Færslur

Árnastígur

Genginn var Árnastígur og síðan nyrðri hluti Skipsstígs frá Húsatóftum til Njarðvíkur – 18 km leið. Þar af er Árnastígurinn 12 km að mótum stíganna austan Stapafells. Gangan var með Strandgönguhópnum og liður í leiðsögunámi svæðaleiðsögumanna Reykjaness.

Árnastígur

Árnastígur.

Í Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur: “Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.” Skipsstígur er gamla þjóðleiðin milli Njarðvíkur og Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfis).
Sólin var ofar skýjum og vætan yfirliggjandi til að byrja með. Á landamerkjum Grindavíkur og Hafna urðu umskipti og sólin varð ráðandi undir niðri.
Gengið var frá upphafsstað við Húsatóftir upp að fyrstu sýnilegu vörðunni við Árnastíginn skammt ofan við golfvöll Grindvíkinga. Eftir það var stígurinn fetaður með vörðurnar á hægri hönd, að einni undantekinni (þ.e. varða við Skipsstíginn skammt ofan gatnamóta Árnastígs nyrst við Rauðamelinn). Með í för voru fræðarar leiðsögumannanema, Ægir og Þorvaldur. Alla leiðina miðluðu þeir af reynslu sinni og þekkingu svo flestir stóðu margfróðari eftir.
Í fyrstu hefur Árnastígurinn verið ruddur slóði, en víða í beygjum má sjá upphafleg einkenni hans.

Árnastígur

Árnastígur – varða.


Skammt sunnan við Sundvörðuhraun m.a. m.a. sjá hlaðið undir stíginn á einum stað þar sem hann liggur á milli jarðfalla. Þegar komið er suðaustan við Sundvörðuhraun liggur frá honum annar stígur (varða við gatnamótin). Sá stígur liggur framhjá svonefndum “Tyrkjabyrgjum” í krika sunnan undir Sundvörðuhrauni og áfram inn í Eldvörp. Þar eru hleðslur (garðar), auk svonefnds “Útilegumannahellis” eða “Brauðhellis”. Í honum sjást hleðslur.

Árnastígur

Árnastígur.

Austan Sundvörðuhraun, á hellunni sem er yfirborð Eldvarparhrauns, er stígurinn allsléttur og norðaustan við hraunkantinn sést vel hversu markaður hann er í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Áður en stógurinn beygir til norðurs má sjá gatnamóti í beygjunni. Úr henni liggur stígur til suðurs niður í Járngerðarstaðahverfis (sem loftskeytastöðin hefur reyndar girt af), að Títublaðavörðu.
Áð var áður en komið var yfir Elvarparhraunið. Þar mátti m.a. sjá “landnemaplöntur”, sem óvíða er að sjá annars staðar en á heitari svæðum. Í áningunni sannaði Vogafólkið enn og aftur að fáir kunna sig betur á ferðalögum. Þeir drukku t.a.m. úr postulíni á meðan aðrir sötruðu ú plastílátum. Áfram liggur stígurinn í gegnum Eldvörpin og inn á Sandfellshæðarhraunið, með jaðri Eldvarparhrauns austan Lágafells og síðan áfram milli þess og Rauðhóls (Gígs), niður misgengi (Klifgjá) vestan Þórðarfells og áfram norður með því austanverðu. Í misgengisberginu, sem þarna er allhátt, er hrafnslaupur, augsýnilegur.

Árnastígur

Árnastígur.

