Eldvörp
Nýlega fundust nokkrir hellar á litlu svæði efst í Eldvörpum. M.a. var sagt frá sprungu, sem gengið er inn undir, hvelfingu, rauðleitri rás með litlu opi í þunnu gólfi. Undir væru líklega tvær hæðir. Aðrir smáhellar, lítt kannaðir, væru og á svæðinu með – litbrigðum í. Jafnframt fylgdi lýsingunni að járnkarl þyrfti til að rýmka lítið op í stærsta hellinum til að komast áfram niður á við.
EldvörpEldvarpahraunin eru nokkur. Bæði hafa þau runnið í gosum á mismunandi tímum og einnig hvert á fætur öðru í samfelldum goshrinum. Eins og flestum er kunnugt er um að ræða gos á sprungurein, en Eldvarpareinin er u.þ.b. 10 km löng (þ.e. sá hluti hennar sem er ofan sjávar), en hún nær frá Staðarbergi í suðri og í tvo smágíga ofan Lats í norðri. Gjall- og klepragígar í röðinni eru einstaklega fallegir og formfagrir með ótal jarðfræðifyrirbærum.
Eldvarpahraunin sum hver eru a.m.k. 2000 ára gömul en önnur frá því á 13. öld (1226). Arnarseturshraunin eru einnig fleiri en eitt þótt jafnan sé talað um hrunið, sem rann á svipuðum tíma (1226) undir því nafni. Eldra Afstapahraun er 4000-4500 ára og má sjá móta fyrir því á nokkrum stöðum þar sem það kemur undan nýrra hrauninu.
Arnarsetur er nafn á gígnum efst á hæðinni. Reyndar er nú búið að eyðileggja gíginn, sem hið forna arnarhreiður var á.
EldvörpÞegar gengið var í gegnum hraunin áleiðis að leitarsvæðinu var ýmist farið í gegnum helluhraun eða apalhraun, en vant fólk hélt sig á helluhrauninu.
Eitt af einkennum gosanna á þessu svæði Reykjanesskagans er svonefnd blandgos (eða blönduð gos). Þá ryður heit og þunnfljótandi kvikan sér í fyrstu upp á yfirborðið yfir gjóskudreif og myndar slétt helluhraun. Þegar líður á og kvikan kólnar rennur hún sem seigfljótandi grautur, hægt og sígandi, jafnvel langar leiðir. Við það mundast apalhraun, gróft og úfið. Í þeim festir gróður fyrr rætur, enda yfirleitt skjólgóð auk þess sem þau draga í sig hita frá sólinni og varðveita hann betur en slétt hraunhellan. Hellar eru hins vegar oftast í helluhraunum þar sem þunnfljótandi kvikan hefur runnið í rásum undir storknuðu yfirborðinu, líkt og neðanjarðarár. Þegar fóðrið minnkar lækkar í “ánni” og holrúm myndast. Op verða þar sem þakið fellur niður eða þar sem uppstreymi gass og gosefna hefur orðið. Þetta er nú bara lýsing á hellamyndun í einföldustu mynd.
Þegar komið var inn á svæði Eldvarpahellanna efri kom í ljós að það er tiltölulega afmarkað, annars vegar af Gíghrauninu sunnan Þórðarfells og hins vegar af Arnarseturshrauni í austri og Illahrauni í suðri. Til suðvesturs, að granngígum Eldvarpa, virtist hraunið hins vegar samfellt.
Efstu gígarnir eru tveir (sýnilegir). Sá nyrðir er stærri, en sá syðri formfagurri. Leiðsegjandi dagsins, Grindavíkur-Björn, sagði þann syðri og minni mynna á kórónu. Því var tilvalið að nefna hann “Kórónna”, enda bar hún öll einkenni slíks grips.
