Færslur

Skyggnisrétt

Tómas Þorvaldsson, 83. ára gamall, tók á móti FERLIR í Grindavík.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Þegar var haldið að Vergötu í Járngerðarstaðahverfi með það fyrir augum að staðsetja dys Járngerðar, sbr. söguna. Gatan liggur til suðurs gegnt Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær. Gamla sjávargatan lá fyrrum til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina þarna ú beygjunni, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.

Kapella

Kapellan í Kapellulág.

Tómas sagði frá því að Skálholtssúðin hafi farist með 23 mönnum í Hróflsvíkinni (austan við Hraun) árið 1602. Hafi fólkið verið grafið við kapelluna í Kapellulág.
Þá var haldið að Virkinu. Í og við það var Grindavíkurstríðið háð árið 1532. Skærur voru með Englendingum undir forystu Jóhanns Breiða (Joen Breen) annars vegar og Hansamönnum og heimamönnum hins vegar. Enduðu þær með því að hinir síðarnefndu söfnuðu liði (um 180 – 250 manns) eina nóttina ( 10. júní) og réðust að Englendingum í Virkinu (kl. 02:00 að nóttu). Lágu um annar tugur Englendinga í valnum og þar á meðal Jóhann Breiði, sundurhöggvinn. Aðrir reyndu að flýja til skipa sinna. Fjórum enskum skipum tókst að komast frá landi, en eitt strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.

Vikri Jóhanns

Tómas við leifar virkis Jóhanns breiða.

Átta Englendingar voru teknir til fanga. Hinir látnu voru dysjaðir austur undir virkisveggnum. Heitir þar nú Engelska lág. Tómas benti á lágina, sem nú er sandorpin, skeifulaga og hefur áður verið nokkurs konar dalur austan við Virkið – á milli þess og Hellanna. Virkið sjálft er nú þarna fremst á kampinum, en sjórinn hefur brotið þarna talsvert af landinu. (Sjá nánar Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur).

Tómas sagði frá Skjöldunni, en svo nefndust hús þar sem fátækir fengu að búa vestan við Járngerðastaði. Þar eru nú hlaðin útihús frá bænum.

Grindavík

Skjalda.

Vestan við Skjölduna er graslaut, opin til suðurs. Hún heitir Geldingalaut. Þar voru folöld gelt, stundum mörg á dag. Norðan við Skjölduna er Vatnsstæðið og síðan hraunið. Uppi í því er fallegur gróinn hraunbolli, Einisdalur. Þangað fóru Grindvíkingar oft á góðvirðisdögum og tóku með sér nesti. Austar, norðan Járngerðastaða, er Bóndastekkstúnið. Á því var hlaðin rétt, Bóndastekkstúnsrétt. Hún var síðar notuð sem kartöflugarður. Norðvestan túnsins er gjáin Silfra, sem þjóðsaga er kennd við. Í gjánni á að vera silfursjóður, en þegar menn eru að því komnir að ná honum upp er eins og húsið á Járngerðarstöðum standi í björtum logum.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Norðan við Silfru liggur Skipsstígurinn í átt að fjarskiptastöðinni. Við hann er heil varða, en skammt norðan hennar er önnur fallin, á efstu brún áður en komið er að girðingunni. Hún heitir Títublaðavarða. Þaðan má vel sjá hvar stígurinn liðast innan girðingarinnar, að vörðu norðan hennar, skammt frá gatnamótum götu að Hópi. Einnig sést þaðan í Gyltustíg vestast í sunnanverðum Þorbirni.

Hraunstekkir eru austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðisvöllum.

Haldið var að Gerðisvallabrunnum að vestan. Þar má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við gamla þjóðleið út að Húsatóttum. Sést vel móta fyrir gömlu götunni við vörðuna. Beint niður frá henni, á sjávarkampinum er Markhóll, landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða. Vestar er Stekkhóll. Gamall stekkur er vestan í hólnum, nú að mestu jarðlægur. Þá er komið að Hrafnagjá. Austan hennar eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni. Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.