Við Þórðarfellið er sagt að Hafnfirðingar, Njarðvíkingar, Þjóðverjar og Bessastaðavaldið hafi safnast saman hinn örlagaríka júnídag árið 1532 áður en sótt var að Englendingum ofan við Stóru-Bót vestan við Járngerðarstaðahverfið í Grindavík (sumir segja Greindarvík) þar sem 18 enskir voru vegnir og aðrir heftir til skamms tíma. Mun það hafa verið upphafið að lok “ensku aldarinnar” hér á landi (sjá Grindavíkurstríði I, II, III og IV. undir fróðleikur (Skrár).
Í brekkunni, við stíginn, er ferningslaga hleðsla. Þegar komið er norðvestur fyrir Þórðarfellið vilja flestir halda áfram eftir slóða, sem þar er, en Árnastígurinn liggur þar til norðurs við vörðu og liðast síðan djúpt í móanum í hlykkjum áleiðis að Stapafelli. Áður en komið er að Stapafelli endar stígurinn við vörðubrot, enda bíð að raska svæðinu framundan verulega.
sjávargrjótGenginn var slóði norðaustur með Stapafellinu, austur fyrir Hrafnagjá og síðan í námunum norður fyrir það. Þar er einstaklega fallegar bólstrabergsmyndun. Að sögn Ægis er þar einnig “stærsti bólstur í heimi” og hafði það eftir Sigurði heitnum Þórarinssyni, jarðfræðingi. Ekki verður dregið í efa að hann sé stór. Ægir kynnti myndun bólstarbergsins sem og annarra bergmyndana í fjallinu, s.s. móbergs og gosbergs sem og leik jökuls og sjávar við þau eftir myndun, sbr. Rauðamel og myndun hans sem tímabundins skers.
Haldið var áfram norðaustur eftir Árnastíg undir Stapafellsgjá, þar sem stígurinn er allgreinilegur. Vörðubrot eru víða til hliðar við stíginn. Reynt var að gera vörðurnar greinilegri, en þarna hafr að taka til hendinni og reisa vörðubrotin umm úr sverðinum við tækifæri. Ekki fer á milli mála að sá hluti Árnastígsins, þar sem hann hefur ekki verið yfirkeyrður með jarðvinnuvélum, hefur lítt verið genginn í seinni tíð. Mosinn og gróðurinn bera þess glögg merki.
VarðaÞegar komið er að gatnamótum Skipsstígs er stólpi er sýnir með óyggjandi hætti hvar þau eru, en fyrir ókunnuga er erfitt að sjá hvor stígurinn er hvað. Við gatnamótin eru gömul vörðubrot, en nýlegri vörður hafa verið reistar í nánd.
Haldið var áfram norður eftir Skipsstíg. Fallegar, háar og heillegar vörður móta þá leið, flestar “karlskyns”. Á kafla má sjá stíginn vel mótaðan í bergið. Þegar komið var að varnargirðingunni var haldið hiklaust áfram í gegnum hana, yfir varnasvæðið og út hinum megin.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Krókur um hana til austurs hefði kostað u.þ.b. 45 mín. óþarfa göngu til viðbótar, en Skipsstígurinn liggur í gegnum varnargirðinguna á sama stað og hitaveitulögnin. Yfir svæðið er ekki nema u.þ.b. 300 metra gangur. Þetta þarf að bæta, enda notkun svæðisins aflögð að mestu eða að öllu leyti. Ef athygli hins ágæta utanríkisráðherra, sem reyndar hefur gengið með FERLIR, væri vakin á þessu, myndi hann án efa bæta um betur.
Þaðan var strikið tekið eftir hitaveitlínuveginum að Fitjum. Þar er upphafsskilti er segir að þar sé upphaf Skipsstígs (18 km). Reyndar er upphaf Skipsstígs mun austar þar sem hann liðast um móana í átt að Sjónarhól og síðan áfram í átt að vörðunum sunnan varnargirðingarinnar. Stígurinn er þó víða horfinn á því svæði vegna landrofs.
Gangan tók 6 klst. Góð ganga með góðu fólki í góðu og sagnaríku umhverfi.

Árnastígur

Árnastígur – gulur.

 

Þótt maðurinn geti farið ferða sinna fótgangandi um vegleysur hafa götur og vegir jafnan leitt hann á milli áfangastaða.

Fornugata

Fornugata.

Fótspor hans og hófar hestsins skrifuðu rúnir sínar í grjót og svörð öldum saman áður en fyrstu lög þjóðveldisins voru af mönnum skráð.  Hjólið kom síðar til Íslands en nokkurs annars Evrópulands. Það var bæði af því, hve hestarnir voru góðir og landið slæmt.  Vagnar héldu ekki innreið sína í íslenskar sveitir fyrr en um aldamótin 1900, og urðu þá fljótt ómissandi á hverjum bæ.  Um svipað leyti hófust einnig reglulegar ferðir póstvagna frá Reykjavík um Suðurland, en víðast annarsstaðar var ekki hægt að koma slíkum ferðum við vegna vegleysis. En með aukinni bílaeign á þriðja áratugnum hurfu svo hestvagnar nær alveg af sjónarsviðinu.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – rit.

