Molda-Gnúður

“Á Norðmæri í Noregi er bærinn Molde. Þar eru nú um 7000 íbúar, eða álíka margir og voru í Reykjavík, þegar landið fékk innlenda stjórn.

Molde

Molde.

Molde stendur norðan Raumsdalsfjarðar á fögrum stað sunnan undir skógi klæddri hlíð. Framundan er fjörðurinn breiður og blár með nokkrum skógareyum og hólmum, en í suðri, handan við hann, rísa hin miklu Raumsdalsfjöll, 87 tindar í einni fylkingu og sumir þeirra rúmlega 2000 metrar á hæð. Er fögur sjón í góðu veðri að horfa yfir fjörðinn til fjallanna.

Romsdal

Raumsdalur.

Molde getur ekki í neinum norskum heimildum fyrr en á 15. öld. Er ætlan manna að staðurinn hafi hafizt með því, að gerð hafi verið sögunarmylna við á sem þar er, og timburútflutningur hafist þaðan. Og enn er flutt út timbur í Molde, enda er nóg af skógunum þarna í grenndinni.
En þar sem Molde stendur nú mun hafa heitið Moldatún á landnámstíð. Landnáma segir frá því, að þar hafi búið sá maður er Hrólfur höggvandi hét, og bendir viðurnefni hans til þess að hann hafi ekki verið neinn skapdeildarmaður né friðarsinni. Tvo sonu átti hann og hétu þeir Vémundur og Gnúpur. Þeir voru járnsmiðir miklir og vígamenn. Þess er getið að Vémundur kastaði fram þessum hendingum í smiðju sinni:

Eg bar einn
af ellefu
banaorð.
Blástu meir!

Romsdal

Merki Raumsdals.

Af honum höfum vér ekki aðrar sagnir, en Gnúpur bróðir hans varð að flýa land fyrir vígasakir þeirra bræðra. Hann var þá kenndur við staðinn þannig, að hann var kallaður Molda-Gnúpur. Hann fór til Íslands og gerðist þar landnámsmaður, og er merkileg saga af honum og niðjum hans. Ekki er þess getið hvar Molda-Gnúpur tók land. Ef til vill hefir hann komið skipi sínu í fjörð þann, er Kerlingarfjörður nefndist og þá var rétt vestan við Hjörleifshöfða, eða þá í Kúðafljótsós, því að hann „nam land milli Kúðafljóts og Eyarár og Álftaver allt. Þar var þá vatn mikið og álftaveiðar á“, segir Landnáma.
Ólíkt hefir þetta land verið ættaróðali hans Moldatúni norðan Raumsdalsfjarðar, nema hvað hér sá til snævi þakinna fjalla, Mýrdalsjökuls í norðri og Öræfajökuls í austri. Þarna voru engir skógar, en graslendur víðar, því að þá var öðruvísi um að litast á þessum slóðum en nú er. Þá mun hafa verið skógarkjarr og graslendi milli fjalls og fjöru þar sem nú er Mýrdalssandur.

Molde

Merki Molde.

Sagan segir að skjótt hafi orðið fjölbyggt í landnámi Molda-Gnúps, og náði byggðin langleiðis upp að Leirá, sem fellur í Hólmsá. Eru enn kunn nöfn á ýmsum bæjum þarna, þar sem nú er svartur eyðisandur, svo sem Dynskógar, Hraunstaðir, Keldur, Loðinsvíkur, Atlaey og Laufskálar, þar sem nú heitir Laufskálavarða. Á ofanverðri 17. öld létu þeir sýslumennirnir Einar og Hákon Þorsteinssynir leita þar sem örnefni bentu til að bæir þessir hefði staðið, og fundust þar leifar húsatótta og önnur mannaverk, en ekkert af gripum, nema í Dynskógum. Þar fannst eirketill mikill, sem tók rúmlega 2 tunnur. Mátti á þessu sjá, að sannar voru sögurnar um byggð þarna á landnámsöld.
Ekki hafði byggðin staðið lengi, er eldsumbrot urðu í jöklinum, og telja menn að þá hafi komið fyrsta Kötlugosið. Jökulhlaupið mun hafa farið austur af jöklinum, og tók það af byggð og allt graslendi fyrir ofan Álftaver, allt að Skálm, en sennilega hefir vatnsflaumurinn einnig farið yfir Álftaver.

