Færslur

Nótarhóll

Í skýrslu Minjastofnunar um “Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá“, má lesa eftirfarandi um fiskbyrgi og -garða við Nótarhól suðaustan Ísólfsskála:

Skýrsla Minjastofnunar“Í landi Ísólfsskála er að finna fjölmörg fiskbyrgi og herslugarða suðaustur af núverandi bæjarstæði, í Skollahrauni. Hraunið er talið vera allt að 1900-2400 ára gamalt11 og eru byrgin og garðarnir hlaðnir upp með hraungrýti. Lítið er til af rituðum heimildum um þessar minjar, en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur þó fram að heimræði hafi verið á jörðinni og að landeigandinn, Skálholtsstóll, hafi gert þaðan út eitt skip (áttæring) og að sjóbúð í eigu stólsins hafi verið á „lóð jarðarinnar“ sem nýtt hafi verið af áhöfn skipsins á vertíðum. Þar kemur einnig fram að sjóbúðin, eða „sjómannabúðin“, hafi verið byggð í tíð Brynjólfs Sveinssonar biskups (1639–1674) en fyrr hafi ekki verið útgerð á vegum stólsins á Ísólfsskála. Einnig er nefnt að ábúandinn hafi sjálfur gert út eitt skip, en stærð þess kemur þó ekki fram.
NótarhóllSjóbúðin er nú horfin undir malarfyllingu í heimreiðinni að sögn eins eigenda jarðarinnar. Vert er að taka fram að ekki er fjallað um verminjar á Ísólfsskála í riti Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir II, sem tekur sérstaklega fyrir verstöðvar. Þar er Grindavík merkt á korti sem blönduð verstöð og austur með suðurströndinni er næsta stöð Selatangar og er hún skráð sem útstöð.
Var ákveðið að grafa í tvö fiskbyrgi á Ísólfsskála í þeim tilgangi að aldursgreina byrgin og með von um að skilgreina betur hlutverk þeirra.

Ísólfsskáli

Fiskbyrgi og – garðar við Nótarhól.

Grjóthrun var fjarlægt úr fiskbyrgjunum tveimur. Í öðru þeirra komu í ljós flatar steinhellur sem hafa sennilega verið hluti af gólfinu í byrginu. Þegar grjóthrunið og steinhellurnar höfðu verið fjarlægðar var komið niður á sendið jarðlag sem innihélt dökka og grófa gjósku sem má ætla að sé frá Reykjaneseldum 1211-1240.
Sýni voru tekin úr meintu gjóskulagi. Örfá fiski- og fuglabein fundust en því miður fundust engir gripir sem geta sagt til um aldur byrgjanna. Að öðru leyti var á litlu að byggja í fiskbyrgjunum. Mögulegt væri að senda beinin sem fundust í C14 greiningu til að fá upplýsingar um aldur þeirra en slík greining telst varhugaverð þar sem sjávaráhrifa gætir á þessum beinum sem gætu gefið ónákvæma aldursgreiningu.”

Heimild:
-Eldsumbrot á Reykjanesskaga. Minjar í hættur og viðbrögð Minjastofnunar við náttúruvá – stöðuskýrsla, bls. 17-18.

Ísólfsskáli

Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.

