Við upphaf nútíma ferðamennsku á 17. og 18. öld voru fornleifar eitt af því sem fyrstu ferðamenn til Íslands bjuggust við að sjá. Óskýr greinarmunur var hins vegar á fornleifum og sögustöðum fram á 20. öld. Náttúran er og hefur ávalt verið í fyrsta sæti. Þó voru Þingvellir, vegna sögulegs samhengis, og Snorralaug, eiginlega hin eina sýnilega þekkta fornleif hér á landi, sjálfsagðir viðkomustaðir. Gullfoss og Geysir hafa og haft aðdráttarafl.
Áhyggjur af kaupum ferðamanna á íslenskum forngripum leiddu (ásamt öðru) til stofnunar Forngripasafnsins 1863. Ríkir Bretar komu hingað til lands til laxveiða og áhugi útlendinga á íslenskum forngripum fór vaxandi. “Eptir að Íslendínga sögur verða meir og meir þekktar í útlöndum, geta menn búizt við á hverri stund að menn búi til drama, hvar í Þíngvöllur er “leikflöturinn”. Það var a.m.k. skoðun og réttlæting Sigurðar málara fyrir að framkvæma rannsóknir á Þingvöllum. Hann dró m.a. upp hugmyndir sína um hvernig þinghaldið hafi gengið fyrir sig og aukin áhugi á fornsögunum þrýsti á aðgerðir. Áhugi útlendinga á íslenskri menningu leiddi og til þess að Íslendingar fóru að telja hana einhvers virði sjálfir.
Rannsóknir ferðamanna (fyrir ferðamenn) fóru smám saman að sjá dagsins ljós. Ferðabækur með almennum lýsingum (sérílagi Snorralaug) voru samdar og “Fyrsti vísindatúristinn”, Angus Smith, sem hingað kom til laxveiða í Elliðaánum, gerði rannsókn í Þingnesi 1872. Hann teiknaði m.a. upp svæðið og skrifaði um hvað það sem fyrir augu bar.
Collingwood kom hingað til lands í fylgd Jóns Stefánssonar, “Íslendingsins í London”. Þeir skoðuðu sögustaði, Collingwood dró upp og málaði marga þeirra. Afurðin kom út í bók hans “Pilgrimage to the Saga-Steads of Iceland (1899)”, sem í dag þykir meistaraverk þótt ekki hafi alltaf verið farið rétt með staðreyndir, s.s. meint leiði Kjartans Ólafssonar.
Á 20. öldinni dró úr fornleifarannsóknum, einkum eftir aldamótin 1900. Fjöldi erlendra ferðamanna jókst smátt og smátt. Íslensk ferðaþjónusta þróaðist fyrst og fremst í kringum kynningu á íslenskri náttúru, en nánast engar sýnilegar fornleifar voru aðgengilegar, auk þess sem lítið var að sjá á sögustöðum. Framan af öldinni takmarkaðist opinberar aðgerðir í menningartengdri ferðaþjónustu við Þingvöll (merkingar á búðum) og Þjóðminjasafnið gaf út “Leiðarvísi 1914”. Guide á ensku var fyrst gefinn út 1960. Fyrstu leiðbeiningarnar miðaðu fyrst og fremst að innlendum ferðamönnum? Áhersla var þó lögð á verndun minja og staða fremur en kynningu. Friðlýsingar voru aðalatriðið og hugmyndafræði verndunar allsráðandi. Sýnilegar minjar hér á landi voru bæði óskýrar og flestum óskiljanlegar – og er það jafnvel fyrir flestum enn þann dag í dag. Liltar sem engar merkingar hafa verið settar upp á sögustöðum og þar hefur yfirleytt ekkert verið að sjá, ekki einu sinni sjoppa.
Þjóðfélagsbreytingar urðu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Batnandi samgöngur innanlands og Íslendingar fóru í auknum mæli að ferðast um eigið land. Ferðafélög urðu algengari, “Árbók FÍ” kom fyrst út 1928 og síðan rit eins og “Landið þitt Ísland” (1966-68). Byggðasöfn voru stofnuð í flestum héruðum. Er bæjartóft á Stöng varð aðdráttarafl eftir uppgröft 1939 var hlífðarþak sett yfir strax um haustið, leiðarvísir var gefinn út 1947 (English summary) og þakið síðan endurnýjað 1957. Þjóðminjasafnið eignaðist gamla torfbæi og torfkirkjur, gerði hvorutvegggja upp og opnaði fyrir almenningi, s.s. Laufás, Glaumbæ, Burstafell, Gröf, Saurbæ og Núpsstað. Leiðarvísar um Hólakirkju var gefinn út 1950, Grafarkirkju 1954 og um bænhús á Núpsstað 1961 (English summary).
