Færslur

Gömlu-Hafnir

Í “Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember 1996”, framkvæmd af Fornleifadeild Þjóðminjasafnins sama ár má lesa neðangreint um minjar á svæði Gömlu-Hafna, vestan Drauga að Hafnarbergi. Fornleifakönnunin var gerð vegna fyrirhugðrar magnesíumverksmiðju sunnan við Hafnir á Reykjanesi, sem síðan ekkert varð úr – sem betur fer.

Aðdragandi

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir. Horft til vesturs. Austast er bæjarhóll Kirkjuhafnar, vestar eru bæjarhólar Stóru- og Litlu-Sandhafnar og loks leifar bæjarhóls Eyrarhafnar.

Þann 31. október hafði Hallgerður Hreggviðsdóttir hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar samband við Þjóðminjasafn Íslands. Óskaði hún eftir því að safnið tæki að sér fornleifakönnun á svæði sunnan við Hafnir þar sem fyrirhugað er að reisa magnesíumverksmiðju. Áhersla var lögð á að verkið þyrfti að vinna sem allra fyrst.

Gömlu-Hafnir

Hafnarsandur – Herforingjaráðskort 1903.

Svæðið tilheyrir Hafnahreppi og er samkvæmt herforingjaráðskorti frá árinu 1910 í mælikvarða 1:50.000 í Hafnarbergi. Á staðfræðikorti Landmælinga Íslands frá 1989 í mælikvarða 1:25.000 er svæðið nefnt Hafnasandur.
Framkvæmdasvæðið afmarkast í vestur af Eyrarbæ norðan Hafnabjargs að Kirkjuhöfn til austurs. Þrjú gömul eyðibýli eru merkt á landakort á þessu svæði. Vestast er Eyrarbær sem sagður er hafa farið í eyði um 1770 og eru bæjarrústir hans sýndar á korti norðan við Hafnarberg. Annað eyðibýlið Sandhöfn, sem fór í eyði um 1600, skiptist í Litlu og Stóru Sandhöfn. Þar var talin vera besta höfnin. Þriðja eyðibýlið er Kirkjuhöfn sem fór í eyði litlu fyrr en Sandhöfn. Munnmæli herma að þar hafi verið kirkja sem aflögð var á 14. öld. Í Prestatali og prófasta er hins vegar ekki getið um kirkju á þessum stað.
Svonefndar Hafnir í Hafnahreppi voru við Kirkjuhöfn og Sandhöfn.

Vettvangskönnun

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; örnefni (LMÍ).

Vettvangskönnunin var gerð dagana 2. – 3. nóvember. Hún fór þannig fram að skýrsluhöfundar gengu skipulega um svæðið og merktu öll mannvirki sem fundust inn á skannaða loftmynd. Mælikvarði loftmyndarinnar er óviss en mun sennilega vera um 1:1500 – 4500. Um leið og gengið var fram á minjarnar var lausleg lýsing af þeim töluð inn á diktafón. Einnig voru flestar minjarnar ljósmyndaðar. Gert hafði verið ráð fyrir að ljúka vettvangskönnuninni á einum degi, en þar eð mun fleiri minjar komu í ljós en gert hafði verið ráð fyrir tók verkið alls tvo daga. Veður var bjart báða dagana og 4 – 5 stiga frost. Allhvasst var fyrri daginn en logn þann síðari.
Unnið var við vettvangskönnun laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember.
Hér á eftir er lýsing á hverju mannvirki fyrir sig. Númerin vísa í samsvarandi númer á yfirlitskortum aftast í skýrslunni þar sem lega minjanna er sýnd. Kortin eru teiknuð eftir loftmynd af svæðinu.

Mannvirki 1 (fjárétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárrétt?

Grjóthlaðin ferhyrnd rétt um 13 x 15 m að innanmáli. Hún stendur fremst fram á sjávarbakka. Veggjahæðin er allt að 80 cm og veggjaþykkt er um 80 cm. Ofan á vegginn hefur verið settur gaddavír. Innan í réttinni er yfirborðið mjög mishæðótt og hefur hún að hluta fyllst af sandi. Inngangur er við SA hornið. Við austurgaflinn, sem snýr út að sjónum, er yfirborðið allt að 1,5 m hærra en í suðuvesturhelmingi réttarinnar. Að utanverðu er um tveggja metra fall frá gaflinum niður í grýtta fjörnuna. Í NVhorni réttarinnar er lítið byrgi og er SA hlið þess opin. Austurhlið byrgisins er flutningabretti úr tré. Byrgið er jafnhátt og réttarveggirnir og á því er flatt torfþak.
Af hleðslunum að dæma virðist þetta ekki vera mjög gamalt mannvirki. Þær eru í allgóðu ásigkomulagi og virðist hafa verið haldið við. Byrjað að hrynja smávegis úr hleðslunni í suðurveggnum.