EldvörpSunnan nyrstu Eldvarpagíganna er afmörkuð helluhraunslétta, Þangað virtist þunnfljótandi kvika haf runnið eftir rás úr megingígnum, sem suðaustan undir og við nyrsta gíginn, og komið þar upp, myndað kvikutjörn sem hefur risið hæst á börmunum. Þegar rásin fann sér leið áfram, sat storknað þakið eftir – það seig og barmarnir umhverfis urðu greinilegir á yfirborðinu. Handan við “tjörnina”, í hraunskilunum má sjá grónar hvylftir þar sem einir, lyng og jafnvel hvönn haf fest rætur. Á einum stað, sem er sérstaklega foritnilegur, gætu hugsanlega leynst mannvistaleifar undir gróðri. Til suðurs frá þeim stað virðist liggja stígur, sem nú er orðinn mosagróinn.
Skoðaðir voru smáhellar sunnan og við Eldvörpin efri. Ein rásin virtis nokkurra tuga metra löng, en lág.
Þá var tekist á við meginverkefni dagsins – komast niður í sprungu og jafnhenda járnkarl þar til áþjáns gólfinu. Þegar komið var niður í sprunguna virðist vera um kvikuuppstreymisop, eða -sprungu að ræða, þriggja metra háa. Innst í henni var gasuppstreymisop, formlaga lagað. Ef lýst var með ljósi niður mátti sjá niður í kjallara. Járnkarlinn, í æfðra manna höndum og þolgæddra, braut sig smám saman niður á við. Eftir því sem gatið stækkaði í gólfinu varð eftirvæntingin meiri. Þegar það var orðið nægilega rúmgott var skriðið niður.
Undir niðri var um 6 m ílangt herbergi, u.þ.b. tveggja metra hátt. Uppstreymisop, líku því að ofanverðu, var suðvestast í því – of lítið til að halda förinni áfram niður á við. Niðurstaðan var bæði í senn neikvæð og jákvæð. Hið neikvæða var að ekki skyldi vera þarna stór og merkileg rás er leitt gat til einhvers ennþá meira. Hið jákvæða var að rásin taldi því lögmál hellamanna er það að jafnaði skilar tuttugusta hvert gat slíkum árangri.
Skoðað var í nágrenni við gígana. Nokkrir smáhellar voru skoðaðir við gígana.
Þá var stefnan tekin upp í hrauntröðina miklu vestan Gíghæðar (Arnarseturs). Ætlunin var að berja Kubb í Arnarseturshrauni augum. Göngulínan var ákveðin í beina stefnu og gangan notuð til að leita í leiðinni þetta annars lítt gengna svæði. Víða voru hvylftir og lítil jarðföll, en engir hennar.
Eldvörp.Kubbur er í raun hluti af hrauntröðinni frá Arnarsetri. Að ofanverðu liggur hann inn undir hraunið stefnuliggjandi. Ef þeirri leið er fylgt verður loks komið að gati í gólfinu, er liggur niður í kjallara. Þessi rás er um 15 metra löng. Ef farið er inn í rásina að neðanverðu, er fljótlega komið inn í stórt jarðfall. Milli þess og ofanverða kaflans liggja undur Kubbsins. Komið er inn á neðri hæðin að neðanverðu. Fljótlega má sjá gatið á milli hæðanna. Inna við það á neðri hæðinni er gófið slétt og rásin heil. Hún er ekki löng, en áhugaverð. Sveigur er á rásinni til vinstri og hún endar fljótlega þar sem loft og gólf koma saman í storknuðum hraunmassa. Þessi hluti er u.þ.b. 50 metra langur (ef vel er teygt á snúrunni). Breiddin er um 5 metrar og lofthæðin að jafnaði um 2 metrar.
Ekki var kíkt á Hvalinn og fleiri nágrennishella Kubbsins að þessu sinni. Stefnan var tekin vestur hrauntröðina miklu. Nafnið Arnarsetur er sennilega komið frá Jóni Jónssyni, jarðfræðingi, en Grindvíkingar nefndu hæðina jafnan Gíghæð. Svo mun hafa verið raunin er gamli Grindavíkurvegurinn, sá er fyrst var gerður akfær rennireiðum, en hann lá einmitt um Gíghæðina. Verkstjórinn var úr Hafnarfirði, en verkamennirnir úr Grindavík. Þetta var um 1916.
Gengið var á ská niður hraunið með stefnu á upphafsstað.
Gangan og skoðun svæðisins tók 4 klst og 4 mín.

Kubbur

Op Kubbs.