Strýthólahraun

Gengið var um Strýthólahraun.
Strýthólahraun er ekki stórt, en geymir fjölda minja frá fyrrum Strýthólahraun - byrgiútgerðarháttum, líkt og Slokahraun skammt austar. Hraunið er suðaustasti hluti Þórkötlustaðanessins austan við Grindavík. Nesið, tangi út úr Hópsheiðinni, er allt hrauni þakið. Vel má sjá hvernig meginhraunstraumurinn hefur runnið undan hallanum til suðurs af heiðinni frá Sundhnúkagígaröðinni og út í sjó. Hraunáin hefur verið þung því hún hefu rutt afurð sinni til beggja átta og náð að mynda Nesið. Auðvelt er að ganga eftir hrauntröðinni miklu frá ofanverðu nesinu áleiðis að vitanum syðst á Nesinu. Heimildir segja að sumt bendi til, að hraun þetta sé að minnsta kosti að einhverju leyti runnið eftir landnámsöld (sbr. Árb. Fornl.fél. 1903, 47), en aldursgreining á því hefur gefið til kynna að það hafi runnið fyrir u.þ.b. 2400 árum (Jón Jónsson). Þetta er sama hraunið og myndaði hraunlendi það, sem Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfið) stendur nú á. Hvorki er minnst á minjarnar í Strýthólahrauni í örnefnalýsingum né í fornleifaskráningum.
Byrgi í StýthólahrauniÍ örnefnalýsingum má lesa eftirfarandi um Þórkötlustaðanesið: “Í nesinu er viti, sem nefndur er Þorkötlustaðaviti. Austur af vitanum er hóll, sem heitir Leiftrunarhóll. Vestur af honum og austur af vitanum eru tveir hólar, sem heita Strýthólar. Milli þeirra og vitans er Tófuflatarhóll. Alllangt norður af vitanum er hár hraunhóll, sem heitir Gjáhóll. Suðaustur af vitanum er Stóra-Látraflöt, en Litla-Látraflöt er austar og liggur að Strýthólum. Þar austar er Leiftrunarhóllinn, og fram af honum er Stekkjarfjara. Við Leiftrunarhól er tangi, sem heitir Nestá. Upp af Stekkjarfjörunni er grasblettur nefndur Stekkjartún. Þá er komið að vík, sem heitir Drift, aðrir segja Dríli. Inn frá henni heita Þorkötlustaðavarir.”
Byrgi í StýthólahrauniÖnnur lýsing segir: “Vestan við vita sem er í nesinu og heitir Hópsviti er vatnsgjá niður við sjávarkampinn. Þar beint niður undan í flæðarmálinu er stór steinn. Hann heitir Markasteinn og skilur hann lönd Þórkötlustaða og Hóps. Í hann eru klöppuð tákn L.M. um landamerki. Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt, að mestu komin undir kamp. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll, nokkuð stór með grasflöt norður af; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni fyrr á tímum. Niður undan honum austan til var Litla-Látraflöt. Hún er nú komin undir grjót úr kampinum.

Strýthóll

Strýthóll-ytri.

Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar. Vestri-Strýthóll með tveimur þúfum en Eystri-Strýthóll niður við kampinn. Útfiri er töluvert og heitir fjaran Látur. Selalátur var þar áður fyrr. Hóll var fram undan Tófuflatarhól; Þanghóll, en hann er nú kominn undir kampinn. Hann skipti reka. Fyrir vestan eru Kotalátur. Þar eiga Einland, Buðlunga og Klöpp reka. Austan Þanghóls eru Austurbæjarlátur). Austast í Nesinu að framanverðu er smátangi sem heitir Nestá.
Byrgi í StýthólahrauniNorður af Nestá er stór hóll á kampinum; Leiftrunarhóll. Norður af honum er Stekkatún sem nær að Flæðitjörn. Hún er ofan við sjávarkampinn. Niður undan og norðan Leiftrunarhóls er Stekkjarfjara. Látragötur eru slóðar úr vesturenda Stekkatúns fram í Látur. Við enda Stekkjarfjöru er klettur í fjöruborðinu og er sem sker um flóð. Hann heitir Driti.” Hér er Dríli nefndur Driti, Þórkötlustaðaviti nefndur Hópsviti þótt hann standi í Þórkötlustaðalandi og Strýthólarnir orðnir tveir. Ætlunin var þó einungis að beina athyglinu að samnefndu hrauni.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – byrgi.

