Viðtalið er við hjónin á Ísólfsskála, Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson. Það birtist í Vísi árið 1967:
“Á milli brattra gróðurlítilla hæða, skammt ofan við brimsorfna strönd nokkru austar en Grindavíkurþorp, stendur snoturt og vel umgengið býli sem heitir ísólfsskáli. Þangað hef ég nú lagt leið mína og notið til þess atbeina tveggja systkina, sem slitið hafa þar barnsskónum á bröttum brimlúðum mölum. Og í notalegri stofu, þar sem ég get hreiðrað um mig í mjúku hægindi, situr andspænis mér kona. — Já, víst er aldurinn orðinn hár, því nú á hún 90 ár að baki. — En hvort aldurinn segir alla sögu tel ég vafasamt og nú skulum við heyra stutta þætti úr lífssögu þessarar konu, og blik bjartra augna segir mér að þar á megi nokkurt mark taka — ennþá sé minnið trútt og dómgreindin óbiluð.
— “Ég heiti Agnes Jónsdóttir og er fædd á Þórkötlustöðum í Grindavík. Foreldrar mínir voru Jón Þórðarson og Valgerður Gamalíelsdóttir, sem þar bjuggu, og þar ólst ég upp.
— Það er sennilega orðin mikil breyting á frá þeim tíma?
— Já, það er meira millibilið. Þá voru bara nokkrar torfbaðstofur í Þórkötlustaðahverfinu, og öll útgerð á áraskipum. Veiðarfærin voru handfæri og lína. Afli var oft ágætur, einkum á vertíðinni, og fiskurinn gekk mjög nærri landi. Þó brimlending sé í Grindavik og oft tvísýn landtaka kom mjög sjaldan fyrir að ekki væri fært Þórkötlustaðasund.
— Manst þú eftir mikilli fátækt í æsku þinni?
— Ójá. Það höfðu nú margir lítið fyrir framan hendurnar. Flestir höfðu mjög fáar kindur, t. d. höfðu foreldrar mínir 11. Þegar ég var 23ja ára gömul fór ég frá foreldrum mínum og réðist til manns og var hjá honum í 11 ár og áttum við saman 6 börn. — En svo sundraðist það samband og fór ég þá aftur til foreldra minna og var hjá þeim um tíma. En svo vorið 1910 fór ég til hans Guðmundar míns, sem þá var lausamaður á Hrauni og þar vorum við í 6 ár, en fluttum þá hingað að ísólfsskála og höfum verið hér síðan eða 51 ár, þann 4. júní í vor.
— Hvernig var nú um að litast þegar þú komst hingað?
— Það var nú ekkert björgulegt. Jörðin hafði þá verið þrjú ár í eyði og fremur köld aðkoman. Baðstofan var lítil.
— Þú manst hörðu árin um 1880?
— Já. Þá var af skaplega mikill snjór, t.d. man ég það að grafa þurfti göng til að komast út úr bæjunum. Þeir voru að vísu ekki háreistir.
— Hvenær ert þú fædd?
— Þann 3. desember 1876.
— Þú ert þá orðin vaxin kona um aldamót?
— Já, og ég man eftir slysförum sem urðu hér á sjó aldamótaárið, það var úti á rúmsjó — ekki við land. Þetta var 28. október um haustið. Af þessum báti var einum manni bjargað en þrír fórust. Hann var þó ekki langlífur því á vertíðinni lézt hann. Og ævilok hans urðu þau, að hann fór fram í Þórkötlustaðanes, og hafði með sér byssu. Það var oft siður að skjóta fugl til bjargræðis heimilum. Skot hljóp úr byssunni. — Meðan við dvöldum á Hrauni hafði Guðmundur þar útgerð á stóru áraskipi, sem á voru 11 menn og höfðum við þá 18 manns í heimili. Fyrstu árin eftir að við fluttum hingaö hafði hann áfram útgerð á Hrauni yfir vertíðina, og þá var ég ein heima með krakkana. — En það, að við fluttum hingað orsakaðist nokkuð af því, að ég hygg, að Guðmundur er hér fæddur og uppalinn. Hann er nú 83 ára og við höfum átt saman 6 börn. Mín börn eru því 12 og af þeim 11 á lífi.
