Selatangar

Hugsandi er Vefrit um fræði og menningu í víðum skilningi. Eftirfarandi grein Lilju Bjarkar Pálsdóttur um “Rannsókn fiskbyrgja á Gufuskálum og Selatöngum“, má lesa á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands. Hér er um úrdrátt að ræða.

Gufuskálar

Gufuskálar – fiskbyrgi.

Við upphaf þeirrar rannsóknar sem hér verður fjallað um voru settar fram ýmsar spurningar sem leitast var við að svara. Spurningarnar voru af ýmsum toga en flestar tengdust mannvirkjunum sjálfum, aldursgreiningu, byggingarforminu og byggingarefninu, fjölda og varðveislu. Auk þess voru almennari spurningar um fiskbyrgi; Hvort þau er að finna víðar en á Gufuskálum og Selatöngum og hvaða heimildir eru um slík mannvirki?

Gufuskálar

Gufuskálar – fiskbyrgi.

Engin samantekt hefur átt sér stað um fjölda byrgja, gerð, ástand og dreifingu þeirra að því er höfundur kemst næst og hefur því land verið lagt undir fót síðustu misseri til að skoða og skrá einkenni hinna ýmsu byrgjastaða. Markmiðið er að skrá sem flestar þyrpingar byrgja og einkenni hvers staðar fyrir sig, ef einhver eru og með því, meðal annars, varpa skýrara ljósi á notkun byrgjanna og þar með framleiðsluaðferðir skreiðar fyrir vélaöld.
Gufuskálabyrgin eru hugsanlega þekktust ásamt byrgjum við Selatanga á Suðurnesjum. Það er erfiðleikum bundið að aldursgreina fiskbyrgin þar sem byggingarefnið gefur ekkert uppi um slíkt. Að vísu eru til aðferðir sem notaðar eru til að aldursgreina skófir og af þeim er nóg á byrgjunum, en sú aðferð er ekki mikið, ef eitthvað, notuð hér á landi. Sú aldursgreiningaraðferð sem mest er notuð, gjóskugreining, dugar ekki á Gufuskálum því ekki finnast nothæf, greinanleg gjóskulög á norðanverðu Snæfellsnesinu.

Selatangar

Selatangar – fiskbyrgi.

Við skráningu byrgjanna fyrir þessa rannsókn var reynt að skipta þeim í aldursflokka eftir ástandi og útliti. Þau sem voru mikið fallin með miklum skófum, mosa- og/eða lyngvaxin voru skráð elst og svo framvegis.
Á hinum endanum voru þau sem stóðu nær alveg heil en þau eru einnig minna yfirvaxin og minna er af skófum á þeim. Með þessari aðferð er hægt að fá einskonar innbyrðis aldursgreiningar, en hún segir að sjálfsögðu ekkert um raunverulega tímasetningu byrgjanna. Því er eðlilegast að reyna að tímasetja þau út frá verstöðinni sem þau tilheyra.
Byrgin  [á Gufuskálum] eru misfallin og sum yfirvaxin gróðri og hafa þau því ekki verið öll í notkun á sama tíma. Elstu byrgin virðast vera á jöðrum minjasvæðisins, þ.e. lengra uppi í hrauninu en einnig fjær verbúðunum/bæjarhólunum.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Yngstu byrgin, þ.e. þau sem standa enn vel og eru jafnvel heil, virðast raðast beint fyrir ofan verbúðirnar/bæjarhólana og eru sem næst hraunjaðrinum. Hugsanleg skýring er sú að eftir því sem umsvif minnkuðu hafi umfang svæðisins einnig minnkað og fjarlægari byrgi því orðið óþörf.
Lögun byrgjanna og stærð hefur ráðist af staðsetningu þeirra og byggingarefninu þar sem oft hefur verið notast við hraunkletta og hlaðið utan í þá. Byrgin eru yfirleitt ekki breið en geta hinsvegar verið löng. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að þrátt fyrir að óreglulegt hraungrýtið henti vel í hleðslur og festist vel saman, ber það ekki kúpt þakið (borghlaðið) ef breitt er milli langhliðaveggja. Af sömu ástæðu hentar vel að hafa veggina sporöskjulaga eða rúnnaða. Staðsetning byrgjanna er heldur ekki tilviljun. Uppi í hrauninu er byggingarefnið og þar eru hæstu staðirnir þar sem vel blæs svo fiskurinn þornar vel.
Slétt svæði sem finnast við sum byrgin á Gufuskálum eru athyglisverð. Slétt svæði myndast væntanlega við efnistöku fyrir byrgin, en það skýrir þó ekki svæðin að öllu leyti þar sem greinilega hefur verið hlaðið í kringum sum þessara sléttu svæða. Þá er hlutverk grjóthleðslanna utan um sléttu svæðin óljóst. Ef aðeins er verið að bera fisk í byrgin til herslu þarf varla að hlaða garða til varnar búfénaði, þar sem inngangi byrgjanna var lokað og fiskurinn því öruggur. Ef fiskurinn var hinsvegar lagður í kös fyrir utan byrgin líta svæðin öðruvísi út. 