Pópúlarísering fornleifafræðinnar fór fram við nýja sýningu Þjóðminjasafnsins, sem opnuð var 1952-54, ritstörf og sjónvarpsþættir Kristjáns Eldjárns vöktu athygli og vaxandi áhugi almennings varð á verndun, einkum gamalla húsa. Fornleifauppgreftir á 8. áratugnum vöktu og eftirtekt, en lítil sem engin tenging var við ferðaþjónustu. Stigvaxandi fagmennska sérstakra leiðsögumanna varð almennt í kynningu náttúrustaða, s.s. við Geysi, Mývatn og á miðhálendinu. Þjóðgarður var stofnaður í Skaftafelli 1967 og áhersla varð á verndun Laxár og Mývatns. Þar varð minjaskráning Helga Hallgrímssonar frumkvæðisverk í fornleifaskráningu og Þjóðgarður var stofnaður í Jökulsárgljúfrum 1973. Vaxandi útgáfa myndabóka varð á erlendum málum um íslenska náttúru, en eina minjaritið í þeim flokki var bók Björns Þorsteinssonar um Þingvelli (1961, mikið breytt endurútg. 1986). Stangarbærinn var endurgerður við Búrfell 1977 á grundvelli rannsókna Harðar Ágústssonar. Landsvirkjun kostaði og hefur ekið húsið. Rústir í Herjólfsdal voru gerðar sýnilegar ferðamönnum að uppgrefti loknum, en eru nú orðnar hluti af golfvelli þeirra Vestmannaeyinga. Uppgrafnar rústir fyrir 1990 voru almennt ekki gerðar aðgengilegar ferðamönnum eða öðrum en fornleifafræðingum.
Nýjar áherslu urðu eftir 1990. Rústakjallari var gerður í framhaldi af uppgreti og endurgerð Bessastaðastofuá Bessastöðum, þó með takmarkað aðgengi. Vaxandi umræða og meðvitund meðal fornleifafræðinga og safnamanna varð um gildi þess og nauðsyn að kynna minjastaði, en ekki var sýnilegt fjarmagn til þess og lítið frumkvæði og áhugi var meðal ferðaþjónustuaðila, a.m.k. til að byrja með.
Sem dæmi um hugmyndir og aðgerðir síðustu 15 ára má nefna að rústir voru jafnan gerðar sýnilegar að rannsókn lokinni, s.s. Hofstaðir í Garðabæ og Neðri Ás og tilgátuhús voru reist, t.d. Eiríksstaðir og kirkja í Vestmannaeyjum. Sýningar voru í Reykholti, Aðalstræti, Hofstöðum í Garðabæ og kynning á uppgrefti urðu algengir, m.a. með leiðsögumönnum (Gásir, Skriðuklaustur og Aðalstræti). Merking og kynning ógrafinna minja urðu regla og skilti voru sett upp við gönguleiðir og á leiðum hestamanna. Niðurstöður fornleifarannsókna hafa orðið aðgengilegar á veraldarvefnum og kynntar á almennum sýningum. Fastasýning hefur verið sett upp í Þjóðminjasafni og sögusýning í Perlunni, auk landafundasýningar í Þjóðmenningarhúsi. Vaxandi áhersla er og á kynningu (á meðan og á eftir) við hönnun fornleifarannsókna.
Viðhorf stjórnvalda hefur verið að mótast í gegnum “Menningartengda ferðaþjónusta” (tíu ára gamalt lykilhugtak) og þau hafa opinberað vaxandi viðurkenningi á gildi og nauðsyn minjanýtinga. Skýrsla samgönguráðuneytis um menningartengda ferðaþjónustu kom út 2001 þar sem lögð er áhersla á tungumálið og bókmenntir, en minjarnar sjálfar urðu þar afskiptar. Þó er fornleifafræði talin hafa þýðingarmikið (en ómótað) hlutverk í þágu ferðaþjónustunnar hér á landi. Lagt er til að horft verði til tilgátuhúsa og nauðsyn rannsókna þar sem forgangsröðun staða er í fyrirrúmi.
Mörg álitamál eru um þátttöku fornleifafræðinga í tengslum við ferðaþjónustuna. Ættu fornleifafræðingar t.d. yfirhöfuð að skipta sér af ferðaþjónustu? Margir myndu svara því neitandi, m.a. vegna þess að þeir eru ekki sérfræðingar í því – fornleifafræðingar eru ekki skemmtikraftar – aðrir eru betur til þess fallnir, þeir hafa nóg með sína peninga að gera í rannsóknir, þeir bera ábyrgð gagnvart vísindasjóðum sem styrkja rannsóknir og mega ekki sólunda fé og þeir verða að varðveita fræðilegan hreinleika greinarinnar. Aðrir eru jákvæðir og telja að fornleifafræðingum beri siðferðileg skylda til að veita almenningi (þ.m.t. ferðamönnum) aðgang að rannsóknum sínum og rannsóknaniðurstöðum, rannsóknafé komi (eftir ýmsum leiðum) úr vasa almennings, vísindi séu skemmtileg og vísindamenn þar með skemmtikraftar, það gæti haft jákvæð áhrif á rannsóknarstarf – skerpir sýn á hvað er áhugavert og mikilvægt – og gæti verið grundvöllur áframhaldandi og aukins stuðnings við fornleifarannsóknir. Þar þurfi ekki síst að koma til beinn stuðningur ferðaþjónustunnar.