Katla

Kötlugos 1918.

Slíkum náttúruhamförum höfðu landnámsmenn ekki átt að venjast, og flýði nú hver sem flúið gat. Sumir fóru ekki lengra en í svonefnt Lágeyarhverfi og settust þar að. Sú byggð var vestan Eyarár, og náði utan frá sjó og langt upp með ánni. Hafa verið þar margir bæir og vita menn um nöfn á þessum: Lágey, Lambey (þar sem nú heitir Lambeyjarjökull), Rauðilækur og Holt. En í Kötluhlaupi, sem kom upp úr jólum 1311, hvarf þessi byggð svo algjörlega, að hennar hefir ekki séð stað síðan. Hús, engjar og hagar hurfu undir sand, allur fénaður fórst og allir menn, nema einn bóndi, er Sturla hét, komst undan á ísjaka með ungbarn. Er hlaup þetta síðan nefnt Sturluhlaup.

Molda-Gnúpur og fólk hans flýði lengra vestur á bóginn. Jökulhlaupið hefir sennilega komið um haust, því að þeir treystust ekki að halda lengra en til Höfðabrekku og gerðu sér tjaldbúðir þar sem síðan heita Tjaldavellir. Eru þeir norður og vestur af Háafelli, sem er austur af Kerlingardal.

Skjaldamerki

Skjaldamerki Íslands.

Segir í Eldriti Markúsar Loftssonar, að þar sjást enn búðastæðin.
Bóndanum í Kerlingardal líkaði ekki þessi heimsókn og bannaði hann þeim að vera þarna. Fluttust þeir þá „í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar”. Þarna kallast nú Kaplagarðar austan í fellinu. Ekki fara neinar sögur af þessum ófriði, en sjálfsagt hafa sættir komizt á, og hefir það dæmzt á Molda-Gnúp og menn hans að greiða Kerlingardalsbónda skaðabætur, þar sem þeir settust í óleyfi í land hans.
Nú segir sagan, að þeir hafi haft kvikfé fátt, og er það ekki ólíklegt, því að þeir hafa orðið að lifa á kvikfénu um veturinn, því er bjargaðist úr hlaupinu. Hafa þeir því ekki getað greitt sektarféð í fríðu. En sagt er að þeir hafi látið Kerlingardalsbónda fá svonefnda Dynskógafjöru, en það er rekastúfur á milli Hjörleifshöfðafjöru og Herjólfsstaðafjöru.

Hjörleifshöfði

Hjörleifshöfði – tóftir.

Handsöl munu hafa verið gerð að þessu, en samningurinn verið munnlegur. Þó hefir hann dugað í þúsund ár. Hann er enn í gildi og elztur allra samninga á Íslandi svo vitað sé. Gildi hans kom í ljós fyrir nokkrum árum, þegar deilt var um járnið úr „Persier“ á Dynskógafjöru. Þá var það ekki neitt vafamál, að Kerlingardalur átti þennan fjörustúf.
Molda-Gnúpur helt för sinni áfram vestur á bóginn í landaleit, og létti ekki fyr en hann kom í Grindavík. Þar var þá ónumið og settist hann þar að. Fjórir eru nefndir synir Molda-Gnúps: Björn, Þorsteinn, Þórður og Gnúpur. Komu þeir sér fljótt í vinfengi við landvættir, því „það sáu ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Birni til þings, en Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar“.

