Bálkahellir

Stefnan var tekin á Bálkahelli í Eldborgarhaunum sunnan Geitahlíðar millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, austan Stóru- og Litlu-Eldborgar. Þar undir hlíðinni, efst í hrauninu, eru dysjar þeirra Herdísar og Krýsu sjá meira HÉR), afkomenda frumbyggja strandbæjanna tveggja.
Í TryggvahelliTilefni ferðarinnar var að áratugur var liðinn síðan Bálkahellir endurfannst eftir að hafa legið í þagnargildi í u.þ.b. 170 ár.
Í helluhraunum er að finna tilkomumikla hraunhella, s.s. Tryggvahelli/Bjössabólur, Bálkahelli og Arngrímshelli/Gvendarhelli, auk fleiri seinna fundinna hraunrása. Hér er ætlunin að lýsa enn einni ferðinni í Bálkahelli, en hellir sá endurfannst af tilviljun, eftir markvissa leit, af FERLIRsfélögum fyrir u.þ.b. áratug síðan.
En fyrst svolítið um jarðfræðina, sem Bálkahellir fæddist í. “Stóra-Eldborg undir Geitahlíð (180 m.y.s.) er nafn á reglulegum gíg, þeim stærsta í stuttri gígaröð, sunnan undir Geitahlíð (386 m.y.s.) og austan Krýsuvíkur (sjá meira HÉR). Gígurinn fellur vel að skilgreiningu eldborgar. [Sýnileg] gígagröðin öll hefur verið virk í upphafi gossins en mjög fljótlega hefur öll eldvirknin færst yfir í Stóru-Eldborg. Þá hlóðst gígurinn upp en hann er um 50 metra hár og yfir 30 metra djópur. Meginhraunrennslið hefur verið um þrjú op undan borginni og liggja hrauntraðir frá hverju þeirra. Hraunið rann að mestu til suðurs og austurs, einkum með Geitahlíð og fram af sjávarhömrum. Hraunið frá Stóru-Eldborg er um 12 ferkílómetrar.”
Komið í efsta hluta BálkahellisÞegar gengið var niður í Eldborgarhraunin frá Herdísarvíkurvegi mátti glögglega sjá skilin á afurðum Litlu-Eldborgar og Stóru-Eldborgar. Sú fyrrnefnda, afurð gígaþyrpingar á stuttri gígaröð, er eldra og greiðfærara. Stóru-Eldvarparspýjurnar ganga síðan yfir eldra hraunið misjafnlega langar. Sú sem rann til suðurs, beina leið til sjávar er bæði breiðust og lengst. Hún markar svonefnda Klofninga í þessum hraunum, sem gjarnan hefur verið nefnt Krýsuvíkurhraun til mótvægis við Herdísarvíkurhraunið austar. Þau eru reyndar fleiri en eitt, líkt og systkini þeirra í vestri, því austan Eldborgahraunanna eru t.d. hraun, sem kom niður Sláttudal úr eldborgum ofan Geitahlíðar. Um aldur þessara hrauna er ekki glögglega vitað, en ætla má (miðað við gróningana) að þau séu frá tímabilinu frá því fyrir 1200 árum og fyrr. Líklega eru Eldborgirnar sunnan Geitahlíðar hluti af eldborgaþyrpingunni norðaustan hennar svo báðar hafa gosið á sama tíma. Þessi gígaröð hefur náð upp í gegnum Miðbolla, Þríhnúka og Stóra-Kóngsfell norðvestan Bláfjalla, sem og gíg suðaustan Drottningar. Virkni gossins virðist því hafa verið meiri en við fyrstu sýn.
