Landnámssýning

Eftirfarandi punktar um landnám Íslands eru fengnir úr nokkrum af fjórtán erindum sem flutt voru á ráðstefnu Vísindafélags Íslendinga haustið 1990. Fengnir voru 17 fræðimenn á ýmsum sviðum til að fjalla um viðfangsefnið. Efnið var síðan gefið út í bókinni “Um landnám Íslands” árið 1996.

Húshólmi

Skáli í Húshólma.

Ólafur Halldórsson fjallar um málið og menninguna, þ.e. þess fólks, sem kallað hefur verið landnámsmenn Íslands. Hann getur þess að ekki séu til neinar samtímaheimildir íslenskar um það mál sem landnemarnir töluðu. Hér á landi hafa engir rúnasteinar fundist frá fyrstu öldum byggðarinnar og engar heimildir eru um að Íslendingar hafi reist látnum vinum og vandamönnum bautasteina, enda hafa engir þvílíkir steinar fundist. Í Reykjaholtsmáldaga og í predikunarbók, tvö blöð, sem varðveitt eru í Árnasafni, eru elstu textar íslenskir. Þar má sjá það mál sem Íslendingar töluðu um miðja 12. öld, en þá töluðu allir Íslendingar sömu tungu og þá gekk um öll Norðurlönd, utan Finnlands. Sérhljóðakerfið var flókið, eða 27 sérhljóð. Málið tók töluverðum breytingum á 13. og 14. öld og hefur í raun haldið áfram að breytast fram á okkar daga – og er enn að breytast. Málið okkar fylgir norskunni; hún er vesturnorrænt mál. Elstu handrit norsk eru frá svipuðum tíma og elstu íslensku handritin og nægilega mikill texti er varðveittur á þeim til þess að málfræðingar hafa getað gert sér grein fyrir mállýskumun í norsku um miðja 12. öld og greint á milli vestur- og austurnorsku. Mannanöfn og örnefni eru órækur vitnisburður um að allur þorri landnámsmanna hefur verið mæltur á norræna tungu. Sum nöfn benda þó til keltnesks uppruna eða siðar, s.s. Fjallið eina og Heiðin há. Landnemarir voru flestir heiðnir og bar menning þeirra þess glögg merki, bæði í rituðum heimildum og fornleifum. Í þjóðsögum og venjum, sem landnemarnir hafa haft með sér að heiman, örlar sannarlega einnig fyrir keltneskum minnum. En hugur landnámsmanna reikar jafnan til fyrri heimkynna og má segja að hugur margra hafi verið í Noregi. Menningin í upphafi hefur að miklu leyti verið norsk bændamenning, en með ákaflega hollum áhrifum sem landnemar frá byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum hafa flutt með sér, þar á meðal sumt af keltneskum rótum runnið.

Kría

Jakob Benediktsson ritar um ritaðar heimildir um landnámið. Getur hann þar um og vitnar til Íslendingabókar og Landnámabókar. Bæði þessi rit eru upphaflega til orðin á fyrstu áratugum 12. aldar, og milli þeirra eru bein tengsl. Ritin voru afrituð nokkrum sinnum.
Ari fróði samdi tvær gerðir Íslendingabókar, en eins og kunnugt er endurskoðaði hann fyrri bókina að tilmælum biskupanna og Sæmundar fróða, og felldi út úr henni hluta. Fyrri gerðin er glötuð, en hún var til fram á 13. öld. Síðari gerðin er varðveitt í nokkurn veginn þeirri mynd, sem ætla má að Ari hafi gengið frá henni. Brynjólfur biskup lét Jón Erlendsson skrifa hana upp eftir handriti frá því um 1200. Lét hann m.a.s. gera það þrisvar. Gamla skinnbókin er þó glötuð, en tvö afritin hafa varðveist.
Elsta afrit Landnámabókar er Sturlubók (Sturlu Þórðarsonar d. 1284). Hún ein er varðveitt heil í uppskrift Jóns Erlendssonar eftir allgóðu handriti frá því um 1400, en það handrit brann 1728. Önnur gerðin er Hauksbók (Haukur Erlendsson (rituð 1306-08). Fjórtán blöð eru varðveitt úr henni, en einnig var hún til í afriti í svonefndri Styrmisbók. Melabók, kennd við Melamenn í Melasveit, var afrit frá því um 1300. Aðeins tvö blöð hafa varðveist. Skarðsárbók er samsteypa úr Hauksbók og Sturlubók, afrituð af Jóni Erlendssyni. Hún var grundvöllur fyrstu útgáfu Landnámabókar 1688.
SelurGuðmundur Ólafsson fjallar um vitnisburð fornleifafræðinnar um landnám Íslands. Þar segir hann að fornleifafræðin fáist um nafnlausa einstaklinga og þær áþreifanlegu leifar sem þeir hafa skilið eftir sig. Þær minjar sem um ræðir eru einkum forngripir, grafir og greftrunarbúnaður og mannvirkjaleifar. Í lokin segir hann að hugsanlega eiga eftir að finnast sannanir fyrir því að hér hafi menn numið land fyrr en núverandi heimildir gefa tilefni til að ætla. Í dag liggja þó engin gögn fyrir, sem réttlæta slíkar staðhæfingar.
Ólafur Jensson sagði frá erfamörkum, erfðasjúkjómum og uppruna Íslendinga. Í rannsóknum sem gerðar hafa verið benda niðurstöður til þess að okkur svipi til Norðmanna í um 63% tilvika og til Íra í um 13% tilvika. Þá svipar um 22% Íslendinga hvorki til Norðmanna né Íra.
Stefán Aðalsteinsson fjallar um uppruna íslenskra húsdýra. Hjá honum kemur m.a. fram að nautgripir hafi helst komið frá Guernsey eða jafnvel verið af gömlu norsku kúakyni. Hross hafi komið frá Hjaltlandi og sauðfé verið ættað frá Noregi. Geitur, svín og hundar voru ættuð frá Norðulöndum, kettir frá Írlandi, en óvíst er um uppruna músa.
Þá er fjallað um gjóskulagarannsóknir m.t.t. aldursgreininga, geislakolsaðferðina til nota við aldursgreiningu, frjókornagreiningu til aldursákvörðunar, ískjarnatöku úr jöklum til aldursákvörðunar, veðurfar á Íslandi um landnám, gróðurfar, landnýtingu og fleira.

Hafurbjarnastaðir

Gripir sem fundust í kumli við Hafurbjarnastaði.