Mannvirki 2 (garðbrot)
Þetta eru leifar af garði eða garðbroti sem að mestu er sokkinn í sand. Steinaröð stendur upp úr sandinum á stöku stað og sýnir hvar garðurinn hefur legið. Hann er um 50 m að lengd og liggur í suðvestur úr víkinni austan við mannvirki 1. Breiddin er um 60 – 80 cm.

Eyrarbær

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt merkingu á landakortum ættu rústir Eyrarbæjar að vera um 50 m suður af mannvirki 1. Við gátum ekki séð merki um rústir á þeim stað. Annaðhvort hefur bærinn sokkið í sand, orðið uppblæstri að bráð eða hann hefur ekki verið rétt staðsettur á kortinu. Hugsanlegt er t.d. að mannvirki hafi t.d. verið reist ofan á bæjarrústirnar.

Hafnarbjarg
Gengið var meðfram ströndinni hjá Hafnarbjargi til að kanna hvort þar væru sýnilegar minjar um varir, bátalægi, uppsátur eða fiskgarða. Fjaran er mjög stórgrýtt og brött og ekki varð vart við nein mannvirki á norðvesturhluta Hafnarbjargs.

Mannvirki 3 (túngarður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Garðhleðsla, hugsanlega túngarður. Garðurinn liggur frá Hafnabergi til austurs og markar sennilega tún eða landamerki Eyrarbæjar og Sandhafnar til suðurs. Vestasti hluti garðsins er sokkinn í sand og að miklu leyti hruninn. Grjótdreif úr hleðslunni er á um 3 m breiðu svæði. Um 50 m frá ströndinni er um 2,5 m breitt rof í garðinn fyrir vegarslóða. Þaðan liggur hleðslan áfram til austurs. Sandur hefur lagst upp að henni beggja vegna þannig að hún er að mestu í kafi. Víða er nokkur grjótdreif og hrun úr hleðslunni, einkum að norðanverðu. Í rofabarði við vegarslóðann virtist veggjaþykktin geta hafa verið um 1 m að breidd, en þar sem sandurinn hefur safnast upp að hleðslunni hefur einfaldri og um 0,3 m breiðri steinhleðslu verið bætt ofan á vegginn. Hæð hleðslunnar ofan sands er allt að 0,5 m.

Mannvirki 4 (tóft?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; refagildra.

Hugsanlegt mannvirki á lágum hól. Að norðanverðu virðist mega greina leifar af einfaldri hruninni grjóthleðslu um 0,2 m breið og um 8 m löng. Innanmálið hefur sennilega verið um 2 m, en ekkert er eftir af suðurhlið og vesturhlið. Hugsanlega eru nokkrir steinar hluti af austurhliðinni. Erfitt var að finna þetta mannvirki á loftmynd og er staðsetning þess e.t.v ekki alveg nákvæm á kortinu.

Mannvirki 5 (garður)
Þetta er garður sem liggur í einfaldri röð. Hlaðinn úr misstórum steinum frá 0,4 – 0,5 m í þvermál niður í 0,05 – 0,1 m í þvermál. Garðurinn liggur í norðvestur-suðaustur.
Austast beygir hann til norðurs? Hann er horfinn á köflum og ekki er alls staðar hægt að sjá hann en til vesturs nær hann alveg niður að sjó. Garðurinn endar við hraunás þar sem mannvirki 6 – 8 eru til staðar.

Mannvirki 6 (byrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðinn ferhyrningur hlaðinn úr einfaldri steinaröð, í allt að 0,6 m hæð. Hann er um 1,5 x 2 m að utanmáli og grasi vaxinn að innan. Steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Undirstöðurnar eru alls staðar sýnilegar. Suðurhliðin er sennilega verst farin. Mannvirkið stendur uppi á hæð við austurenda garðs nr. 5

Mannvirki 7 (byrgi)
Grjóthlaðið byrgi norðaustan undir klettunum þar sem garður 5 endar. Hleðslan er einföld steinaröð sem er að mestu horfin í sand eða hrunin. Hún er um 4 m að lengd og 1,4 m að breidd um miðjuna og aðeins mjórri við suðurgaflinn. Þar er byrgið aðeins um 1 m að breidd.