BálkahellirÍ stað þess að fylgja hefðbundinni leið niður á hellasvæðið var sú stysta fetuð í gegnum hraunið. Ekki liðu nema 12 mínútur uns komið var niður á hellaop suðaustan Litlu-Eldborgar.
Í Litla-Eldborgarhrauni, milli tveggja anga Stóra-Eldborgarhrauns, eru þrjú niðurföll. Þegar FERLIR gekk fram á þau veturinn fyrir árið 2000 voru þau staðsett, en ekki skoðuð nánar því verið var að koma úr mikilli helllaferð í Bálkahelli. Þó var skoðað upp í göng úr efsta jarðfallinu, ca. 50 metra, sem við síðari mælingu reyndust vera u.þ.b. 100 metra löng. Þá nefndur FETLIRsfélagar hellinn “Bjössabólur” eftir einum félaganna (Einarssyni), sem þá var með í för.
“Niður frá miðniðurfallinu liggja falleg göng. Eru þau vel manngeng í fyrstu en síðan lækkar smátt og smátt til lofts. Göngin eru lítið hrunin og lagleg. Þegar komið er um 20 metra inn í hellinn eru göng á veggnum hægra megin. Þau kvíslast síðan þegar innar dregur og er þessi afhellir um 80 metra langur. Hrun er neðarlega í meginrásinni og má komast leiðina áfram beggja megin við það. Frá því hlykkjast margslungin göng langa vegu. Heildarlengd hellisins út frá miðgatinu er um 380 metrar.
BálkahelliFrá neðsta og stærsta niðurfallinu liggja ekki miklir hellar, mesta rásin liggur upp eftir og er hátt í 50 metra löng og liggur nánast að hellinum út frá miðniðurfallinu þótt leiðin þar á milli sé ekki opin. Heildarlengd hellisins er yfir 500 metrar.
Ingi Óskarsson hellamaður nefndi hellinn Tryggvahelli eftir syni sínum en þeir feðgar gengu fram á hann árið 2000.”
Bjössabólur eða Tryggvahellir er hluti af hraunrás Bálkahellis, sem er skammt sunnar í Litla-Eldborgarhrauni. Á yfirborðinu skilur hraunspýja úr Stóru-Eldorg svæðin að.
Um Bálkahellir segir Björn Hróarsson í stórvirkinu “Íslenskir hellar”: “Samtals er Bálkahellir um 450 metra langur og er í hrauninu um kílómetra fyrir neðan þjóðveginn [Herdísarvíkurveg]. Í hellinum eru fallegir dropsteinar, dellur og önnur hraunvirki sem erfitt er að lýsa. Hraunstráargrysjur eru í loftum og á kafla má sjá hvar brúnleitt þunnfljótandi hraunið hefur runnið upp með veggum rásarinnar sem er allvíð á kafla.
Skammt innan við efsta og nyrsta hellismunnannn er mikil storkuborð eða bálkar beggja vegna og af þeim dregur hellirinn nafn sitt. Þar fyrir neðan er hellirinn hvað stærstur. Hann skiptist í tvennt og í honum tvær breiðar hraunsúlur. Komið er út í niðurfalli en sunnanvert í því heldur hellirinn áfram.
Miðhluti hlellisins er um 100 metra langur. Þar er töluvert um dropsteina og hraunstrá en að endingu þrengist hellirinn þannig að ekki verður áfram komist.