Utar á kampinum er rétt, Skyggnisrétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Vestar eru Hásteinar. Víkin útaf Skyggni, undan Gerðisvallabrunnum, heitir Stórabót.
Frábært veður.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Þórkötludys

Ætlunin var að reyna að staðsetja bæ Molda-Gnúps Hrólfssonar, fyrsta landnámsmannsins í Grindarvík og sona hans. Hann átti fjóra sonu, sem taldir eru hafa búið í þremur höfuðhverfum Grindvíkinga, og eina dóttur, Iðunni, er fluttist að Þjóstur á Álftanesi. Synirnir voru: Þórður leggjaldi, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Björn, síðar nefndur Hafur-Björn, sem hafa að öllum líkindum allir sest að í og við Grindavík. Hafa ber í huga að nefndur Molda-Gnúpur kom til landsins um 930.

Hóp

Tóftir á Hópi – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var um svæðin í fylgd Sigurðar Ágústssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Grindavík.
Gamlar tóttir eru bæði suðaustan við Þórkötlustaði og á túni austan við Bjarmaland (Einland). Austasta sjávargatan liggur niður frá Klöpp austan við Buðlungu og enn sést marka fyrir miðgötunni austan við Þórkötlustaði (Miðbæ). Áhugaverðasta tóttin er ferningslaga upphækkaður reitur á nokkuð sléttu túni. Greinilegt er að honum hefur verið hlíft af ásettu ráði því slegið hefur verið í kringum hann. Enginn virðist kunna skýringu á þessari tótt. Hún líkist helst haug eða dys. Mikilvægt er að finna út hvað þetta getur verið.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Birgir Guðmundsson leiddi hópinn um Hópssvæðið. Skoðað var gamla bæjarstæðið norðan við fjárhúsin. Það er á og sunnan í hól. Gamalli tótt, sem þar er, hefur aldrei mátt raska, svonefnd Goðatótt. Þegar staðið er upp á hólnum sést, ef vel er að gáð, mjög gömul jarðlægð tótt, nokkuð stór, norðaustan við hann (við suðvesturhornið á Móum). Út frá henni liggja gamlir grónir skeifulaga garðar upp að greinilega mjög gömlum megingarði er virðist hafa umlukið tóttina ofan frá.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Ef garðinum er fylgt til vesturs er komið að hól, sem gæti verið forn bæjarhóll. Suðvestan við hólinn er gömul jarðlæg tótt, lík hinni. Birgir sagðist hvorki kannast við þessar tóttir né garðinn. Hann hefði aldrei velt þeim fyrir sér. Ofan við megingarðinn er steingarður. Hann liggur nú frá eystra íbúðarhúsinu til austurs og beygir síðan til suðurs, líkt og gamli garðurinn. Í beygjunni er hann farinn að þynnast verulega. Birgir sagði að tekið hefði verið úr garðinum á sínum tíma – þegar grjótið var einhvers virði og hægt var að selja það. Þessi garður hafi áður einnig legið áfram langt til vesturs í átt að Stamphólsgjá.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var að tóttum Hópskots, sem er norðan undir vegg Stakkavíkurfiskverkunarinnar, og eftir hafnargötunni að hópsvörinni og Vatnstanganum neðan hennar, skammt vestan við neðri innsiglingavörðuna.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Austan við garðana er greinilega gömul leið austur í hverfi. Norðan hennar liggur beinn hestavegur til austurs og vesturs. Birgir sagði þetta vera gömlu hestagötuna frá Járngerðarstaðahverfi austur í Þórkötlustaðahverfi. Við götuna á vinstri hönd þegar hún er gengin til vesturs er ílangur gróinn hraunhóll. Birgir sagði að hann hafi ávallt gengið undir nafninu Álfakirkja. Enn lengra til suðurs er hóll, sem nefndur var Öskuhóll. Þar mun ösku hafa verið dreift áður fyrr. Hann er nú algróinn. Skammt vestar og hægra megin við reiðgötuna er greinilega mjög gömul tótt með tveimur rýmum. Ofan hennar er efri innsiglingarvarðan. Birgir sagði að hvorki faðir hans né afi hafi vitað til hvers þessi tótt hafi verið notuð.
Birgir hafði undir höndum örnafnalýsingu á Hópslandi og Þórkötlustaðalandi, m.a. frá 1926, sem hann gaf afrit af. Tækifærið var notað til að rissa upp svæðið. Teikningin hefur nú verið fullgerð.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Litið var á dys Járngerðar í Járngerðarstaðahverfi og á bæjarhólinn á Járngerðarstöðum. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar eru núverandi húsin á eða utan í gamla hólnum. Helst væri hægt að finna minjar í hól norðan og aftan við þann hól.
Í Staðarhverfi hafa túnin verið sléttuð út, enda mikið sandfok mætt þar á. Ef taka á mið af eina hlaðna grjótgarðinum, sem þar er, hefur sandurinn hlaðist upp túnmegin við hann og hulið það, sem þar kann að hafa verið. Í túninu suðvestan við kirkjugarðinn og sunnan við gamla bæjarstæðið, eru hólar. Í öðrum þeirra er gamall bær, sem hét Krukka. Ekki er vitað hvað kann að leynast í hinum hólnum.