Áhugavert væri að líta undir gróðurþekjuna innan garðanna og sjá hvort merki um fiskvinnslu sé þar að finna. Mögulega kæmi sú vinnsla í ljós með fiskibeinum og lífrænum úrgangi, þ.e. í meiri mæli en myndi myndast við að leggja frá sér fiskböggla á meðan verið væri að koma fisknum hálfþurrum í byrgið. Engir fiskigarðar voru sjáanlegir eða greindir í hrauninu á Gufuskálum. Þeir eru ekki heldur greinilegir við verbúðarhólana eða á flatlendinu fyrir neðan hraunið. Möguleg skýring á þessum afmörkuðu svæðum við byrgin er, að þar hafi verkunin hugsanlega farið fram að miklu leyti og að þessi sléttu vinnusvæði séu í raun kasarreitirnir. Sandfok er og hefur ávallt verið mikið vandamál á þessu svæði og því er kannski líklegt að betra hafi verið að kasa og hálfþurrka fiskinn í hrauninu, hátt yfir sandsvæðinu. Einnig er alls ekki víst að notast hafi verið við fiskigarða á Gufuskálum, heldur einhverskonar hjalla eins og Lúðvík bendir á, en talið er að á Gufuskálum hafi fiskurinn verið hnakkaflattur, þ.e. þurrkaður á rám. Slíkur fiskur þótti heldur síðri en plattfiskurinn sem var þurrkaður á fiskigörðum. Við eitt byrgið leit út sem einhverskonar stoðarpakkning, þ.e. grjót sem notað hefur verið til að styðja við stoð, væri á vinnusvæði utan við inngang. Þetta gæti verið vísbending um lofthjall. Ef slíkir hjallar hafa verið notaðir er ekki líklegt að mikið finnist af þeim eða ummmerkjum eftir þá vegna áðurnefndrar gróðurþekju sem sveipar hraunið. Áhugavert væri þó að kanna svæðið aftur með þessi ummerki í huga.
Það sem einkennir minjarnar á Selatöngum eru hinir mörgu grjóthlöðnu garðar sem tilheyra hverju byrgi. Saman mynda þessir garðar og byrgin flókið kerfi athafnasvæða þar sem fiskverkun af einhverjum toga hefur átt sér stað. Verkunarsvæðin innan garða við byrgin á Selatöngum styðja þá kenningu að vinnusvæði sé að finna við sum byrgin á Gufuskálum. Fiskbyrgjunum í Dritvík svipar mikið til byrgjanna á Selatöngum hvað stærð og hleðslur varðar en auk þess eru greinilegir garðar tengdir byrgjunum og mynda verkunarsvæði.
Margt er þó ólíkt með stöðunum og eru jafnvel byrgin sjálf greinilega öðruvísi. Á Selatöngum eru byrgin hlaðin mikið til úr hraunhellum (þó ekki algilt) og við það líta þau út fyrir að vera mun reglulegri en byrgin á Gufuskálum, sem með sínu óreglulega hraungrýti líta svolítið út eins og þau hafi verið hlaðin í flýti og ekki vandað til verks. Ef betur er að gáð er hleðslan hinsvegar vönduð, þar sem hver steinn skipar mikilvægan sess í hleðslunni, eigi ekki allt að falla saman.
SelatangarLjóst er að mikið verk er eftir ef kanna á fiskbyrgi á Íslandi til hlítar og er þessi rannsókn langt frá því að vera tæmandi. Hinsvegar er ekki síst mikilvægt að skoða minjar sem þessar í ljósi þess að ótrúlega lítil áhersla hefur verið í fornleifafræði á minjar tengdum sjósókn og fiskverkun hér á landi. Þrátt fyrir hversu stór þáttur og mikilvægur sjósókn hefur verið Íslendingum frá upphafi er undarlegt hversu lítið af verbúðum og öðrum sjávarminjum hefur verið rannsakað með fornleifafræðilegum aðferðum. Þónokkuð hefur verið skrifað um efnið og má þar sem dæmi nefna rit Lúðvíks Kristjánssonar Íslenskir sjávarhættir en einnig eru nýlega komin út þrjú bindi Jóns Þ. Þórs, Sjósókn og sjávarfang: Saga sjávarútvegs á Íslandi. Með því að skoða fiskbyrgin er vonast til að upplýsingar um mismunandi verkunaraðferðir milli verstöðva, ef ekki landshluta komi í ljós. Þá gæti fjöldi þeirra og stærðir í tengslum við verstöð gefið vísbendingar um hvort um fisk til heimabrúks er að ræða eða söluvöru og bætt þannig við vitneskju okkar um sjósókn fyrri tíma. Þá væri fróðlegt að athuga hversu mikið magn af flöttum fiski kemst fyrir í meðal byrgi en þannig væri hugsanlega hægt að áætla umfang útgerðarinnar.”

Heimildir:
-Gavin M Lucas. 2009. Samkæmt samtali.
-Magnús Á. Sigurgeirsson. 2009. “Könnun á gjóskulögum“. Fornleifakönnun á verbúðarleifum á Gufuskálum, Snæfellsnesi. Bráðabirgðaskýrsla. Fornleifastofnun Íslands. Reykjavík.
-Lúðvík Kristjánsson. 1982. Íslenzkir sjávarhættir. 2. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík
-Lúðvík Kristjánsson. 1983. Íslenzkir sjávarhættir. 3. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
-Lúðvík Kristjánsson. 1985. Íslenzkir sjávarhættir. 4. bindi. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík.
-Sigfús M. Johnsen. 1946. Saga Vestmannaeyja. 1.-2. bindi. Ísafoldarverksmiðja hf. Reykjavík.

Aðgengi:
-http://hugsandi.is/articles/rannsokn-fiskbyrgja-a-gufuskalum-og-selatongum/

Nótarhóll

Fiskbyrgi á Nótarhól.