Við getum ekki státað af stórkostlegri sögu þar sem uppgangur og harðræði takast á og skilja eftir minnisvarða síðari kynslóðum til handa. Fáeinir húsagrunnar í sverði kvosarinnar og á einstaka stöðum í borginni eru einu leifar um byggð hér í fornöld. En þó hefur það ekki verið rannsakað að fullu.

Tign Reykjavíkur er af allt öðrum toga en útlendra stórborga, í stórhuga hógværð sinni ber hún skammri sögu okkar einstakt vitni og gerir enn í sinni stöðugu mótun þegar ný öld er um það bil að hefjast. Fornleifarannsóknir hafa þó fært henni sama tilverurétt og annarra höfuðborga, að því leyti að hún byggir þrátt fyrir allt á mjög gömlum grunni og er jafngömul sögu þjóðarinnar. Og hver veit nema að í framtíðinni gefist þess kostur að grafa frekar í svörð hennar þar sem vitað er um leifar fyrstu íbúanna, svo sem í kvosinni, við Alþingishúsið, á Arnarhóli og í Laugarnesi. Slík heildarathugun á byggðasögu henanr mun ekki gera Reykvíkingum fært að bera sig saman við Parísarbúa eða Lundúnarverja, en hún myndi án efa varpa frekara ljósi á uppvöxt Reykjavíkur, þann vöxt sem enn á sér stað og er samofinn lífi fólksins í borginni.

Byggðasaga Reykjavíkur og fornleifarannsóknir í Kvosinni
Þegar Skúli Magnússon stofnaði Innréttingarnar árið 1751 var Reykjavík aðeins venjulegur sveitabær. Verksmiðjunum var valinn staður við hliðina á bæjarhúsunum. Bærinn er talinn hafi staðið þar sem Hjálpræðisherinn er nú og byggðust því Innréttingarnar út af Aðalstræti, sem hafði verið sjávargata Reykjavíkurbóndans. Fljótlega byggðist upp hið gamla tún Reykjavíkurbæjar og er Austurvöllur leifar þess. Búskapur lagðist fljótlega af.
Reykjavíkurkirkja stóð þar sem núna er Fógetagarðurinn og hefur verið kirkjugarður kringum hana, allt þar til Dómkirkjan var byggð árið 17… Kirkjugarðurinn var þó áfram í notkun þar til kirkjugarðurinn við Suðurgötu var opnaður um miðja 19. öld. Frá upphafi samfelldrar byggðar í Reykjavík hafa menn því alltaf vitað um menjar gamla Reykjavíkurbæjarins og kirkjugarðsins. Allar götur síðan á 18. öld hafa menn rekist á fornar minjar: hleðslur, öskur, bein osfrv, við byggingaframkvæmdir frá Vonarstræti og norður undir Hallærisplanið.
Í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar var ákveðið að ráðast í meiriháttar fornleifauppgröft á gamla bæjarstæðinu. Þá var grafið á lóðunum Aðalstræti 14 og 18, Suðurgötu 5 og Tjarnargötu 6. Við þennan mikla uppgröft komu í ljós bæði leifar af húsum innréttinganna í Aðalstræðti en einnig miklu eldri leifar frá því að menn fyrst tóku land í Reykajvík. Að minnsta kosti tveir skálar hafa verið við Aðalstrætið og sá þriðji við Suðurgötuna. Ekkert virðist byggt í Aðalastræti eftir að fyrstu skálarnir þar fara í eyði. Byggðin heldur eingöngu áfram á svæðinu milli Suðurgötu, Vonarstrætis og Kirkjustrætis. Síðar hefur einnig verið grafið á lóðinni á Suðrgötu 7 og þar komu í ljós byggingar tengdar Reykjavíkurbænum. Síðast var grafið 1999 í miklum ruslalögum á bílastæðinu á móti húsi Happrættis Háskólans. Þar hefur verið mýri við nyrstu mörk Tjarnarinnar. Allt sem fannst við þann uppgröft reyndist vera yngra en frá 1500.
Hinn 9. september s.l. [2005] lauk vettvangsrannsókn á fornleifum undir húsinu í Aðalstræti 10, sem er talið elsta hús í Reykjavík. Rannsóknin fór fram vegna viðgerða og endurbyggingar á húsinu. Lækka átti jarðveg undir gólfi vegna einangrunar og lagna og einnig að grafa niður til að styrkja undirstöður hússins. Því þurfti að kanna hvort fornleifar væru þar fyrir.
Bæði var talið að þar gætu verið leifar eldri húsa frá 18. öld og jafnvel eldri ummerki um mannvist. Á ýmsum nálægum lóðum, Aðalstræti 12, 14, 16 og 18, höfðu áður fundist minjar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Húsið Aðalstræti 10 er byggt upp úr miðri 18. öld. Undir mestum hluta gamla hússins sjálfs hafði ekki verið kjallari og því voru þar óröskuð jarðvegslög. En viðbygging við húsið að vestan hafði verið grafin dýpra niður.

