Austurengjahver

Ætlunin var að skoða umhverfi Austur-Engjahvers (Nýjahvers / Engjahvers), sem birtist skyndilega með eftirminnilegum látum nótt eina árið 1924 – og er enn að. Svo mikil var krafturinn í nýmynduninni að stór stór steinn, sem staðið hafði syðst í Austur-Engjum, tókst á loft og kom ekki niður fyrr en allnokkru sunnar.

Leirhver við Austurengjahver

Um er að ræða eitt virkasta hverasvæði landsins. Áhugi hefur verið að virkja svæðið til raforkuframleiðslu. Við Austurengjar er örnefnið Seljamýri, líkt og í Seltúni og sunnan Hvammahryggs er Litla-Nýjabæjarhvammur. Um hann segir svo; “Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð”. Skv. lýsingum af svæðinu munu vera leifar selja á a.m.k. þremur stöðum. Þarna eru og ummerki eftir Austurengjagötuna og Vesturengjastíginn.
Eftir að hafa skoðað selrústina í Seltúni var gengið var upp frá Grænavatni, sem er sprengigígur. Aðrir minni slíkir sjást sunnan við vatnið, svonefndir Stampar. Framundan var Tindhóll. Við hann komu Engjagöturnar saman. Vaðlalækur kemur úr hlíðinni norðan Tindhóls. Haldið var yfir Vesturengjahæð og upp á Öldur. Þá sást að Austurengjahver og yfir Austur-Engin. Mikil gróðureyðing hefur orðið þarna á seinustu áratugum, einkum syðst á Engjunum og í hlíðum.
Eftir að hafa skoða hverasvæðið var sest niður og fyrirliggjandi heimildir um hann sem og nágrennið skoðaðar.

Við AusturengjahverÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um göngusvæðið: “
Norður frá Nýjabæ, austan nýja vegar, er vatn það, sem heitir Grænavatn. Norðan þess tekur svo við láglendi og graslendi norður að Kleifarvatni, sem er allstórt vatn með allmerka sögu, en ekki fullrannsakaða og því ekki til umræðu hér. Svæðið þarna á milli má segja, að sé engjar og þá með ýmsum nöfnum. Fyrst má þá segja, að upp af þessum bæjum gengur hæðarrani fram í graslendið, sem skiptir engjunum í Vestur-Engjar og Austur-Engjar. Hæðarrani þessi heitir Litla-Lambafell nyrzt, og aðskilið af smálægð er þar norðar Stóra-Lambafell. Bezt er, áður en farið er lengra, að setja númer á það, sem varð eftir heima í Krýsuvík.”
Þá segir: “
Nokkuð norðaustur frá Grænavatni, uppi í hæðinni, er svonefndur Austur-Engjahver. Var þar lítill vatnshver, en 1924 myndaðist þar stór leirhver, sem svo heldur nafninu. Austan við þennan hver heita Ásar.
Á engjunum er þá fyrst næst Stóra-Nýjabæ, Giltungur (líklega er það, áður en komið er á engjarnar). Þá er Höfði og Höfðamýri og Kringlumýri. Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar.