Athyglisvert verður að telja að í hvorugri örnefnalýsingunni eru nefndar minjar í Strýthólahrauni. Þó má sjá þar örnefnið Látragötur, sem verða að teljast til minja. Þær götur má enn rekja frá norðanverðum hraunkantinum og með honum vestanverðum með stefnu á vitann.
Í austanverðu Strýthólahrauni eru minjar fleiri en 40 fiskbyrgja. Byrgin eru eldri en aðrar þær minjar útgerðar á Nesinu, sem sjá má ofan við bryggjuna austan við nefndar Flæðitjarnir, þar sem áður voru Þórkötlustaðavarir, enda vinnsla fiskjarins önnur áður fyrr. Tengdar minjar má þó sjá ofar á Nesinu, gegnt bryggjusvæðinu. Einnig skammt vestan við bryggjuna, en þar eru að öllum líkindum elstu mannvistarleifarnar á svæðinu, nú grónar og virðast náttúrlegar myndanir.
Uppdráttur af byrgjunum í StrýthólahrauniEn hvað um það – fiskbyrgin fjölmörgu í Strýthólahrauni eru með þeim merkustu sinnar tegundar hér á landi. Þau eru ekki óáþekk þeim er sjá má á Selatöngum, við Nótarhól hjá Ísólfsskála og í Slokahrauni. Þessi byrgi eru þó frábrugðin að því leyti að þau eru bæði mörg mun minni og miklu mun fleiri en annars staðar. Þau eru þó hlaðin með svipuðum hætti. Mörg eru heilleg, en önnur fallin að hluta. Elstu menn á svæðinu muna ekki eftir að hafa orðið varir við byrgin, enda hafa þau sennilega ekki verið í notkun um aldir og falla auk þess vel inn í hraunmyndanirnar svo erfitt er að koma auga á þær við fyrstu sýn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Flest byrgin eru á hraunhólum og bera því við himinn. Sum eru hringlaga hlaðin á meðan önnur eru ferningar. Sumsstaðar eru dyr, annars staðar bil. Hæstu byrgin eru um 1 m á hæð og þau stærstu u.þ.b. 60 cm á breidd og 240 á lengd. Staðsetningin virðist augljós; byrgin eru austast úfnu hrauninu þar sem auðvelt hefur verið að ná í byggingarefni, en austar er tiltölulega slétt gróðurlendi, sem sennilega hefur gróið upp vegna fiskflutninganna í byrgin.
Byrgin í Strýthólahrauni eru ekki fiskgeymsluhús líkt og sjá má í Sundvörðuhrauni eða við Eldvörp og telja má líklegt að hafi verið með “Staðarhúsið” svonefnda við Þórkötlustaði. Þrjú slík hús má sjá á Selatöngum, þó ekki nákvæmlega sömu gerðar. Byrgin hafa verið þurrkvinnslustaðir ofan og utan við varirnar.
Byrgin eru í raun “hraunhraukar”, sem snjó hefur gjarnan fyrst leyst af þegar sólin skein á vetrarvertíðum.
Byrgi í StrýthólahrauniRekaviðarár, en gnægð rekaviðs má enn sjá þarna innan við sjávarkampinn, hafa líklega verið lagðar yfir “hraukana” og þannig hafa þurrkmöguleikarnir verið margfaldaðir. Ferskvatn er í tjörn við hraunkantinn þar sem gætir flóðs og fjöru. Að forþurrkun lokinni hefur verið mögulegt að taka fiskinn saman með tiltölulega skjótum hætti og koma honum fyrir í byrgjunum, sem varði hann fyrir regni, uns veður gaf aftur færi á áframhaldandi þurrkun milli róðra.
Byrgin í Strýthólahrauni hafa fengið að vera í friði fyrir forvitnum. Mikil aðsókn hefur hins vegar verið í verminjarnar á Strýthólahraun - minjar Selatöngum, svo mikil að sumar liggja undir skemmdum. Gangan að þeim tekur u.þ.b. 12 mín. um lausasand, en gangan að minjunum í Strýthólahrauni tekur u.þ.b. 2 mín. um grónar hraungötur.
Reykjanesskaginn hefur upp á óteljandi menningarverðmæti að bjóða. FERLIR hefur hins vegar í seinni tíð verið að velta fyrir sér tvennu – að fenginni reynslu: Sveitarstjórnarfólk, kjörið og eiginlega ábyrgt forsvarsfólk íbúanna (eigandanna) virðist áhugalaust um þessi tilteknu verðmæti (með örfáum undantekningum þó) og auk þess virðast afkomendurnir (eigendurnir) ekki minna áhugalausir um hið sama – hin áþreifanlegu og sýnilegu tengsl þeirra við upprunann. Hið fáa, sem sýnir einhvern áhuga, sýnir minjunum (verðmætunum) annað hvort virðingu eða hins algert virðingarleysi. Áhugasama fólkið er því beðið að gæta tillitssemi, láta byrgin óhreyfð og í guðanna bænum; EKKI henda rusli á annars ósnert svæðið!

