Kleifarvatn

Boðið var upp á siglingu um Kleifarvatn. Það er jú sitthvað að horfa yfir vatnið frá landi og að horfa á landið frá vatninu.
Jói Davíðs hafði fjárfest í bát með endurnýjuðum Skipsstjórinnvistvænum hreyfli og öllu tilheyrandi. Einhver kvóti fylgdi með pakkanum, en aflaheimildir lágu ekki ljósar fyrir því Fiskistofa hafði enn ekki úthlutað slíkum heimildum fyrir árin 2006, 2007 og 2008 (er sem sagt langt á eftir líkt og margar aðrar ríkisstofanir).
Eftir að hafa bakkað bátsvagninum út í vatnið svo langt sem jeppinn þoldi var hafist handa við að losa og fleyta bátnum út. Væntanlegir farþegar hjálpuðu til, hver og einn – með hugarorkunni frá landi. Að “vatnssetningu” (sbr. sjósetningu) lokinni var  báturinn handfærður í haglega gert naust nær landi svo stíga mætti um borð þurrum fótum. Hver og einn sem og skipsstjórinn íklæddust flotvestum. Salernisaðstaða var m.a.s. til staðar, ef á þyrfti að halda. Aðstaðan var þannig úr garði gerð að hægt var umbreyta aðstöðunni í einu vetfangi, t.d. í veisluaðstöðu eða bara skjól fyrir veðrum, ef þurfa þótti.Á naglföstu löggildingarspjaldi  í bátnum mátti sjá hversu margir máttu vera um borð og hversu mikið í tonnum báturinn gat borið.  Skipstjórinn sýndi og útskýrði helsta búnað, hvernig ætti að bregðast við ef út af myndi bregða (sem auðvitað gat ekki gerst því með slíkan skipsstjóra þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur).
Ýtt var úr vör – og látið reka meðan skipstjórinn tengdi öll tól og tæki, ræsti hreyfilinn og tók stefnuna. Umhverfisvænt hljóðið í aflvélinni sameinaðist gáruhljóðinu á vatninu, hægum andvaranum og nálægum fuglasöng. Þegar gefið var inn hvaddi stefnið vatnsflötinn og myndarlegt kjalfar myndaðist aftan við bátinn. Dýptarmælirinn vaktaði botninn og allt þar á milli. M.a.s. hver einasti fiskur sást á mælinum.
Rödd skipstjórans rauf samofin umhverfishljóðin; “Kleifarvatn er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,2 km² (reyndar stundum 10.0 km² – fer eftir vatnshæðinni), og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m. Það hefur lítið aðrennsli en ekkert frárennsli, a.m.k. ekki ofanjarðar. Silungsseiði af bleikjustofni úr Hlíðarvatni í Selvogi voru sett í vatnið á sjötta áratugnum og þau hafa dafnað vel, þannig að veiði (er) var um tíma ágæt. Sumir telja að besti veiðistaðurinn er syðst í vatninu þar sem heitt jarðvatn frá hverasvæðum sytrar út í vatnið, en reyndir veiðimenn vita að besti veiðistaðurinn er undan norðanverðu Hvannahrauni (Hvammahrauni) austan við vatnið.

Myndanir

Kleifarvatn er mjög kalt frá náttúrunnar hendi, en volgrur þessar skapa bleikjunni ákjósanleg skilyrði. Eldbrunnið og hrjóstrugt umhverfi vatnsins er bæði sérstakt og fagurt, eins og sjá má.  Í jarðskjálftunum 17. og 21. júní 2000 opnuðust sprungur á vatnsbotninum og vatnsborðið lækkaði verulega, en byrjaði að hækka aftur árið 2004. Nú er vatnið komið á ný í “eðlilega” stöðu. Segja má með nokkrum sanni að Kleifarvatns sé eins vístalan, gengisþróunin eða verðbólgan; hækkar og lækkar með án þess að ástæðan virðist augljós.”
Eftir að hafa fylgt vesturströndinni um tíma og skoðað bergmyndanir, veðranir og rof, upplýsti skipstjórinn eftirfarandi í stuttu máli: “Í Kleifarvatni er að sögn manna vatnaskrímsli. Ekki halla ykkur of langt út fyrir borðstokkinn. Allur er varinn góður. Árið 1755 t.d. sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni. Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.

Gullbringa

Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að líta af honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.”
Allt í einu tók dýptamælirinn við sér með skerandi són í kyrrðinni. Dýpið var um 15 metrar. Skammt utar sást bakki þar sem vatnið snardýpkaði niður 97 metrana. Milli botnsins og bátsins sást eitthvert rautt ferlíki (hitamynd), a.m.k. tvöföld lengd bátsins og eftir því breytt. “Hann er stór þessi”, sagði skipsstjórinn, sallarólegur. Allir góndu á hann og skjá mælitæksins til skiptis. Það sem á skjáinn kom hvarf hins vegar jafn skyndilega og það hafði komið.

