Skógfellavegur

Lagt var af stað frá Vogum og genginn 16 km langur Skógfellavegurinn til Grindavíkur.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Í heimildum ber leiðin eftirfarandi nöfn: Skógfellavegur, Skógfellsvegur og Vogavegur (notað af Grindvíkingum). Hluti hans var nefndur Sandakravegur eða Sandakradalsvegur. Skógfellaleiðin lagðist af um 1920 þegar bílvegur var lagður til Grindavíkur. Björn Gunnlaugsson skráði Sanakraveg inn á kort sín árið 1831 og 1844 og þar er vegurinn strikaður frá vesturenda Vogastapa yfir Skógfellahraunið að Litla-Skógfelli, þaðan að syðri enda Fagradalsfjalls og síðan áfram suður úr.
Gengið var framhjá Snorrastaðatjörnum, Nýjaseli, yfir Brandsgjá og að Litla-Skógfelli. Bæði er yfir grófara hraun að fara og gróið, en gatan er greið.

Skógfellavegur

Skógfellastígur.

Leiðin frá Litla-Skógfelli að Stóra-Skógfelli er tiltölulega slétt helluhraun og er gatan mörkuð djúpu fari langleiðina. Hún er auk þess ágætlega vörðuð. Áður en komið er að fellinu er vörðubrot vinstra megin (en annars eru vörðurnar hægra megin á þessari leið). Vörðu ber við loft á hæð í suðri. Þarna liggur Sandakravegurinn áleiðis yfir að Slögu.
Vestan við Stóra-Skógfell taka Sundhnúkarnir við, en vestan þeirra hallar undan að Hópsheiði og áfram niður í Grindavík.
Veður var frábært, sól og hiti, svo og útsýni á leiðinni. Gangan tók nákvæmlega 4 klst.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.