Strýthólahraun

Fiskibyrgi í Strýthólahrauni.

Hinir ráðnu opinberu aðilar, s.s. Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafnið undir “meðvitaðri” stjórn menntamálaráðuneytisins, virðast algerlega áhugalausir gagnvart þjóðargersemum sem þessum. Hvers ber þá að vænta af öðrum!
Útvegsminjarnar í Strýthólahrauni við Grindavík eru í rauninni einn verðmætasti ósnerti minjastaður sinnar tegundar á landinu – og jafnvel þótt víða væri leitað. Þar eru ekki eiginlegar verbúðarminjar útstöðvar, enda nálægðin við Hraun og Þórkötlustaðabæina of lítil til þess.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Hins vegar mun Skálholtsstóll hafa gert þarna út skip á miðöldum – og jafnvel lengur. Minjar því tengdu gætu leynst í manngerðum grónum hól norðan Strýthólahrauns.
Tækifærið var notað og minjasvæðið rissað upp og myndað.
Frábært veður. Gangan tók 21 mín.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

 

Selatangar

Hugsandi er Vefrit um fræði og menningu í víðum skilningi. Eftirfarandi grein Lilju Bjarkar Pálsdóttur um “Rannsókn fiskbyrgja á Gufuskálum og Selatöngum“, má lesa á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands. Hér er um úrdrátt að ræða.

Gufuskálar

Gufuskálar – fiskbyrgi.

Við upphaf þeirrar rannsóknar sem hér verður fjallað um voru settar fram ýmsar spurningar sem leitast var við að svara. Spurningarnar voru af ýmsum toga en flestar tengdust mannvirkjunum sjálfum, aldursgreiningu, byggingarforminu og byggingarefninu, fjölda og varðveislu. Auk þess voru almennari spurningar um fiskbyrgi; Hvort þau er að finna víðar en á Gufuskálum og Selatöngum og hvaða heimildir eru um slík mannvirki?

Gufuskálar

Gufuskálar – fiskbyrgi.

