
Ísland er eitt virkasta eldfjallaland í heimi. Hér hafa orðið gos að meðaltali á um 5 ára fresti frá landnámi. Gosunum fylgir gjóska sem sest í jarðveginn og ljær honum óvenjulega eiginleika, bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega. Gjóskan er eðlislétt – allir vita hve léttur vikur er. Vindur og vatn ná því að hreyfa og flytja kornin auðveldlega til. Þykk öskulög mynda lög í jarðveginum sem auðveldlega grefst undan eða fýkur burt þegar gróðurhulan verndar ekki lengur.
Þetta tvennt, tíð eldgos og vindasamt veðurfar, var vissulega til fyrir landnám en olli þó ekki verulegum skaða á gróðurþekju. Eldgos hafa ekki verið tíðari eftir landnám en næstu árþúsund þar á undan. Sigurður Þórarinsson benti t.d. á að útbreiðsla skóga á Suðurlandi gæfu ekki til kynna að eldgos væru frumorsök að eyðingu skóga: helstu skógarleifar er þvert á móti að finna í nágrenni virkustu eldfjallanna: Bæjarstaðarskógur er nálægt rótum Öræfajökuls, Næfurholtsskógur og Galtalækjarskógur eru í næsta nágrenni Heklu og í Skaftártungum, skammt austan Kötlu, er talsvert kjarr. Merki um staðbundinn uppblástur munu finnast í jarðvegi frá því fyrir landnám en þau eru fá. Meira að segja feiknarleg gjóskugos, miklu stærri en komið hafa eftir landnám, virðast ekki hafa valdið verulegri jarðvegseyðingu. Hún hófst ekki fyrr en þriðji þátturinn bætist við með umsvifum mannsins.

Það sem líklega skipti sköpum og hrinti af stað vítahring jarðvegseyðingar eftir landnám er að gjóskufall hefur miklu afdrifaríkari afleiðingar fyrir gróður á skóglausu landi. Nokkurra tuga sentimetra gjóskufall getur kæft gróður á graslendi og þar sem beit eða sláttur hefur tekið ofan af gróðri, og náð að drepa allar plönturnar sem flestar hafa sína vaxtarbrodda neðanjarðar, í sverði eða rétt ofan við yfirborð. Þá liggur gjóskan óvarin fyrir vindi og vatni og verður upphaf að sandfoki og frekari gróðureyðingu á nærliggjandi svæðum þegar aðflutt efni kæfa gróður á nýjum stað. Jafnþykkt gjóskulag kann að hafa lítil áhrif á skóg og kjarrlendi þar sem eru tré og runnar sem standa upp úr. Botngróður deyr en hávaxnari gróður heldur að gjóskunni og kemur í veg fyrir að hún fari að fjúka, og skapar auk þess betri skilyrði fyrir uppvöxt botngróðurs á nýjan leik.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir,
prófessor í líffræði við HÍ
http://www.land.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/hofudstodvar.html

Landrof.