Fornleifar
Þegar orðið gripafræði er nefnt í tengslum við fornleifafræðina dettur flestum jafnan í hug fagrir og stílhreinir fornir gripir, s.s. Þórslíkneski, sverð eða brjóstnæla, hvort sem er frá heiðnum tíma eða víkingatímanum. Aðrir tengja gripina við meiri nálægð, s.s. rokka, kaffikvarnir eða jafnvel hjólbörur.

Fólk lítur ógjarnan á bíla sem gripi, en þeir og reyndar allt annað sem nútíminn hefur upp á bjóða eru forngripir framtíðarinnar.
Gripafræðin er stærsta einstaka fræðasviðið innan fornleifafræðinnar. Sviðið er reyndar það umfangsmikið að enginn getur verið sérfræðingur í öllum gripum allra landa á öllum tímabilum sögunnar, jafnvel innan einstakra svæða. Þess vegna er sérhæfing í faginu nauðsynleg. Það er hægt að verða sérfræðingur í sverðum, bátum, lyklum, hringprjónum og kunna almenn skil á hvað telst til fornra gripa, en sérfræðingur í perlum hér á landi getur átt erfitt með að vera sérfræðingur t.d. í kínverskum perlum allra tímabila.
En hvað er Gripur? Það er hlutur sem maðurinn hefur sett mark sitt á. Venjulega er gripum skipt i þrennt; a) artifact, gripi gerða af mönnum (sem hægt er að flytja með sér með góðu móti), s.s. skrautgripi, verkfæri og áhöld, b) ecofact, mannvistaleifar, s.s. bein, svarf eða aðrar leifar manna, og c) mannvirki, stærri gripir, sem ekki er hægt að flytja með góðu móti, s.s. stærri styttur, hús o.þ.h. Sumt gæti “fallið á milli laga”, s.s. gjall, sem reyndar er flokkað sem “artifact”, en gæti þess vegna verið “ecofact”.
Eitt af því mikilvægasta við gripafræðina eru “context” eða samhengið. Það að vita samhengi gripa við umhverfi sitt gefur þeim margfallt vægi. Gripur á borði, slitinn frá umhverfi sínu, segir þess vegna lítið, eða jafnvel ekki neitt. Gripur, sem finnst á vettvangi uppgraftar með öðrum gripum, getur sagt heilmikla sögu, lýst menningu, samfélagi, notkun og jafnvel tilurð hans. Þetta skiptir miklu máli í gripafræðinni og ætti að verða fólki, sem finnur óhreyfðan grip að staldra við og íhuga stöðu sína. Þannig gat “sjóbúðarsteinninn” í tjörninni í Herdísarvík gefið ýmislegt til kynna um “context” hans við mannlífið þar fyrrum, en hann mun ekki gera það í stofuhillu þess sem fjarlægði hann þaðan (árið 2005). “Gripur án samhengis er lítils virði”.
Gullstytta er vermætari en þyngd hennar í gulli – á vettvangi þar sem hún finnst. Þar er hún afsprengi tiltekinnar menningar og dæmi um verk hönnuðarins. Á borði safnara er hún verðmæt í gulli. Þannig getur gildismat gripa breyst einungis við tilfærslu. “Sjóræningjar” stunda listaverkauppgröft víða um heim. Í vanþróaðri löndum fá þeir t.d. leyfi stjórnvalda til að grafa “formlega” á tilteknum stað með þátttöku heimamanna, en á sama tíma eru þeir að grafa “handan við hæðina” í leit að verðmætum, sem einungis er ætlunin að selja hæstbjóðendum. Það er þó ekki einungis í fornleifafræðinni sem tvískinnungurinn ríkir. Sama birtingarform má sjá víðar í samfélaginu.
Með fornleifum er reynt að enduskapa söguna, menningu eða samfélag. Þess vegna er svo mikilvægt að skrá jafnan alla “contexta” af nákvæmni og lýsa þeim vel. Skráningar Daniels Brunn voru t.a.m. mjög nákvæmar miðað við skráningar flestra annarra fyrrum. Það var ekki fyrr en um 1990 að fornleifafræðingar fóru að skrá gripi, sem fundust, bæði af nákvæmni og með samræmdum hætti. Fyrrum var vandinn sá að fallegri, heillegri og áhugaverðari gripir voru skráðir, en aðrir síður. Í dag er hægt að skrá samhengi gripa á vettvangi með ýmsum hætti, en mikilvægt er að halda sama skráningarfyrirkomulagi í gegnum allan uppgröftin, ekki síst fyrir þá, sem á eftir koma. Hins vegar hefur verið, er og verður alltaf spurning hvað eigi að skrá og hvað ekki. Líklegt má telja að sumt af því sem ekki er skráð í dag, s.s. skeljar, gætu þó orðið áhugavert rannsóknarefni sérfræðinga í framtíðinni.
Stigsmunur er að rannsaka forsöguleg og söguleg tímabil. Í fyrrnefndum tímabilum skipta gripirnir öllu, en í hinum síðarnefndu er engu að síður mikilvægt að þekkja hinar skráðu heimildir, sem lagðar hafa verið til grundvallar. Þótt form og notkun áhalda hafi lítið breyst um langan tíma hafa ný orðið til. Hvenær það varð er nauðsynlegt að vita.
