Blóðberg

Blóðberg (fræðiheiti: Thymus praecox) er lítil sígræn fjölær þófaplanta, af sömu ættkvísl og timian, sem vex í þurru mólendi, holtum og sandi um alla Evrópu. Blóðberg er nýtt sem sígræn þekja í garða og í matargerð sem kryddjurt.
Blodberg-3Á Íslandi er blóðberg (ssp. arcticus) mjög algengt um allt land og finnst bæði á láglendi og í fjöllum allt upp í þúsund metra hæð.
Blóðberg er lágvaxinn smárunni með litlum bleikbláum blómum. Blóðberg er mest áberandi í júní og júlí þegar plantan er í blóma og má þá stundum sjá blóðbergsbreiður. Plantan hefur öldum saman verið notuð bæði til heilsubóta og sem krydd. Blóðbergste er til dæmis sagt vera gott við flensu, kvefi og ýmsum meltingarsjúkdómum. Það er gott krydd, til dæmis á grillað lambakjöt og minnir bragðið á tímían sem kallast einnig garðablóðberg á íslensku og er af náskyldri plöntu.
Blodberg-2Björn Halldórsson, prestur í Sauðlauksdal sem var frumkvöðull í garðrækt og jarðyrkju á Íslandi, segir um blóðbergið: “Þessi urt hefur ágætan kraft til að styrkja sinar. Hverslags vín, sem á þessari urt hefur staðið nokkra stund og síðan drukkið, læknar sinadrátt, það sama læknar kvef, hreinsar og styrkir höfuð, þynnir blóð, læknar upp þembing þeirra manna, sem etið hafa mikið af hörðum mati. Það vermir kaldan maga og styrkir hann. Dúkur í þessu vín vættur og við lagður höfuð manns, bætir öngvit og svima, höfuðverk og hettusótt. Seyði af þessari urt, sem te drukkið, er gott við hósta, læknar ölsýki þeirra manna, að morgni drukkið, sem ofdrukkið höfðu vín að kvöldi. Sé þessari urt stráð á gólf, eða reykt með henni í húsum, ellegar hún seydd í vatni og sama vatni dreift um húsið, flýja þaðan flær.”
Blóðbergið er mest notað gegn flensu og kvefi, sérstaklega lungnakvefi og öðrum lungnasjúkdómum þar sem þarf að losa um slím. Blóðberg er einnig talið einstaklega gott við flestum meltingarvandamálum s.s maga- og garnabólgu. Blóðberg linar krampa í meltingarfærum og er þá oft notað með öðrum jurtum. Bakstrar með jurtinni þykja góðir við bólgum í liðum og vöðvum.

Heimildir m.a.:
-heilsubot.is/page/blodberg

Gullkollur

Gullkollur og blóðberg.

-Wikipedia.org