Guðrún Helgadóttir í Ferðamáladeild Hólaskóla, háskólans á Hólum, skrifaði í Frey 2006 um „Fornleifar og ferðaþjónustu„:
„Fortíðarþráin er sterkur leiðarþráður í öllum ferðalögum, við viljum kynnast lífsbaráttunni gegnum tíðina og jafnvel heimsækja staði þar sem tíminn stóð í stað. Ferðaþjónusta skapar forsendur fyrir upplifun, meðal annars þeirri að kynnast og fræðast um fornleifar, sem er ein leið ferðafólks til að kynnast áfangastaðnum sem það er statt á eða hefur hug á að heimsækja.
Fornleifar hafa notið aukinnar athygli undanfarin ár og umræðan um varðveislu þeirra og nýtingu farið vaxandi. Hérlendis var gert átak á sviði fornleifarannsókna með tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs. Þessi mikla rannsóknavirkni fornleifafræðinga hefur fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum og almenningur sýnt rannsóknunum og niðurstöðum þeirra áhuga.
Þessa áhuga hefur orðið vart á þeim stöðum þar sem fornleifauppgröftur fer fram, en það er reynsla flestra rannsóknahópanna að þörf sé á að hafa starfsmann á vakt við það að taka á móti ferðafólki. Það kemur jafnan nokkuð á óvart að áhuginn snýst ekki bara um minjarnar sjálfar og tengsl þeirra við söguna, heldur verður rannsóknin sjálf áhugaverð fyrir hinn almenna gest.
Hvað eru fornleifar?
Samkvæmt núgildandi lögum sem eru Þjóðminjalög 107/2001 eru fornleifar skilgreindar sem: „…hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.“ Samkvæmt skipulagslögum er fornleifaskráning ein af forsendum skipulags, en allt landið er skipulagsskylt.
Í dag er vitað um rúmlega 200.000 fornleifar á Íslandi. Til fornleifa teljast öll merki um mannvirki, ekki bara byggingar heldur líka tún, girðingar og garðar, skipsflök, samgöngumannvirki, minningarmörk, atvinnusvæði s.s. verstöðvar og svo má lengi telja. Það má ætla að aðeins brot af þeim fornleifum sem fyrirfinnast séu þekktar því sífellt uppgötvast minjar þar sem enginn átti þeirra von. Þetta varðar mjög landnýtingu í samtímanum því fornleifar eru friðaðar, eða eins og segir í 10. gr. Þjóðminjalaga: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema leyfi fornleifanefndar komi til.“
Menn spyrja sig eðlilega hvort þetta sé ekki mikil kvöð og takmörkun á landnýtingu? En fornleifar eru ekki helsta takmörkun á landnýtingu. Öll landnýting sem felur í sér mannvirkjagerð er háð leyfum til framkvæmda samkvæmt skipulagslögum. Fornleifar eru einungis einn af fjölmörgum þáttum sem taka þarf tillit til þegar ákvörðun er tekin og framkvæmdir hafnar t.d. við að setja niður sumarbústað.
Eru fornleifar auðlind í landnýtingu?
Reynsla þeirra sem taka á móti gestum á stöðum þar sem fornleifar eru þekktar og/eða uppgröftur fer fram er sú að fornleifar geti reynst raunveruleg auðlind í landnýtingu.
Þó fornleifar séu friðaðar, þ.e. að ekki má hrófla við þeim án leyfis, þá eru þær ekki alltaf varðveittar til framtíðar. Þegar fornleifar finnast við framkvæmdir sem leyfi hefur verið gefið til, er jafnan farið í að rannsaka þær en síðan er framkvæmdum haldið áfram. Þetta kann að virðast undarleg verndarstefna, en fornleifauppgröftur er eðli málsins samkvæmt röskun og jafnvel eyðing fornleifanna. Þær eru grafnar upp og eftir standa heimildirnar um rannsóknina og rannsóknargögnin.
Hvað er þá eftir til að skoða og upplifa? Það er æði margt, því eins og fornleifarannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt vakna sífellt nýjar spurningar og ráðgátur um staði og fólk í tímans rás. Minjar veita margvísleg tækifæri til að tengja starfsemi ferðaþjónustunnar sterkari böndum við fortíðina, s.s. að byggja upp afþreyingu fyrir ferðamenn eða að vísa til minjanna í gisti- og/eða veitingarekstri.