Húshólmi

Minjasvæði við Húshólma, ofan hinnar fornu Krýsuvíkur neðan (G)Núpshlíðar.

Leitt er að því líkum að Þórður leggjandi hafi búið í Staðarhverfi og Þórðarfell norðan þess verið nefnt eftir honum. Hafur-Björn hafi búið í Þórkötlustaðahverfi (Hópi) og Þorsteinn hrungnir hafi búið á Járngerðarstöðum. Vitnað er í það í örnefnaskránni að Hóp kunni að hafa áður heitið Hof. Hof er einnig til í Álftafirði þar sem Molda-Gnúpur kom að landi, eins og reyndar flestir landnámsmanna, og settist að. Ef rétt reyndist ætti að vera hægt að finna bæ sonar Hafur-Björns á þessum stað – einu hentugasta svæðinu til slíkrar staðsetningar í Grindavík. Tóttirnar tvær sem og gróinn bæjarhóll á Hópi er mjög forvitnilegt til frekari skoðunar.
En hvar bjó þá Molda-Gnúpur Hrólfsson? Undir (G)Núpshlíðarhálsi. Sýnilegar tóftir í Húshólma og Óbrennishólma gætu verið minjar eftir hann eða afkomendur hans…

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Jónsbásar

Gengið var frá dys Járngerðar á Járngerðarstöðum, um virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót, um Junkaragerði Grindvíkinga, að Jónsbás þar sem Anlaby, fórst í janúar árið 1902, yfir í Arfadal, upp í Baðstofu og um Blettahraun til baka. Hér var um að ræða eina af tímamótaferðum FERLIRs, þá 800. að tölu um Reykjanesskagann. Venjulega eru tilteknir staðir heiðraðir í slíkum tímamótaferðum. Að þessu sinni, sem og stundum fyrr, varð Grindavík fyrir valinu.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Grindavík er merkilegur bær – þar er hægt að dvelja löngum stundum við að skoða merkilega staði og endurupplifa gagnmerka atburði í gegnum aldirnar.
Landnámsmaður í Grindavík var Molda-Gnúpur Hrólfsson. Þar hafa orðið merkisatburðir Íslandssögunnar, s.s. Tyrkjaránið og Grindavíkurstríðið. Auk þess endurspeglar Grindavík atvinnu- og búsetusögu landsins frá upphafi til núdagsins. Og andrúmsloftið er hvergi ferskara.
Vitneskja um upphaf byggðar takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans. Lítið sem ekkert er vitað um byggðina næstu þrjár aldirnar eftir landnám. Ekki er vitað nákvæmlega hvar landnámsmennirnir byggðu sér bú. Þó er líklegt að það hafi verið í námunda við Hópið en síðar risu þar bæirnir Hóp, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir. Hverfin er eitt af því sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Þessi hverfi heita Þórkötlustaðahverfi sem er austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er vitað um aldur og upphaf hverfanna þriggja og heldur ekki af hverju þau byggðust nákvæmlega þarna. En gera má ráð fyrir því að þau hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning hverfanna hafi ráðist af graslendi á þessum stöðum. En það sem hefur líka haft mikið að segja er aðstaða til sjósóknar. Flest bendir til þess að skömmu eftir 1200 hafi byggðin verið búin að taka á sig þá mynd sem hún bar allt fram á öndverða 20. öld.