Á skömmum tíma hafa orðið tengslarof með kynslóðum. Ef bóndi, uppi um 1920, hefði staðið á bæjarhól þar sem uppgröftur ætti sér stað, gæti hann nafngreint svo til alla gripi, sem þar birtust. Annar bóndi, árið 2005, ætti erfitt með að nefna slíka gripi með nafni.
Sérhver hlutur báts hét eitthvað. Sérhver hlutur rokksins hét eitthvað. Í fornleifauppgrefi er líklegt að hvorutveggja komi ekki upp í heilu lagi, heldur í hlutum. Þess vegna er svo mikilvægt að þekkja hvað hver hlutur hét – eða a.m.k. bera kennsl á hann sem hluta úr þeim tiltekna grip.
Sérhver hlutur hafði hlutverk. Hnífur var t.d. notaður til margvíslegra verka, s.s. búrhnífur, eldhúshnífur eða skurðarhnífur. Á sama hátt gat steinn með gati verið notaður sem kljásteinn, hurðaloka eða þyngdarsteinn. Finnist margir steinar saman er líklegt að þarf sé um kljásteina að ræða. Allt þetta þarf að hafa í huga í “contextum” þegar gripir finnast á vettvangi.
Ferli gripa er mikilvægt, allt frá uppgraftarstað til safns. Mörg slys hafa orðið á þessari löngu leið. Nægilegt er að ógætinn starfsmaður leggi t.d. kljástein ofan á glerperlu. Þess vegna er svo mikilvægt að gefa öllu góðan gaum, skrá allt vandvirknislega í “contextum”, staðsetningum, hnitakerfum og y og X, auk þess sem skrá þarf allar þekktar upplýsingar s.s. fundarnúmer og fjölda gripa. Margir gripir á sama stað, t.d. leikerkjabrot eða naglar, fá venjulega eitt fundarnúmer, og því er nauðsynlegt að lýsa því öllu mjög vel.
Á fundarstað þarf að huga að “lyftingu” gripa sem og væntanlegri forvörslu þeirra. Leður þarf t.a.m. skjótari meðhöndlun en bein. Fara þarf vel yfir einstaka gripi, þvo þá (ef það á við – hér kemur að hinu margminnistæða tannburstanotkunartímabili í fornleifafræðinni), og athuga hvort gripir eru rétt flokkaðir eða skráðir.
Þá er komið að því að skrá gripi í gagnagrunn, s.s. eftir númeri, tegund, efni, þyngd, lýsingu o.s.frv. Hægt er að flokka gripi með fleiri en einni aðferð, en mikilvægust er hin kerfisbundna samræmda flokkun á einum og sama uppgraftastaðnum. Við uppgröftin á Bessastöðum, sem tók langan tíma og fara þurfti í gegnum nokkur mannvistarlög, var t.d. notuð fleiri en ein skráningaraðferð. Það er og getur verið slæmt fyrir þá sem á eftir koma.
Ljósmyndun gripa er nauðsynleg sem og teikning af mikilsverðari gripum. Skýrsluskrif eru yfirleitt lokahnikkurinn á hverjum uppgrefti, en stundum getur þurft að bíða með birtingu lokaniðurstaðana því senda getur þurft einstaka gripi til sérfræðinga, t.a.m. jarðfræðinga, málmfræðinga, plöntufræðinga eða annarra, og þá getur lokaniðurstaðan tekið allnokkurn tíma.
Túlkun gripa er eitt mikilvægasta verkefni fornleifafræðingsins. Í því sambandi þarf að hafa margt í huga, en mikilvægt er að fara varlega í allar yfirlýsingar, þ.e. “dempa lýsingar” á túlkun þeirra. Hin “vísindalega” aðferð er mikilvæg í þessu sambandi. Benda má á að hér getur reyndar verið um einn veikasta hlekk fornleifafræðinnar, en jafnframt einn þann vandmeðfarnasta. Hin “vísindalega” varfærni getur á stundum hamlað mögulegri framþróun og umleitun, en hún er eftir sem áður nauðsynleg.
Við túlkun gripa þarf að huga að og spyrja að samhenginu (contextum) sem fyrr sagði (hvar, tími og rúm), með hverju fannst gripurinn, var hann innlendur, erlendur eða aðfluttur, skýrir fundarstaðurinn ástand og tilvist hans, hver eru viðskiptatengslin, skrautið, menningarlegt samhengi, tengsl við þjóðhætti (etnógrafíska nálgun), samanburð á milli staða/svæða, varðveislu (absence = vantar, presence = það sem sést), endurspeglun samtímans (geta sagt til um starfsemi á staðnum, s.s. hvort um var að ræða skála, eldhús eða smiðju í fortíð og nútíð, en ekki framtíð), aukningu eða rýrnun, svæðisbundna tilvist, typologiu (tísku, gerðfræði) og félagslegs- efnahagslegs- eða menningarlegs munar.
Hafa ber í huga að jafnan er mikilvægt, til að fá raunhæfa niðurstöðu, að hafa til grundvallar einstökum rannsóknum samanburð við einstaka staði innan svæðis eða á milli einstakra svæða.
Hér er einungis drepið á það allra helsta sem gripafræðin innan fornleifafræðinnar þarf að hafa að leiðarljósi þegar einstaka gripur er annars vegar. Framangreint er því einungis yfirlit (innsýn), en ekki fullkomin lýsing á fræðigreininni.

Heimild:
Framangreint er að meginefni til fengið úr kennslustund GG í fornleifafræði við HÍ árið 2006.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu.