Hamarinn

Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson skrifaði bók, “Bær í byrjun aldar”, og gaf út handskrifaða, á eigin kostnað, árið 1967. Í henni fjallar hann m.a. um nánast alla íbúa sem og hús og bæi í Hafnarfirði árið 1902. Um Hamarskot segir hann:

Magnús Jónsson

Baksíða bókar Magnúsar Jónssonar “Bær í byrjun aldar”.

“Hamarskot; nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn af hamrinum, en svo var farið að kenna hamrinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarkoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt.
Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi?, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn.
Börnin sem heima voru; Júlíus, bjó með Herdísi Stígsdóttur Auðunnarsonar, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík -, Sigurður Gunnlaugur trésmiður, kvæntur Ólöfu Rósmundsdóttur, Una, dó um fermingaraldur og Jarðþrúður, giftist fyrst Kjartani Jakobssyni en síðar Helga Kristjánssyni. Agnar var farinn að heiman og einnig Anna og Sigríður, en þeirra verður getið síðar.
Þorlákur dó 1926, en Anna kona hans 1930.
Sigurður Gunnlaugur Þorláksson trésmiður dó 1974 og kona hans Ólöf Rósmundsdóttir 1975.”

Hamarskot

Hamarskot – örnefni skv. lýsingum fyrrum.

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær frá 2020 segir m.a. um Hamarskot: “Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel.
Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði.15 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona: „ Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.”

Hamarskot

Hamarskot – loftmynd 1954.

Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 1906 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.

Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona: „Hamarskot: Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum. Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.”

Hamarskot

Hamarskot – Hafnarfjörður um 1930.

“Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e. 9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti“. Ekki er til túnakort af Hamarskoti.

Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.

Hamarskot

Hafnarfjörður 1902.

Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.

Dvergasteinn

Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.

Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar.
Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar.

Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.

Hamarskot

Hamarskot. Uppdráttur Jóns Víðis 1925-1926 af Hafnarfirði. Hamarskot neðst t.v.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Hafnarfjörð segir m.a.:
“Þar innar [Vesturshamars] tekur svo við hið forna Hamarkotsland. Nú er allt Hamarkotsland innlimað í kaupstaðinn.
Þá er, eða réttara var, Hamarkotsmöl. Þar upp af austast var Hamarkotshamar, en milli hamranna uppi er stundum nefndur Austurhamar. Allmikið og gott útsýni er af Hamrinum. Neðan hans og inn með honum er undirlendi frá Hamarskoti, og heitir það Brekka, og neðan hennar Undir brekku eða Undirhamarstún. Frá Vesturhamri náði svo mölin alla leið að stærsta vatnsfallinu, er rennur í Hafnarfjörð, sem heitir Hamarkotslækur eða Hafnarfjarðarlækur. Lækur þessi kemur með suðurbrún Garðahrauns. Um það bil syðst í mölinni var lækur, sem hét Góðholulækur. Hann kom úr lítilli uppsprettulind, sem hét Góðhola og var vatnsbólið frá Hamarkoti. Við Hamarkotslæk, þar sem h/f Dvergur er nú, hét Moldarflöt. Yfir hana flæddi stundum, sökum þess, hve lág hún var, og rétt ofar var smáhólmi í læknum, er hét “Á Myllunni”. Þar hafði verið mylla áður fyrr. Sagt var, að þegar flúðir, sem voru í læknum, báru í Setberg, hafi verið rétt innsigling á Hafnarfjörð. Í svonefndu Loftsstaðatúni er steinn fastur við þjóðkirkjuna, sem heitir Dvergasteinn. Stein þennan vill enginn hreyfa, því munu hin huldu verndaröfl steinsins ekki láta óhegnt.”

Hamarskot

Ábúendur í Hamarskoti 1902.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni Hamarskots:
“Hamarskot, jörð í Garðahreppi, fyrrum í Álftaneshreppi. Var fyrr meir hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en allt frá stofnun kaupstaðar í Hafnarfirði hefur jörðin tilheyrt Hafnarfirði.
Hamarskotsbærinn stóð í Hamarskotstúni vestarlega, rétt ofan til við Hamarskotshól. Túnið liggur í slakka ofan, norðan frá Hamrinum sem gengið hefur undir nöfnunum Hamarskotshamar eða Hafnarfjarðarhamar. Syðsti hluti Hamarsins er nefndur Háhamar. Hamarskotstúngarðar lágu að túninu, að sunnan Suðurtúngarður, og austan Austurtúngarður. Ofan frá bænum lágu Suðurtraðir í Suðurtraðarhlið. Austur frá bænum lágu Austurtraðir í Austurtraðarhlið. Hamarskotsbrunnur lá í slakkanum suðvestur og niður frá bænum og þangað lá Brunngatan. Brunnurinn var þar sem nú er húsið nr. 25 við Brekkugötu [á að vera Selvogsgata 2]. Hamarskotsstígur lá frá bæ norður og niður í bæ. Rétt við Suðurgarðinn rann lækur ofan frá Öldum. Var að jafnaði vatnslítill en óx mjög oft í leysingum. Nefnist hann Aldnalækur hér efra.

Hafnarfjörður

Hamarinn.