Grindavík, bær á sunnanverðum Reykjanesskaga, er dæmi um aðra sambærilega staði hér á landi. Suður af bænum er Atlantshafið, en ofan og allt um kring eru hraun. Allt frá því að fyrsti  norræni landnámsmaðurinn steig á land í Grindavík um 930 hafa vegir, stígar og götur smám saman verið mótuð í hraunin. Göturnar lágu fyrrum sem nú  að og frá öðrum nytjastöðum aðliggjandi byggðalaga, s.s. Krýsuvíkur í austri, Voga og  Hafnarfjarðar í norðri, Njarðvíkna í norðvestri og og Hafna í vestri.

Grindavíkurvegur

Unnið við Grindavíkurveginn 1916.

Í þessari samantekt verður leitað heimilda og skrifa um fornar götur almennt hér á landi, fjallað um vörður, forsögu vegaumbóta og þróun samgöngumála með áherslu á elstu Grindavíkurleiðarnar. Minjunum, þ.e. götunum sjálfum, verður sérstaklega lýst sem og  vörðum, skjólum o.fl., sem þeim tengjast. Göturnar voru hnitsettar og  þær skilgreindar. Umfjöllun er um hugsanlegan aldur þeirra að teknu tilliti til heillegleika, staðsetningar og lögunar sem og vísan til ákvæða gildandi tilskipana, reglna og laga á hverjum tíma. Þá verður getið sagna og minja , sem tengjast umferð um vegina og stöðum í nálægð þeirra.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Af elstu Grindavíkurleiðunum má t.d. nefna Skógfellaveg, Sandakraveg (tvískiptan), Skipsstíg, Árnastíg, Ögmundarstíg  og Prestastíg, auk vega sem annað hvort lítt eða ekkert hefur verið getið, en tekist hefur að rekja, s.s. veg um Lágafell, veg í Ósabotna og gamalla gatna milli Staðarhverfis, Járngerðarstaðahverfis og Þórkötlustaðahverfis í Grindavík. Fjallað verður ítarlega um gerð fyrsta akvegarins frá Hafnarfirði (Reykjavík) til Suðurnesja; Suðurnesjaveginn, og loks um aðdraganda að fyrsta akveginum til hins sögulega fiskiþorps á suðurströnd Reykjanesskagans;  Grindavíkur, ekki síst  í tilefni af því að ein öld er frá því að byrjað var að vinna að undirbúningi  vegarins.

Sjálf framkvæmdin á vettvangi  fór fram á árunum 1914 til 1918. Umfjöllunin um þessa tilteknu vegagerð er bæði tilefni og megintilgangur verksins.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð við gamla Grindavíkurveginn.

Enn í dag má sjá leifar búða vegavinnumannanna á a.m.k. 10-12 stöðum við veginn þrátt fyrir að umhverfi vegstæðisins hafi verulega verið raskað, einkum við gerð núverandi bílvegar, sem að meginhluta leiðarinnar var lagður ofan á gamla vagnveginn.
Loks verður fjallað um aðrar afleiddar vegabætur út frá Grindavík, s.s. að Reykjanesvita og til Krýsuvíkur svo og þróun hins fyrsta akvegar til nútíma með hliðsjón af breyttum kröfum frá einum tíma til annars.
Meðfylgjandi er og fornleifakönnun á  og við vegstæði fyrsta akvegarins þar sem tilgreindir eru a.m.k. 20 minjastaðir, kort, uppdrættir, ljósmyndir, loftmyndir og hnit af minjum á og við götuna sem og heildstætt vörðu- og minjakort yfir nágrenni Grindavíkur – http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Grindavikurvegir_saga_og_minjar/$file/Grindav%C3%ADkurvegir%20saga%20og%20minjar.pdf…

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur fyrrum – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavíkurvegur

Tómas Snorrason, útvegsbóndi í Grindavík, skrifaði eftirfarandi grein í sjómannablaðið Ægir árið 1929:

Staðhættir

Grindavík

Grindavík – innsigling í Hópið fyrrum.