Aðdráttarafl fornleifa
Aðdráttarafl fornleifa er mikið, jafnvel þó staðsetning þeirra og tilvist sé óljós. Leitin að Lögbergi hefur til dæmis vakið áhuga Íslendinga lengi. Vitundin um skipsflök í sandi eða sjó gerir ákveðna staði áhugaverða ekki síður en það að standa í uppgröfnum rústum. Eins og Jón Helgason komst svo fallega að orði þá „…grunar hugann hjá grassins rót gamalt spor eftir lítinn fót“ – þennan grun getur sett að okkur við að sjá rúst, leifar mannvirkis, menningarlandslag sem hefur orðið eftir – hrörnað. Spurningin er hvort rannsóknir okkar, varðveisla og miðlun styrki þennan grun eða hvort hún víki honum úr huga okkar vegna annars áreitis?
Fornleifavernd ríkisins hefur m.a. með höndum skráningu og merkingu fornleifa og víða um land má sjá upplýsingaskilti um fornleifar.
Þessi skilti eru ein leið, en þess þarf að gæta að þau fari vel í landslagi, séu vel hirt og liggi vel við umferð. Rústir hafa yfir sér ákveðið yfirbragð og vekja til umhugsunar um liðna tíð, þá íhugun og upplifun getum við dýpkað með því að segja gestum hvað það var sem þarna varð að rúst.
Það gefur frásögninni gildi ef sögumaðurinn er heimamaður sem þekkir minjastaðinn af eigin raun og gefur gestunum innsýn sem hvergi annars staðar er að fá. Þannig er hægt að tengja hætti fortíð og nútíð á eftirminnilegan hátt. Minjarnar eru ekki bara fortíð, við upplifum þær í nútíðinni og það eru engir betri í því en heimamenn að setja sögustaðinn í samhengi við það sem fyrir augu ber þar í dag.
Fornleifastaðir
Staðir hafa ímynd, fólk hefur hugmyndir um þá hvort sem ummerki sögunnar eru sýnileg eða ekki. Túlkun ákveðinna hugmynda í skipulagi og hönnun staða er vandmeðfarið vald. Með hönnun landslagsins, með merkingum og fræðslu er verið að móta hugmyndir og upplifun – að setja mark á staðina.
Þetta þurfa heimamenn að hugleiða og vera virkir þátttakendur með minjaverndinni í því að ákvarða hvernig þessari merkingu staðanna og aðgengi að þeim er best fyrirkomið þannig að það sé til hagsbóta bæði fyrir heimamenn og gesti.
Það er mikils virði að sjá við nánari athugun á landslagi að það hefur einhvern tíma verið vettvangur mannlífs, að það er menningarlandslag.
Söguskilti, bæklingar, símaleiðsögn og upplýsingar á Netinu eru allt mikilvægir þættir í að veita upplýsingar, en upplýsingar verða þó ekki að upplifun fyrr en einhver breytir þeim í sögu fyrir okkur. Það eru sögurnar um staðinn, bæði tilgátur um fortíðina og rannsóknin sem spennusaga, sem standa upp úr. Landið öðlast nýja merkingu við það að skoða verk genginna kynslóða, heyra hvernig það er nýtt og búið við það í dag. Upplifunin af staðnum dýpkar með skilningi á því að landið býr yfir leyndarmálum, sögu sem við eigum aðeins eftir að heyra brot af.
„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði borgarskáldið Tómas Guðmundsson. í upplýsingasamfélagi munu sögur af landi keppa við dilkakjöt, möl, rafmagn, dún og hey þegar kemur að verðmætasköpun byggðri á landnýtingu. Við lifum á tímum borgarbarnanna, á tímum þar sem það að vita hvað landið heitir, að þekkja það og kunna að segja sögu þess er auðlind sem verður sífellt verðmætari.“
Heimild:
-Freyr, 4. tbl. 01.08.2006, Fornleifar og ferðaþjónusta – Auðlind í landnýtingu, Guðrún Helgadóttir, bls. 8-9.