MýrdalurSíðan dreymdi Björn, að bergrisi kom að honum og bauð að gera félag við hann, en hann játti því. „Eftir það kom hafur til geita hans og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð vellauðugur. Síðan var hann Hafur-Björn kallaður”, segir Landnáma.
Í Heimskringlu er getið um landvættir á Reykjanesskaga. Þegar galdramaður Haralds konungs Gormssonar ætlaði að ganga á land á Vikraskeiði (vestan Ölfusárósa) „kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum“. Bergrisinn með járnstafinn er nú í skjaldarmerki Íslands, en var þetta ekki sami bergrisinn sem gerði félag við Hafur-Björn?

MýrdalurNú víkur sögunni austur í Rangárvallasýslu, að svæðinu milli Þjórsár og Ytri-Rangár, sem áður nefndist Þjórsárholt. Það var einkennilegt um landnám þarna, að allan neðra hlut Þjórsárholta byggðu keltneskir menn.
Holtin hafa verið keltnesk byggð upphaflega. Þetta ber að hafa í huga, þegar litið er á hinar merku fornminjar sem þar eru, hellana, elztu mannvirki á Íslandi. Mönnum ber saman um, að hellarnir sé ekki gerðir af norrænum mönnum, því að þeir hafi ekki kunnað slíka húsagerð. Aftur á móti hafi Keltar kunnað hana, og þess vegna hafa margir hallast að því að hellarnir sé frá dögum Papa. En gæti þeir ekki eins verið handaverk keltnesku landnámsmannanna? Eða settust keltneskir landnámsmenn þarna að, vegna þess að þar voru Papar fyrir? Eða var þarna keltnesk byggð áður en norrænir menn komu, og hún látin í friði?

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Ráðormur bjó í Vetleifsholti. Dóttir hans hét Arnbjörg. Hún giftist Svertingi, syni Hrolleifs. Önnur dóttir þeirra Svertings var Jórunn kona Hafur-Bjarnar.
Svertingur Hrolleifsson varð ekki gamall og giftist þá ekkja hans Gnúpi Molda-Gnúpssyni. Sonur Hafur-Bjarnar og Jórunnar hét Svertingur. Hann giftist Húngerði Þóroddsdóttur. Frá Sverting og Húngerði voru Sturlungar komnir. Iðunn hét dóttir Molda-Gnúps og átti þann mann er Þjóstarr hét og bjó í Görðum á Álftanesi.

Hellir

Krossmark á vegg í manngerðum helli á Suðurlandi.

Enda þótt landkostir í Álftaveri hafi verið harla ólíkir landkostum við Raumsdalsfjörð, þá tók þó úr er Molda-Gnúpur tók sér byggð í Grindavík, þar sem var lítt gróið hraun niður að sjó. Það hefir því skjótt orðið þröngt um þá bræður fjóra þar. Þess vegna ætla menn að Hafur-Björn hafi farið þaðan er hann kvongaðist, og reist sér þann bæ á Romshvalanesi, er síðan er við hann kenndur og heitir Hafurbjarnarstaðir, rétt norðan við Kirkjuból, hinn sögufræga stað, og skammt frá hinum mikla garði, sem eitt sinn lá þvert yfir skagann og Garðskagi dregur nafn af.

„Frá Molda-Gnúpi er margt stórmenni komið á Íslandi, bæði biskupar og lögmenn“, segir í Hauksbók. Og eflaust eiga allir núlifandi Íslendingar ættir sínar að rekja til Hafur-Bjarnar, sonar hans og konu hans Jórunnar Svertingsdóttur.

Arfabót

Arfabót – minjar.

Fornöldin er nær okkur en öðrum þjóðum. Við vitum hverjir byggðu þetta land í öndverðu, og tengslin við þá hafa aldrei rofnað. „Tími er svipstund ein sem aldrei líður“ og það er örstutt milli fortíðar og nútíðar á Íslandi. Samningurinn, sem Molda-Gnúpur gerði við Kerlingardalsbónda er jafn gildur í dag og hann var fyrir þúsund árum. Hann tengir fortíð og nútíð. Bergrisinn hans Hafur-Bjarnar tengdi einnig fortíð, nútíð og framtíð.” – Á.Ó.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. febr. 1961, Húsfreyjan að Hafurbjarnastöðum, Árni Óla, bls. 101-105.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.