Grindavík er ysta byggð sunnan á Reykjanesinu. Það er í raun og veru þrjár víkur og sitt hverfi hjá hverri vík, auk þess nokkrar einstakar jarðir milli hverfa. Alls voru 26 grasbýli og 6 eða 7 þurrabúðir í sveitinni um 1890. Byggðin öll nær yfir ca. 14 km langa strandlengju; frá ystu byggð eru ca. 10 km út á Reykjanestá. Landrými sveitarinnar er allmikið og víðast mjög hrjóstrug hraun og blásin og ber eldfjöll. – Aðdýpi er all mikið, þó eru nokkur sker og boðar á öllum víkunum, þess vegna er brimasamt, þó aldrei landbrim í lendingum, nema flóðhátt sé.

Atvinnuvegir

Grindavík

Grindavík.

Frá landnámstíð hafa fiskveiðar og landbúnaður verið aðal atvinnuvegir hér, eins og allstaðar annars staðar á landinu, þar sem svipað er í sveit komið.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðaðferð notuð, nfl. handfæri. Á vetrarvertíð munu mest hafa verið notuð 8 og 10 róin skip, en tveggja og fögurra manna för voru aðallega notuð þar fyrir utan. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.

Grindavík

Grindavík – sjóbúð.

Þar sem veiðistöðvar liggja fyrir opnu hafi, er eðlilega brimasamt í hafáttum og því aðallega gæftir þegar aflandsvindur er, það var því eðlilegt að menn hættu sér ekki langt frá landi, síst meðan eingöngu var treyst á árarnar, til að komast um sjóinn, en ekki í annað hús að venda, ef ekki náðist lending. Í fiskigöngum gengur fiskur hér venjulega inn í boða, það var því sjaldan þörf að sækja langt á vetrum. Það kemur oft fyrir á vetrum, að sjór verður albrima á mjög skömmum tíma, jafnvel þó logn eða hægviðri sé og útsjór vel fær, mun það m.fl. hafa valdið því að hvert hverfi sótti sín mið öldum saman, jafnvel þó betra fiskirí væri í öðrum hverfum. Á sumrin og síðari hluta vorvertíðar var stundum róið langt á ýmis mið, frá Krýsuvíkurbjargi og vestur á Reykjanesröst.

Hópsnes

Fiskgarðar á Hópsnesi.

Lengst af var allur fiskur hertur hvort heldur vera skyldi verslunarvara eða til heimilsnota. Aflinn var vel hirtur, hausar hertir til matar, sundmagi, kútmagi og svil sömuleiðis, allt var þetta góð og gild verslunarvara innanlands, hrygnir voru þurrkaðir til eldsneytis og annar úrgangur hirtur til áburðar. Fiskur og hausar voru hertir á þar til gerðum grjótgörðum, sömu garðar fygldu sömu jörðum eins og sömu tún eða sömu uppsátur.
Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) hingað. Sá sem fyrstur varð til þess hét Jón Guðmundsson, hann bjó lengi í þurrabúð, sem heitir Akrakot (fyrstu þurrabúðinni í Járngerðarstaðahverfi), en í daglegu tali kallað Kofinn. Hann fékk 2 strengi af línu inn á Vatnsleysuströnd og kom með þá um vor, þá var tregur fiskur á færi, en hann mokfiskaði á línuna.
ÞórkötlustaðanesÞað hefði mátt ætla að honum hafi verið þökkuð framtakssemin, en það varð öfugt farið. Þegar í land kom mættu honum ónot, hrakyrði og jafnvel haft í hótunum við hann, ef hann legði ekki þessa skaðlegu veiðiaðferð niður. Þó fór svo, að skömmu seinna fer það að tíðkast að nota lóðir á vorin, en stuttar voru þær. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. – Það má segja að með 20. öldinni breyttist hér veiðiaðferðirnar. Þá var byrjað að nota net. Sá sem fyrstur lagði þau mun hafa verið Gísli sál. Hermannsson á Hrauni. Hann lagði 3 net, en tapaði þeim, að mig minnir, áður en hægt var að vitja um þau. Næstu vertíð fóru fleiri að reyna og heppnaðist betur. Upp frá því fara allir að koma sér upp netum, en lítill útvegurinn til að byrja með. Um líkt leyti, eða aðeins seinna, er hætt að beita á sjó, en línan lengd að sama skapi og hefur haldið áfram að lengjast til þessa.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Árið 1925 var fyrst gerður út mótorbátur hér. Það var Gísli silfursmiður Gíslason í Reykjavík, sem kom með hann og gerði hann (dekkbát) út í Staðarhverfinu. Gísli gerði hann út í tvær vertíðir. Árið eftir voru settar vélar í tvö róðraskip í Járngerðarstaðahverfi. Árið eftir bættist eitt vélskipið við, en í fyrra (1928) voru settar vélar í níu róðraskip og þrjú ný smíðuð með sérstöku tilliti til þess að þau yrðu knúin vélum, en ekki árum, en allt eru það opin skip (dekklaus). Á næstkomandi vertíð er gert ráð fyrir að allt verði vélskip. Það mun mega telja sögulegan viðburð í Grindavík, að þar gangi ekkert róðraskip á vetrarvertíð.
Einhverjir kunna nú að spyrja: Hvernig stendur á að öll skip í Grindavík eru lítil og opin? Það er af því að skipin verður að setja á land eftir hvern róður, hvergi hægt að leggja þeim nema í Staðarhverfi, þar geta fáir bátar legið, en þar er útgerð minnst og hefur um alllangt skeið fiskast minnst. Skipin eru dregin á land með gangspili, en sett niður af handafli.