— Þetta er orðið þó nokkuð ævistarf?
— Já, það hefur stundum orðið að taka til hendinni. Fyrst þegar við komum hér var aðeins örlítill túnblettur kringum húsið. En hér er nú orðin töluverð ræktun og mest unnin upp úr sandi.
— Hvað er þér nú sérstaklega minnisstætt frá þessari 50 ára veru hér í Ísólfsskála?
— Hér í skálanum hefur okkur liðið mikið vel. Aldrei orðið fyrir neinum óhöppum eða undan neinu að kvarta. Við vorum að vísu mjög fátæk fyrstu árin meðan börnin voru í æsku. Hjá okkur voru tvö börn mín frá fyrra sambandi og svo öll börn okkar Guðmundar. Auk þess tókum við tvö börn í fóstur.
– Bættuð við það sem lítið var?
— Já, þess var þörf vegna barnanna.
— Þú manst þá tíð þegar askar voru matarílát fólksins?
— Já, heima hjá pabba og mömmu var ætíð borðað úr öskum og með hornspónum, og á þá voru grafin fangamörk eigendanna. Ljósabúnaður á heimilinu voru fýsislampar — kveikurinn í þá var snúinn úr ljósagarni. — Og fræðin mín — Helgakverið — lærði ég við lýsislampa. — Eldiviðurinn sem brennt var í eldhúsinu var mosi og þang. — Ég man mjög vel eftir því að ég var þar að lesa kverið mitt og þá féll sótkökkur úr mæninum niður á bókina.
— Fékkst þú tilsögn í skrift á þínum uppvaxtarárum?
— Já, ég var látin í skóla, sem þá starfaði í Garðhúsum og vorum við tvær systur þar sína vikuna hvor. – Og hérna getur þú séð skriftina mína, — og nú réttir hún mér bók sem er þannig frágengin að margur 70 árum yngri gæti verið hreykinn af. — Og þessi bók hefur að geyma mikinn og merkilegan fróðleik, í hana er skrifuð dagleg veðurlýsing síðustu 30 ára. — Og það virðist svo sem höndin sé þvi nær jafnstyrk á síðustu og fyrstu síðum bókarinnar.
— Finnst þér minni þitt nokkuð farið að förlast?
— Nei, ekki held ég það, ennþá man ég flesta atburði sem nokkurs er um vert í lífshlaupi mínu — og ég get fylgzt með því sem fram fer í kringum mig og haft full not af blöðum og útvarpi.
Og nú er hér kominn bóndi Agnesar, Guðmundur Guðmundsson, en foreldrar hans, Guðmundur Hannesson og Guðrún Jóelsdóttir, bjuggu hér í Ísólfsskála í 20 ár — en þegar setjast undir svo stórar árar á þeim aldri?
— Jú, náttúrlega var það erfitt, og svo að setja skip og bera upp fiskinn. En skipin varð öll að setja af handafli, spil voru ekki komin fyrr en á síðustu sjófaraárum mínum, en þau voru nú fremur ófullkomin í fyrstu.
— Og hvað segir þú svo um fimmtíu ára samstarf ykkar hjóna hér á Ísólfsskála?
— Mér finnst það hafa verið gott og lífið hér ánægjulegt og boðið okkur marga góða kosti, þótt örðugt væri í fyrstu.
— Hefur þú aldrei róið héðan að heiman?
— Það er tæpast teljandi. Fyrstu árin reri ég frá Hrauni — lá þar við, en hún var ein heima með börnin og satt að segja var ég þá aldrei í rónni þegar vond voru veður. — En vorum að reyna að rétta okkur við þetta hlutskipti meðan við vorum að reyna að rétta okkur úr kútnum og börnin að komast á legg. — Öll innkaup varð að spara til að geta staðið í skilum og borgað allt upp einu sinni á ári — þá hlaut maður líka nokkra tiltrú í viðskiptum.
— Eru engin selalátur eða lagnir hér í nágrenninu?
