Færslur

Grindavík

Engar áreiðanlegar vísbendingar liggja fyrir um bæjarstæði Moldar-Gnúps, þess landnámsmanns er nam land, skv. Landnámu, í Grindavík. Ef vel er að gáð má þó sjá nokkrar vísbendingar þess efnis, einkum er varða afkomendur hans er byggðu þar sem nú er Grindavík. Bent verður á þær hér – þangað til eitthvað annað bitastæðara kemur í ljós.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

[G]núpshlíð, [G]núpshlíðarendi og [G]núpshlíðarháls heitir fjallendi norðan Húshólma og Óbrennishólma í Ögmundarhrauni, þar sem nefnt er “Gamla-Krýsuvík. Ekki er með öllu fyrir það skotið að Molda-Gnúpur hafi búið við ströndina í Krýsuvík. Hraunið er síðar umlukti bæjarstæðið rann um 1151, eða u.þ.b. hundrað árum eftir að hann kom til “Grindavíkur” að sögn Landnámu. Hafa ber í huga að Krýsuvík er í landi Grindavíkur.

Hópsnes

Hópsnes – kort.

Við nákvæmari leitir að bæjarstæði Molar-Gnúps færumst alltaf nær og nær. Ljóst er að maðurinn átti a.m.k. þrjá sonu á lífi; frumvarpið Gnúp, (Hafur) Björn og Þórð (Leggjanda). Þorsteinn er einnig nefndur til sögunnar. Hver og einn þeirra valdi sér bæjarstæði nálægt föður sínum. Vitað er að fjögur býli voru þá og þegar á fjórum stöðum í og við Grindavík; á Húsatóttum, á Járngerðarstöðum, á Hópi og á Þórkötlustöðum. Flestir hallast að því að Hafur-Björn hafi búið á Hofi (Hópi) enda álitlegt höfuðbýli frá fornu fari. Haugur og bæjarhóll, sem þar voru lengi fram eftir öldum, voru því miður ruddir þegar núverandi hús voru byggð.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir 2020.

Járngerðarstaðir voru með beitaraðstöðu á Baðsvöllum, miðbærinn (Hóp) var með selstöðu við Svartsengi og austurbærinn (Þórkötlustaðir) í Fagradal. Húsatóttir (Staður) voru með beitaraðstöðu inn við Þórðarfell. Síðar sameinuðust Grindavíkurbæirnir, vegna óhóflegs beitarálags, um selstöður á Selsvöllum. Tóftir gömlu sameiginlegu selstöður bæjanna eru á austanverðum Völlunum. Selstöðurnar lögðust þarna af um tíma, líklega vegna óvæntra náttúrlegra aðstæðna, en voru síðan teknar upp að nýju í byrjun 19. aldar. Selstöður lögðust síðan af á Grindavíkurbæjunum sem og annars staðar í fyrrum landnámi Ingólfs undir lok aldarinnar.

Ef (G)Núpshlíðarhálsinn heitir eftir Gnúpi er líklegt að hann hafi búið í Húshólma, fyrrum Krýsuvík.
Af landfræðilegum líkum má draga þá ályktun að Hafur-Björn hafi búið á Hópi (Hofi).

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Goðhús var á Hópi (Hofi). Þar er enn (2012) til gamall platti uppi á vegg í stofu með niðjatali Hafur-Björns.
Við forkönnun á framangreindum stöðum kemur og einn annars staður til greina. Hann hefur enn ekki áður verið skoðaður líklegur sem slíkur.

-ÓSÁ tók saman.

Grindavík

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Molda-Gnúður

“Á Norðmæri í Noregi er bærinn Molde. Þar eru nú um 7000 íbúar, eða álíka margir og voru í Reykjavík, þegar landið fékk innlenda stjórn.

Molde

Molde.

Molde stendur norðan Raumsdalsfjarðar á fögrum stað sunnan undir skógi klæddri hlíð. Framundan er fjörðurinn breiður og blár með nokkrum skógareyum og hólmum, en í suðri, handan við hann, rísa hin miklu Raumsdalsfjöll, 87 tindar í einni fylkingu og sumir þeirra rúmlega 2000 metrar á hæð. Er fögur sjón í góðu veðri að horfa yfir fjörðinn til fjallanna.

Romsdal

Raumsdalur.

Molde getur ekki í neinum norskum heimildum fyrr en á 15. öld. Er ætlan manna að staðurinn hafi hafizt með því, að gerð hafi verið sögunarmylna við á sem þar er, og timburútflutningur hafist þaðan. Og enn er flutt út timbur í Molde, enda er nóg af skógunum þarna í grenndinni.
En þar sem Molde stendur nú mun hafa heitið Moldatún á landnámstíð. Landnáma segir frá því, að þar hafi búið sá maður er Hrólfur höggvandi hét, og bendir viðurnefni hans til þess að hann hafi ekki verið neinn skapdeildarmaður né friðarsinni. Tvo sonu átti hann og hétu þeir Vémundur og Gnúpur. Þeir voru járnsmiðir miklir og vígamenn. Þess er getið að Vémundur kastaði fram þessum hendingum í smiðju sinni:

Eg bar einn
af ellefu
banaorð.
Blástu meir!

Romsdal

Merki Raumsdals.

Af honum höfum vér ekki aðrar sagnir, en Gnúpur bróðir hans varð að flýa land fyrir vígasakir þeirra bræðra. Hann var þá kenndur við staðinn þannig, að hann var kallaður Molda-Gnúpur. Hann fór til Íslands og gerðist þar landnámsmaður, og er merkileg saga af honum og niðjum hans. Ekki er þess getið hvar Molda-Gnúpur tók land. Ef til vill hefir hann komið skipi sínu í fjörð þann, er Kerlingarfjörður nefndist og þá var rétt vestan við Hjörleifshöfða, eða þá í Kúðafljótsós, því að hann „nam land milli Kúðafljóts og Eyarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftaveiðar á“, segir Landnáma.
Ólíkt hefir þetta land verið ættaróðali hans Moldatúni norðan Raumsdalsfjarðar, nema hvað hér sá til snævi þakinna fjalla, Mýrdalsjökuls í norðri og Öræfajökuls í austri. Þarna voru engir skógar, en graslendur víðar, því að þá var öðruvísi um að litast á þessum slóðum en nú er. Þá mun hafa verið skógarkjarr og graslendi milli fjalls og fjöru þar sem nú er Mýrdalssandur.