Samgöngur

Skipsstígur

Skipsstígur.

Sökum hafnleysis hefur aldrei verið um samgöngur á sjó að ræða, er teljandi séu, þær urðu því að vera á landi. – Um nokkur ár síðast á 19. öldinni gekk lítill gufubátur (Oddur) milli Eyrarbakka og Grindavíkur á vorin öðru hvoru og sumrin, hann var eign Lefolisverlsunar og aðallega ætlaður til að draga kaupskipin út og inn á höfnina þar, en þess á milli var hann notaður til flutninga hafna á milli, þar sem verslunin hafði viðskipti. Að síðustu bar Oddur beinin hér, þ.e.a.s. strandaði.

Þó um eiginlega fjallvegi í venjulegri merkingu sé ekki hér að ræða sveita á milli, þá voru samgöngur mjög erfiðar og hættulegar í slæmri tíð á vetrardegi, enda var það stundum að slysi. Hvert sem farið var lá leiðin meira eða minna um ógreiðfær hraun, víða holótt og sprungin, sumstaðar lá örmjó gata yfir hyldjúpar gjár og var það ekki glæsilegt að vera þar á ferð er ekki sást til vegar fyrir snjó eða myrkri. Víðast voru djúpar götur, allvíða voru djúpar holur í götunum og stigu hestar ofan í þær, en á milli þeirra voru sumstaðar allt að hné há höft.

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegur.

Hve fjölfarið hefur verið til verstöðvanna á Reykjanesskaganum sést best á hinum djúpu og mörgu götum og troðningum, jafnvel í hinum tiltölulega hörðu helluhraunum. Sennilega hafa fleiri en ég horft með undrun á götunar í helluhraununum, er þeir sáu þær í fyrsta sinn og fundist óskiljanlegt hvernig menn hafa getað farið svo nákvæmlega sömu slóð ára eftir ár að götur gætu myndast, þar sem ekkert er sjáanlegt að væri til leiðbeininga nema stefnan.

Samgöngubætur

Grindavíkurvegur

Grindavíkurvegur á Stapanum.

Það var ekki fyrr en eftir að akvegurinn var lagður milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur að menn hér fóru almennt að vakna til meðvitundar um hve hagkvæmt það væri að fá akveg hingað. Tvö slys vildi til um sama leyti (tvo menn kól til örkumla), sem hvöttu menn til framkvæmda og voru óhrekjanleg sönnun fyrir nauðsyn á fullkomri vegabót, einkum voru slys þessi sterk meðmæli með vegi í augum þeirra, er um málið urðu að fjalla áður en til framkvæmda kæmi, en voru lítt kunnir staðháttum. Var nú farið að vinna að því að fá vegarálmu frá Keflavíkurveginum til Grindavíkur. Vegarstæðið var mælt og kostnaðaráætlun saman af Sigurgeiri Gíslasyni verkstjóra í Hafnarfirði, sem síðan hafði umsjón verksins á hendi. Helstu hvatamenn þess, að hrinda verkinu í framkvæmd, voru Einar G. Einarsson kaupmaður í Garðhúsum og síra Brynjólfur Magnússon á Stað.