Mannvirki 8 (byrgi?)
Um 5 – 10 m austan við mannvirki 7 er um 9 m löng og 4 m breið þúst og allt að 0,4-0,5 m há. Þar virðist vera svipað mannvirki og mannvirki 7, sem er nánast alveg sokkið á kaf í sand. Steinaröð sést á þriggja metra löngum kafla að sunnan eða vestanverðu.

Mannvirki 9 (varða?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða (leifar fiskbyrgis).

Grjóthlaðið mannvirki. Tvær hliðar eru hlaðnar í horn um 1,2 x 1,2 m hvor hlið. Hleðslan virðist vera allt að 0,6 cm há og hlaðin úr 0,3 – 0,4 m stórum steinum sem raðað er saman. Hugsanlega er þetta leifar af vörðu.

Mannvirki 10 (fiskbyrgi?)
Mannvirki 10, 11 og 12 eru leifar af þremur litlum byrgjum, sennilega fiskbyrgjum.
Mannvirki 10 er hlaðið úr einfaldri steinaröð og virðist nánast hafa verið ferkantað. Það er 2 x 3 m að utanmáli og er vestasta hliðin allt að 0,5 m há. Byrgið er talsvert hrunið og á norðurhliðnni stendur aðeins neðsta steinaröðin eftir. Enginn inngangur er sýnilegur. Að innan er byrgið grasivaxið og mosagróið.

Mannvirki 11 (fiskbyrgi?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Grjóthlaðið byrgi um 1,5 x 2 m að innanmáli. Virðist vera hringlaga að utan, að minnsta kosti 1,5 m að hæð. Hleðslan er einföld steinaröð, með 0,3 m breiðum og um 0,4 – 0,5 m háum inngangi á austurhlið. Hleðslan virðast vera tiltölulega nýlega hlaðin eða lagfærð. Tóftin er hálffull af sandi.

Mannvirki 12 (fiskbyrgi)
Sennilega leifar af fiskbyrgi. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr einfaldri steinaröð.
Tóftin, sem er hrunin, er um 3 x 3,5 m að utanmáli. Ekki verður séð af yfirborði hvort hún hefur verið hringlaga eða ferningslaga. Undirstöður virðast þó fremur hafa verið ferningslaga. Hún er allt að 0,5 m að hæð þar sem hún er hæst.

Mannvirki 13 (vegarslóði)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir. Um svæðið er markaður göngustígur með grjóti og viðardrumbum.

Traðir sem liggja meðfram ströndinni yst frá Eyrarbæ að Sandhöfn. Þetta er um 1,5 m breiður slóði sem varðaður er einfaldri steinaröð beggja vegna. Steinarnir eru að jafnaði um 0,1 – 0,2 m stórir. Sums staðar hafa rekaviðardrumbar verið lagðir í stað steina til að afmarka vegarslóðann. Þetta virðist ekki vera ýkja gömul hleðsla. Hugsanlega er þetta nýleg gönguleið sem gerð hefur verið að hömrunum við Hafnaberg.

Mannvirki 14 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; rétt?

Stór tvískipt grjóthlaðin tóft upp á og utan í dálítilli hæð. Veggirnir að mestu hrundir.
Nú eru þeir ekki nema um 0,2 – 0,3 m háir. Upphaflega virðast þeir hafa verið allt að 0,8 m breiðir. Hugsanlega er þetta leifar af rétt eða fiskreit. Minni reiturinn hallar til norðurs. Hann er 15 x 13 m að innanmáli.
Stærri reiturinn er grjóthlaðinn um 45 x 25 m að innanmáli. Hleðslan er að mestu horfin í sand. Einföld steinaröð stendur upp úr sandinum, allt að 0,5 m há.

Mannvirki 15 (lendingarstaður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Hér hefur líklega verið lendingarstaður, uppsátur eða vör. Hér er sendin skor þar sem gott hefur verið að draga upp báta. Fyrir ofan lendinguna er grasi vaxinn hóll þar sem hugsanlega eru einhverjar rústir án þess að hægt sé að segja það með vissu. Á hólnum austanverðum er eins og 90° horn sem bendir til þess að þar sé um hleðslur að ræða.