Myndanir

“Hvað var þetta”, var spurt og allir horfðu á allt og alla, nema vatnið. Á það þorði enginn að líta. Högg kom á fleyið. Einhver greip andann á lofti og annar öskraði. Allt virtist vera að fara úr böndunum. Skýringin kom þó fljótlega í ljós þegar gaf á bátinn. Þetta var þá bara stærri alda á vatninu. Báturinn hafði komið fyrir tanga og vindurinn náði að blása upp streng utan við hann og ýfa vatnsborðið upp verulega. Skipstjórinn var snöggur upp á lagið, sló af og venti um 66° – lagði þvert á vindinn. “Líklega gamli landsímastrengurinn. Hann var lagður hér í vatnið fyrir Syðristapa og áfram út fyrir Innri-Stapa (Stefánshöfða)”. Af svipnum að dæma virtist hann vita betur. Fleyið vaggaði liðlega líkt og það væri að sofna. Kyrrðin öll varð skyndilega mínus 10%. Gullbringa baðaði sig fallega í sólinni handan vatnsins.
Framundan birtist falleg vík, eða víkur, n.k. Leynivíkur. Ótrúlegt að þær skyldu geta dulist þarna svona fyrir fótferðalöngum frá þjóðveginum, svo örskammt frá honum; sandfjörur, klettamyndanir og skútar, sem vatnið hefur mótað í aldanna rás.
Myndanir“Hér sjáið þið jarðmyndunina í þverskurn”, sagði skipsstjórinn. “Og rofmyndunina í kjölfarið”, bætti hann við. “Undirlagið er bólstraberg, enda má hér sjá margan bólstran, sem fáir hafa augum litið – fram að þessu. Ofan á hefur setmyndunin (móbergið) lagst. Bólstrabergið og móbergið mynduðust í gosi í sjó, líklega á síðasta jökulskeiði. Þá urðu hálsarnir til; Sveifluháls og Núpshlíðarháls auk fleiri fjallshryggjamyndana á þessu svæði. Gosið hefur tekið langan tíma og umbreyst er á leið hrinuna. Því má hér sjá bert bólstraberg, hreint móberg og loks blendna gosmyndun þar sem hraun og/eða bólstraberg umverpir móbergið á köflum. Líklega er hér um að ræða einstakar jarðmyndanir, a.m.k. sem sjá má með berum augum. Vatns- og vindrof hafa síðan sett sinn svip á heildarmyndina; mulið niður mýkri jarðlög, sorfið þau út milli þeirra harðari svo til hafa orðið skútar og rásir. Það eitt er ekki það merkilegasta, heldu hitt hversu hátt vatnið hefur náð upp í klettana við þessa iðju sína. Ef vel er að gáð má sjá vatnsrofið a.m.k. upp í 5-6 metra hæð. Það segir okkur bara eitt; vatnsyfirborð Kleifarvatns hefur á stundum verið miklum mun hærra en nú er. Enda eru til sagnir að vatnið hafi flætt um sunnanvert svæðið þar sem nú er Nýjaland og Innra-land, allt að Grænavatni.

Syðri-Stapi

Þar er affallsfarvegur, sem sýnir að vatn hefur runnið yfir ásana ofan við Stóra- og Litla-Nýjabæ og allt til sjávar. Austari-Lækur (Eystrilækur) hefur þá breytt um farveg og runnið mun vestar skammt norðan og ofan við Krýsuvíkurberg, líkt og sjá má á þurrum árfarvegi við Eyrarkot, fornar tóftir austarlega undir Selöldu.”
Og hann bætti við: “Sveifluhálsinn, sem þið sjáið hér ofan við vatnið, varð til við slíka myndun á sprungurein undir jökulhettunni. Jaðrana á þeim látum má sjá hér við Kleifarvatnið, þ.e. útskot frá megingosinu. Systurnar þrjár; vindar, vatn og vetur hafa síðan í u.þ.b. 11.000 ár hjálpast til við að ná lóðréttri jarðmynduninni niður á láréttan flöt. Allt leitar að lokum til hins lárétta”, sagði skipsstjórinn með stóískri ró og horfið yfir undrin – líkt og allt þetta mikla og stórkostulega náttúruundur væri bara jafn sjálfsagt og siglingin á vatninu.
Dýptamælirinn nákvæmi staðsetti nákvæmlega sérhvern fisk (og sérhverja furðuskepnu) á siglingaleiðinni. Hvorutveggja eru verkefnin framundan. En sjónumprýdda umhverfið var það sem gaf gildið þá stundina og mun varðveitast í augum sjáendanna meðan varir.
Frábært veður. Ferðin tók 2 klst og 2 mín. (Sjá fleiri myndir undir MyndirÝmsar myndir hér á vefsíðunni (sjá efst á stikunni.))
Fleyið