Grindavíkurvegir

Ein búð vegagerðarmannanna við gamla Grindavíkurveginn á Gíghæð.

Hreppurinn tók að sér að greiða ¼ af kostnaðinum. Til þess að standast þá fjárframlög tókst helstu hvatamönnum fyrirtækisins að fá loforð flestra formanna og útvegseigenda um ½ hlut af hverjus skipi er út voru gerð á vetrarvertíð meðan verið væri að leggja veginn. Einstöku maður mun hafa verið tregur til að lofa ½ hlutnum og jafnvel neitað, þóttust tæplega hafa heimild til þess gagnvart hásetum sínum, en allir munu þó hafa látið hann, eða sem honum svaraði, áður en lyki. Þetta var hið mesta heillaráð og til heiðurs fyrri alla, er hlut áttu að máli. Með þessu komu þeir í veg fyrir að binda sveitinni erfiðar og dýrar skuldabyrðar, en sýndu um leið hve almenn samtök, því í litlu sveitafélagi sé, geta miklu til vegar komið. Sýslunefnd Gullbringusýslu lagði fram ¼ kostnaðar og Landssjóður helming kostnaðar, fyrir drengilega framgöngu þingmanna héraðsins og fleiri góðra manna, er það mál studdu.

Grindavíkurvegir

Varðaðar leiðir til og frá Grindavík frá fyrstu tíð.

Einn af merkari þingmönnum komst á þá eið að orði, að Grindavík hefði ekkert við veg að gera, því þar ætti enginn hest sem lið væri í. Þeim þingmanni hefur ekki komið til hugar, fremur en öðrum þá, að vegur mundi létta ferðalögum af hestum.
Á vegarlagningunni var byrjað vorið 1914 og lokið 1918. Alls mun framlag hreppsins hafa orðið rúmar 20 þúsund krónur, fór það langt fram úr áætlun sem vonlegt var, því áætlunin var gjörð áður en stríðið skall á, en verkið framkvæmt á stríðsárunum. Kauphækkunin, sem var aðalorsök þess hve vegurinn varð dýr, kom þó ekki beint hart niður á hreppsbúum, því fiskur hækkaði í verði fullkomlega í hlutfalli við hækkun vinnulauna.
Allar þessar fjórar vetrarvertíðir aflaðist vel, enda hafði ½ hluturinn þá líka borgað hreppstillagið að fullu, er vegurinn var kominn í Járngerðarstaðahverfið.

Úr Ægir 1929 – grein eftir Tómas Snorrason, útvegsbónda í Grindavík.

Grindavíkurvegir

Grindavíkurvegir – kort ÓSÁ.

Skipsstígur
“Allir leiðir liggja til Rómar” var sagt fyrrum. Á sama hátt má segja að fyrrum hafi  “allar götur hafi legið til Grindavíkur”. Grindavík var t.d. um aldir ein mesta “gullkista” Skálholtssbiskups. Afurðir þaðan brauðfæddu alla skólasveina stólsins sem og heimilisfólkið, þ.á.m. biskupinn sjálfan. Sagt er og að biskupinn hafi af og til nartað í fisk frá Grindavík, öðrum til samlætis. Aðal útflutningsafurðir Biskupsstóls komu og frá Grindavík. Það þarf því engan að undra að göturnar fyrrnefndu hafi markast djúpt í hraunhelluna undan hinni miklu umferð – því flestir, sem komu til Grindavíkur, fóru reyndar þaðan aftur, sumir þó seint og um síðir.