Mannvirki 16 (bæjarhóll, Litla Sandhöfn?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; mannvirki sunnan Stóru-Sandhafnar.

Um 5-6 m hár grasi gróinn hóll sem virðist vera gamall bæjarhóll. Hér og hvar glyttir á hleðslur í hólnum. Hugsanlega eru þetta leifar eyðibýlisins Litlu-Sandhafnar.

Mannvirki 17 (bæjarhóll, Stóra Sandhöfn?)
Mikill og grasivaxinn bæjarhóll, um 30 – 40 m langur og 4 – 5 m hár. Uppi á hólnum sést víða í hleðslur upp úr grasinu. Sunnan undir hólnum er um 10-15 m grjóthlaðið gerði. Hugsanlega er hóllinn leifar eyðibýlisins Stóru-Sandhafnar.

Mannvirki 18 (rústahóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; sjóbúð?

Grasi vaxinn hóll norð norðaustur af hól 16. Hóllinn er alveg niður við fjöruna og virðist sjórinn vera búinn að brjóta stórann hluta af honum. Þetta eru sennilega leifar af rústahól þó nú sjáist ekki móta fyrir rústum á yfirborði hans.

Mannvirki 3 (landamerkjagarður?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; tveir varnargarðar.

Garðurinn beygir og klofnar í tvær áttir skammt suður af mannvirki 17. Annar hluti hans heldur áfram til suðausturs en hinn beygir niður að sjónum til austurs.

Mannvirki 19 (varða)
Varða hlaðin úr grjóti upp á um tveggja metra háum hraunkolli. Varðan er ekki alveg ferningslaga að flatarmáli heldur nokkuð óregluleg. Hún er um 1-1,5 m í þvermál og um 1 m á hæð. Steinarnir eru þaktir stórum skófum sem bendir til þess að varðan sé gömul. Hún er um 100 metrum suðvestur af bæjarhól nr 17. Erfiðlega gekk að finna staðinn á loftmyndinni og er staðsetningin hugsanlega ónákvæm á korti.

Mannvirki 20 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða ofan fiskbyrgja.

Grösugur sandhóll ósléttur að ofan. Hann er sennilega um 5 – 6 m hár og um 20 – 30 m í þvermál. Gæti verið gamall bæjarhóll þó ekki sjáist lengur móta fyrir minjum á yfirborði. Þær gætu verið komnar á kaf í sand. Hugsanlega er þetta leifar eyðibýlisins Kirkjuhafnar.

Mannvirki 21 (Garðar og reitir)
Niður við ströndina eru leifar af grjóthleðslum fremst á klettunum norðan við hólinn. Þær eru að minnsta kosti 5 m langar og allt að tveggja metra breiðar. Þetta er hluti af lengri hleðslu sem liggur í sjó fram. Fleiri garðar eða reitir eru í framhaldi af henni þarna fremst á bakkanum. Einn er um 8 m langur og annar garður um 4 m breiður. Þetta eru allt hleðslur sem standa fremst á bakkanum.

Mannvirki 22 (tóft og garður)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður.

Grjóthlaðið mannvirkið fremst á sjávarbrún. Veggirnir eru allt að 1,2 m að hæð.
Hleðslurnar eru nokkuð hrundar og engin hvilft er í mannvirkið að ofan. Það er um 8 m að lengd og 3 m að breidd. Grjóthleðslan heldur áfram um 20 metra inn í landið og er á kafi í sandi og grasi. Sunnan við 22 eru garðbrot sem liggja í allar áttir. Ekki verður því lýst nánar að sinni en æskilegt væri að mæla þetta svæði betur upp.

Mannvirki 23 (fiskreitur?)
Þetta er grjóthleðsla sem hefur þrjár hliðar sýnilegar. Lengd og breidd þessa reits var ekki mæld en hleðslan er tvöföld, allt að 0,6 m breið, að mestu leyti hlaðin úr allt að 0,6 m stórum steinum og púkkað upp á milli með smágrýti.

Mannvirki 24 (rétt?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Kirkjuhöfn efst t.h. Framar er meintur grafreitur og kirkja, Ofar er hringlaga gerði.

Grjóthlaðin ferköntuð rétt innan í reit nr. 23. Steinarnir í hleðslunni eru minni en í mannvirki 23. Hleðslan er einföld steinaröð allt að 0,8 m há. Réttin er full að innan af sandi. Enginn inngangur í hana er sýnilegur. Þvermál hennar er 15 x 11 m að utanmáli.
Í framhaldi af reit 23 eru fleiri samsíða reitir til austurs.