Við Austurengjahver

Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt.”
Annars er örnefnalýsing þessi ótrúlega nákvæm. Það átti eftir að koma í ljós eftir að svæðið hafði verið gengið. Auk þessa var örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar af svæðinu höfð til hliðsjónar. Saman gáfu þær mjög heilstæða mynd af, að því er virtist, annars nafnvana svæði. Með því að nota örnefnalýsingarnar og fylgja þeim í hvívetna fæddust ótrúlega margar nefnur á leiðinni, hvort sem um var að ræða hóla, lægðir gil, læki, flatir eða minjar.
Í örnefnalýsingu Gísla segir m.a.: “
Austur frá Stóra-Nýjabæ eða nánar tiltekið austur frá Dýjakrókum eru Ásarnir. Þar upp af er Dagmálavarðan.
Við AusturengjahverAustur og upp frá Stóra-Nýjabæ lá Austurengjagatan meðfram Dýjakrókum og vestan til við Tindhólsgil um Tindhólsbrekku sunnan undir Tindhól móbergshól nokkrum strýtum. Héðan lá leiðin um Öldurnar sunnanhalt við Austurengjahver, Engjahver eða Nýjahver eins og hann var kallaður 1924, er hann kom upp eftir jarðskjálfta í Krýsuvík. Þá tóku við Austurengjarnar, sem munu hafa tilheyrt Nýjabæjunum að mestu eða öllu. Þar voru Nýjabæjarengjar. Þrætustykki. Kringlumýrar tvær, Kringlumýrin efri og Kringlumýrin neðri og þá Seljamýri. Suður frá Engjunum var Litla-Fell. Hveralækurinn eða Austurengjalækur rann norðan mýranna með Litla-Lambafelli og niður milli þess og Stóra-Lambafells um Grófirnar og nefndist þá Grófarlækur.
Þegar Krýsuvíkurgatan kemur austur um Réttarholtið og reyndar alveg að heiman frá Krýsuvíkurbæ, nefnist hún Vesturengjavegur eða Vesturengjastígur. Liggur hér áfram upp lágt holt milli þriggja tjarna lítilla, sem nefnast Augu (308). Þjóðvegurinn liggur nú milli tveggja. Hér litlu ofar og austar er komið að Grænavatni. Kring um það að norðan, vestan og sunnan eru Grænavatnsmelar. Að því liggja Grænavatnsbakkar klettastallar. Suður frá Grænavatni eru alldjúpir bollar, nefnast Stampar. Stóri Stampur og Litli Stampur grösugir og þar hafði fólk í Krýsuvíkurhverfi trú á að yxu lifgrös betri, en annarsstaðar. Á austurbakka Grænavatns er skarð, þar fellur inn lækur vatnslítill, nefnist Flóðalækur. Hann kemur úr Flóðunum, sem eru vestasti hluti Vesturengjasvæðisins, sem liggur milli Lambafellanna og Hálsins að norðan. Austasti hluti flóðanna nefnist Teitsflóð. Sunnan flóðanna upp undir holtinu og Lambafelli Litla voru engjasvæði, nefndust Teigarnir, Álfsteigur neðri með holtinu, og Álfsteigur efri norðan í fellinu. Þá er Grófarteigur  vestan Grófarlækjar. En austan Grófarlækjar voru Gullteigur neðri og Gullteigur efri og liggja vestan í Stóra-Lambafelli. En Grófarlækurinn fellur austur undir hlíðum fellsins. Af Grænavatnsmelnum liggur Vesturengjastígurinn upp nokkuð og austur. Þar er komið að svo kölluðum Vöðlum og lækur kemur ofan úr dölunum og nefnist Vaðlalækur og rennur niður í Flóðin.

Við Austurengjahver

Þegar yfir Vaðlana kemur tekur við Vesturengjahæð með Vesturengjamóa eða Engjamóa og nær þetta svæði allt að Fúlapolli eða Leirpolli. Þá er komið í Seltún, Seltúnslækur skiptir Seltúni. Vestan við hann eru Seltúnsbörð. Á Seltúnslækjarbakka vestari stóð í eina tíð Námahúsið. Frá Fúlapolli rennur vatn lítill lækur, nefnist Svuntulækur. Neðarlega á engjunum tengist hann, rennur hann saman við Seltúnslæk. Myndast þarna engjateigur, sem nefnist Svunta. Neðan við þetta engjasvæði er Suðurkotsnes og Gvendarrimi. Austan við Seltúnslæk, sem einnig er kallaður Engjalækur, er Vesturengjalækur, er engi, er nefnist Flatengi og liggur niður með læknum. Þar neðst er svo Norðurkotsnes. Lengra niður með læknum er mikið land sem fer undir vatn þegar vex í Kleifarvatni, en kemur undan því er út fjarar, og var þarna oft gott slægjuland. Svæði þetta var nefnt Nýjaland. Að austan takmarkast það af Rifinu lágu sandrifi, sem þó fór ekki í kaf er flæddi. Við syðri hluta Rifsins var Refanes. Suður og upp frá Nýjalandi voru svo Hvammarnir, Stórihvammur, með Laugina, öðru nafni Hvammalaug og Hvammagil.

