Eyjarétt

Ætlunin var að staðsetja tvær fyrrum lögréttir Kjósverja með sögulegu ívafi. Um var að ræða grjóthlaðnar réttir.

Stykkisvellir

Landnámabók segir um landnám í Kjósinni: “Ingólfur nam land milli Ölvisár og Hvalfjarðar, fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár og öll nes út”. Orðin “fyrir utan Brynjudalsá” benda að vísu ekki til, að allur Brynjudalur hafi tilheyrt landnámi Ingólfs, en þó er Þorsteinn Sölmundarson, er nam Brynjudal allan, talinn nema í landnámi Ingólfs. Bústaður þeirra feðga, Þorsteins og Refs gamla, sonar hans er talinn í Múla, sem er norðan árinnar. Má því ætla að norðurtakmörk Ingólfslandnámsins hafi verið hin sömu, sem voru sýslutakmörk um aldir. (Með nýlegri lagabreytingu eru stjórnsýslumdæmi sýslumanna miðuð við sveitarfélagamörk og sveitarfélög voru samsett af landi þeirri jarða, sem í sveitarfélaginu voru. Við þetta breyttust sýslumörk á þessum stað, þar sem land Stóra Botns var áður bæði í Borgarfjarðarsýslu og Kjós, en eru nú einungis í stjórnsýsluumdæmi sýslumanns í Borgarnesi).

Heimildir um landnám – og réttir.
EyjaréttSvartkell hinn katneski nam land fyrir innan Mýdalsá (Miðdalsá), milli hennar og Eilífsdalsár, sem gengur nú undir nöfnunum Dælisá og Bugða og fellur í Laxá nokkurn spöl frá sjó. Svartkell bjó fyrst á Kiðjafelli, en síðan á Eyri.
Valþjófur Örlygsson hins gamla á Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma, og bjó að Meðalfelli. Eftir því sem skýrt er frá takmörkum nágrannalandnámsmanna má sjá að Valþjófur hefur numið landið á milli Eilífsdalsár og Laxár allt upp til fjalla.
Hvamm Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Mörkin að landnámi Þóris eru greinileg.
Þorsteinn Sölmundarson nam land frá Fossá að Botnsá, Brynjudal allan. Nokkuð af landnámi hans það sem milli er Brynjudalsár og Botnsár, liggur utan landnáms Ingólfs. Þess er ekki getið í Landnámu hvar Þorsteinn hafi búið, en í Harðar sögu segir, að Refur hinn gamli sonur hans, hafi búið á Stykkisvelli í Brynjudal, en Þorbjörg katla móðir Refs hafi búið í Hrísum. Bæði þessi bæjarnöfn eru nú löngu týnd, en Hrísar munu vera sami bær, sem nú nefnist Hrísakot.

Afréttarmál og ítök:
FossárréttÍ lýsingu Reynivallarsóknar 1840 eftir séra Sigurð Sigurðssona er fjallað um afréttarmál í sókninni. Segir þar að eftirfarandi svæði séu notuð fyrir geldfé á sumrum: Múlafjallið, dalnotnar í Botnsdal og Brynjudal, Kjölfjallið með tilheyrandi dölum og dældum. Seljadalur og landið fyrir framan Hækingsdal og í kringum Stíflisdal.
Í lýsingu Björns Bjarnarsonar (1937) á Kjósarsýslu segir að afréttarland eigi sveitin ekki, en landrýmisjarðir séu nokkrar og aflögufærar um sumarhaga, mest Ingunnarstaðir. Þá segir að sauðfjárréttir í Kjós séu tvennar, Fossárrétt fyrir norðursveitina og Eyjaréttir fyrir sveitina sunnan Laxár.