Skógfellavegur (Grindavíkurvegur/Vogavegur)

Grópför gatnanna í hraunhellunni gætu jafnvel verið eldri en byggðin, þ.e. landnám Molda-Gnúps árið 934. Sundhnúkahraunið að austanverðu er t.d. 2400 ára. Eldvarpahraunin eldri, sem verja undirstöðuna að vestanverðu, eru frá svipuðum tíma. Um Sundhnúkahraunið liggur Vogavegurinn (Skógfellastígur) frá Járngerðarstöðum, Hópi og Þórkötlustöðum upp fyrir Skógfellin (algengt var að götur voru nefndar eftir ákvörðunarstað, sbr. Selvogsgötu frá Hafnarfirði í Selvog er einnig var nefndur Suðurfararvegur)). Í örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir: “Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Vegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi”.
Um eldri Eldvarparhraunin lágu Skipsstígur frá Járngerðarstöðum og Árnastígur frá Húsatóftum. Þessar götur sameinuðust í eina við ofanverðan Rauðamel og enduðu í Njarðvíkum. Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir: “Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum) eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli og hét þar Skipsstígur”. Sumir hafa nefnt stíg þennan Skipstíg (Skipsstíg) eða Skipastíg. Ekkert af því er vitlausara en annað. Hluti Skipsstígsins, norðvestan undir Lágafelli, var gerður upp sem vagnvegur skömmu eftir aldarmótin 1900. Um var að ræða atvinnubótavinnu er dugði skammt við endurnýjun vegarins og aðlögun hans að nútímakröfum. Þá segir: “Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.”

Vogavegurinn

“Prestastígur” hefur jafnan verið genginn í seinni tíð, en hans er hvorki getið í örnefnalýsingum fyrir Húsatóftir né Stað. Í örnefnalýsingu sem Vilhjálmur Hinrik Ívarsson gerði fyrir Hafnir er heiti götunnar ekki heldur nefnt, einungs: ” Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll. Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag”. Prestastígur var reyndar til forðum, en þá lá hann frá Höfnum að Stað – um Hafnaheiði. Vörðubrot yfir heiðina gefa legu hans til kynna. Sú gata, sem seinna hefur verið genginn, og vörður upp hlaðnar, hefur fremur verið farin til skemmtunar en gagns því vörðurnar voru hlaðnar eftir að Staðarprestur hætti að þjóna Höfnum. Það á þó einungis við um nyrðri hlutann, þ.e. norðan Sandfellshæðar. Syðri hlutinn er hluti af gömlu götunni milli Staðar og Hafna. Prestarstígurinn er þó allur eftir sem áður áhugaverð leið fyrir þá sem nenna að hreyfa sig og vilja kynnast stórmerkilegri jarðfræði Reykjaness, s.s. flekakenningunni (Haugsvörðugjá), gosmyndunum á sprungureinum (Eldvörp og Stampar (Hörsl)) og tilurð nútímahrauna í bland við stórkostuleg dyngjugosin í Sandfellshæð, Háleyjabungu og Skálafelli.
Hér að framan hefur verið minnst á aðalleiðirnar, s.s. Árnastíg versus Skipsstíg, Skógfellastíg (Vogaveg og Grindavíkurveg) og Prestastíg. Aðrar leiðir lágu og til Grindavíkur eða millum hverfanna í Grindavík.  Auk þess lágu leiðir að tilteknum stöðum, s.s. selstígar frá Stað og Járngerðarstöðum að Baðsvallaseljunum og síðar upp á Selsvelli undir Núpshlíðarhálsi,, frá Hópi að Hópsseli undir Selhálsi og frá Hrauni að Hraunsseli millum Þrengsla. Sandakravegurinn millum Ísuskála (Ísólfsskála) kemur inn á seinni tíma kort og þá þjóðleið með sunnan- og vestanverðu Fagradalsfjalli. Áþreifanlegi merki eru þó um hann frá Sandhól áleiðis millum Skógfellanna, djúpt markaðan í hraunhelluna. Þarna mun hafa verið þýðingarmikil aðflutningsleið fyrrum, bæði að Selatöngum og fyrir austanmenna að verunum á norðanverðum Reykjanesskaganum, s.s. á Vatnsleysuströndinni.