Molde

Merki Molde.

Sagan segir að skjótt hafi orðið fjölbyggt í landnámi Molda-Gnúps, og náði byggðin langleiðis upp að Leirá, sem fellur í Hólmsá. Eru enn kunn nöfn á ýmsum bæjum þarna, þar sem nú er svartur eyðisandur, svo sem Dynskógar, Hraunstaðir, Keldur, Loðinsvíkur, Atlaey og Laufskálar, þar sem nú heitir Laufskálavarða. Á ofanverðri 17. öld létu þeir sýslumennirnir Einar og Hákon Þorsteinssynir leita þar sem örnefni bentu til að bæir þessir hefði staðið, og fundust þar leifar húsatótta og önnur mannaverk, en ekkert af gripum, nema í Dynskógum. Þar fannst eirketill mikill, sem tók rúmlega 2 tunnur. Mátti á þessu sjá, að sannar voru sögurnar um byggð þarna á landnámsöld.
Ekki hafði byggðin staðið lengi, er eldsumbrot urðu í jöklinum, og telja menn að þá hafi komið fyrsta Kötlugosið. Jökulhlaupið mun hafa farið austur af jöklinum, og tók það af byggð og allt graslendi fyrir ofan Álftaver, allt að Skálm, en sennilega hefir vatnsflaumurinn einnig farið yfir Álftaver.

Katla

Kötlugos 1918.

Slíkum náttúruhamförum höfðu landnámsmenn ekki átt að venjast, og flýði nú hver sem flúið gat. Sumir fóru ekki lengra en í svonefnt Lágeyarhverfi og settust þar að. Sú byggð var vestan Eyarár, og náði utan frá sjó og langt upp með ánni. Hafa verið þar margir bæir og vita menn um nöfn á þessum: Lágey, Lambey (þar sem nú heitir Lambeyjarjökull), Rauðilækur og Holt. En í Kötluhlaupi, sem kom upp úr jólum 1311, hvarf þessi byggð svo algjörlega, að hennar hefir ekki séð stað síðan. Hús, engjar og hagar hurfu undir sand, allur fénaður fórst og allir menn, nema einn bóndi, er Sturla hét, komst undan á ísjaka með ungbarn. Er hlaup þetta síðan nefnt Sturluhlaup.

Molda-Gnúpur og fólk hans flýði lengra vestur á bóginn. Jökulhlaupið hefir sennilega komið um haust, því að þeir treystust ekki að halda lengra en til Höfðabrekku og gerðu sér tjaldbúðir þar sem síðan heita Tjaldavellir. Eru þeir norður og vestur af Háafelli, sem er austur af Kerlingardal.

Skjaldamerki

Skjaldamerki Íslands.

Segir í Eldriti Markúsar Loftssonar, að þar sjást enn búðastæðin.
Bóndanum í Kerlingardal líkaði ekki þessi heimsókn og bannaði hann þeim að vera þarna. Fluttust þeir þá „í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar”. Þarna kallast nú Kaplagarðar austan í fellinu. Ekki fara neinar sögur af þessum ófriði, en sjálfsagt hafa sættir komizt á, og hefir það dæmzt á Molda-Gnúp og menn hans að greiða Kerlingardalsbónda skaðabætur, þar sem þeir settust í óleyfi í land hans.
Nú segir sagan, að þeir hafi haft kvikfé fátt, og er það ekki ólíklegt, því að þeir hafa orðið að lifa á kvikfénu um veturinn, því er bjargaðist úr hlaupinu. Hafa þeir því ekki getað greitt sektarféð í fríðu. En sagt er að þeir hafi látið Kerlingardalsbónda fá svonefnda Dynskógafjöru, en það er rekastúfur á milli Hjörleifshöfðafjöru og Herjólfsstaðafjöru.

Hjörleifshöfði

Hjörleifshöfði – tóftir.

Handsöl munu hafa verið gerð að þessu, en samningurinn verið munnlegur. Þó hefir hann dugað í þúsund ár. Hann er enn í gildi og elztur allra samninga á Íslandi svo vitað sé. Gildi hans kom í ljós fyrir nokkrum árum, þegar deilt var um járnið úr „Persier“ á Dynskógafjöru. Þá var það ekki neitt vafamál, að Kerlingardalur átti þennan fjörustúf.
Molda-Gnúpur helt för sinni áfram vestur á bóginn í landaleit, og létti ekki fyr en hann kom í Grindavík. Þar var þá ónumið og settist hann þar að. Fjórir eru nefndir synir Molda-Gnúps: Björn, Þorsteinn, Þórður og Gnúpur. Komu þeir sér fljótt í vinfengi við landvættir, því „það sáu ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Birni til þings, en Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar“.

MýrdalurSíðan dreymdi Björn, að bergrisi kom að honum og bauð að gera félag við hann, en hann játti því. „Eftir það kom hafur til geita hans og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður”, segir Landnáma.
Í Heimskringlu er getið um landvættir á Reykjanesskaga. Þegar galdramaður Haralds konungs Gormssonar ætlaði að ganga á land á Vikraskeiði (vestan Ölfusárósa) „kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum“. Bergrisinn með járnstafinn er nú í skjaldarmerki Íslands, en var þetta ekki sami bergrisinn sem gerði félag við Hafur-Björn?