Minjar þær er fundust undir gólfi í Aðalstræti 10 reyndust vera frá 18. öld. Þar voru steinundirstöður undan timburstokkum eða plönkum sem borið hafa uppi fjalagólfið í húsinu. Þar undir voru ýmis lög með ummerkjum um umsvif manna á staðnum, m.a. töluverð lög af móösku úr eldstæðum nálægra bygginga. Nokkuð fannst af glerbrotum, einkum rúðugleri, einnig nokkuð af dýrabeinum. Meðal tímasetjanlegra gripa var nokkuð af brotum úr leirílátum, postulíni og tóbakspípum úr leir. Ekki fundust ummerki um eldri byggingar sem kann að benda til þess að hér sé komið norður fyrir bæjarstæði Reykjavíkurbæjarins gamla.

Helstu heimildir um Reykjavík:
-Kristín H. Sigurðardóttir – Fornleifarannsókn að Suðurgötu 7 í Reykjavík. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1986.
-Kristján Eldjárn – Hann byggði suður í Reykjarvík. Reykjavík í 1100 ár, Helgi Þorláksson ritstj., (Safn til sögu Reykjavíkur), Reykjavík 1974.
-Matthías Þórarson – Fundnar fornleifar í Reykjavík, 15. júní 1944.
-Else Nordahl – Landnámstid i Reykjavík. Hus, gård och bebyggelse, Guðmundur Ólafsson ritstj. Reykjavík 1983.
-Else Nordahl – Reykjavík from the Archaeological Point of View, Uppsala 1988.
-Ragnar Edvardsson – Fornleifar á Arnarhóli. Árbók hins íslenzka fornleifaféalgs 1994, 17-28.
-Þorkell Grímsson – Reykvískar fornleifar. Reykjavík í 1100 ár, Helgi Þorláksson ritstj. (Safn til sögu Reykjavíkur), Reykjavík 1974, 53-74.
-Þorleifur Einarsson og Þorkell Grímsson – Ný aldursgreining úr rannsókninni Aðalstræti 14, 16 og 18, 2000 – 2003. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1968.

Reykjavík

Reykjavík 1835 – Joseph Gaimard.

Mosfell

Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: „Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870.

