Burkni

Sá/þeir/þau er ganga um hraunin utan og ofan Hafnarfjarðar að sumarlagi komast vart hjá því að sjá stóra og fallega burkna í hraungjótum og sprungum.
Burkni-2Tófugrasið, eitt afbrigðið, má einnig sjá í sérhverju fjárskjóli.
Á Íslandi vaxa um 37 tegundir af byrkningum. Til byrkninga teljast burknar, elftingar og jafnar, ásamt tungljurtum og álftalaukum. Byrkningar mynda engin fræ eins og blómplöntur, og bera engin blóm. Í stað þess bera þeir gróhirzlur sem framleiða mikið magn af gróum. Burknar bera gróhirzlurnar í gróblettum neðan á blöðunum, elftingar bera gróhirzlur í gróaxi efst á toppi stöngulendanna, en jafnar bera þær í blaðöxlunum. Álftalaukar sem vaxa á kafi í vatni bera gróhirzlurnar í slíðrum við blaðfótinn.
Þegar gró byrkninganna spíra, myndast í fyrstu forkím (kynliður) sem tekur mismunandi langan tíma að þroskast. Forkímið er ætíð smávaxið, stundum grænt og blaðlaga, en er í sumum tilfellum blaðgrænulaust og þroskast neðanjarðar. Á forkíminu myndast kynfrumur, og á því verður frjóvgun. Af okfrumunni sem myndast við samruna kynfrumanna vex síðan upp byrkningurinn sjálfur, elftingin, burkninn, tungljurtin eftir því hvaða flokki forkímið tilheyrir. Þroskun forkímsins getur tekið frá fáum vikum (burknar og elftingar) upp í nokkur ár (tungljurtir).
Burkni-3Burknar eru skuggþolnar plöntur sem ræktaðar eru vegna blaðanna. Þeir hafa fínleg blöð og mynda skemmtilega brúska. Burknar þurfa gott skjól eigi þeir að þrífast vel, svo og næringarríkan og hæfilega rakan jarðveg.
Stóriburkni er stærstur íslenskra burkna, allt að 1 m á hæð. Hann myndar breiða brúska af stórum blöðum, allgrófum. Mjög harðgerður og gróskumikill.
“Margir garðar búa yfir ákaflega skuggsælum stöðum þar sem erfitt er að fá plöntur til að lifa og dafna. Ekki þýðir að gróðursetja blómstrandi plöntur á slíka staði því þær þurfa á beinni sól að halda, að minnsta kosti hluta úr degi, svo þær nái að blómstra og skila sínu hlutverki með sóma. Á skuggsæla staði verður maður því að velja plöntur með falleg laufblöð því ekki er hægt að treysta á að blómin lífgi upp á umhverfið. Margir skuggaþolnir runnar verða auðvitað fyrir valinu en það er nú einu sinni svo að þeir verða feitir og pattaralegir með tímanum og þá þarf að fara að klippa þá og snyrta til og ekki eru nú allir garðeigendur til í það að leggja allt of mikla vinnu í skuggalegu beðin, það fer svo mikið betur um mann í sólinni…
Burkni-4Þá er bara að finna plöntu sem er falleg í skugga, verður ekki allt of stór og þarf lítið sem ekkert viðhald. Burknar eru fyrstu plönturnar sem koma upp í hugann sem uppfylla þessi skilyrði.

Burknar eru skuggaþolnar plöntur, þetta eru yfirleitt skógarbotnsplöntur eða plöntur sem þrífast vel í klettaskorum og gjótum þar sem sólar nýtur ekki við nema að örlitlu leyti. Burknarnir eru blaðfallegir, með stór, fínleg blöð sem mynda þéttar og fallegar hvirfingar. Þeir þurfa fremur léttan, loftríkan og næringarríkan jarðveg sem þarf að vera rakaheldinn. Fæstir burknar þola mikinn þurrk þannig að gæta verður að því að gróðursetja þá ekki of nálægt húsveggjum þar sem þeir geta lent í regnskugga. Mjög auðvelt er að fjölga burknum með skiptingu og eru þeir yfirleitt fljótir að taka við sér eftir gróðursetningu. Í náttúrunni fjölga burknar sér með gróum sem myndast í gróblettum á neðra borði blaðanna eða á sérstökum gróbærum blöðum sem vaxa upp úr blaðþyrpingunni.
Hér á landi er hægt að rækta margar tegundir burkna með ágætis árangri. Sumar tegundir hafa náð meiri vinsældum en aðrar og er það eflaust vegna þess að þær eru til í meira framboði í garðplöntustöðvum.

Burkni-5Stóriburkni verður, sem fyrr sagði, 80-100 cm hár og breiður brúskur með tvífjaðurskipt blöð sem virka svolítið gróf á mann. Blöð stóraburkna raða sér í óreglulega hvirfingu og á neðra borði margra blaða er hægt að sjá nýrnalaga gróbletti (eru eins og nýru í laginu). Þetta er í raun greiningaratriði því það getur verið ákaflega erfitt að þekkja mismunandi tegundir burkna í sundur.
Burkni-6Annar algengur burkni er fjöllaufungur, Athyrium filix-femina. Fjöllaufungurinn er yfirleitt mun fínlegri yfirlitum en stóriburkni þótt hann geti auðveldlega náð svipaðri hæð og stóriburkninn. Gróblettir fjöllaufungs eru aflangir en ekki nýrnalaga eins og á stóraburkna og er þannig mögulegt að þekkja þessar tegundir frá hver annarri. Til eru ótal yrki af fjöllaufungi og eru mörg yrkjanna með blöð sem eru undarleg í laginu. Einnig eru yrkin mishávaxin.
Körfuburkni er enn einn algengur burkni. Hann er sérstakur fyrir þær sakir að blöð hans raðast í nokkurs konar körfu. Upp úr miðri körfunni kemur svo undarlegt blað, gróblað og eru gróblettir einungis á þessu blaði. Körfuburkni getur orðið rúmlega 80 cm á hæð. Hann fjölgar sér með rótarskotum þannig að nýjar blaðhvirfingar skjóta upp kollinum í svolítilli fjarlægð frá móðurplöntunni.
Nokkrar mismunandi tegundir burkna í einu skuggabeði geta skapað mjög skemmtileg áhrif en einnig getur komið vel út að brjóta upp fínlega blaðbreiðu burknanna með plöntum með annars konar blöð, til dæmis Hosta-tegundum (brúskum) sem eru með stór, heil blöð í ýmsum blaðlitum frá gulu yfir í blágrátt.
Þessum fróðleik um burkna er sérstaklega ætlað að efla vitund og áhuga hraungangandi um efnið.

Heimild m.a.:
-Morgunblaðið – Mánudaginn 27. september, 2004 – Fasteignablað.

Burkni

Burkni.