Bálkahellir

Frá neðsta niðurfallinu má halda um 40 metra upp á við til móts við göngin sem lýst er hér að framan. Til suðurs frá niðurfallinu liggja mjög heilleg göng um 220 metra. Hellirinn er breiður og á gólfum eru dropsteinar og hraunstrá hanga í loftum. Þessi hluti hellisins hefur varðveist mjög vel og full ástæða er til að fara mjög varlega þarna.”
Þegar FERLIR endurfann Bálkahellir fyrir u.þ.b. 10 árum síðan varð það fyrir hreina tilviljun. Leitað var eftir þjóðsögn um Arngrímshelli er var í notkun í Klofningum (Krýsuvíkurhrauni) í lok 18. aldar. Í þeirri frásögn er ein setning um tilvist Bálkahellis; “þar skammt frá er Bálkahellir”. Leitin fór fram að vetrarlagi. Leitarfólk var dreift og búið var að leita um svo til alla Klofninga þegar einn leitarmanna hvarf niður í snjóinn. Í ljós kom að hann hafði fallið niður í jarðfall er hafði að geyma efsta op Bálkahellis, þess er hafði gefið honum nafn. Bálkarnir voru augljósir beggja vegna í rásinni er niður var komið. Efsti hluti hellisins var skoðaður í það skiptið með lélegum ljósum.
Þegar heim var komið var haft við Björn Hróarsson, HERFÍS-félaga, og honum tilkynnt um fundinn. Í framhaldi af því var gerður úr leiðangur á svæðið, efsti hlutinn kannaður betur, sem og aðrir hlutar hans. Þegar staðnæmst var við neðsta opið var tekið til við nestið. Björn hvarf þó um stund niður (suður) undir jarðfallið. Þegar Björn kom aftur var hann spurður tíðinda. Fátt var um svör en blik í augum gaf von. Stuttu seinna var gerður út leiðangur hellamanna á svæðið og þá var neðsti hluti Bálkahellis skoðaður með góðum ljósum og af varkárni.
Í ljós Dropsteinar í Bálkahellikomu fram heilleg hraunrás, breið og yfir mannhæða há, með fjölmörgum dropsteinum og viðkvæmum hraunstráum. Lagðir voru út gulir borðar á gólfið til að afmarka fótgöngurás fyrir þá sem á eftir kæmu (svo koma mætti í veg fyrir skemmdir).
Það er ekki að ástæðulausu að Björn gefur ekki upp hnit á Bálkahelli í stórvirki sínu. FERLIR gaf þó upp hnitin á eldri vefsíðu sinni, en gætti þess að hafa þau það ónákvæm að einungis æfðustu hellaleitamenn ættu möguleika á að finna opin.
Haldið var niður í Bálkahelli. Þoka umlukti yfirborðið og hafði það sitt að segja í undirlendinu. Ofan við efsta jarðfallið eru fallegir steinbogar (-brýr). Í því efra er þrastarhreiður. Aðgengi niður í hellarásina til suðurs er auðvelt. Gólfið er lítið grjótáfallið, en þegar innar dregur þarf að fara yfir stutt en léttvægt hrun. Þar fyrir neðan greinist rásin.
Í Gvendarhelli

Greiðfærara er að fara til vinstri, en komið er skammt neðar að framhaldsrásinni hvor leiðin sem valin er. Þar eru myndræn gangnamót. Neðar er rásin heil utan einnar fellu, sem komið hefur úr loftinu í stóra jarðskjálftanum 2008. Auðveldur uppgangur er úr rásinni. Eins og Björn lýsir er hægt að halda áfram til suðurs undir yfirborðið. Þar tekur við heilleg hraunrás, en lokast síðan. Fallegir dropsteinar eru þar. Fara þarf til baka og halda síðan lengra niður eftir til suðurs í hrauninu, þangað til komið er að þriðaj og síðasta jarðfallinu á Bálkahelli. Ef haldið er upp eftir rásinni þar til norðurs er komið að lokuninni fyrrnefndu á u.þ.b 1/3 leiðarinnar. Þarna er rásin alveg heil og falleg.
Þá er að fara niður í neðsta ráshlutanna. Hér hafa áhugasamir hellamenn kvartað yfir tvennu; annars vegar ónákvæmum hnitum og hins vegar að finna ekki leiðina inn í rásina. Auðveldast er að fara niður í ráshlutann hægra megin, en þar er ekkert framhald. Ef farið er niður í hana vinstra megin má sjá rásina liggja upp til hægri (farið er aftur á bak niður). Þar er stór dropsteinn. Halda þarf þarna niður (til suðurs), fara um lítið op á milli steins og veggjarins.