MýrdalurNú víkur sögunni austur í Rangárvallasýslu, að svæðinu milli Þjórsár og Ytri-Rangár, sem áður nefndist Þjórsárholt. Það var einkennilegt um landnám þarna, að allan neðra hlut Þjórsárholta byggðu keltneskir menn.
Holtin hafa verið keltnesk byggð upphaflega. Þetta ber að hafa í huga, þegar litið er á hinar merku fornminjar sem þar eru, hellana, elztu mannvirki á Íslandi. Mönnum ber saman um, að hellarnir sé ekki gerðir af norrænum mönnum, því að þeir hafi ekki kunnað slíka húsagerð. Aftur á móti hafi Keltar kunnað hana, og þess vegna hafa margir hallast að því að hellarnir sé frá dögum Papa. En gæti þeir ekki eins verið handaverk keltnesku landnámsmannanna? Eða settust keltneskir landnámsmenn þarna að, vegna þess að þar voru Papar fyrir? Eða var þarna keltnesk byggð áður en norrænir menn komu, og hún látin í friði?

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Ráðormur bjó í Vetleifsholti. Dóttir hans hét Arnbjörg. Hún giftist Svertingi, syni Hrolleifs. Önnur dóttir þeirra Svertings var Jórunn kona Hafur-Bjarnar.
Svertingur Hrolleifsson varð ekki gamall og giftist þá ekkja hans Gnúpi Molda-Gnúpssyni. Sonur Hafur-Bjarnar og Jórunnar hét Svertingur. Hann giftist Húngerði Þóroddsdóttur. Frá Sverting og Húngerði voru Sturlungar komnir. Iðunn hét dóttir Molda-Gnúps og átti þann mann er Þjóstarr hét og bjó í Görðum á Álftanesi.

Hellir

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.

Enda þótt landkostir í Álftaveri hafi verið harla ólíkir landkostum við Raumsdalsfjörð, þá tók þó úr er Molda-Gnúpur tók sér byggð í Grindavík, þar sem var lítt gróið hraun niður að sjó. Það hefir því skjótt orðið þröngt um þá bræður fjóra þar. Þess vegna ætla menn að Hafur-Björn hafi farið þaðan er hann kvongaðist, og reist sér þann bæ á Romshvalanesi, er síðan er við hann kenndur og heitir Hafurbjarnarstaðir, rétt norðan við Kirkjuból, hinn sögufræga stað, og skammt frá hinum mikla garði, sem eitt sinn lá þvert yfir skagann og Garðskagi dregur nafn af.

„Frá Molda-Gnúpi er margt stórmenni komið á Íslandi, bæði biskupar og lögmenn“, segir í Hauksbók. Og eflaust eiga allir núlifandi Íslendingar ættir sínar að rekja til Hafur-Bjarnar, sonar hans og konu hans Jórunnar Svertingsdóttur.

Arfabót

Arfabót – minjar.

Fornöldin er nær okkur en öðrum þjóðum. Við vitum hverjir byggðu þetta land í öndverðu, og tengslin við þá hafa aldrei rofnað. „Tími er svipstund ein sem aldrei líður“ og það er örstutt milli fortíðar og nútíðar á Íslandi. Samningurinn, sem Molda-Gnúpur gerði við Kerlingardalsbónda er jafn gildur í dag og hann var fyrir þúsund árum. Hann tengir fortíð og nútíð. Bergrisinn hans Hafur-Bjarnar tengdi einnig fortíð, nútíð og framtíð.” – Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. febr. 1961, Húsfreyjan að Hafurbjarnastöðum, Árni Óla, bls. 101-105.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Þórkötludys

Ætlunin var að reyna að staðsetja bæ Molda-Gnúps Hrólfssonar, fyrsta landnámsmannsins í Grindarvík og sona hans. Hann átti fjóra sonu, sem taldir eru hafa búið í þremur höfuðhverfum Grindvíkinga, og eina dóttur, Iðunni, er fluttist að Þjóstur á Álftanesi. Synirnir voru: Þórður leggjaldi, Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Björn, síðar nefndur Hafur-Björn, sem hafa að öllum líkindum allir sest að í og við Grindavík. Hafa ber í huga að nefndur Molda-Gnúpur kom til landsins um 930.

Hóp

Tóftir á Hópi – uppdráttur ÓSÁ.

Farið var um svæðin í fylgd Sigurðar Ágústssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Grindavík.
Gamlar tóttir eru bæði suðaustan við Þórkötlustaði og á túni austan við Bjarmaland (Einland). Austasta sjávargatan liggur niður frá Klöpp austan við Buðlungu og enn sést marka fyrir miðgötunni austan við Þórkötlustaði (Miðbæ). Áhugaverðasta tóttin er ferningslaga upphækkaður reitur á nokkuð sléttu túni. Greinilegt er að honum hefur verið hlíft af ásettu ráði því slegið hefur verið í kringum hann. Enginn virðist kunna skýringu á þessari tótt. Hún líkist helst haug eða dys. Mikilvægt er að finna út hvað þetta getur verið.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins.

Birgir Guðmundsson leiddi hópinn um Hópssvæðið. Skoðað var gamla bæjarstæðið norðan við fjárhúsin. Það er á og sunnan í hól. Gamalli tótt, sem þar er, hefur aldrei mátt raska, svonefnd Goðatótt. Þegar staðið er upp á hólnum sést, ef vel er að gáð, mjög gömul jarðlægð tótt, nokkuð stór, norðaustan við hann (við suðvesturhornið á Móum). Út frá henni liggja gamlir grónir skeifulaga garðar upp að greinilega mjög gömlum megingarði er virðist hafa umlukið tóttina ofan frá.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Ef garðinum er fylgt til vesturs er komið að hól, sem gæti verið forn bæjarhóll. Suðvestan við hólinn er gömul jarðlæg tótt, lík hinni. Birgir sagðist hvorki kannast við þessar tóttir né garðinn. Hann hefði aldrei velt þeim fyrir sér. Ofan við megingarðinn er steingarður. Hann liggur nú frá eystra íbúðarhúsinu til austurs og beygir síðan til suðurs, líkt og gamli garðurinn. Í beygjunni er hann farinn að þynnast verulega. Birgir sagði að tekið hefði verið úr garðinum á sínum tíma – þegar grjótið var einhvers virði og hægt var að selja það. Þessi garður hafi áður einnig legið áfram langt til vesturs í átt að Stamphólsgjá.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var að tóttum Hópskots, sem er norðan undir vegg Stakkavíkurfiskverkunarinnar, og eftir hafnargötunni að hópsvörinni og Vatnstanganum neðan hennar, skammt vestan við neðri innsiglingavörðuna.

Hraun - kort

Hraun í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ. Á kortinu má sjá Hrauntún.

Austan við garðana er greinilega gömul leið austur í hverfi. Norðan hennar liggur beinn hestavegur til austurs og vesturs. Birgir sagði þetta vera gömlu hestagötuna frá Járngerðarstaðahverfi austur í Þórkötlustaðahverfi. Við götuna á vinstri hönd þegar hún er gengin til vesturs er ílangur gróinn hraunhóll. Birgir sagði að hann hafi ávallt gengið undir nafninu Álfakirkja. Enn lengra til suðurs er hóll, sem nefndur var Öskuhóll. Þar mun ösku hafa verið dreift áður fyrr. Hann er nú algróinn. Skammt vestar og hægra megin við reiðgötuna er greinilega mjög gömul tótt með tveimur rýmum. Ofan hennar er efri innsiglingarvarðan. Birgir sagði að hvorki faðir hans né afi hafi vitað til hvers þessi tótt hafi verið notuð.
Birgir hafði undir höndum örnafnalýsingu á Hópslandi og Þórkötlustaðalandi, m.a. frá 1926, sem hann gaf afrit af. Tækifærið var notað til að rissa upp svæðið. Teikningin hefur nú verið fullgerð.

Járngerðardys

Dys Járngerðar – áður en malbikað var hana.

Litið var á dys Járngerðar í Járngerðarstaðahverfi og á bæjarhólinn á Járngerðarstöðum. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar eru núverandi húsin á eða utan í gamla hólnum. Helst væri hægt að finna minjar í hól norðan og aftan við þann hól.
Í Staðarhverfi hafa túnin verið sléttuð út, enda mikið sandfok mætt þar á. Ef taka á mið af eina hlaðna grjótgarðinum, sem þar er, hefur sandurinn hlaðist upp túnmegin við hann og hulið það, sem þar kann að hafa verið. Í túninu suðvestan við kirkjugarðinn og sunnan við gamla bæjarstæðið, eru hólar. Í öðrum þeirra er gamall bær, sem hét Krukka. Ekki er vitað hvað kann að leynast í hinum hólnum.

Húshólmi

Minjasvæði við Húshólma, ofan hinnar fornu Krýsuvíkur neðan (G)Núpshlíðar.

Leitt er að því líkum að Þórður leggjandi hafi búið í Staðarhverfi og Þórðarfell norðan þess verið nefnt eftir honum. Hafur-Björn hafi búið í Þórkötlustaðahverfi (Hópi) og Þorsteinn hrungnir hafi búið á Járngerðarstöðum. Vitnað er í það í örnefnaskránni að Hóp kunni að hafa áður heitið Hof. Hof er einnig til í Álftafirði þar sem Molda-Gnúpur kom að landi, eins og reyndar flestir landnámsmanna, og settist að. Ef rétt reyndist ætti að vera hægt að finna bæ sonar Hafur-Björns á þessum stað – einu hentugasta svæðinu til slíkrar staðsetningar í Grindavík. Tóttirnar tvær sem og gróinn bæjarhóll á Hópi er mjög forvitnilegt til frekari skoðunar.
En hvar bjó þá Molda-Gnúpur Hrólfsson? Undir (G)Núpshlíðarhálsi. Sýnilegar tóftir í Húshólma og Óbrennishólma gætu verið minjar eftir hann eða afkomendur hans…

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Járngerðarstaðir
Í Landnámu (Sturlubók) er þess getið að Molda-Gnúpur Hróflsson hafi numið Grindavík, líkleg aum 934, og Þórir haustmyrkur Vígbóðsson nam Selvog og Krýsuvík
Synir Molda-Gnúps voru Gnúpur, Björn, Þorsteinn og Þórður. Einkona Gnúps var Arnbjörg Ráðormsdóttir og Björn giftist Jórunni dóttur Arnbjargar og Svertings Hrolleifssonar (á Hrauni). Í annarri útgáfu Landnámu (Hauksbók) segir að Gnúpur hafi fallið ásamt 2 sonum sínum í átökum við Kaplagarða um veturinn. Hinir synirnir; Björn, Þórður og Þorsteinn, hafi hins vegar numið land í Grindavík.

Herósdes

Heródes- letursteinn.

Lítið er vitað um byggð í Grindavík fyrstu 300 árin. Má það teljast eðlilegt því á ofanverðum þeim tíma hefur byggðin líklega tæmst um tíma. Um 1150 byrjaði að gjósa austan við Grindavík og aftur um 1188. Mikið hraun rann. Um svipað leyti byrjaði að gjósa að austanverðu. Um 1211 færist goshrinan nær (Eldvörpin) og enn 1226 þegar Illahraun og Afstapahraun ógna byggðinni. Ekki er ólíklegt að fólk hafi þá verið búið að fá nóg og því flutt sig til öruggari staða, a.m.k. um tíma.
Líklegt má telja að Molda-Gnúpur Hrólfsson, eða synir hans, hafi sest að þar sem nú er Hóp (aðrir nefna Þórkötlustaði). Fyrrnefnda nafnið bendir til þess þar sem bæ sinn í Álftaveri þar veturinn áður hafði hann nefnt Hof er gæti hafa breyst í Hóp eftir að kristni var innleidd. Önnur vísbending eru aðstæður þær, sem verið hafa þar á þeim tíma. Ferskt vatn rann undan klöppunum, en það er óvíða að fá á þessu svæði, nema ef vera skyldi í Gerðisvallabrunnum vestan við Járngerðarstaði. Fjörubeit hefur verið góð, auk þess sem skipalagi hefur hvergi verið betra en í Hópinu.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið 1939.