Hér sunnan lækjarins lá Selvogsgatan og áfram upp á Öldurnar. Hér fram og upp sá Kvíholtið, þar á austurbrún var Kvíholtsvarðan, markavarða milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Niður undan holtin[u] rann Kvíholtslækur. Varla til nema þegar leysingar voru. Þar voru gróin börð, nefndust Fagridalur, þar er nú byggðin Hlíðarbraut. Neðan lækjarins var Austurhamar, mest berar klappir. Þar var klapparbrún nefnd Strýta. Vestan við var slakki, þar um lá Ófriðarstaðastígur um Hamarsbrekkuna. Eftir að Suðurgatan var lögð þar um, nefndist hér Illubrekka. Var hún allbrött og hálka mikil þar á vetrum. Ennfremur gott sleðafæri og óspart notað. Hér vestur af tók við Vesturhamar. Norðan í honum sniðskar sig Alfaravegurinn, var þar þjóðbraut. Vesturhamar var einnig nefndur Sjávarhamar, Skiphamar og Knud Zimsen nefnir hann Flensborgarhamar. Á nyrstu brún hans var mark Hamarskots og Ófriðarstaða. Rétt austan við Ófriðarstaðastíg við Selvogsgötuna var lindin Góðhola. Var það besta vatnsból hér um slóðir.

Hamarskot

Fjárhellir við Hamarskotssel.

Austan við Hamarinn lágu götutroðningar nafnlausir upp á Öldur, þar voru melar og rofabörð suður eftir. Syðstu börðin nefndust Hvíldarbörð. Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan. Hér kom Selvogsgatan og lá inn á Mosahlíð en þar var í eina tíð Mosahlíðarvarða, landamerki milli Hamarskots og Ófriðarstaða. Héðan lá gatan niður á hraunspöngina við Lækjarbotna, Efri-. Vestan af Markaþúfu lá landamerkjalína hér um og upp á og suðaustur eftir Gráhelluhrauni, um Gráhellu upp í Kethellisvörðu á Kethelli eða Hamarskotsseli. Niður undir hrauninu sunnan Lækjarbotna lá Kaldárselsstígur inn með hrauninu. Var þar í hraunbrúninni Hraunréttin, Gamla-. Rétt innar, þar sem nú er Fjárhliðið, var upp á hryggnum Hlíðarþúfur og voru þar mörkin. Þessi hluti hraunsins er nú allur trjáræktargirðing. Spölkorn innar eru Flatirnar, þar var lagður skeiðvöllur í eina tíð. Út á hrauninu er Hraunréttin, Nýja- . Er nú langur vegur inn með hrauninu þar til komið er í Moldarkrika en í Moldarkrikavörðu eru mörkin og liggja svo héðan í Steinhús eða Steinhes á Fremstaholti. En úr Steinhúsi liggur línan um Sléttuhlíð vestanverða og Sléttuhlíðarhorn í Kethellisvörðu.”

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Í minningargrein um Magnús Jónsson í Morgunblaðinu 11. febrúar 2000 segir m.a.:
“Magnús Jónsson fæddist í Hafnarfirði 10. júlí 1926. Hann lést á Sjúkrahúsinu Sólvangi 3. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Jón Helgason, f. 27.6. 1895 í Litlabæ, Vatnsleysustrandarhreppi, d. 30.12. 1986, og Halla Kristín Magnúsdóttir, f. 18.2. 1894 í Merkinesi, Akranesi, d. 16.7. 1985. Heimili þeirra var á Hverfisgötu 21b, Hafnarfirði frá 1922-1983. Auk Magnúsar eignuðust þau hjónin dreng árið 1924, sem lést 2ja daga gamall.
Árið 1959 kvæntist Magnús Dagnýju Pedersen, f. 8.10. 1926 í Resen, Skive Landsogn, Danmörku, og lifir hún mann sinn.
Magnús ólst upp í Hafnarfirði. Að loknu skyldunámi hóf hann störf hjá Raftækjaverksmiðjunni Rafha, lærði bókband og lauk sveinspróf frá Iðnskólanum í Reykjavík 1953. Útskrifaðist frá Kennaraskólanum 1957. Lauk eins árs námskeiði í bókasafnsfræðum í Kaupmannahöfn 1962. Stundaði almenn kennslustörf með hléum til ársins 1980 í Reykjavík, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og á Vatnsleysuströnd. Starfaði á árunum 1962-1967 í bókasafni Hafnarfjarðar. Loks var Magnús minjavörður við Byggðasafn Hafnarfjarðar árin 1980-1995. Auk þess starfaði hann nítján sumur í kirkjugarði Hafnarfjarðar. Magnús starfaði mikið af félagsmálum og bar hæst ártuga störf innan Góðtemplarareglunnar og Kvæðamannafélags Hafnarfjarðar. Magnús var mikill áhugamaður um sögu Hafnarfjarðar og er höfundur bókanna “Bær í byrjun aldar” og “Hundrað Hafnfirðingar” I, II og III.
Magnús og Dagný bjuggu allan sinn búskap í Hafnarfirði, lengst af á Skúlaskeiði 6.”

Heimildir:
-Bær í byrjun aldar – Magnús Jónsson, 1967, bls. 23-24.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/518317/
-Örnefnaskrá fyrir Hamarskot – Gísli Sigurðsson skráði.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnarfjörð – Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III – Suðurbær, 2020, bls. 6-11.

Hamarskot

Hamarskot – tilgáta.