Landnám

Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík.
Í Sturlubók Landnámu er landnámi í Mosfellssveit lýst þannig: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeirra. Hann átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Þórður og Vilborg gætu hafa komið frá Englandi eða víkingabyggðum á Íralandi en Vilborg er sögð dóttir Úlfrúnar hinnar óbornu sem var dóttir Játvarðar Englakonungs.
Áður en Þórður og Vilborg settust að í FjölskyldanMosfellssveit bjuggu þau á Bæ í Lóni, skammt austan Hornafjarðar [líkt og landnámsmaður Grindavíkur 60 árum áður, Molda-Gnúpur Hrólfsson].
Í Hauksbók Landnámu segir af þeim hjónum: „Þórðr byggði fyrst í Lóni austr tíu vetr eða fimmtán; en er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leirvági, þá seldi hann lönd sín Úlfljóti; … En hann fór vestr með allt sitt ok nam land  at ráði Ingólfs millum Úlfarsár og Leirvágsár ok bjó síðan á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Helga, er átti Ketilbjörn hinn gamla at Mosfelli.“
[Í ljósi sögunnar um Helgufoss, Helgusel og Helgustein er ekki óraunhæft að ætla að nafngiftin tengist dóttur landnámsmannsins, enda selstaðan landfræðilega eðlileg frá Skeggjastöðum þótt hún hafði síðar tilheyrt Mosfelli.]
Talið er að þau Þórður og Vilborg hafi komið í Lón um 890 og gætu því hafa verið í Mosfellssveit um 900 eða laust eftir það.
Ættingjar Þórðar skeggja bjuggu í næsta nágrenni Á Mosfellsheiðivið hann. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði, Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar og þar með frændi Þórðar skeggja, fékk landið þar sem síðar varð Bessastaðahreppur, Garðbær og Hafnarfjörður.
Vestan við landnám Þórðar skeggja er Gufunes sem var hluti af Mosfellssveit fram á 20. öld. Í einni gerð Landnámabókar er getið um Gufu Ketilsson sem vildi reisa þar bæ en Ingólfur Arnarson rak hann þaðan á brott. Ljóst er að bæjarnafnið Gufunes er ævafornt.
SkeggjastaðirRitheimildir greina ekki frá því hvernig Mosfellssveit byggðist, utan þess sem sagt er um landnámsfólkið á Skeggjastöðum.
Við landnám var Ísland viði vaxið frá fjöru til fjalls. Af þeim sökum var auðveldara að nýta landið til beitar við efri skógarmörk en nær sjó og upphaf byggðar í landinu [er því] að jafnaði frekar til fjalla en við sjávarsíðuna: „Sumir þeir, er fyrstir kómu út, byggðu næstir fjöllum ok merktu at því landskostina, at kvikfét fýstisk frá sjónum til fjallanna.“
Bær Þórðar og Vilborgar, Skeggjastaðir, stóð í norðausturjaðri landnámsins, skammt sunnan Leirvogsár þar sem bæði var lax- og silungsveiði. Bærinn komst fljótt í þjóðbraut því reiðleiðin yfir Svínaskarð liggur framhjá Skeggjastöðum og svonefndur Stardalsvegur yfir Mosfellsheiði lá um bæjarhlaðið.

Helgusel

Landnáma greinir frá fjölmörgum dæmum um landnámsmenn sem reistu bæi sem urðu engin stórbýli, jafnvel þvert á móti. Þannig var því farið með Skeggjastaði, lítið fer fyrir landnámsjörð Mosfellinga í heimildum frá miðöldum, hennar er þó getið í skrá yfir jarðir sem komust undir Viðeyjarklaustur árið 1395 og þá sögð vera 12 hundruð. Hins vegar er ekki minst á Skeggjastaði í upptakningu konungsjarða í Mosfellssveit í svonefndum Fógetareikningum frá miðri 16. öld. Getið eru um Skeggjastaði í Jarðabók 1704 þar sem lýst er Minna-Mosfelli. Þar segir að „selstaða var áður brúkuð frí þar sem nú eru Skeggjastaðir.“
Þórður skeggi og Vilborg eignuðust þrjár dætur, Helgu, Þuríði og Arndísi. Helgu og Þuríðar er getið í Landnámu og Arndísar í Kjalnesinga sögu. Þessar landnámsdætur settust ekki að í Mosfellssveit, þær fluttu með  mönnum sínum í aðrar sveitir, á Kjalarnes, í Biskupstungur og Goðdali. Arndís giftist t.a.m. Þorgrími Helgasyni bjólu frá Brautarholti og bjuggu þau í Hofi á Kjalaranesi. Þau eignuðust soninn Búa og er hann ein aðalpersónan í Kjalnesinga sögu.“

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 13-15.

Mosfellssveit