— Jú, líklega hefur það nú verið, því hér framan við tána hérna er hóll, sem hét Nótarhóll. Svo hér fyrri — 1703 — var stunduð selveiði í látrum hér austur á Selatöngum — en þann veiðirétt áttu Krýsuvíkingar að nokkru.
— Þú manst eftir byggð í Krýsuvík?
— Já, en hún var þó farin að dragast saman þá. Faðir minn bjó þar nokkur ár á Vígdísarvöllum.
— Hefur þú aldrei lent í neinum verulegum erfiðleikum á sjó, Guðmundur?
— Nei, ég hef nú verið formaður hér og svo líka verið austur á fjörðum, bæöi Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og reri út í Seley, en aldrei lent í neinu sem í frásögur er færandi og á sér ekki ótal hliðstæður í lífi íslenzkra sjómanna.
— En þú hefur oft aflað vel?
— Já, svona eftir mætti en mig skorti efni til að hafa nægilega góðan útbúnað hvað veiðarfæri snerti. Ég þurfti að fá allt að láni hjá kaupmanninum — Einari í Garðhúsum. Hann var svo sem ágætur ef maður stóð í skilum og eins og ég sagði áðan, þannig hafðist þetta. — En svo þurfti að byggja hér upp, þá fór ég til Tryggva Þórhallssonar og hann aðstoðaði mig við að fá til þeirra framkvæmda 6000 króna lán úr byggingar- og landnámssjóði.
— Voru það ekki talsverðir peningar þá?
— Jú, en það var nú sama. Það var nú ekki nóg.
— Tengst af ykkar búskap hér á Ísólfsskála, að frá teknum fyrstu árunum, hafið þið haft ykkar aðalframfæri af landbúnaði?
— Já, það hefur verið svo, en við höfum alrei haft stórt bú, til þess eru engin skilyrði,
— Nei, en faðir minn gerði héðan út tvo báta einu sinni. Það var vegna þess að hann fékk ekki uppsátur úti i nesi. Þetta gekk nú ágætlega, það var í tvö skipti sem þeir hleyptu til út i nes. Annað skiptið fyrir brim — en annað skipti vegna þess að hann var svo hvass á norðan og þá börðu þeir upp í nesið.
— Hvernig lending er hér?
— Hún getur nú ekki talizt góð. Með landinu er alltaf geysilegur austanstraumur. Og þegar komið var úr róðri var aflinn allur settur á seilar utan við lendinguna, færi bundið við og dufl sett á, en færið var í hnykli í skipinu og rakti sig þegar tekinn var landróðurinn, um leið og lagið kom. Þegar
skipið kenndi grunns, stukku allir út og brýndu því undan sjó. Þurfti hér oft mikið snarræði og örugg handtök. Síðan voru seilarnar dregnar í land og bornar á bakinu hér upp á kambinn, þar sem aflanum var skipt. — Það var stórt atriði að formaðurinn væri öruggur.
— Þú hefur haft sauði?
— Já, ég held þeir hafi komizt upp í 40. Hvað sumarhaga snertir er hér mikið landrými.
— Hér kemur ekki hafís?
— Aldrei hefur það komið fyrir svo langt sem við munum, en af því höfum við haft sagnir frá eldri tímum.
— Hvað gerði fólkið sér til skemmtunar á ykkar æskuárum?
— Það þætti nú held ég fábreytt núna. Gíslakeðja — Höfrungaleikur og feluleikur. — Fullorðna fólkið lagði sig í rökkrinu og þá fengu unglingarnir að leika sér með því móti að hafa ekki hátt.
— Þú segist ekki hafa gert út héðan?
– Það var gert út frá Seltöngum.
— Var þaðan útræði?
— Já, ég hef heyrt að fyrir Bátsendaflóðið hafi gengið þaðan 14 skip og ennþá sjást glögg merki verbúðanna.
— Já, það er margs að minnast frá fyrri árum, t.d. á haustin, þá var „þangað” í fjörunni og reitt upp á fleiri hesta.
— Þangað? — Hvað kallarðu að þanga?
