Brunntorfuskjól
Skoðaðar voru tvær varðaðar leiðir um Brunatorfur (Brundtorfur/Brunntorfur), annars vegar frá Þorbjarnarstaðaborginni á suðausturjarðri Háabruna (frá vörðu á háhæðinni austan borgarinnar) og yfir að stórri vörðu við Stórhöfðastíg, og hins vegar frá henni eftir vörðum í gegnum Brunatorfur, að brún Háabruna norðaustan fjárborgarinnar og með henni inn á Stórhöfðastíg. Þarna virðist vera um að ræða varðaðar leiðir í svo til beina stefnu upp á Stórhöfðastíg þar sem hann stefnir að Fjallgjá.

Þorbjarnarstaðaborg

Frá þriðju vörðu ofan við borgina að vestanverðu er vörðuð leið beint upp á Hrauntungustíg við Fornasel. Tvær vörður eru hlið við hlið ofan vörðu á brún Brunatorfanna. Í þeim eru járnstaurar, líklega landamerki Straums og Áss. Nafn torfanna er augljóst. Í þeim eru víða grasbollar í annars grónu hrauninu, rétt sunnan Brunans og austan Háabruna. FERLIR fann fyrir nokkrum árum (fyrir tíma GPS-tækja) hlaðið fjárskjól ofan við Brunatorfur, en það hefur ekki endurfundist þrátt fyrir leit. Hleðslan, sem var fyrir löngum skúta undir klettabrún, var u.þ.b. mannhæðar há, ca. sjö metra breið og sneri mót norðvestri. Að þessu sinni fannst þó gróið aðhald undir klapparhæð með góðum grasgróningum allt í kring.
Þegar gengið var frá þorbjarnarstaðaborginni og yfir hæðina er varða fremst á henni. Fjárborgin var hlaðin af börnunum á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Líklega hefur hún átt að verða topphlaðin, líkt og Djúpudalaborgin í Selvogi, en þaðan var einmitt faðir þeirra ættaður (Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Móðirin var Ingveldur Jónsdóttir, Guðmundssonar, hreppstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Álfstöðum á Skeiðum (Haukadal og Tortu). Bróðir hans bjó á undan þeim á Þorbjarnarstöðum). Lagið á fjárborginni bendir til þess. Sjá má helluhrauka við borgina og miðgarðurinn í henni hefur líkleg átt að vera stuðningur undir mitt þakið. Hætt hefur verið við hleðsluna af einhverjum ástæðum í miðjum klíðum. Hún hefur að öllum líkindum ekki verið notuð fyrir fé því ekki er gróið í kringum hana. Hún gæti hins vegar verið ferða- og leitarmönnum gott skjól og þess vegna hafi leiðin að henni verið vörðuð. Aðgengilegt er að ganga niður og norður með brún Háabruna inn á Hrauntungustíg eða áfram niður Gerðarstíg.

Við þriðju vörðu greinist leiðin, annars vegar til suðvesturs og hins vegar til suðausturs, að lykkju á Stórhöfðastíg um Brunatorfur, sem líst verður á eftir. Þá liggur vörðuð leið þaðan upp í Almenning að Fornaseli þar sem hún sameinast Hrauntungustíg.
Vörðunum á vesturleiðinni (til suðausturs) var fylgt áfram. Hún endaði við stóra vörðu á Stórhöfðastíg. Gengið var m.a. framhjá Brunatorfuhella (Brundtorfuhella/Brunntorfuhella), sem eru fyrrum sauðahellar Hraunamanna. Þeir eru í einu jarðfalli. Í því eru hlaðnir gangar er leiddu féð í tvö skjól. Hellarnir eru vandfundir. Stórhöfðastígurinn hefur valdið mörgum miklum heilabrotum því menn virðast vera tala um fleiri en einn stíg þegar komið er upp fyrir hornið á skógræktargirðingunni. Ólafur Þorvaldsson lýsir þeim hluta svona: “Þegar suður úr brunanum kemur liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans og fylgir maður brunanum þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.”

Þá var vörðum fylgt til norðvesturs um Brunatorfur. Sú varaða leið liggur beint niður í Brunatorfur. Á leiðinni voru fyrir tvær vörður, hlið við hlið. Loks var lítil varða á hæð sunnan brúnar Háabruna og önnur inn á brunanum. Háibruni er þakin þykkum mosa (rann 1151) og erfiður yfirferðar. Leiðin beygir hins vegar austur með hraunbrúininni og inn á Stórhöfðastíg. Reyndar er búið að fjarlægja síðasta spölinn með námugreftri. Þarna virðist vera enn einn angi Stórhöfðastígsins, en hann er jafnvel greiðfærari en sá efri.
Þarna virðast vera styttingar, annars vegar niður í Þorbjarnastaðaborg og hins vegar inn á Stórhöfðastíginn. Greina má götur á stöku stað milli varða, en mosinn er víða kominn yfir þær eða búið að planta trjám því svæðið er innan umráða Skógræktar ríkisins. Það er í raun ágætt dæmi hversu varlega þarf að fara þegar trjám er plantað á gömul minjasvæði.
Ásbjörn “garpur” hefur gert vörðukort af Almenningi. Á því má sjá að hinar gömlu leiðir eru merktar ónákvæmt inn á kort. Ef vörðum er hins vegar fylgt má vel sjá hvernig leiðir hafa legið um Almenning sem og hvernig varðaðir stígar hafa víða legið á milli þeirra.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.