Ferðaþjónustan og fornleifarannsóknir hafa ólíkar þarfir. Ferðaþjónusta vill t.a.m. svör við spurningum sem ferðamenn hafa (Ingólfur og Leifur heppni), hún vill skýrar línur og einfaldanir – engar vífilengjur eða varnagla, geta sýnt skiljanlegar fornleifar og telur að endurgerðir séu betri en óskiljanlegar rústir. Þá séu leikarar betri en tafsandi prófessorar. Fornleifafræðingar vilja helst ekki segja neitt sem þeir geta ekki staðið við og þeir vilja ekki fjalla um fyrirbæri sem ekki eru fornleifafræðileg (Ingólfur og Leifur heppni). Þeir geta og vilja miðla flóknum hugmyndum og sýna fornleifar eins og þær eru (brotakenndar og óskiljanlegar).
Hægt væri að fara bil beggja. Millileiðir eru til þar sem bæði krefjandi og skemmtilegt væri að finna aðferðir til að miðla raunverulegum rannóknarniðurstöðum sem samt nýtast ferðaþjónustu. Þar þarf gæði að vera grundvallarhugtak. Gæði rannsókna og miðlunar geta þó vel farið saman og hluti gæðanna gæti falist í því hvernig rannsóknin nýtist til kynningar og fyrir ferðaþjónustu. Gæði myndi aukast meðal ferðamanna og þekking þeirra á menningu og sögu aukast. Ferðamaður sem ekkert veit getur sætt sig við og haft gaman af lélegri/ósannri kynningu, en vel upplýstum ferðamanni er misboðið með lélegri/ósannri kynningu. Gæði ferðaþjónustu hlýtur að felast í metnaði Íslendinga til að bjóða upp á vandaða afþreyingu fyrir ferðamenn. Þá verður ábyrgð ferðaþjónustu í menntun þjóðarinnar/erlendra ferðamanna að teljast einhver. Ferðalag er menntun og því hlýtur fræðlsan að vera praktísk álitamál. Mest nauðsyn að mennta ferðamenn áður en þeir koma á staðinn? Margvísleg form miðlunar eru fyrir hendi, s.s. heimasíður sérstaklega ætlaðar ferðamönnum, almennar heimasíður, fræðirit fyrir almenning. kennsla í grunn- og framhaldsskólum, námsefni, námsferðir og sýningar. Kannski að framangreint geti orðið aðalvettvangur einhverra fornleifafræðinga í framtíðinni?
Praktísk álitamál lúta einnig að uppgrefti. Meta þarf hvernig aðgangur að uppgrefti eigi að vera á meðan á honum stendur. Ferðamenn eiga að geta horft á uppgröftin, geta etv lesið á skilti, og ferðamenn eiga að geta fengið leiðsögn og aðra þjónustu (salerni, bílastæði, póstkort, pulsa og kók) á vettvangi. Ganga þarf þannig frá uppgraftarstað að gestir geti séð hvað þar var – og að hægt verði að nýta staðinn í ferðaþjónustu. Tyrfa þarf yfir svo útlínur sjáist. Leysa þarf vandamál við aðgengi, koma í veg fyrir troðning og skemmdir á fornleifum og eða truflun á rannsókn svo eitthvað sé nefnt. Þá þarf að gera ráð fyrir kostnaði er af kann að hljótast svo undirbúa megi og veita góða þjónustu.
Ljóst er að fornleifafræðingar eða sérstakir leiðsögumenn munu í framtíðinni koma að kynningum og leiðbeiningum til áhugasamra ferðamanna starfa sinna vegna. Þeir búa yfir mikilli þekkingu á viðfangsefninu og gat nýtt sér það, bæði til að efla þekkingu annarra á störfum þeirra og ekki síður til að fá viðbrögð fólks á þeim. Hvorutveggja gæti orðið greininni til framdráttar.
Það hefur jafnan verið haft á orði að ef heimamenn hafa ekki áhuga á sögu sinni og minjum geta þeir varla ætlast til að aðrir hafi það.
Byggt á yfirliti Orra Vésteinssonar við kennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.