— Nú, þangið í fjörunni var tekið og reitt upp og svo þurrkað til eldiviðar. — Svo var reittur mosi. — Þetta var aðaleldsneytið, og svo dálítið af taði. Þetta var svo allt borið heim til bæjar á bakinu og þar var eina eldstóin hlóðir. t.d. þegar konan fór í mosatekju, þá bar hún hann heim í „fætli” og prjónaði á leiðinni. — Svona var nú vinnumennskan þá.
— Er ekki hægt að fara með sjó úti í Grindavík?
— Nei. Það er ógengt, verður að fara hér efra — eins er það inn til Krýsuvíkur.
— Hvernig voru skiptin á þessum áraskipum hér?
— Væru 11 á þá var skipt í 14 staði. — Þrír hlutir dauðir, einn fyrir skipið og tveir fyrir veiðarfærin — formannshlutur þekktist ekki, enginn aukapartur fyrir það. — En nú skal ég segja þér nokkuð: — Einu sinni rauk hann upp í suðvestan veður að næturlagi, þeir fara allir ofan og þá er báturinn farinn en skipið komið á hliðina — Þeim tókst að bjarga því við illan leik. — En hvar heldurðu að bátinn hafi rekið? — Hann rak vestur á Hraunssand á móti þessu stórviðri
— Svona sterkur er straumurinn. —
— Hve langa línu höfðuð þið?
— Það var nú dálítið misjafnt — stundum á vorin lögðu þeir 300 króka hérna í leirinn og fylltu bátana. Og eftir því man ég, að pabbi reri stundum á vorin með 60 króka skötulóð hérna austur á Mölvíkina — og það var oft skata á hverju einasta járni — kannski ber svona einn öngull. — Allt saman stór skata. — Það er góður matur vel verkuð skata. — Þá var svo mikið lifað á harðæti og bræðingi. Þetta kom mergnum í mann — sérstaklega bræðingurinn — en hann var búinn til úr bræddri tólg og sjálfrunnu þorskalýsi. — Hver útvegsbóndi varð að leggja háseta til eitt fat undir lifur og ég held einnig fjórðung af rúgi og fjórðung af fiski. — Svo fékk hver maður 50 pund af mjöli, sem átti að duga í kökumat yfir veturinn, og einn sauð, sem átti að duga í kæfu, hvort sem menn vildu heldur stykkjakæfu eða soðkæfu — svo tvo fjórðunga af tólg og einn af smjöri — eða þrjá af smjöri. — Þetta var matan. Soðninguna tóku menn af afla. Það voru tveir í hverju rúmi, þeir höfðu kastið saman og tóku af því. — Fiskurinn var svo verkaður sem harðfiskur eöa skreið á þeirra tíma vísu, en með nokkuð ólíkum hætti og nú er gert. Salt var þá ekki fáanlegt.
-Ég tók eftir mjög vel hlöðnum grjótgörðum víða hér umhverfis túnið og niður við sjóinn. — Eru þeir þín verk?
— Já, flestir eru þeir hlaðnir eftir mig.
— Er ekki trjáreki hér?
— Jú, dálítill. T. d. get ég sagt þér að báturinn sem brotnaði hérna vestur á Hraunssandinum var smiðaður úr einu rekatré. Já, það er margt sem rifjast upp þegar litið er til baka um langan veg — og víst væri fróðlegt að heyra meira úr lífssögu þeirra Ísólfsskálahjóna — sem svo margt er frábrugðin þeirri sögu sem skráð yrði um hagi þeirra, sem nú eru ungir eða innan við miðjan aldur.
— Ungir? — Það er nú spurningin.
— Er það gamalt fólk, sem hér hefur talað? — ánægt með sitt hlutskipti — laust við andlega lífsþreytu, að vísu með rúnir áranna ristar í skurnið.
— Hver er ungur? „Oft hefur sjötugur fyrir tvítugs manns tær stigið”.
Heimild:
-Vísir, 12. júní 1967, bls. 16-17, Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir, vital við Guðmund Guðmundsson og Agnesi Jónsdóttur á Ísólfsskála.