Skipsstígur
“Allir leiðir liggja til Rómar” var sagt fyrrum. Á sama hátt má segja að fyrrum hafi  “allar götur hafi legið til Grindavíkur”. Grindavík var t.d. um aldir ein mesta “gullkista” Skálholtssbiskups. Afurðir þaðan brauðfæddu alla skólasveina stólsins sem og heimilisfólkið, þ.á.m. biskupinn sjálfan. Sagt er og að biskupinn hafi af og til nartað í fisk frá Grindavík, öðrum til samlætis. Aðal útflutningsafurðir Biskupsstóls komu og frá Grindavík. Það þarf því engan að undra að göturnar fyrrnefndu hafi markast djúpt í hraunhelluna undan hinni miklu umferð – því flestir, sem komu til Grindavíkur, fóru reyndar þaðan aftur, sumir þó seint og um síðir.

Skógfellavegur (Grindavíkurvegur/Vogavegur)

Grópför gatnanna í hraunhellunni gætu jafnvel verið eldri en byggðin, þ.e. landnám Molda-Gnúps árið 934. Sundhnúkahraunið að austanverðu er t.d. 2400 ára. Eldvarpahraunin eldri, sem verja undirstöðuna að vestanverðu, eru frá svipuðum tíma. Um Sundhnúkahraunið liggur Vogavegurinn (Skógfellastígur) frá Járngerðarstöðum, Hópi og Þórkötlustöðum upp fyrir Skógfellin (algengt var að götur voru nefndar eftir ákvörðunarstað, sbr. Selvogsgötu frá Hafnarfirði í Selvog er einnig var nefndur Suðurfararvegur)). Í örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir: “Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Vegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi”.
Um eldri Eldvarparhraunin lágu Skipsstígur frá Járngerðarstöðum og Árnastígur frá Húsatóftum. Þessar götur sameinuðust í eina við ofanverðan Rauðamel og enduðu í Njarðvíkum. Í örnefnalýsingu fyrir Járngerðarstaði segir: “Á Gerðavöllum er allt fullt af görðum. Þeir eru hlaðnir á tvo vegu við vellina og eiga að vera eftir Junkarana en þeir reru til skiptis eftir veðri úr Grindavík og Höfnum (Njarðvíkum) eftir því sem sögurnar segja. Fóru þeir með skipin á milli og hét þar Skipsstígur”. Sumir hafa nefnt stíg þennan Skipstíg (Skipsstíg) eða Skipastíg. Ekkert af því er vitlausara en annað. Hluti Skipsstígsins, norðvestan undir Lágafelli, var gerður upp sem vagnvegur skömmu eftir aldarmótin 1900. Um var að ræða atvinnubótavinnu er dugði skammt við endurnýjun vegarins og aðlögun hans að nútímakröfum. Þá segir: “Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.”

Vogavegurinn

“Prestastígur” hefur jafnan verið genginn í seinni tíð, en hans er hvorki getið í örnefnalýsingum fyrir Húsatóftir né Stað. Í örnefnalýsingu sem Vilhjálmur Hinrik Ívarsson gerði fyrir Hafnir er heiti götunnar ekki heldur nefnt, einungs: ” Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll. Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag”. Prestastígur var reyndar til forðum, en þá lá hann frá Höfnum að Stað – um Hafnaheiði. Vörðubrot yfir heiðina gefa legu hans til kynna. Sú gata, sem seinna hefur verið genginn, og vörður upp hlaðnar, hefur fremur verið farin til skemmtunar en gagns því vörðurnar voru hlaðnar eftir að Staðarprestur hætti að þjóna Höfnum. Það á þó einungis við um nyrðri hlutann, þ.e. norðan Sandfellshæðar. Syðri hlutinn er hluti af gömlu götunni milli Staðar og Hafna. Prestarstígurinn er þó allur eftir sem áður áhugaverð leið fyrir þá sem nenna að hreyfa sig og vilja kynnast stórmerkilegri jarðfræði Reykjaness, s.s. flekakenningunni (Haugsvörðugjá), gosmyndunum á sprungureinum (Eldvörp og Stampar (Hörsl)) og tilurð nútímahrauna í bland við stórkostuleg dyngjugosin í Sandfellshæð, Háleyjabungu og Skálafelli.
Hér að framan hefur verið minnst á aðalleiðirnar, s.s. Árnastíg versus Skipsstíg, Skógfellastíg (Vogaveg og Grindavíkurveg) og Prestastíg. Aðrar leiðir lágu og til Grindavíkur eða millum hverfanna í Grindavík.  Auk þess lágu leiðir að tilteknum stöðum, s.s. selstígar frá Stað og Járngerðarstöðum að Baðsvallaseljunum og síðar upp á Selsvelli undir Núpshlíðarhálsi,, frá Hópi að Hópsseli undir Selhálsi og frá Hrauni að Hraunsseli millum Þrengsla. Sandakravegurinn millum Ísuskála (Ísólfsskála) kemur inn á seinni tíma kort og þá þjóðleið með sunnan- og vestanverðu Fagradalsfjalli. Áþreifanlegi merki eru þó um hann frá Sandhól áleiðis millum Skógfellanna, djúpt markaðan í hraunhelluna. Þarna mun hafa verið þýðingarmikil aðflutningsleið fyrrum, bæði að Selatöngum og fyrir austanmenna að verunum á norðanverðum Reykjanesskaganum, s.s. á Vatnsleysuströndinni.