Engin samantekt hefur átt sér stað um fjölda byrgja, gerð, ástand og dreifingu þeirra að því er höfundur kemst næst og hefur því land verið lagt undir fót síðustu misseri til að skoða og skrá einkenni hinna ýmsu byrgjastaða. Markmiðið er að skrá sem flestar þyrpingar byrgja og einkenni hvers staðar fyrir sig, ef einhver eru og með því, meðal annars, varpa skýrara ljósi á notkun byrgjanna og þar með framleiðsluaðferðir skreiðar fyrir vélaöld.
Gufuskálabyrgin eru hugsanlega þekktust ásamt byrgjum við Selatanga á Suðurnesjum. Það er erfiðleikum bundið að aldursgreina fiskbyrgin þar sem byggingarefnið gefur ekkert uppi um slíkt. Að vísu eru til aðferðir sem notaðar eru til að aldursgreina skófir og af þeim er nóg á byrgjunum, en sú aðferð er ekki mikið, ef eitthvað, notuð hér á landi. Sú aldursgreiningaraðferð sem mest er notuð, gjóskugreining, dugar ekki á Gufuskálum því ekki finnast nothæf, greinanleg gjóskulög á norðanverðu Snæfellsnesinu.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Við skráningu byrgjanna fyrir þessa rannsókn var reynt að skipta þeim í aldursflokka eftir ástandi og útliti. Þau sem voru mikið fallin með miklum skófum, mosa- og/eða lyngvaxin voru skráð elst og svo framvegis.
Á hinum endanum voru þau sem stóðu nær alveg heil en þau eru einnig minna yfirvaxin og minna er af skófum á þeim. Með þessari aðferð er hægt að fá einskonar innbyrðis aldursgreiningar, en hún segir að sjálfsögðu ekkert um raunverulega tímasetningu byrgjanna. Því er eðlilegast að reyna að tímasetja þau út frá verstöðinni sem þau tilheyra.
Byrgin  [á Gufuskálum] eru misfallin og sum yfirvaxin gróðri og hafa þau því ekki verið öll í notkun á sama tíma. Elstu byrgin virðast vera á jöðrum minjasvæðisins, þ.e. lengra uppi í hrauninu en einnig fjær verbúðunum/bæjarhólunum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Yngstu byrgin, þ.e. þau sem standa enn vel og eru jafnvel heil, virðast raðast beint fyrir ofan verbúðirnar/bæjarhólana og eru sem næst hraunjaðrinum. Hugsanleg skýring er sú að eftir því sem umsvif minnkuðu hafi umfang svæðisins einnig minnkað og fjarlægari byrgi því orðið óþörf.
Lögun byrgjanna og stærð hefur ráðist af staðsetningu þeirra og byggingarefninu þar sem oft hefur verið notast við hraunkletta og hlaðið utan í þá. Byrgin eru yfirleitt ekki breið en geta hinsvegar verið löng. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að þrátt fyrir að óreglulegt hraungrýtið henti vel í hleðslur og festist vel saman, ber það ekki kúpt þakið (borghlaðið) ef breitt er milli langhliðaveggja. Af sömu ástæðu hentar vel að hafa veggina sporöskjulaga eða rúnnaða. Staðsetning byrgjanna er heldur ekki tilviljun. Uppi í hrauninu er byggingarefnið og þar eru hæstu staðirnir þar sem vel blæs svo fiskurinn þornar vel.
Slétt svæði sem finnast við sum byrgin á Gufuskálum eru athyglisverð. Slétt svæði myndast væntanlega við efnistöku fyrir byrgin, en það skýrir þó ekki svæðin að öllu leyti þar sem greinilega hefur verið hlaðið í kringum sum þessara sléttu svæða. Þá er hlutverk grjóthleðslanna utan um sléttu svæðin óljóst. Ef aðeins er verið að bera fisk í byrgin til herslu þarf varla að hlaða garða til varnar búfénaði, þar sem inngangi byrgjanna var lokað og fiskurinn því öruggur. Ef fiskurinn var hinsvegar lagður í kös fyrir utan byrgin líta svæðin öðruvísi út. 

