Þórkötludys

Ætlunin var að reyna að staðsetja bæ Molda-Gnúps Hrólfssonar, fyrsta landnámsmannsins í Grindarvík og sona hans. Hann átti fjóra sonu, sem taldir eru hafa búið í þremur höfuðhverfum Grindvíkinga, og eina dóttur, Iðunni, er fluttist að Þjóstur á Álftanesi. Synirnir voru: Þórður leggjaldi, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Björn, síðar nefndur Hafur-Björn, sem hafa að öllum líkindum allir sest að í og við Grindavík. Hafa ber í huga að nefndur Molda-Gnúpur kom til landsins um 930.

Hóp

Tóftir á Hópi – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var um svæðin í fylgd Sigurðar Ágústssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Grindavík.
Gamlar tóttir eru bæði suðaustan við Þórkötlustaði og á túni austan við Bjarmaland (Einland). Austasta sjávargatan liggur niður frá Klöpp austan við Buðlungu og enn sést marka fyrir miðgötunni austan við Þórkötlustaði (Miðbæ). Áhugaverðasta tóttin er ferningslaga upphækkaður reitur á nokkuð sléttu túni. Greinilegt er að honum hefur verið hlíft af ásettu ráði því slegið hefur verið í kringum hann. Enginn virðist kunna skýringu á þessari tótt. Hún líkist helst haug eða dys. Mikilvægt er að finna út hvað þetta getur verið.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Birgir Guðmundsson leiddi hópinn um Hópssvæðið. Skoðað var gamla bæjarstæðið norðan við fjárhúsin. Það er á og sunnan í hól. Gamalli tótt, sem þar er, hefur aldrei mátt raska, svonefnd Goðatótt. Þegar staðið er upp á hólnum sést, ef vel er að gáð, mjög gömul jarðlægð tótt, nokkuð stór, norðaustan við hann (við suðvesturhornið á Móum). Út frá henni liggja gamlir grónir skeifulaga garðar upp að greinilega mjög gömlum megingarði er virðist hafa umlukið tóttina ofan frá.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Ef garðinum er fylgt til vesturs er komið að hól, sem gæti verið forn bæjarhóll. Suðvestan við hólinn er gömul jarðlæg tótt, lík hinni. Birgir sagðist hvorki kannast við þessar tóttir né garðinn. Hann hefði aldrei velt þeim fyrir sér. Ofan við megingarðinn er steingarður. Hann liggur nú frá eystra íbúðarhúsinu til austurs og beygir síðan til suðurs, líkt og gamli garðurinn. Í beygjunni er hann farinn að þynnast verulega. Birgir sagði að tekið hefði verið úr garðinum á sínum tíma – þegar grjótið var einhvers virði og hægt var að selja það. Þessi garður hafi áður einnig legið áfram langt til vesturs í átt að Stamphólsgjá.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var að tóttum Hópskots, sem er norðan undir vegg Stakkavíkurfiskverkunarinnar, og eftir hafnargötunni að hópsvörinni og Vatnstanganum neðan hennar, skammt vestan við neðri innsiglingavörðuna.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Austan við garðana er greinilega gömul leið austur í hverfi. Norðan hennar liggur beinn hestavegur til austurs og vesturs. Birgir sagði þetta vera gömlu hestagötuna frá Járngerðarstaðahverfi austur í Þórkötlustaðahverfi. Við götuna á vinstri hönd þegar hún er gengin til vesturs er ílangur gróinn hraunhóll. Birgir sagði að hann hafi ávallt gengið undir nafninu Álfakirkja. Enn lengra til suðurs er hóll, sem nefndur var Öskuhóll. Þar mun ösku hafa verið dreift áður fyrr. Hann er nú algróinn. Skammt vestar og hægra megin við reiðgötuna er greinilega mjög gömul tótt með tveimur rýmum. Ofan hennar er efri innsiglingarvarðan. Birgir sagði að hvorki faðir hans né afi hafi vitað til hvers þessi tótt hafi verið notuð.
Birgir hafði undir höndum örnafnalýsingu á Hópslandi og Þórkötlustaðalandi, m.a. frá 1926, sem hann gaf afrit af. Tækifærið var notað til að rissa upp svæðið. Teikningin hefur nú verið fullgerð.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Litið var á dys Járngerðar í Járngerðarstaðahverfi og á bæjarhólinn á Járngerðarstöðum. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar eru núverandi húsin á eða utan í gamla hólnum. Helst væri hægt að finna minjar í hól norðan og aftan við þann hól.
Í Staðarhverfi hafa túnin verið sléttuð út, enda mikið sandfok mætt þar á. Ef taka á mið af eina hlaðna grjótgarðinum, sem þar er, hefur sandurinn hlaðist upp túnmegin við hann og hulið það, sem þar kann að hafa verið. Í túninu suðvestan við kirkjugarðinn og sunnan við gamla bæjarstæðið, eru hólar. Í öðrum þeirra er gamall bær, sem hét Krukka. Ekki er vitað hvað kann að leynast í hinum hólnum.

Húshólmi

Minjasvæði við Húshólma, ofan hinnar fornu Krýsuvíkur neðan (G)Núpshlíðar.

Leitt er að því líkum að Þórður leggjandi hafi búið í Staðarhverfi og Þórðarfell norðan þess verið nefnt eftir honum. Hafur-Björn hafi búið í Þórkötlustaðahverfi (Hópi) og Þorsteinn hrungnir hafi búið á Járngerðarstöðum. Vitnað er í það í örnefnaskránni að Hóp kunni að hafa áður heitið Hof. Hof er einnig til í Álftafirði þar sem Molda-Gnúpur kom að landi, eins og reyndar flestir landnámsmanna, og settist að. Ef rétt reyndist ætti að vera hægt að finna bæ sonar Hafur-Björns á þessum stað – einu hentugasta svæðinu til slíkrar staðsetningar í Grindavík. Tóttirnar tvær sem og gróinn bæjarhóll á Hópi er mjög forvitnilegt til frekari skoðunar.
En hvar bjó þá Molda-Gnúpur Hrólfsson? Undir (G)Núpshlíðarhálsi. Sýnilegar tóftir í Húshólma og Óbrennishólma gætu verið minjar eftir hann eða afkomendur hans…

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.