Mannvirki 25 (fiskreitur?)
Mannvirkið er um 16 m langur reitur, sennilega fiskreitur, sem er í framhaldi af reit 23. Hann er um 4 m norðan vegarslóða og liggur niður að sjó. Umhverfis reitinn er hlaðinn garður úr lábörðu grjóti. Hleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og er allt að 0,5-0,6 m há. Flestir steinarnir eru um 0,2 – 0,3 m í þvermál. Garðurinn hefur þrjár hliðar, vestur-, suður- og austurhlið. Fjaran afmarkar hann að norðanverðu. Reiturinn sem garðurinn afmarkar er um 40 m langur og um 40 m breiður. Á suðurhliðinni er um 50x60x20 cm stór steinn sem stendur upp á endann. Austan við hann er um 1 m breitt rof eða op í garðhleðsluna. Líklega hefur þetta verið inngangur inn í reitinn.
Suðurhliðin nær ekki alveg að næsta reit og endar hleðslan um 15 m áður en komið er að mannvirki 26.

Garðar 23-28

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varnargarður ofan Kirkjuhafnar.

Garðarnir 23 – 28 eru framan við hól 20 ofarlega til vinstri. Til hægri í baksýn eru Sandvík og Eyrarvík. Horft til vesturs.
Mannvirki 26, 27 og 28 eru þrír samsíða reitir sem girtir eru af með grjóthleðslum og skipt er niður með einföldum steinaröðum. Þessir reitir eru nánast fullir af sandi og grónir. Innan reitanna eru sums staðar dreifðar grjóthrúgur en ógerlegt er að sjá hvort þær séu leifar frekari mannvirkja. Hugsanlega eru þetta steinar sem brimið hefur kastað upp á land.

Mannvirki 26 (fiskreitur?)
Ferhyrndur reitur, hlaðinn úr hraungrýti með hvössum brúnum. Hann er um 13 m breiður og 15 m langur, 0,6 m hár og víða hruninn. Hann nær ekki niður að fjöru.

Mannvirki 27 (fiskreitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Ferhyrndur reitur svipaður að stærð og reitur 26 og samhliða honum. Vesturhlið reits 27 er er einföld steinaröð sem jafnframt er austurhlið 26.

Mannvirki 28 (fiskreitur?)
Reitur sem er um 13 m að lengd og 12 m að breidd, austan við reit 27. Grjóthleðslan umhverfis er fremur sporöskjulaga en ferhyrningslaga.

Mannvirki 29 (bæjarhóll?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Um 5 – 6 m hár grasi gróinn hóll sem er um 15 m í þvermál. Á yfirborði eru engar hleðslur sýnilegar. Í hjólförum sem liggja upp hólinn sér hins vegar í grjót sem virðist hafa spólast upp og gæti það bent til að þar séu grjóthleðslur undir. Þar sem hóllinn stendur einn og sér er mjög líklegt að þetta sé rústahóll. Hugsanlega eru þetta einhverjar leifar af eyðibýlinu Kirkjuhöfn?
Í fjörunni norður af hól nr 29 er vík. Þar gæti hafa verið lendingarstaður eða vör.

Mannvirki 30 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint dys við Kirkjuhöfn.

Varða sem er um 1 x 1,5 m í þvermál og allt að 0,8 m há er upp á háum hraunhól sunnan vegarins. Á steinunum eru allmiklar skófir sem bendir til þess að hún sé gömul. Hún er í suðaustur af hól nr 29.

Mannvirki 31 (fiskbyrgi?)
Grjóthlaðið byrgi upp á litlum klettahól, um 10 m austan og neðan við vörðu nr. 30. Utanmál byrgisins eru um 2 x 2 m. Þetta er einföld grjóthleðsla sem er allt að 1 m há. Sandur hefur safnast í byrgið innanvert svo að þar er veggurinn aðeins um 0,5 m hár. Hún virðist hafa verið ferköntuð og inngangur gæti hafa verið á suðurhlið. Steinarnir eru nokkuð stórir að jafnaði, um 0,3 – 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 32 (fiskreitir?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; garðar austan Kirkjuhafnar.