siglubergsháls

Þá er í örnefnalýsingu getið um Gyltustíg: “Vestan við Klifhól, utan í fjallinu [Þorbirni] vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr”.
Innanhverfagötur má nefna t.d. Hraunkotssgötuna milli Hrauns og Hraunkots, þeirra austastu í Þórkötlustaðahverfi, Þórkötlustaðagötuna millum Hrauns og Þórkötlustaða og Eyrarveginn, eða Randeiðarveginn, millum Hrauns og Járngerðarstaða. Sú gata var einnig nefnd Kirkjugatan því hún var jafnframt kirkjuvegur Þórkötlustaðabúa um eiðið út að Staðarkirkju áður en kirkjan var flutt í Járngerðarstaðahverfi og endurvígð það árið 1909 og eiðið var grafið inn í Hópið. Sjá og örnefnalýsingu: “Randeiðarstígur er gata á milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hann farinn áður fyrr er aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna (LJ). Hét hún Eyrargata en litið markar fyrir henni nú. Önnur gata er norðar og liggur um Kirkjuhóla og fram hjá Hópi”. Síðar kom fyrrnefnd gata (vagnvegurinn) milli Þórkötlustaðahverfis og Járngerðarstaðahverfis um Hóp. Lá hún um svonefnda Kirkjuhóla og ofan hverfisins um “garðhliðið á Hrauni”.
Enn má nefna, þótt stuttur hafi verið, svonefndan “Hópsanga”, frá Hópi upp á Skógfellastíg (Grindavíkurveg). Enn ein meginleiðin inn á Skógfellaveginn frá Grindavíkurbæjunum var Hraunsgata. Lá hún frá Skógfellaveginum móts við Sundhnúk, skammt ofan gatnamóta Vogavegar, og síðan niður með hraunjöðrum Beinvörðuhrauns og Dalahrauns að Vatnsheiðadyngjunni. Lá hún milli Grenhóls og Húsafjallsaxlarinnar að Hrauni.
Enn eru ótaldir Ísólfsskálavegur, bæði frá Hrauni um Skökugil upp á Siglubergsháls, bakleiðin vestan Hrafnahlíðar og Ögmundarstígurinn og Hlínarvegurinn sem framhald af hvorutveggja til Krýsuvíkur. Einnig leið frá Þórkötlustöðumk þvert á Skógfellaveg (Grindavíkurveg) yfir sunnanverðan Sýlingarfellsháls og áfram inn á Skipsstíg móts við Lat. Allar hafa þessar leiðir ákveðið menningargildi því þær endurspegla samgöngusögu svæðisins frá upphafi mannlegra vega.
Skógfellavegur
Síðasta menninngarverðmætir er krefjast mun þessa tiltils á næstu árum er gamli Grindarvíkurvegurinn, sem lagður var á árunum 1914 til 1918. Nýjasti rennireiðarrenningur þessi varð til á sjöunda áratug 20. aldar. Auk hans liggja nú seinni tíma malarvegir vegir að Grindavík frá Reykjanesvita (upphaflega lagður 1918) og frá Krýsuvík (Ögmundarstígur og Hlínarvegur) 1956.
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líklega um 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík. Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Eiginkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík, líklega í hverju hverfanna þriggja.
Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði. Á báðum stöðunum vottar fyrir leifum landnámsskála). Fyrrnefnda nafnið bendir til samnefnu bæjar hans í Álftaveri veturinn áður er nefnt hafði Hof, er gæti í Grindavík hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd.
Hér að framan hefur verið reynt að koma á framfæri svolitlum fróðleik um nú fjarlægar þjóðleiðir – Grindavíkurgöturnar fyrir vora daga.
Sandakravegur