Við Austurengjahver

Hér í hvamminum hafa skátar frá Hafnarfirði byggt sér Skátaskála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Selgil kemur ofan úr Selásum eða Selhæðum og Selgilslækur nefnist hann.”
Þar sem horft var yfir Austurengjahverasvæðið þótti við hæfi að draga eftirfarandi upplýsingar fram í sólarljósið:
Skipulagsstofnun gaf fyrir stuttu úrskurð um fyrirhugaða Bitruvirkjun á Ölkelduhálsi. Í raun gildir framangreindur úrskurður um öll lítt eða óröskuð svæði Reykjanesskagans. Við sérhvert þeirra eru bæði landslagsheildir sem og/eða friðuð nútímahraun. Og á hvaða svæði skagans myndi slík virkjun ekki hafa “verulega neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu, þar sem um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins”?
Austurengjahverasvæðið í Krýsuvík er ágætt dæmi um óraskað hverasvæði hér á landi, í nánd við þéttbýli.
Um er að ræða háhitasvæði. Vestan við svæðið eru nokkrir hverasprengigígar, sem reyndar eru algengir á háhitasvæðum. Þeir verða til þegar vatn hvellsýður á litlu dýpi.
Hverabollarnir eru fáeinir metrar á dýpt og 30 til vel yfir 50 m í þvermál þeir stærstu. Nokkur nýleg dæmi eru um hverasprengingar,  sem allar hafa orðið í tengslum við jarðskjálfta, s.s. nefndur Austurengjahver í Krýsuvík) og þá á upptaka-sprungunum.
“Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C.

Við Austurengjahver

Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.”
Við Austur-Engjar er mikil litadýrð og hveraummyndanir. Þar er votlendisvæði sem er hallamýri. Grófarlækurinn, sem rennur langsum eftir miðju engjasvæðinu hefur í raun ræst engin fram . Vestur-Engjar eru samfellt votlendi sem ekki hefur verið ræst fram, enda flatmýri.
Við Austur-Engjar er leirhver, gufuhver,  vatnshver, brennisteinsútfellingar, heit jörð og gufuaugu,  jarðhitagróður og hveramýri norðar með Grófarlæknum.
Hverinn myndar allstóra hveratjörn upp í hæðinni austan við Litla–Lambafell. Jarðhitinn er að mestu bundinn við tiltölulega afmarkað umhverfis hverinn. Stór vatnshver er í vestur jaðri tjarnarinnar en einnig eru leirhverir og gufuaugu til staðar.
Á svæðinu er mikið um hveraleir og ummyndanir. Hitinn í vatnshvernum mældist um 50°C og er vatnið súrt (pH 2.5). Við gufuaugu á vatnsbakkanum var hiti við suðumark og eru víða brennisteinsútfellingar við þau. Þegar svæðið var skoðað var vatnsborð óvenju lágt og því sáust leirhverir sem höfðu verið undir vatni. Afrennsli úr hveratjörninni rennur til norðurs. Ekkert var sjáanlegt rask af mannavöldum.

Tóft suðvestan við Engjasvæðin

Haldið var áfram niður með Austurengjalæk (Grófarlæk) og stefnan tekin að Nýjabæjarhvammi. Þarna raða engjateigarnir sér undir Ásunum; Nýjabæjarengjar, Kringlumýri, Seljamýri, Nýjabæjarengjar og Gullteigar. Engja seljarúst var að sjá við Seljamýrina. Ekki heldur í Nýjabæjarhvammi. Ef rúst hefur verið í Seljamýri gæti lækurinn hafa grafið undan henni eða lækur úr gili ofan mýrarinnar fært hana í kaf með framburði sínum, en hann virðist hafa verið iðinn við að draga mold ofan úr hlíðinni. Varðandi selrústina við Nýjabæjarhvamm, nokkru norðar, er sennilega um prentvillu að ræða í örnefnalýsingunni því slíka rúst er að finna “norðan” við Hvammahrygg, eins og honum hefur verið lýst.
Í bakaleiðinni var Austurengjagötunni fylgt með Tindhól niður að Stóra-Nýjabæ. Nefndri Dagmálavörðu austan við bæinn var ekki fyrir að fara lengur – nema hún hafi verið uppréttur stór steinn á holtinu. Uppi á honum vatr steinn og aðrir fallnir lágu hjá. Lokst var skoðuð rúst í gróinni lægð sunnan við Stampa. Hugsanlegt er að þar hafi verið hjáleigan Fell.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Krýsuvík.
-Kristján Sæmundsson.

Við Austurengjalæk (Grófarlæk) - Stóra-Lambafell fjær