Samliggjandi garðar eða fiskreitir. Þeir eru a.m.k. sex talsins en voru nú skráðir á eitt númer. Reiturinn sem er næst veginum er um 15×12 m að innanmáli. Hleðslan er úr hraungrýti og lögð ofan á mjög óslétt landslag. Sandhæðir eru í norður og norðausturhluta reitsins. Þær eru 2-3 metrum hærri en yfirborð í suðurhluta reitsins. Hleðslan er um 0,6 m breið og allt að 1 m há þar sem hún er hæst. Víða er hún hrunin. Reitirnir eru beint upp af eða suður af víkinni sem virðist hafa verið góð til lendingar og nefnd var hér að framan. Svo virðist sem reitasvæðið afmarkist að sunnanverðu og norðanverðu af stökum garðhleðslum sem liggja frá veginum alveg niður að sjó.

Mannvirki 33 (varða)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; varða við gömlu þjóðleiðina. Junkaragerði framundan.

Varða um 1 x 1,5 m að breidd. Hún er ferstrend og dregst að sér og um 2 m há. Hún er ekki gömul og gæti hugsanlega verið merkjavarða. Steinarnir í vörðunni eru nokkuð misstórir. Þeir minnstu eru um 0,15 – 0,2 m í en flestir eru um 0,3- 0,4 m í þvermál.

Mannvirki 34 (varða?)
Varða eða mælipunktur sem hlaðin er þannig að tveir stórir steinar, um 0,4 – 0,5 m í þvermál eru lagðir með um 0,4 m millibili og stór steinn lagður ofan á. Þar ofan á eru lagðir nokkrir fleiri steinar. Þeir mynda þannig strýtulaga vörðu með gati neðst í gegn. Hún er um 1,3 m að breidd og um 0,4 m breið. Hæðin er um 0,8 m. Þetta virðist ekki vera gamalt mannvirki.
Á hrauntoppunum hér í kring eru ýmsar smávörður sem verða ekki skráðar hér.

Mannvirki 35 (gerði eða reitur?)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Leifar af grunnu gerði eða reit, um 8 m að innanmáli. Erfitt er að sjá hvernig gerðið hefur verið í laginu. Að innanverðu er það er á kafi í sandi. Norðvesturhliðin er bein en suðurhlutinn er bogadreginn. Hæð hleðslunnar, sem er mikið hrunin, er um 0,4-0,5 m að utanverðu. Gerðið er rétt sunnan við vörðu nr. 34. Þetta gæti verið mjög gamalt mannvirki.

Mannvirki 36 (byrgi?)

Grjóthleðsla upp á litlum hraunkletti. Hleðslan er um 2 x 2 m í þvermál. Hugsanlega eru hér leifar af borghlöðnu byrgi sem hefur fallið saman. Þar sem hleðslan er hæst er hún allt að 1 m að hæð en að jafnaði er hæð hennar um 0,5 m. Stórar skófir hafa víða náð að myndast á steinunum sem bendir til að mannvirkið sé mjög gamalt. Þetta er um 50 m norðan við hitt.

Mannvirki 37 (garður)

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Stúlknavarða. Varðan er nú fallin.

Grjótgarður, sums staðar sokkinn á kaf í sand. Hann liggur meðfram fjörunni, til suðvesturs frá Kalmansvör. Við endann á afleggjara frá gamla vegarslóðanum beygir garðurinn til norðausturs og er þar sennilega um 150 m að lengd. Hann hverfur á kafla undir vegarslóða og liggur í nokkrum boga austan við veginn. Suðaustur hornið er bogadregið og þaðan stefnir garðurinn til norðausturs niður að afleggjara heim að fiskeldishúsi. Þar hverfur garðurinn undir veg en heldur áfram norðan vegarins til norðausturs eins langt og augað eygir. Honum var ekki fylgt frekar eftir. Aðeins efsti hluti garðsins stendur upp úr sandinum og er þar allt að 0,4 m að hæð. Hann er um 0,6 m breiður og víðast hlaðinn úr 0,2 – 0,3 m stórum steinum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Hlaðið mannvirki úr grjóti innan garðs nr. 37. Það er fimmhyrnt og um 26 m langt. Suðurhluti þess er um 9 m breiður og um 13 m langur. Þar breikkar norðurhlutinn um tvo metra til vesturs. Veggjahleðslan er um 0,5 – 0,6 m breið og allt að 0,7 m há þar sem hún er hæst. Sandur hefur lagst upp að hleðslunni bæði að utan og innan. Suðausturhornið er alveg fullt af sandi upp á veggjabrún. Inni í tóftinni, aðeins norðan við miðbik hennar er grjóthrúga sem virðist vera leifar af grjóthleðslu sem er að mestu horfin í sand. Þar sést í einfalda steinaröð sem liggur í um 2 m langt horn. Ekki er hægt að sjá neinn inngang í þetta mannvirki, þó sums staðar sé veggurinn hruninn. Garðurinn er einföld röð af steinum sem stundum liggja langsum og stundum þversum í hleðslunni. Steinaröðin er efsti hluti af grjótgarði sem sokkinn er í sand. Sums staðar sjást tvö steinalög, en sandurinn hefur lagst upp að garðinum báðum megin. Suðurendi garðsins endar um 10 – 15 m austan við suðurhorn garðs nr. 37 og
liggur síðaan eins langt og augað eygir til aust-norðausturs. Sennilega er þetta gömul hleðsla.