Þegar 19. öldin gekk í garð var byggðin í Grindavík svipuð og hún hafði verið fyrr á öldum. Flestir bjuggu í hverfunum þremur og bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli. Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli í Járngerðarstaðahverfi. Það samanstóð af tveimur býlum sem þar voru auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar.

Gerðisvellir

Gerðisvellir – leifar virkis Jóhanns breiða.

Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa í Járngerðarstaðahverfi og varð miðstöð byggðar í Grindavík. Líklegt má telja að ef kirkja hefði verið í Járngerðarstaðahverfi á þessum tíma hefði byggðin jafnvel verið mun þéttari, en kirkjan og kirkjugarðurinn var í Staðarhverfi. En þann 26. september 1909 var vígð ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi og kostaði hún 4.475 krónum.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Hverfin héldust nokkuð í hendur varðandi fólksfjölda en á fyrri hluta 20. aldarinnar dróst þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar. En þó svo byggðin hafi verið þetta mikil á Járngerðarstöðum var lýsing Geirs Bachmann á henni ekki mjög fögur:

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

„Eigi er fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað. Þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi. og er þaðan hvergi víðsýnt.”
En þó ekki hafi verið fagurt á að líta á Járngerðarstöðum fjölgaði þar nokkuð ört og hlaut Grindavík kaupstaðarréttindi árið 1974. Og áfram fjölgaði heimilum í Járngerðarstaðahverfinu og nú búa í Grindavík um 2500 manns, þar af búa u.þ.b. 50 í Þórkötlustaðahverfi.
Gangan byrjaði við leiði Járngerðar, sem er nú að mestu undir veginum við Hlið. Þegar komið var að dysinni lá þar utan í henni stór, svartur, fjörgamalt hunslíki. Fylgdi það hópnum síðan eftir, en þegar komið var til baka hvarf það jafnskjótt og það birtist.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Eitt horn dysjarinnar stendur þó út undan veginum. Skv. gamalli lýsingu var dysin hæst að suðvestanverðu, en hallaði undan til austurs (undir veginn). Hornið er svona til að minna á fyrrum tilvist þjóðsögunnar á þessum stað. Sú gamla hefur sannarlega mátt muna tímanna tvenna. En nú er Járngerður notuð sem hraðahindrun fyrir sjálfrennireiðar. Áður fyrr var borin miklu mun meiri virðing fyrir henni, bæði lifandi og látinni. Virðingin að henni lifandi var svo sterkt að rituð var þjóðsaga um hana þar sem hún er leggur á Járngerðarstaðasundið að þar skyldu tuttugu skip farast eftir að hafa horft upp á eiginmann sinn drukkna á sund

inu. Virðingin að henni látinni var að hún skuli hafa verið dysjuð við gömlu sjávargötuna frá Járngerðastöðum er lá niður í Fornuvör, aðalvör hverfisins.

Stóra-bót

Stóra-Bót; leifar virkisins.

Þá leið gengu sjómenn til skips, stöldruðu við og dvöldu jafnan við dysina og fóru með bænir svo áhrínisorð Járngerðar myndu ekki duga til. a.m.k. hvað þá snerti. En eins og gamli maðurinn sagði; “virðingin fyrir hinu liðna, er mótast af framkomnum lifandi kynslóðar, virðist verulegum takmörkunum háð.”
Lönguklettar voru tiltölulega langt klettabelti úr frá skerjóttri ströndinni við Flúðir. Þanghóll er þar áberandi og mun þangi hafa verið safnað á hann í fyrri tíð, á meðan það var enn notað til eldiviðar.
Neðan við kampinn má sjá Stokkavör, Akurhúsakamp, Kvíahúsakamp, Fornuvör, Sjálfkvíarklöpp og Draugalón.
Við Litlubót er Stakibakki, Hvítisandur, Kampur og Eystri- og Ytri-Hestaklettur. Fjörunar eru nefndar Flúðir einu nafni, sem fyrr segir, og vestast á þeim eru þrjú örnefi; Stakabakkagrjót, Önnulónstangi og Flúðagjá.
Alls eru Flúðirnar tæpur kílómetri á lengd, en þar hafa þó orðið einna flest strönd á einum stað á þessum slóðum. Í desember 1899 strandaði þar norsk flutningaskip, sem Rapit hét, og árið eftir togari Vídalínsútgerðarinnar, Engines. Mannbjörg varð í bæði skiptin.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Í janúarmánuði 1911 strandaði svo breski togarinn Varonil á Flúðunum, og var það strand í senn sorglegt og grátbroslegt. Strandið sjálft virðist hafa orðið með þeim hætti, að skipið “togaði í land”, en talið var, að varpan væri úti, er það kenndi grunns. Þá gerðu skipverjar sömu mistök og landar þeirra á Clan fjórum áratugum síðar, settu út björgunarbáta og drukknuðu þeir þrí menn, sem í þá komust. Aðrir skipverjar afréðu þá að vera um kyrrt í skipinu, og var þeim bjargað morguninn eftir.
Næsta strand á Flúðunum varð 4. apríl 1926, er togarinn Ása strandaði þar á heimleið úr sinni fyrstu veiðiför, og tíu árum síðar, 6. september 1936, strandaði enski línuveiðarinn Tracadiro á svipuðum slóðum. Mannbjörg varð í bæði skiptin. Í fjöru má vel sjá vélina og ketilinn úr Ásu neðan og austan við Stórubót. Nú var hvoru tveggja t.a.m. vel sýnilegt.

Ofan við Stórubót er Rásin, en um hana fellur sjór upp í Gerðavallabrunna á stórstraumi.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Stórubót, á Hellum, má enn sjá ógreinilegar leifar af virki Englendingsins Jóhanns breiða þar sem atlaga Grindavíkurstríðsins svonefnda fór fram í júnímánuði 1532. Varð sá atburður til að marka þáttaskil í verslunarsögu landsins sem og skapa skörp átök milli öflugustu þjóða Evrópu á þeim tíma.
Lítið eitt vestar, þar sem heita Gerðisvellir, eru rústir af vegghleðlsum. Frá þeim er frásögn í einni af þjóðsögunum þar sem Junkarar eiga að hafa hafst við og Grindvíkingar eldað við þá grátt silfur lengi vel. Garðar gerðisins sjást vel sem og móta fyrir tóftum innan þess.
Hásteinar eru vestan við Hásteina. Austar eru Hellan og þá Malarendar. Stórhóll er á Hellunni. Miðbótarklettur er sker utan við Malaraenda. Hóllinn Skyggnir er vestann við Bótina. Á honum er Skyggnisrétt.

Skyggnisrétt

Skyggnisrétt. Rásin og Grindavík fjær.

Sandvík er fremur skerjótt og lón á milli skerjanna. Þar strandaði Resolut í austanstormi og brimi í október 1917, sen skipverjar björguðust allir og komu gangandi heim að Járngerðarstöðum morgunin eftir.
Katrínarvík er vestan við Markhól. Það er eitt örfárra örnefna á gervallri strandlengjunni frá Valahnúk í vestri til Seljabótar í austri, sem dregið er af mannsnafni, sem ekki er vitað, af hvaða Katrínu víkin tekur nafn.
Markhóll er áberandi við ströndina áður en komið er að Jónsbás og Jónsbásaklettum. Á milli eru Hvalvík og Hvalvíkurklettar. Markhóll er landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða og skilur um leið Staðarhverfi og Járngerðarstaðahverfi. Ofan og austan við Markhól er gamla gatan út að Staðarhverfi vel greinileg. A.m.k. ein heil varða er við leiðina, en hægt er að fylgja henni frá vestanverðum Gerðavallabrunnum og áleiðis út að Arfadal.
Á klettóttri ströndinni má sjá Jónsbásakletta, Karfabása og Vörðunes, sem er austan við Vörðunestanga. Á Jónsbásaklettum strandaði breski togarinn Anlaby snemma í janúar 1902, og fórust allir, sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförðina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899 þar sem þrír Íslendingar létust.
Klettarnir við Jónsbás skörtuðu bleikum, gulum, brúnum og fjólubláum lit í bland við græna. Stórbrotin umgjörð við fagurblátt hafið og svarta klettana.
Af Anlabystrandinu spunnust margar sögur í Grindavík, og benda flestir til þess, að atburðurinn hafi þótt í meira lagi vofveiflegur. Segir sagan m.a. að stígvél hafi fundist ofan fjörunnar er benti til þess að einhver hafi komist lífs af, en þoka var kvöldið áður og varð hún til þess að Staðarmenn gengu ekki rekann þá eins og venjulega. Vildu sumir þess vegna kenna sér um að hafa ekki bjargað mannslífum það sinnið.

Jónsbás

Jónsbásaklettar.

Víkin neðan við Húsatóftir heitir Arfadalur, en kölluð Dalur í daglegu tali. Nafngiftin gefur til kynna, hverjum augum menn hafa litið þann gróður, sem þarna þreifst. Víkin, sem gengur inn í landið á milli Vörðunestanga og Gerðistanga, heitir að rétu Arfadalsvík, en var oftast nefnd Staðarvik og leiðin inn í hana Staðarsund. Um sundið fóru kaupskip þau, er til Grindavíkur sigldu á fyrri tíð, og lögðust þá við festar vestan til á Arfadalsvík.
Garðafjara er í Arfadalsvík. Þar útan við eru tvö sker, sem Flæðiklettar heita. Þar þurfti mjög að gæta að sauðfé, þá stórstreymt var, því flæðihætta var mikil og náði féð sjaldnast að synda til lands. Á Flæðiklettum var rostungur eitt sinn veiddur seint á 19. öld, og um 1890 strandaði þar franska skútan Bris. Var það strand mörgum Grindvíkingi minnisstætt vegna koníaksbirgða, sem í skipinu voru. Sumir vildu þegja þunnu hljóði um þann þátt málsins, en aðrir æmtu þegar á var minnst.
Gengið var upp í Baðstofu, gjá ofarlega við Húsatóftir.
Þá var Blettahraunið gengið til austurs, til baka að Járngerðarstaðarhverfi.

Heimild m.a.:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-http://nemendur.khi.is/svavagna/Ritgerd%20um%20Grindavik.htm

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðardys
Gengið var um vesturhluta Járngerðarstaðahverfis, milli Fornuvarar og bæjanna ofan sjárvargötunnar. Ætlunin var að upplifa komu Tyrkjanna þangað sumarið 1627.
Tyrkjaránið
Áður hefur verið lýst hvernig aðdragandinn var að komu Tyrkjanna utan við leguna, hvernig þeir reyndu að blekkja Danina, sem réru á móti þeim og hvernig þeir sóttu að heimamönnum og gestum þeirra. Nú var reynt að fylgja þeim upp úr Fornuvör og áleiðis heim að bæjum, upplifa viðbrögð fólksins og aðfarir Tyrkjana við að ná því lifandi með það að markmiði að ná sér í verðmæti til að geta selt þau á markaði ytra. Tyrkirnir hegðuðu sér sem ótýndir glæpamenn í samfélagi, sem þeir virtu einskis. Mannslíf voru einungis ránsfengur í þeirra augum og þeir umgengust fólkið í samræmi við það. En auðvitað voru þessi menn mismiklir óþverrar líkt og gengur og dæmi eru um að þeir hafi hlíft fólki sem ekki var mikils virði í þeirra augum, en þess meiri fyirhöfn. Þeir virtust ekki hafa drepið fólk af ásetningi, einungis þegar þeim var veitt mótspyrna, en þá kom líka hið rétta eðli þeirra berlega í ljós.

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið – handrit.

Kristinn Kristjánsson fjallar um þessa ógnaratburði í Grindavík og annars staðar á landinu þetta ár í Íslenskar bókmennir 1550-1900, bls. 31-32. Þar segir m.a.:
“Sjórán hafa löngum verið talin arðbær en áhættusamur atvinnuvegur. Á öldum áður tíðkaðist að ríki styddu við bakið á sjóræningjum eða gæfu þeim leyfi til þess að stunda sjórán og tóku þá toll af þeim. Í upphafi 17. aldar voru sjórán mikiðs tunduð út frá ýmsum smáríkjum á norðurströnd Afríku, einkum á Miðjarðarhafi, en oft brugðu þeir sér út á Atlantshafið til Englands og í Norðursjó. Árið 1627 fengu Íslendingar að kynnast nokkrum skipum frá Algeirsborg þar sem nú er Alsír og hefur sá atburður jafnan verið nefndur Tyrkjaránið. Tyrkir eru á þessum tíma fyrst og fremst samheiti í huga Íslendinga fyrir þá sem tilheyra Islam. Reyndar var Algeirsborg á þessum tíma í sambandi við Tyrkjasoldán.

Tyrkir

Tyrkir voru ljótir andskotar.

Tyrkjaránið vakti löngum ótta með íslensku þjóðinni, til eru Tyrkjafælur í kvæðaformi, Vestmannaeyingar komu sér upp eina innlenda hernum sem til hefur verið á Íslandi til að verjast nýrri árás Tyrkja og atburðurinn hefur sest svo vel í minni þjóðarinnar. Þegar keppt er við sárasaklaus Tyrki í knattspyrnu í lok 20. aldar er nóg að rifja atburðina upp til að æsa áhorfendur og keppendur.
Skipin sem komu til Íslands voru fimm. Þau voru þó aldrei öll saman því þau urðu viðskila vegna veðurs en af þeim sökum dreifðust þau meira með ströndum landsins. Tvö þau fyrstu komu til Grindavíkur 20. júní og voru þar teknir um 15 Íslendingar og nokkrir Danir. Þaðan héldu þau inn á Faxaflóa, annað þeirra strandaði utan við Bessastaði og hefur danska hirðstjóranum löngum verið legið á hálsi fyrir þann aumingjaskap að nota ekki tækifærið og tala skipið. Hann lét nægja að bíða vopnaður í landi á meðan ræningjarnir losuðu það. Meðal þeirra sem voru undir vopnum var Jón Ólafsson Indíafari. Að því loknu ætluðu ránsmenn til Vestfjarða en hættu við er þeir fréttu af enskum herskipum og héldu til síns heima.

