Sogasel

Með bréfi 20. mars 2006 skilaði Hitaveita Suðurnesja skýrslu um Fornleifaskráningu til sveitarfélagsins Voga og Grindavíkurbæjar, nokkru eftir að sveitarfélögin höfðu þá þegar veitt leyfi til vegagerðar í Sogadal. Ekki er vitað til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við þessa aðferðafræði eða vinnubrögð hafi borist frá viðkomandi stjórnvaldi, t.a.m. Fornleifavernd ríkisins. Svo virðist sem hið opinbera (virka) stjórnvaldskerfi sé steindautt þegar kemur að forvörnum eða mikilvægum álitamálum er snerta hugsanlega aðgát varðandi varðveislu fornminja hér á landi.

Sogaselsgígur

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Fornleifaskráningunni kemur m.a. fram, eins og reyndar áður hefur verið fjallað um á vefsíðu FERLIRs eftir vettvangskoðunarferðir um svæðið, að ein rústanna og sennilega sú elsta er rétt við vegstæðið. Um hana segir höfundur skýrslunnar, Bjarni F. Einarsson, eftirfarandi: “Rústirnar hafa hátt minjagildi. Hugsanlega eru þær forveri Sogasels”.
Auk þess segir helst í Fornleifaskráningunni:
“Þar eru t.d. minjar Sogasels í afar fallegum gíg. Er minjarnar nánast út um allan gíg og líklega margar kynslóðir seljarústa… Á hinu kannaða svæði eru engar friðlýstar fornleifar, en bent skal á að skv. þjóðminjalögum frá 2001 eru allar fornleifar eldri en 100 ára friðaðar og sumar friðlýstar. Þeim má enginn, hvorki landeigandi, framkvæmdaaðili né nokkur spilla, granda né færa úr stað.
Samtals eru fjórar minjar á hinu kannaða svæði, þ.e. í Sogadal utan Sogaselsgígs. Þar af voru einar sem trúlega eru ynri en 1900 og því ekki fornleifar í skilningi laganna. Af þessum fjórum minjum teljast einar hafa hátt minjagildi. Rústir 39:1-2 hafa í heild sinni hátt minjagildi. Hugsanlega eru þær forveri Sogasels.
Nyrst er varða við vegslóða. Hún er líklega nýleg og mun ekki hafa neytt varðveislugildi, en í mikilli hættu. Syðst er vörðubrot, en í lítilli hættu. Um er að ræða vörðu er mun hafa varðað götu frá Sogaseli austur að Vigdísarvöllum.

Sogadalur

Tóft í Sogadal.

Í miðjunni eru tvær fornleifar í lítilli hættu, en í mikilli hættu verði vikið út frá vegstæðinu. Velta mætti fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að friðlýsa hinar meintu minjar selsins (39) um leið og leifar Sogasels verða friðaðar. Í raun ætti að friðlýsa allar seljarústir á Reykjanesinu.
Merkilegustu fornleifarnar sem skráðar voru eru fornleifar nr. 39:1-2, í miðið. Þær falla í hæsta minjaflokk og hafa hátt varðveislugildi. Rústirnar eru 18-20 m suður af Sogalæk, í grónum og þýfðum móa undir hlíðarfæti. Rústirnar eru afar ógreinilegar í forminu ogg þýfðar þar sem þær kúra við jaðar vel gróins móa. Þó aðeins tvær rústir séu skráðar hér, er ekki hægt að útiloka að stekk sé t.d. að finna um 80 m suður af minjunum, norðan undir lágum kletti. Rústirnar eru fornlegar að sjá og líklega mun eldri en rústir Sogasels (frá Kálfatjörn, Jarðabók 1923-1924:142) skammt hjá norðan Sogalækjar.
Stærri rústin hefur vekki úr grjóti og torfi, 2-4 m breiða og um 40 cm háa. Ekki er hægt að greina vel hve mörg hólf hafa verið í mannvirkinu. Þau hafa vafalítið ekki verið færri en tvö og dyr snúið mót NV. Einstaka hraungrýti sést á yfirborðinu, en annars er rústin vel gróin mosa og grasi og þýfð. Hún stendur líklega ofan á eldri minjum og því er hún aldursgreind til sextándu aldar eða eldri.

Sogadalur

Varða í Sogadal.

Minni rústin (39:2) er 6 m í þvermál og nær hringlaga. Þykkt veggja er ekki greinanleg, en hæð þeirra er um 60 cm þar sem hæst er. Í SV hluta eru sýnilegir steinar (hraunsteinar). Rústin er vel gróin grasi og mosa og þýfð. Hugsanlega stendur rústin ofan á eldri minjum. Hið hringlaga form bendir til þess að hér hafi staðið fjárborg og þá ekki endilega í tengslum við rúst 39:1. Rústin gæti einnig hafa verið gerði eða stekkur frá hinu meinta seli. [Hinn nýi vegur liggur skammt vestan við rústina].
Varast ber að hafa vinnuskúra eða önnur mannvirki of nálægt fornleifum og haga akstri þungavinnuvéla með tilliti til fornleifa.”
Rétt er að minna á að allt framangreint var áður vitað. Þó ber að gera þá athugasemd við skráninguna að nyrsta rústin, varða, sé nýleg. Ef vel er að gáð, með fullri virðingu fyrir reyndum fornleifafræðingi, er um að ræða að hluta til endurreista vörðu á gömlum vörðufæti. Þarna er um að ræða selsvörðuna við Sogasel, en hún gefur selstöðuna í Sogagíg til kynna þegar komið er upp hálsinn frá Höskuldarvöllum. Selið sjálft sést ekki fyrr en komið er mun ofar og því auðvelt að fara framhjá því. Þarna hefur því verið um einu vísbendinguna að fara eftir fyrir þá sem leið áttu í selið fyrsta sinni. Eðlilegt hefði því verið að gefa henni hættmatið “mikið”.

Sogadalur

Vörðuleifar í Sogadal.

Þrátt fyrir kæruleysislega meðferð sveitastjórna í Vogum og Grindavík, hluthöfum í HS, á leyfisveitingum til gatnagerðar og umferðar um Sogadal er full ástæða til að benda hutaðeigandi aðilum á nauðsyn þess að umgangast svæðið með mikilli aðgát og af varfærni. Þarna eru verðmæti, miklu mun merkilegri, en það sem undir býr.
Þess má geta að lokum að þar sem beinir eigin hagsmunir, eindreginn (þröngsýnn vilji) og fjármunir fara saman gegn hagsmunum varðveislu menningararfleifðarinnar, munu þeir síðarnefndu ávallt bíða lægri hlut – því miður. Mannvitið er ekki lengra komið á þróunarbrautinni. Þótt heita eigi að maðurinn trjóni á toppi vitsmunastigans er það ekki efasemdalaust. Þegar fylgst er grannt með dýrunum verður að álykta að sum þeirra noti skilningarvit sín mun betur þegar kemur að aðstæðum er máli skipta.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.