Áður en opnað var inn í Hópið var þar fyrir ós, sem hægt var að komast um á flæði. Grasbleðill hefur og verið þarna við ströndina og tiltölulega greiðfært til fjalla þar sem nýleg hraun voru ofar. Ströndin, bæði að austanverðu og vestanverðu hafa verið allt annars eðlis og legið miklu mun lengra inn í skagann. Há björg hafa einkennt austurströndina, en litlar grónar víkur verið á milli Ísólfsskála og Krýsuvíkurbjargs. Gróið hefur verið í hlíðum Þorbjarnarfells (elsta fellið á svæðinu) og því vænlegt til selstöðu.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Synirnir voru fullvaxta er hér var komið sögu. Gnúpur hefur væntanlega fyrst tekið sér kvonfang og þurft búsílag. Hinn veraldarvani Molda-Gnúpur, sem fengið hafði viðurnefni (virðingarheiti) sitt frá fæðingarstað hans í Moldartúni á Norðmæri í Norðmæri í Noregi, hefur væntanlega viljað tryggja land sitt að austan, þar sem búið var í Hlíð við Hlíðarvatn í Selvogi. Hann hefur því væntanlega fengið syni sínum land þar sem áður var við Krýsuvík, á ystu mörkum þess tíma. Ofar er Gnúpshlíðarháls og Gnúpshlíðarhorn syðst. Ögmundarhraun rann síðar yfir byggðina um 1151, en hlífði austasta hluta hennar að hluta. Byggðin þar hafði þá náð að þróast í u.þ.b. 211 ár. Líklega hefur Þórir haustmyrkur og hans afkomendur lagt einhverju af sínu fólki til land vestast á landssvæði sínu, til mótvægis við byggð Grindarvíkurbóndans. Þær minjar, sem nú sjást í Húshólma og Óbrennishólma, gætu verið leifar þeirrar byggðar. Byggðin hefur legið vel við sjósókn, fuglar í björgum og greiðfært hefur verið til upplandsins til hrísöflunar eftir hálsunum.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

Venjan var sú að elsti sonurinn tæki bú eftir föður sinn. Björn hefur því væntanlega verið elstur því ýmislegt bendir til þess að hann hafi tekið við búinu að Hópi eða flust þangað sem nú eru Járngerðarstaðir. Ekki er ósennilegt að í heiðni hafi Björn fengið viðurnefnið Þór, þ.e. elstur og æðstur bræðranna, en með kristninni hafi Hafurs-viðurnefnið orðið ofan á, sbr. draumasögnina um bergbúann og geithafurinn er kom í framhaldi af því til hjarðar Björns. Sagt var að landvættir allir hafi fylgt honum og bræðrum hans til þings og veiða. Fellið Þorbjörn ofan við Grindavík (Hóp) mun heita eftir Hafur-Birni.
Líklegt er að Þórði hafi verið fengið land á austurmörkum hins byggilega hluta landnámsins, þ.e. í Staðahverfi. Þórðarfellið ofan við Staðahverfi gæti bent til þess, en sagt er að fellið hafi verið nefnt eftir honum.

Hóp

Hóp – loftmynd.

Þá er Þorsteinn einn eftir. Þar sem mest land við sjó, þar sem fiskur, fugl, reki, þang og þari þóttu hlunnindi, var að mestu frátekið þegar lengra var litið, var ekki um annað að ræða en líta nær eftir landkostum. Þá komu annað hvort núverandi Járngerðarstaðir eða Þórkötlustaðir til greina. Rannsókn sem gerð var við byggingu hlöðu við Vesturbæ í Þórkötlustaðahverfi, bentu til þess að þar hafi komið upp tóft landnámsskála (Brynjúlfur Jónsson).

Skír skírskotun til sagna, sbr. heiðnar dysjar Járngerðar og Þórkötlu, benda til fornra bæjarstæða á hvorum staðnum fyrir sig. Á báðum þessara staða hafa sjósóknarskilyrði verið góð, en þó mun betri á Þórkötlustöðum. Bæði hefur þar verið afmarkaðra land frá Hópi og nærtækara að sækja búbjörg í björgin þar austan við.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Fiskimiðin leggja og betur við og rekamöguleikar þar hafa verið umtalsverðir. Húsafjall og Fiskidalsfjall ofan við Þórkötlustaði (Hraun), benda einnig til ákjósanlegrar búsetu á því svæði.
Hinar fornu þjóðleiðir, sem sjá má djúpt markaðar í bergið, jafnt frá Hópi, Járngerðarstöðum og Staðahverfi, benda til mikillar umferðar til og að þessum stöðum lengi og alllöngum í gegnum aldirnar. Skógfellahraunið, sem Skógfellastígur ofan við Hóp, liggur um, er einna mest markaður, enda hraunið mun eldra en landnámið.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Þórkötlustaðahverfið freistaði Skálholtsstóls þegar á 12. öld. Þar þar var ein mesta útgerð stólsins þegar á 14. öld og í raun undirstaða útflutningsverslunar hans fram eftir öldum.
Járngerðarstaðahverfið byggðist síðast upp fyrir alvöru af hinum þremur hverfum er mynda Grindavík í dag. Ljóst er þó að þar hefur verið orðið mannmargt þegar verslun Þjóðverja og Englendinga stóð sem hæst á 15. og 16. öld. Það var skreiðin, sem í rauninni var bitist um. Hún var svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostani þess í Íslandssiglingum og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Af þessu má sjá að það var til mikil að vinna, bæði hvað snerti verslun og fiskvinnslu. Þar gegndi Grindavík lykilhlutverki lengi vel. Minjar fiskverkunarinnar má sjá á nokkrum stöðum við Grindavík, s.s. á Selatöngum vestan gömlu Krýsuvíkur, Í Skollahrauni austan Ísólfsskála, í Slokahrauni austan Þórkötlustaðahverfis, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi og ofan við Staðarhverfi.
Á Járngerðarstöðum hefur “Tyrkjunum” þótt vænlegt að lenda árið 1627 og þar hóf Einar Einarsson í Garðhúsum verslun sína fyrir 1890, en rekja má upphaf kaupstaðarins til þeirrar verslunar og athafnalífsins í kringum hana. Lengi vel voru aðeins tveir “kaupstaðir” á Reykjanesskaganum, Grindavík og Hafnarfjörður. Tilkoma hafnarinnar í Hópinu árið 1939 hleypti lífi í þorpið og stækkun hafnarinnar þar upp úr 1950 lífi í athafnalífið, en fólksfjölgun og virkt athafnalíf hefur jafnan farið saman í Grindavík í gegnum aldirnar.
Grindavík flaggaði 30 ára kaupstaðarafmæli árið 2004, en bærinn er sá staður á landinu, sem hvað mest ógn hefur staðið af landinu, en getur að sama skapi þakkað farsæld sína hafinu. Nú er bæjarfélagið hins vegar á þeim tímamótum að geta einnig gert innlandið að verðmætum, þ.e. jarðorkuna, náttúruna og hið nýmótaða umhverfi þess. Og ekki má geyma möguleikum ferðaþjónustunnar, en það er sú atvinnugrein, sem er í hvað mestum vexti hér á landi. Útgerðin er ekki síst uppruninn, þ.e. landnámið og sögulegar minjar. Af þeim er Grindavík æði rík.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Grindavík

Í Sjómannadagsblaðinu 1976 er fjallað um “Grindavík – hina dæmigerðu verstöð”.

Grindavík“Ef maður ætti að stinga upp á dæmigerðri sunnlenskri verstöð að fornu og nýju, kæmi nafn Grindavíkur fljótlega upp í hugann. Haugabrim, grýtt lending og saltur stormurinn vælir í hraunum og gjótum. Manneskjurnar, stórhentir menn, svipmiklar konur og glaðvær börn, og búsmalinn nagar sölt stráin sem þar eru sverari í rótina en annarsstaðar, eins og hann Jón í Möðrudal orðaði það. Svo koma umskiptin. Stór og falleg hús, höfn, viðlegupláss fyrir hundrað skip, félagsheimili og hitaveita og þegar vindurinn blæs og hann hífir upp sjó, er skjól í höfninni fyrir næðingnum, skjól í húsunum og búfé sést naumast lengur.
Saga Grindavíkur er líklega jafnlöng sögu íslensku þjóðarinnar eftir að land byggðist. Það kemur af sjálfu sér. Til þess þarf engar bækur, aðeins heilbrigða skynsemi. Fiskur fyrir landi og útræði voru vandfundin; annars segir svo í Landnámu: „Maður hét Hrólfur Höggvandi. Hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur. Þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir.
Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu og gerðist þar fjölbyggt, áður en jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldvelli. En Vémundur, sonur Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn.”

Hóp

Líkleg bólfesta fyrsta landnámsmannsins í Grindavík.

[Frá Hrossagarði sigldu þeir til Grindavíkur og settust þar að, Molda-Gnúpur og fylgdarlið.]
Það fylgir ekki sögunni hvaða búskaparhættir voru stundaðir í Grindavík [fyrrum], en maður getur sér þess til að þeir hafi verið með líkum hætti og annarsstaðar við sjávarsíðuna, sjóróðrar og kvikfjárrækt. Sé á hinn bóginn gripið til þess að geta í eyðurnar, tekur varla betra við. Stöðum eins og Grindavík, mannlífi fornmanna þar yrði betur lýst í tónverki eða ljóði. Einu má þó slá föstu, að þar hefur fólk búið allar götur síðan og þvílíku ástfóstri hafa menn tekið við þennan stað, að búseta hefur aldrei niður fallið [utan jarðeldisáranna 1150-1270].
Til er örstutt lýsing á Grindavík, rituð fyrir meir en fjórum áratugum af norðlenskum bónda, Jóni Sigurðssyni á Ystafelli en hún hljóðar svo: „Grindavík er sunnan á (Reykjanes) skaganum vestanverðum og mjög langt er til næstu byggða. Þar er haglendi nokkurt, en engjar eru litlar. Hraun ganga allsstaðar í sjó fram, með smáhöfðum og vogum á milli, en ofan við byggðina mörg smáfell og núpar. Þykir fagurt í Grindavík. Bæir standa hér í þorpum margir saman, þar sem helst eru lendingar. Er útræði aðalbjargræði manna, þó að brim séu mikil og nægð af skerjum og boðum fyrir landi. Þó eiga Grindvíkingar allmargt sauðfjár.
Oft rekur dauðan fisk í Grindavík. Eru brimin svo sterk, að fiskar ráða ekki ferðum sínum á grunnsævi, og rotast á boðum og skerjum. Eitt sinn t.d. urðu fjörur rauðar af karfa eftir stórbrim. Slíkur reki var algengur víða sunnanlands.
Skálholtsbiskupar höfðu öldum saman aðalútræði úr Grindavík. Svo voru þeir voldugir, að þeir fengu þar kaupstað settan vegna skreiðar sinnar, þó að afskekkt væri og hafnlaust að kalla.”
Svona kemur hinum greinda norðlenska bónda Grindavík fyrir sjónir og má aetla að svipuð hafi myndin verið í huga landsmanna fyrr á tímum.
En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var ritað. Grindavík, einsog hún er í dag, er nýtískubær, malbikaður vetur um Suðurnes og til Reykjavíkur, banki, sýsluskrifstofa og hvaðeina, sem þarf til þess að reka nýtísku bæjarfélag og höfnin er bæði stór og fullkomin, þótt skip ráði nú ekki alltaf ferðum sínum inn og út, eins og fiskurinn forðum.
En þrátt fyrir allt, þá er nú ekki lengra síðan en svo að menn báru fisk upp úr skipum [á baki] við klappir og garða að menn á góðum aldri réru í sínu ungdæmi úr grýttri vör.