TyrkjarániðTvö hinna skipanna sigldu fyrst til Austfjarða, tóku land í Berufirði 5. júlí og rændu þar, á Djúpavogi og um næstu byggðir, um Hamarsfjörð, um Breiðdal og jafnvel um Fáskrúðsfjörð. Á Austfjörðum tóku þeir yfir hundrað fanga, drápu nokkra menn. Fjöldi særðist. Fréttirnar bárust fljótt um landið og biðu menn skelkaðir, kæmu skipun í þeirra sveit? Vestmannaeyingar voru þó þeir einu sem urðu fyrir árás, skipin tvö fyir Austfjörðum sneru við út af reyðarfirði vegna andvirðis, hittu fimmta skipið einhvers staðar fyrir sunnan landið og birtust síðan í Eyjum. Þar urðu ægilegustu atburðirnir, Vestmannaeyingar reyndu að flýja en þeir guldu þess að þeir bjuggu á eyju. Tugir voru drepnir, yfir 240 teknir og margar byggingar brenndar.

Tyrkjarán

Tyrkjaránið – veggmynd við Grindavíkurkirkju.

Fljótlega var reynt að kaupa fólkið í Alsír út en það tók sinn tíma, var dýrt og danski kóngurinn blankur eins og getur gerst á bestu bæjum. En tæpum tíu árum eftir ránið voru um 35 fangar keyptir fyrir mikið fé og komust 27 til Kaupmannahafnar. Rétt þótti að fólkið rifjaði upp kristindóminn og var Hallgrímur Pétursson fenginn til þess verks.Ólafur Egilsson (1564-1639) var annar tveggja presta í Vestmannaeyjum 1627. Hann var hertekinn ásamt konu og þremur börnu, einu ófæddu. Hinn presturinn, Jón Þorsteinsson píslavottur, var drepinnn. Ólafur var fljótlega eftir að hann kom til Algeirsborgar sendur til Danmerkur til að reka á eftir kaupum á föngum og kom hann til Íslands tæpu ári eftir ránið, 6. júlí 1628. Stuttu eftir heimkomuna skrifaði hann um þessa reynslu sína og er það rit þekkt undir nafninu Reisubók séra Ólafs Egilssonar.

Ólafur var fyrstur norrænna manna til að skrá frásögn af lífi og háttum fólks í “Barbaríinu” eins og lönd Íslams í Norður-Afríku voru nefnd og er hin mesta furða hversu hlutlægur hann getur verið þegar hann segir frá. Hann segir ekki bara frá því vonda varðandi ræningjana, eins og að þeir hafi drepið fólk og barið hann, heldur einnig því góða, þegar kona hans eingnast barn sýna þeir því hina mestu umhyggju. Hann lýsir staðháttum og klæðnaði hvars em hann er staddur af stakri nákvæmni og má vel sjá fyrir sér sögusviðið og presónur þess.

Tyrkir

Tyrkir.

Sitthvað misskilur hann á ferðalaginu heim enda ekki með nákvæmt landakort og þeir sem hitta hann leika sér að því að gabba hann. Þegar hann lýsir neyð sinni og angist grípur hann til ritningarstaða í Biblíunni og allan tímann er það trúin sem heldur honum uppi og með henni skýrir hann það sem hefur hent:
“Nú, það gengur oss sem herrann vill; nær að vér dæmumst, þá refsumst vér af drottni, svo að vér ekki glötumst með þessum heimi.”
Eiginkona Ólafs, Ásta Þorsteinsdóttir, var ein þeirra sem var leyst úr haldi tæpum tíu árum síðar og kom til Íslands 1637. Börnin þrjú komu aldrei aftur, létu turnast, það er, gengu af trúnni og tóku nýja trú.”

Gengið var framjá dys Járngerðar gegnt Hliði og áfram upp að Garðhúsum. Á túinu norðan við húsið eru minjar, sem forvitnilegt væri að skoða nánar.

Heimild:
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.