Niðurstöður

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Mun fleiri minjar reyndust vera á svæðinu en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta eru minjar sem tengjast gömlu eyðibýlunum Eyrarbæ, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Greinilegt er að þarna hefur verið útgerð og að flestar minjar á svæðinu tengjast þannig starfsemi, s.s. fiskkarðar, fiskreitir og fiskbyrgi. Einnig eru þarna nokkrir sandhólar. Hleðsluleifar og fl. bendir til þess að hólarnir séu gamlir rústahólar og má ætla að þeir geymi leifar eyðibýlanna Sandhafnar og Kirkjuhafnar. Leifar Eyrarbæjar fundust ekki.
Merkustu minjarnar eru bæjarhólarnir. Sjálfsagt er að varðveita þá, en æskilegast er að varðveita minjasvæðin umhverfis bæina sem heildir.

Umsögn um staðsetningu verksmiðju
Fyrirhugaðri magnesíumverksmiðju er ætlaður staður suður og upp af Sandvík.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; loftmynd.

Afstöðumynd sýnir að verksmiðjan mun fara yfir hluta af tún- eða landamerkjagarði sem merktur er sem mannvirki nr. 3 í þessari skýrslu. Einnig liggur verksmiðjusvæðið alveg upp að hól nr. 17 og virðist honum því stafa nokkur hætta af fyrirhuguðum framkvæmdum. Eins og fram hefur komið teljum við að að hóllinn sé gamall bæjarhóll og geymi leifar eyðibýlisins Stóra-Sandhöfn. Samkvæmt gögnum úr svæðisskipulagi fyrir Suðurnes 1987-2007 mun Sandhöfn hafa farið í eyði um 1600. Túngarðurinn er sennilega frá sama tíma og bærinn. Hér eru því að öllum líkindum minjar sem eru a.m.k. orðnar 400 ára gamlar og þar með verndaður samkvæmt þjóðminjalögum nr 88. frá 1989. Því má bæta við að bæjarhólar hlaðast upp á löngum tíma. Miðað við umfang bæjarhólanna á þessu svæði má gera ráð fyrir byggingarskeiðum sem ná yfir margar aldir, hugsanlega allt frá upphafi landnáms.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; hringlaga gerði við Kirkjuhöfn.

Verði verksmiðja reist á þessum stað er ljóst að garðhleðslurnar munu hverfa á stórum kafla. Þær eru hins vegar ekki einstakar í sinni röð og ætti fornleifakönnunin sem gerð var að vera nægileg skráning á þeim. Bæjarhóllinn er hins vegar miklu merkilegri og við honum má ekki hrófla nema að undangenginni rannsókn. Fornleifarannsókn á hólnum mundi sennilega taka um 2 – 5 ár og kostnaður við hana gæti numið um 5 – 10 milljónum króna á ári.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; meint kirkja og bæjarhóll Kirkjuhafnar.

Ef framkvæmdaaðilar vilja komast hjá þeim kostnaði sem fornleifarannsókn hefur í för með sér þarf að hliðra verksmiðjunni til þannig að svæðið sem þarf að raska vegna verksmiðjunnar sé vel utan ystu marka bæjarhólsins. Best væri að afmarka verndarsvæðið þannig að vinnuvélar fari ekki of nálægt því. Að þessum skilyrðum uppfylltum telur Þjóðminjasafn Íslands ekki ástæðu til að standa í vegi fyrir framkvæmdum á svæðinu, enda séu aðrar minjar en hér hefur verið rætt um ekki í hættu.” – Reykjavík 19. nóvember 1996, Guðmundur Ólafsson Sigurður Bergsteinsson, deildarstjóri fornleifadeildar fornleifafræðingur. Heimildir:
Sveinn Níelsson (1950). Prestatal og prófasta. Reykjavík.