Atvinnuvegir Grindvíkinga
Grindavík
Í ágætri grein sem Eiríkur Alexandersson, bæjarstjóri, ritaði um Grindavík í Sveitarstjórnarmál árið 1974 segir hann þetta um atvinnu Grindvíkinga; „Upp úr síðustu aldamótum færðist landbúnaðurinn frekar í aukana, og var þá farið að auka ræktun túna. Eftir 1920 þótti t.d. sjálfsagt að nota landlegudaga, sem oft voru margir, til að skera ofan af ræktanlegu landi og gera úr því tún. Verkfæri voru ristuspaði, skófla og haki. Til sömu tíðar jókst og útgerðin, og um 1920 munu 24 bátar hafa verið gerðir út frá Grindavík frá hinum 3 aðallendingarstöðum í hreppnum, sem þá voru í Staðarhverfi, Járngerðarstaðahverfi og Þorkötlustaðahverfi.
Sem áður er sagt, voru árabátar notaðir frá landnámstíð allt til ársins 1926. Þá fyrst voru vélar settar í 2 báta, sem notaðir voru á vetrarvertíð, og hétu þeir eftir það trillubátar. Þetta lánaðist svo vel, að í árslok 1927 var búið að setja vélar í alla báta í hreppnum nema einn. Á vetrarvertíð árið eftir mátti segja, að trillubátaöldin væri gengin í garð í Grindavík, þar sem þá voru allir bátar komnir með vél.
Eins og allir vita, liggur Grindavík fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengur óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkast þess vegna löngum af því, að hægt væri að setja þá á land. M.a. af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna í báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafnarskilyrði voru betri frá náttúrunnar hendi.
Fljótlega upp úr aldamótunum komu spil til sögunnar til að draga bátana á land. Spil þessi voru smíðuð úr tré, og gengu menn umhverfis þau og sneru þeim þannig, að dráttartaugin vatst upp á lóðrétt kefli. Spil þessi voru seinna endurbætt, svo að hægt var að nota þau við setningu trillubátanna, og síðan voru þau látin duga til að draga dekkbátana, sem voru 7-8 lestir að stærð.

Húsatóftir

Húsatóftir og Grindavík – uppdráttur frá einokunarverslunartíma Dana. Enn má sjá minjar dönsku verslunarinnar neðan við Húsatóftir.

GrindavíkSem sögur herma, mun kóngsverzlun hafa verið í Staðarhverfinu fram til ársins 1745, en hana tók af í náttúruhamförum. Þessi staður mun því frá upphafi hafa verið talinn líklegust lega fyrir báta. Af þeim sökum mun útgerð dekkbáta fyrst hafa verið reynd frá Staðarhverfinu, og á árunum 1920-24 voru 2 dekkbátar gerðir út þaðan, en sú útgerð lagðist þó niður af ýmsum ástæðum.
Upp úr 1930 er svo farið að dekka síærri trillubátana og olli það vaxandi erfiðleikum við að setja þá með þeim frumstæðu spilum, sem áður er lýst. Varð það til þéss, að menn fóru að gera þvi skóna að grafa ós í gegnum rifið, sem lokaði Hópinu í Járngerðarstaðahverfi, og menn sáu að gæti orðið gott skipalægi, hvernig sem viðraði.
Á árinu 1939 er svo ráðizt í að grafa ósinn með handverkfærum og eftir þá framkvæmd gátu þeir bátar, sem þá voru til, komizt inn í Hópið á hálfföllnum sjó og fengið þar örugga legu. Árið 1945 var fengið dýpkunarskip, sem Reykjavíkurhöfn átti til að grafa ósinn, og má þá segja, að útgerðarsaga Grindavíkur í nútímastíl væri hafin. Síðan hefur nær óslitið verið unnið að endurbótum í Hópinu og hamarmannvirki verið byggð, svo að nú er Grindavíkurhöfn orðin ein öruggasta bátahöfn á landinu. Innsiglingin (sundið) er þó enn eins og á dögum Molda-Gnúps, erfið og varasöm. Gengur úthafsaldan óbrotin inn á grynningar í víkinni, og verður hún stundum ein samfelld brimröst, sem engri fleytu er fært um. Með stærri og betri skipum verða landlegudagar vegna brima þó sífellt fátíðari.
Á árunum 1939-1942 varð mikill afturkippur í athafnalífi og þróun Grindavíkur. Voru þar að verki áhrif frá heimsstyrjöldinni síðari 1939-1945, sem þá geisaði. Markaðir lokuðust fyrir fisk í Miðjarðarhafslöndum Evrópu þegar í byrjun stríðsins, svo að saltfiskurinn, sem var aðalframleiðslan, lá óseldur fram eftir ári 1939. Þegar svo úr rættist í árslok og Bretar fóru að kaupa allan saltfisk af Íslendingum og síðan alla okkar fiskframleiðslu til stríðsloka, var hin svokallaða setuliðsvinna komin til sögunnar. Mannaflinn fór í hana, en útgerð dróst mjög saman. Ýmsir fluttu þá í burtu og fólkinu fækkaði. Þetta lagaðist þó aftur fljótlega upp úr 1945 með tilkomu betri hafnarskilyrða í Hópinu, sem áður er getið.

Grindavík

Grindavík – Málverk Lindu Oddsdóttur.

Landbúnaður var lengst af annar aðalatvinnuvegur Grindvíkinga og stundaður af kappi fyrst og fremst sem hliðargrein við sjávarútveginn.
Upp úr síðustu aldamótum færðist svo nýtt fjör í búskapinn með aukinni ræktun túna, eins og fyrr er sagt. Samkvæmt landbúnaðarskýrslum er búfjáreign Grindvíkinga árið 1930 63 nautgripir, 2781 sauðkind og 67 hross. Árið 1940 eru samsvarandi tölur 92 nautgripir, 2857 sauðkindur og 51 hross, og virðist búskapur þá vera í hámarki.

