Landnámsmenn

Hér á eftir fylgir listi yfir landnámsmenn á Reykjanesskagnum (landnámi Ingólfs) og landnám þeirra. Listanum fylgir upptalningu Landnámabókar sem byrjar á Ingólfi Arnarsyni í Reykjavík og telur þaðan réttsælis um skagann.

Letursteinn– Ingólfur Arnarson nam land milli Ölfusár og Brynjudalsár í Hvalfirði og öll nes út. Hann bjó í Reykjavík.
Ingólfur Arnarson (stundum nefndur Björnólfsson) er jafnan talin fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt fóstbróður sínum og mág, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki á Noregi og ákvað því að flytja til Íslands. Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi. Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir.

– Vífill, þræll Ingólfs. Ingólfur gaf honum frelsi og land og bjó hann á Vífilsstöðum.
Vífill var annar af tveimur nafngreindum þrælum Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Að sögn Landnámabókar fundu þrælarnir Karli og Vífill öndvegissúlur Ingólfs við Arnarhvol í Reykjavík. Samkvæmt Landnámu hlaut Vífill síðar frelsi og setti niður bú sitt að Vífilsstöðum Vífilsgata í Reykjavík dregur nafn sitt af þrælnum Vífli.

– Þórður skeggi Hrappsson nam land með ráði Ingólfs milli Úlfarsár og Leiruvogs og bjó á Skeggjastöðum.
Þórður skeggi (fæddur um 839) nam að sögn Landnámabókar land milli Leirvogsár og Úlfarsár (Korpu), en hann hélt til Íslands að ráði Ingólfs Arnarsonar. Bú hans var að Skeggjastöðum. Þórður skeggi var sonur Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórður átti Vilborgu Ósvaldsdóttur, eldri dóttir þeirra hét Helga en hennar maður var Ketilbjörn hinn gamli. Yngri dóttirin hét Þuríður. Skeggjagata í Reykjavík er nefnd eftir honum.

– Hallur goðlaus Helgason nam land með ráði Ingólfs milli Leiruvogs og Mógilsár.

– Helgi bjóla Ketilsson nam Kjalarnes milli Mógilsár og Mýdalsár og bjó að Hofi.

Forn leið– Örlygur gamli Hrappsson nam land með ráði Helga bjólu frá Mógilsá til Ósvífurslækjar og bjó að Esjubergi.

– Svartkell nam land milli Mýdalsár og Eilífsdalsár, bjó fyrst á Kiðafelli en síðan á Eyri.

– Valþjófur Örlygsson nam Kjós og bjó á Meðalfelli.

– Hvamm-Þórir, nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi.

– Þorsteinn Sölmundarson nam land milli Fossár og Botnsár.

– Ávangur byggði fyrst í Botni í Hvalfirði.
Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.
Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.

– Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krísuvík.

– Molda-Gnúpssynir byggðu í Grindavík.

– Steinunn gamla fékk Rosmhvalanes fyrir utan Hvassahraun af Ingólfi frænda sínum.

– Eyvindur fékk land af Steinunni frænku sinni milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns.

– Herjólfur Bárðarson fékk land af Ingólfi frænda sínum milli Reykjaness og Vogs.

– Ásbjörn Össurarson nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og bjó á Skúlastöðum.

Heimild:
-Landnáma (Sturlubók).

Landnámsmaður

Landnámsmaður í Einihlíðum.