Áhugavert væri að líta undir gróðurþekjuna innan garðanna og sjá hvort merki um fiskvinnslu sé þar að finna. Mögulega kæmi sú vinnsla í ljós með fiskibeinum og lífrænum úrgangi, þ.e. í meiri mæli en myndi myndast við að leggja frá sér fiskböggla á meðan verið væri að koma fisknum hálfþurrum í byrgið. Engir fiskigarðar voru sjáanlegir eða greindir í hrauninu á Gufuskálum. Þeir eru ekki heldur greinilegir við verbúðarhólana eða á flatlendinu fyrir neðan hraunið. Möguleg skýring á þessum afmörkuðu svæðum við byrgin er, að þar hafi verkunin hugsanlega farið fram að miklu leyti og að þessi sléttu vinnusvæði séu í raun kasarreitirnir. Sandfok er og hefur ávallt verið mikið vandamál á þessu svæði og því er kannski líklegt að betra hafi verið að kasa og hálfþurrka fiskinn í hrauninu, hátt yfir sandsvæðinu. Einnig er alls ekki víst að notast hafi verið við fiskigarða á Gufuskálum, heldur einhverskonar hjalla eins og Lúðvík bendir á, en talið er að á Gufuskálum hafi fiskurinn verið hnakkaflattur, þ.e. þurrkaður á rám. Slíkur fiskur þótti heldur síðri en plattfiskurinn sem var þurrkaður á fiskigörðum. Við eitt byrgið leit út sem einhverskonar stoðarpakkning, þ.e. grjót sem notað hefur verið til að styðja við stoð, væri á vinnusvæði utan við inngang. Þetta gæti verið vísbending um lofthjall. Ef slíkir hjallar hafa verið notaðir er ekki líklegt að mikið finnist af þeim eða ummmerkjum eftir þá vegna áðurnefndrar gróðurþekju sem sveipar hraunið. Áhugavert væri þó að kanna svæðið aftur með þessi ummerki í huga.
Það sem einkennir minjarnar á Selatöngum eru hinir mörgu grjóthlöðnu garðar sem tilheyra hverju byrgi. Saman mynda þessir garðar og byrgin flókið kerfi athafnasvæða þar sem fiskverkun af einhverjum toga hefur átt sér stað. Verkunarsvæðin innan garða við byrgin á Selatöngum styðja þá kenningu að vinnusvæði sé að finna við sum byrgin á Gufuskálum. Fiskbyrgjunum í Dritvík svipar mikið til byrgjanna á Selatöngum hvað stærð og hleðslur varðar en auk þess eru greinilegir garðar tengdir byrgjunum og mynda verkunarsvæði.
Margt er þó ólíkt með stöðunum og eru jafnvel byrgin sjálf greinilega öðruvísi. Á Selatöngum eru byrgin hlaðin mikið til úr hraunhellum (þó ekki algilt) og við það líta þau út fyrir að vera mun reglulegri en byrgin á Gufuskálum, sem með sínu óreglulega hraungrýti líta svolítið út eins og þau hafi verið hlaðin í flýti og ekki vandað til verks. Ef betur er að gáð er hleðslan hinsvegar vönduð, þar sem hver steinn skipar mikilvægan sess í hleðslunni, eigi ekki allt að falla saman.
SelatangarLjóst er að mikið verk er eftir ef kanna á fiskbyrgi á Íslandi til hlítar og er þessi rannsókn langt frá því að vera tæmandi. Hinsvegar er ekki síst mikilvægt að skoða minjar sem þessar í ljósi þess að ótrúlega lítil áhersla hefur verið í fornleifafræði á minjar tengdum sjósókn og fiskverkun hér á landi. Þrátt fyrir hversu stór þáttur og mikilvægur sjósókn hefur verið Íslendingum frá upphafi er undarlegt hversu lítið af verbúðum og öðrum sjávarminjum hefur verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Þónokkuð hefur verið skrifað um efnið og má þar sem dæmi nefna rit Lúðvíks Kristjánssonar Íslenskir sjávarhættir en einnig eru nýlega komin út þrjú bindi Jóns Þ. Þórs, Sjósókn og sjávarfang: Saga sjávarútvegs á Íslandi. Með því að skoða fiskbyrgin er vonast til að upplýsingar um mismunandi verkunaraðferðir milli verstöðva, ef ekki landshluta komi í ljós. Þá gæti fjöldi þeirra og stærðir í tengslum við verstöð gefið vísbendingar um hvort um fisk til heimabrúks er að ræða eða söluvöru og bætt þannig við vitneskju okkar um sjósókn fyrri tíma. Þá væri fróðlegt að athuga hversu mikið magn af flöttum fiski kemst fyrir í meðal byrgi en þannig væri hugsanlega hægt að áætla umfang útgerðarinnar.”

Heimildir:
-Gavin M Lucas. 2009. Samkæmt samtali.
-Magnús Á. Sigurgeirsson. 2009. “Könnun á gjóskulögum“. Fornleifakönnun á verbúðarleifum á Gufuskálum, Snæfellsnesi. Bráðabirgðaskýrsla. Fornleifastofnun Íslands. Reykjavík.
-Lúðvík Kristjánsson. 1982. Íslenzkir sjávarhættir. 2. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík
-Lúðvík Kristjánsson. 1983. Íslenzkir sjávarhættir. 3. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
-Lúðvík Kristjánsson. 1985. Íslenzkir sjávarhættir. 4. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
-Sigfús M. Johnsen. 1946. Saga Vestmannaeyja. 1.-2. bindi. Ísafoldarverksmiðja hf. Reykjavík.

Aðgengi:
-http://hugsandi.is/articles/rannsokn-fiskbyrgja-a-gufuskalum-og-selatongum/

Nótarhóll

Fiskbyrgi á Nótarhól.