Eftir að höfn er byggð í Hópinu og grundvöllur skapaðist fyrir útgerð stærri báta, má segja, að mikil breyting verði á atvinnuháttum hreppsbúa. Fleiri og fleiri fara að byggja afkomu sína eingöngu á útgerð og fiskiðnaði, en landbúnaði hrakar til sömu tíðar. Árið 1945 virðist þessi neikvæða þróun vera hafin, en þá eru 80 nautgripir, 2386 sauðkindur og 78 hross til í hreppnum. Nautgripum fækkaði mjög á næstu árum, og 1963 er síðustu kúnni fargað. Enn er þó sauðfjárrækt nokkuð stunduð, en aðallega af eldri mönnum í hjáverkum. Nú eru 1429 sauðkindur og 26 hross í hreppnum og fækkar með hverju ári.”
Ennfremur hefur bæjarstjórinn þetta að segja um byggðaþróun í Grindavík, í sömu grein:

Íbúa- og byggðaþróun
GrindavíkGrindavík er talin frá ómunatíð hafa verið í 3 hverfum: Staðarhverfi vestast, Járngerðarstaðahverfi í miðið og Þorkötlustaðahverfi austast. Milli þessara hverfa voru svo taldir einstaka bæir: Húsatóftir milli Staðar- og Járngerðarstaðahverfis. Hóp milli Járngerðarstaðaog Þorkötlustaðahverfis og Hraun rétt austan við Þorkötlustaðahverfi, en Ísólfsskáli nokkru austar. Krýsuvíkurhverfi var einnig tilheyrandi Grindavíkurhreppi allt til ársins 1936, að hluti af Krýsuvíkurlandi var lagður undir Hafnarfjarðarbæ.
Sögur herma, að í öndverðu hafi helztu jarðir í hreppnum verið Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir og Hraun. Með nýjum og nýjum kynslóðum í aldanna rás skiptust heimajarðimar, og bændum, þ.e.a.s. jarðeigendum, fjölgaði, og jarðir urðu fleiri og smærri. Einnig hafa jarðirnar gengið kaupum og sölum, ýmist verið konungs-, kirkju- og síðar ríkisjarðir eða bændajarðir. Nú eru lóðir og lendur í hreppnum ýmist í eigu ríkis, sveitarfélags eða hinna ýmsu landeigenda.
Frá landnámstíð og allt framá þessa öld var íbúunum gjarnan skipt eftir því, hvort þeir áttu land eða voru landlausir. Þeir, sem land áttu, nefndust bændur, en hinir þurrabúðar- eða tómthúsmenn. Eftir að þéttbýliskjarnar fóru að myndast fyrir alvöru, leið þessi skilgreining undir lok.
GrindavíkByggðin var frá upphafi í þremur hverfum, eins og oft hefur verið að vikið. Risu þessi hverfi umhverfis lendingarstaðina. Tók enginn lendingarstaðurinn öðrum fram, svo að nokkra úrslitaþýðingu hefði fyrir byggðaþróunina. Ibúafjöldinn hefur því ráðizt af öðrum ástæðum, s.s. framtaki fólksins, húsakosti o.s.frv.
Árið 1890 er tekið manntal í Staðarprestakalli, þ.e.a.s. í Grindavíkurhreppi að Krísuvík undanskilinni. Þá eru samtals 302 íbúar í sókninni. I Staðarhverfi búa þá 63 íbúar, í Járngerðarstaðahverfi 145 og í Þorkötlustaðahverfi 94 íbúar.
Með byggingu hafnar í Hópinu í Járngerðarstaðahverfi skapast fyrst þær breyttu aðstæður, sem valda því, að útgerð leggst með öllu niður frá Staðar- og Þorkötlustaðahverfunum og hefur fljótlega þau áhrif, að byggðin dregst saman á þessum stöðum og þó sérstaklega í Staðarhverfinu, sem er fjær. Enda fór svo, að Staðarhverfið fór fljótlega í eyði.
Grindavík
Lengst var búið á Stað eða til ársins 1964. Örlög Þorkötlustaðahverfis urðu nokkuð á annan veg. Byggð hefur að vísu ekki aukizt síðan höfnin var gerð, en heldur ekki minnkað verulega, sumpart mun þetta stafa af tiltölulega lítilli fjarlægð frá höfninni og sumpart af því, að hraðfrystihús var reist þar árið 1946 og veitti mikla atvinnu, einmitt um sama leyti og róðrar lögðust niður frá hverfinu sjálfu.
Eins og áður er getið, stóðu atvinnuvegir með nokkrum blóma á fyrstu áratugum þessarar aldar og fjölgaði íbúunum þá nokkuð. Árið 1900 eru íbúarnir 357, og árið 1938 eru þeir orðnir 553. Á stríðsárunum kom svo afturkippurinn, sem áður er lýst, svo að árið 1945 er íbúatalan komin niður í 489. Það er svo ekki fyrr en 1950 sem íbúatölunni frá 1938 er aftur náð eða því sem næst. Eftir það heldur fjölgunin áfram jafnt og þétt, þannig að árið 1960 eru íbúamir 734, fimm árum síðar eru þeir orðnir 913, og árið 1968 fara þeir yfir 1000. Árið 1970 voru þeir 1169, hinn 1. desember 1973 voru Grindvíkingar 1456, og nú, hinn 1. desember 1974 munu þeir vera alveg um 1600.
Einsog sést af framansögðu fer íbúatala Grindavíkur nú ört vaxandi og aðkomumenn eru þar margir svo að segja allt árið, því höfnin er mikið notuð til fisklöndunar á öllum árstímum, skip vilja spara sér siglingu til Faxaflóahafna með fisk sem fenginn er fyrir sunnan Reykjanes.
Sjómannadagurinn hefur ávallt verið hátíðisdagur í Grindavík. Það er ekki nein sérstök tilviljun að Sjómannadagsblaðið minnist Grindvíkinga sérstaklega. Það hefur staðið til lengi. Grindvíkingar hafa haldið uppi merki sannrar sjómennsku í þessu landi og ritnefndin sendir þeim sérstakar árnaðaróskir þennan dag.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 11. tbl. 01.06.1976; Grindavík – hin dæmigerða verstöð, bls. 9-17.
Sjómannadagsblaðið