Í Gvendarhelli

Þá tekur við lág renna sem bogra þarf í gegnum. Þá beygir rásin til hægri og aftur til vinstri. Þar hækkar rásin og breikkar. Eftir það er leiðin greið niður á við, en óþarfi er að flýta sér. Hraunstrá og dropsteinar eru víða á leiðinni, enda rásin alheil alla leið að endamörkum. Skammt ofan þeirra er dropsteinabreiða, sem ekki má fara yfir, enda mikil hætta á skemmdum.
Samtals er þessir hlutar Bálkahellis um 450 metra langir, en ef taldir væru með rásir “Tryggvahellis/Bjössabóla” væri hellirinn u.þ.b. kílómetrers langur, eða svipaður að lengd og Búri í Leitarhrauni.
Þegar hraunið sunnan við neðsta jarðfallið á Bálkahelli var kannað á sínum tíma fundust ekki fleiri op, en skammt sunnar er brekka á hraunbreiðunni og eftir það hallar jafnt og þétt til strandar. Líklegt má telja að rásin, eins stór og mikil hún er, eigi sér framhald í og ofan brekkunnar.
Þá var gengið upp að Arngrímshelli/Gvendarhelli í Klofningum. Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700.

Gatan í gegnum Klofninga

Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn. Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Sjá má tóftir hússins vestan við hellismunnann Innangegnt hefur verið úr húsinu í fjárskjólið, sem rúmað hefur geta á a.m.k. annað hundrað fjár. Fjárhúsopið, fyrirhlaðið, er sunnan í hellinum. Þar innan við er gólfið flórað. Hlaðið er um “stromt” þar sem líklegt eldstæði hefur verið undir. Fyrirhleðsta er innar. Innan hennar, beint niður af inngönguopinu úr húsinu, er gólfið einnig flórað. Hlaðin stía, sennilega fyrir sauði, er innar og hlaðið er fyrir efsta hluta rásarinnar til að forða því að féð kæmist innar í hana.
Skammt sunnan við tóftina og hellinn er rás. Þegar FERLIR skoðaði hana fyrir nokkrum árum fundust í henni nokkrir rekaviðarraftar. Líklega hefur þar verið eldiviðargeymsla fyrrum staðarhaldara. Ekkert af þessu hefur virðist hafa hlotið náð fornminjavörslunnar í landinu.
Allnokkru suðaustan við fjárskjólið er Fjárskjólið í Fjárskjólshrauni.
Frá fjárskjólinu var gata rakin til vesturs, yfir á vestanverða brún Klofninga (Krýsuvíkurhrauns). Hún bar merki þess að hafa bæði verið fjárgata sem og meginleiðin að og frá skjólinu. Vörður voru á brúnum. Þær gætu hafa verið eftir refaveiðimenn er síðar komu í Klofningana, enda munu þar hafa verið allnokkur greni – og eru enn. Ofar í Klofningum má sjá ummerki eftir þær.

Litla-Eldborg

Allnokkru suðvestan við hraunbrúnina eru talsverðar minjar; skjól, rétt og hús. Á korti hefur þeim stað verið gefið nafnið “Gvendarhellir”. Ástæðan gæti verið af þrennum toga; ókunnugleika þess eða þeirra er staðsettu nafnið þarna, umhverfi og aðstæður þar eru ekki ólíkar því sem gerist í Klofningum og minjarnar gætu átt við þær. Hins vegar er ekki vitað um heimildir er kveða á um notkun þessara minja, sem eflaust hafa verið notaðar til hjásetu um tíma, auk þess sem réttin og húsið gefa tilefni til að ætla að þar hafi verið fráfærur sem og/eða starfsstöð til vetrarbeitar niður um Bergsenda. Krýsuvíkurhellir er skammt austar.
Fallegar hrauntraðir Klofninganna liðast niður frá Eldborgunum, með misjöfnum slétt- og gróningum þó. Skil hraunanna eru augljós.
Kíkt var á leifar Litlu-Eldborgar, en meginhluti hennar hefur verið tekinn undir vegstæði þjóðvegarins. Ekki er óraunhæft að ætla að gígurinn verði endurgerður nú þegar verktakar þurfa að losa sig við efnisúrgang líkt og á Hellisheiðinni. Ósnertur gígur er stutt suðvestan við megingígin (raskaða), sem nýrra hraunið hefur umlukið. Norðaustar eru tveir gígar og hefur þeim suðvestari verið raskað. Umleikis eru fallegar hrauntraðir, að ofanverðu frá Stóru-Eldborg og að neðanverðu frá þeirri Litlu. (Sjá myndband úr Bálkahelli.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar, 2006.

Bálkahellir