Fossárrétt

Í bókinni “Göngur og réttir” II eftir Braga Sigurjónsson er fjallað um afréttarmál í Kjós. Segir þar eftirfarandi: “Göngur og réttir í Kjósarhreppi munu hafa verið með líku móti svo öldum skiptir, svo sem þær voru á fyrstu tugum þessarar aldar (tuttugasta öldin) og hér verður lýst í stórum dráttum.”
Þá er lýst fjallahring Kjósar, sem er Esjan að Svínaskarði, þá Skálafell og Sauðafell að Kjósarskarði, þá Brattfell og Kjölur að Leggjabrjót, þá Botnssúlur að Hvalskarði og Múlafjall að Botnsá. Bragi segir að sauðfé hafi fyrrum verið haldið meir til fjalla en þegar hann ritar bók sína, þar sem lítið var um girðingar um tún og engjar. Leitardagur var eftir fjallskilareglugerð ákveðinn í 22. viku sumars og varð að nota hann, hvernig sem viðraði. Sveitarstjórn gaf út fjallskilaboð, sem gekk boðleið um sveitina. Þetta var mikið skjal því leitarsvæðin voru mörg og hver einasti bóndi sveitarinnar um 50 talsins, þurftu að gera fjallskil. Leitarstjórar voru skipaðir á hvert leitarsvæði.
Laxá skipti sveitinni í tvo hluta. Sunnan Laxár voru leitarsvæðin Eyrarfjall, Meðalfell og dalir Esjunnar ásamt umhverfi; Eilífsdalur, Flekkudalur, Eyjadalur og Svínadalur og Fremrahálsland að sýslumörkum Árnessýslu, en þau eru um hæstu toppa Sauðafells og Brattafells.
Norðan Laxár voru tvö samfelld leitarsvæði. Var annað FossárréttBrynjudalsfjalllendi frá Þverá austan Þrándarstaða að Botnsá, þ.e. norðurhluti Kjalar, Botnssúlur, Hvalfell og Múlafjall og Brynjudalur allur. Þá var stór hluti af landi Stóra Botns á þessu leitarsvæði, þ.e. allt land þeirrar jarðar sunnan Botnsár.
Hitt leitarsvæðið norðan Laxár var frá sýslumörkum við Árnessýslu í Kjósarskarði milli Sauðafells og Brattafells, Hækingsdals-, Þrándarstaða-, og Fossárlönd og allur Reynivallaháls. Nú á dögum eru göngur og réttir ekki nema svipur hjá sjón hjá því sem áður var. Hver bóndi smalar sitt umráðaland og kemur úrgangi til lögréttar, en hún er í Möðruvallalandi og heitir Kjósarrétt.
Með bréfi sýslumanns þann 18. júlí 1977 var þeim Tryggva Einarssyni bónda í Miðdal, Mosfellshreppi og Oddi Andréssyni, Neðra Hálsi, Kjósarhreppi falið af sýslunefnd Kjósarsýslu að gera afréttarskrá fyrir sýsluna með tilvísun til 6. gr. laga 42/1969. Í svarbréfi þeirra til sýslumanns kemur þetta fram: “Við nána athugun höfum við komist að þeirri niðurstöðu að afréttur hafi ekki verið til í Kjósarsýslu samkvæmt skilingi okkar á merkingu þess orðs, þar sem öll lönd innan sýslunnar”.

FossárréttFossárréttin er auðfundin við Fossá skammt fyrir ofan (ca. 250 m) þar frá sem þjóðvegurinn um Hvalfjörð liggur nú. Hún er hlaðinn og stendur vel, notuð fram undir 1960. Vel má greina dilka og almenning í réttinni. Nú er búið að planta furutrjám í réttina og umhverfis hana. Yngri hlaðin rétt er neðar, undir Fossinum rétt ofanvið þjóðveginn.
Eyjaréttin er torræðari. En með aðstoð Páls Ingólfssonar á Eyjum I var hægt að ganga að henni vísri. Páll sagðist oft hafa leikið sér í réttinni á unga aldri og hann myndi vel eftir henni. Þetta hafi verið hlaðin rétt, en þegar Jóhannes, kennur við Bónus, hefði byggt sér sumarbústað við vestanverða réttina, norðan Meðalfellsvatns, hafi mest af grjótinu verið tekið úr réttinni og sett undir bústaðinn. Í dag (árið 2008 er FERLIR fór í vettvangsferð á staðinn) má þó enn sjá leifar réttarinnar og lögun hennar í túni innan girðingar er umlykur sumarbústaðinn. Leitt er til þess að vita að þarna hafi fornt mannvirki farið forgörðum fyrir lítið án þess að nokkur hafi gert athugasemd við það á þeim tíma. Varla er þó ástæða til að forviðrast því slíkt virðist vera að gerast víða um land enn þann dag í dag. Að sögn Sigurbjörns Hjaltasonar að Kiðafelli var þjóðvegurinn lagður yfir efri hlutann á réttinni árið 1953.
Kjósarréttin fyrrnefnda er nýleg, steinsteypt rétt nálægt Möðruvöllum, en þarfnast viðhalds.
Fossárrétt