siglubergsháls

Þá er í örnefnalýsingu getið um Gyltustíg: “Vestan við Klifhól, utan í fjallinu [Þorbirni] vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr”.
Innanhverfagötur má nefna t.d. Hraunkotssgötuna milli Hrauns og Hraunkots, þeirra austastu í Þórkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðagötuna millum Hrauns og Þórkötlustaða og Eyrarveginn, eða Randeiðarveginn, millum Hrauns og Járngerðarstaða. Sú gata var einnig nefnd Kirkjugatan því hún var jafnframt kirkjuvegur Þórkötlustaðabúa um eiðið út að Staðarkirkju áður en kirkjan var flutt í Járngerðarstaðahverfi og endurvígð það árið 1909 og eiðið var grafið inn í Hópið. Sjá og örnefnalýsingu: “Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna (LJ). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi”. Síðar kom fyrrnefnd gata (vagnvegurinn) milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis um Hóp. Lá hún um svonefnda Kirkjuhóla og ofan hverfisins um “garðhliðið á Hrauni”.
Enn má nefna, þótt stuttur hafi verið, svonefndan “Hópsanga”, frá Hópi upp á Skógfellastíg (Grindavíkurveg). Enn ein meginleiðin inn á Skógfellaveginn frá Grindavíkurbæjunum var Hraunsgata. Lá hún frá Skógfellaveginum móts við Sundhnúk, skammt ofan gatnamóta Vogavegar, og síðan niður með hraunjöðrum Beinvörðuhrauns og Dalahrauns að Vatnsheiðadyngjunni. Lá hún milli Grenhóls og Húsafjallsaxlarinnar að Hrauni.
Enn eru ótaldir Ísólfsskálavegur, bæði frá Hrauni um Skökugil upp á Siglubergsháls, bakleiðin vestan Hrafnahlíðar og Ögmundarstígurinn og Hlínarvegurinn sem framhald af hvorutveggja til Krýsuvíkur. Einnig leið frá Þórkötlustöðumk þvert á Skógfellaveg (Grindavíkurveg) yfir sunnanverðan Sýlingarfellsháls og áfram inn á Skipsstíg móts við Lat. Allar hafa þessar leiðir ákveðið menningargildi því þær endurspegla samgöngusögu svæðisins frá upphafi mannlegra vega.
Skógfellavegur
Síðasta menninngarverðmætir er krefjast mun þessa tiltils á næstu árum er gamli Grindarvíkurvegurinn, sem lagður var á árunum 1914 til 1918. Nýjasti rennireiðarrenningur þessi varð til á sjöunda áratug 20. aldar. Auk hans liggja nú seinni tíma malarvegir vegir að Grindavík frá Reykjanesvita (upphaflega lagður 1918) og frá Krýsuvík (Ögmundarstígur og Hlínarvegur) 1956.
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líklega um 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík. Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Eiginkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík, líklega í hverju hverfanna þriggja.
Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði. Á báðum stöðunum vottar fyrir leifum landnámsskála). Fyrrnefnda nafnið bendir til samnefnu bæjar hans í Álftaveri veturinn áður er nefnt hafði Hof, er gæti í Grindavík hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd.
Hér að framan hefur verið reynt að koma á framfæri svolitlum fróðleik um nú fjarlægar þjóðleiðir – Grindavíkurgöturnar fyrir vora daga.
Sandakravegur
Grindavíkurvegir

FERLIR hafði lengi unnið að gagnasöfnun og vettfangsferðum um svonefnda “Grindavíkurvegi” með það fyrir augum að setja hvorutveggja á prent og gefa út til handa áhugasömum göngugörpum.

Grindavíkurvegur

Unnið við Grindavíkurveginn 1916.

Nú hefur Vegagerðin gefið út fróðlegt rit um Grindavíkurvegina – frá upphafi til nútíma með sérstakri áherslu á “Gamla Grindavíkurveginn”, fyrsta akveginn frá Stapanum, “Gamla Keflavíkurveginum”, til Grindavíkur. Tilgreindar er allar minjar hinna gömlu vegagerðar við veginn, s.s. vegavinnubúðir, hellaskjól, hraunskjól og hleðslur. Fornleifaskráning fylgir verkinu.
Margar þjóðleiðir lágu til og frá Grindavík frá upphafi vega, í fyrstu mótuð af fótum, hófum og klaufum, síðan þróaðri götur unnar af mannanna höndum fyrir vagna og í framhaldi af því bifreiðar.
Saga þjóðleiðanna er fyrir margt mjög merkileg, enda teljast þær til fornleifa – þótt þeirra, a.m.k. framan af, hafi ekki verið getið sérstaklega í fornleifaskráningum.

http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/Grindavikurvegir_saga_og_minjar/$file/Grindavíkurvegir%20saga%20og%20minjar.pdf

Greindavíkurvegur

Grindavíkurvegur 1913-1918.