Blómgunartími jurta er ótrúlega misjafn. Það á ekki bara við hvenær sumars þær blómgast, heldur líka hversu lengi þær bera blóm.

Hjartablom-1Hjartablómið byrjar t.d. að blómstra í júníbyrjun og er að út ágúst. Þetta er ættingi af reykjurtaætt. Plönturnar eru safamiklar og stönglarnir stökkir og veikbyggðir.
Hjartablómið er af ættkvísl, sem heitir Dicentra. Þetta er lítil ættkvísl, u.þ.b. 20 tegundir og náttúruleg heimkynni eru í N-Ameríku og A-Asíu. Tvær af þessum tegundum eru þó nokkuð algengar í okkar görðum; dverghjarta eða Dicentra formosa, sem er frá N-Ameríku, og hjartablóm, D. spectabilis frá A-Asíu.
Dverghjartað er fremur lágvaxið eins og nafnið bendir til. Laufið er fínlegt og margskipt og blómstöngullinn með mörgum, hangandi blómhjörtum. Algengast er að blómin séu bleikleit, en til eru afbrigði með hvítum og jafnvel dökkrauðum blómum. Hjartablom-2Dverghjartað er harðgert og þolir bæði sól og hálfskugga, en blómstrar minna í skugganum.
Hjartablómið er bæði stórt og glæsilegt, eiginlega ógleymanlegt í allri sinni dýrð. Það verður 50-100 cm á hæð og vill helst töluvert skjól, því plantan verður há og fyrirferðarmikil og stönglarnir eru stökkir. Blómstönglarnir eru langir og blómin fjölmörg á hverjum stöngli, líkt og einhver hafi dundað sér við að þræða lítil, blóðrauð postulínshjörtu upp á perluband. Blómin eru með tvö rósrauð bikarblöð, sem eru uppblásin og líkt og hjarta í laginu en krónublöðin, sem koma niður úr hjartanu, eru hvít.
Erfitt er að lýsa innihaldi hjartans nákvæmlega, því krónublöðin og fræflarnir fléttast saman á furðulegan hátt inni í því. Danir kalla blómið Leutenantshjarta, eða hermannshjarta og útskýra nafnið með smásögu, eins og þeirra er von og vísa. Hvað býr í hjarta hermannsins? Jú, það er dansmeyjan, í sínum hvíta og fallega ballkjól.

Heimild:
-Morgunblaðið (Fasteignablað), þriðjudaginn 3. ágúst, 2004.