Heimild:
-Rannsóknarskýrslur Fornleifadeildar Þóðminjasafnsins 1996 XIV – Fornleifakönnun á framkvæmdarsvæði Magnesíumverksmiðju 2.-3. nóvember, Fornleifadeild Þjóðminjasafnins – Reykjavík 1996/2008.
-https://www.thjodminjasafn.is/media/rannsoknir/1996-14-Magnesium-verksmidja-fornleifakonnun.pdf

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; kort í skýrslu um Fornleifakönnun 1996. Númerin eru vísun í framanskráðan texta.

Gömlu Hafnir

Gengið var frá bifreiðastæðinu sunnan Hundadals (þar sem laxeldisstöðin er sunnan Junkaragerðis) að Systrum, séstæðum vörðum á hólum norðaustan við gömlu Hafnarbæina. Sunnan í öðrum hólnum virðist vera fjárborg, sú 75. er FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi fram að þessu.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Af hólnum sést vel yfir gömlu Hafnarbæina. Nokkrir hólar er með sjónum og hylja þeir tóttir gömlu bæjanna, Kirkjuhafnar, Sandhafnar og Eyrar(hafnar) eða Hafnaeyri. Þegar gengið er vestur eftir veginum, eins og nú var gert, sjást fyrst hlaðnir garðar á hægri hönd. Því næst sést grashóll, einnig á hægri hönd. Skv. upplýsingum Leós Jónssonar, sem mikið hefur gengið um þetta svæði og kynnt sér það af kostgæfni, heitir hóllinn Stekkhóll.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – vörslugarðar.

Leó ritaði góða lýsingu á svæðinu í 3. tbl. Áfanga árið 1991. Vinstra megin við veginn er klapparhóll. Á honum er hlaðið byrgi og varða trjónir hærra. Þá taka við hlaðnir garðar á hægri hönd og grashóll svo til alveg fram við fjörukampinn. Vestan hans er stór grashóll, Kirkjuhafnarhóll. Vestan hans er minni hóll, greinileg tótt. Handan vegarins er hóll og utan í honum garðhleðslur á tvo vegu. Að sögn Leós er þetta talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar, sem mun hafa lagst af um miðja 14. öld. Á norðanverðum hólnum er hringlaga tótt. Þarna gæti verið um gamla kapellu eða guðshús að ræða. Einnig myndarlega gröf, en tóttin norðan vegarins, sem minnst var á, gæti einnig verið tótt kirkju. Heimild er einnig um bæ á þessum stað, nefndur Bæli.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Vikið var út af þjóðveginum og gengið eftir stíg, sem nostrað hefur verið við. Stígurinn liggur út að öðrum stórum grashól, Sandhafnarhólnum. Í honum eru hleðslur og suðvestan undir honum eru garðhleðslur. Þar gæti hafa verið heimatúngarður. Vestan við hólinn er enn annar grashóll. Norðaustan í honum er hlaðinn garður og á honum sjálfum eru hleðslur. Þessi hóll mun hafa tilheyrt Sandhöfn.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum stórbýli og helsta útræði í Höfnum að sögn Leós. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Gífurleg landeyðing hefur orðið á svæðinu. Gróður hefur eyðst og sandur lagst í lægðir. Munu Sandhafnabæirnir hafa verið tveir; Stóra- og Litla-Sandhöfn.
Umhverfis alla byggðina liggur vörslugarður, sem hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sést enn móta fyrir honum svo til alla leiðina. Samskonar garður umlykur einnig bæina austan Hundadals. Þegar staðið er á Sandhafnarhól og horft er til suðvesturs má sjá hleðslur austan við klapparhól. Þar er um að ræða gamla rétt. Hleðslur hennar eru nokkuð heillegar.

 

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Norðvestar eru tóttir bæjarins Eyri, sem mun hafa verið í byggð fram á 4. áratug 19. aldra. Heillegasti hluti þessa gamla bæjar er hlaðin kálgarður á tanganum. Ofan og utan við tangann eru tóttir gamla bæjarins. Sá má hleðslur í þeim. Frá Eyri liggur stígur til vesturs upp á Hafnaberg. Efst á berginu eru vörður í Siginu og Berghóll (Bjarghóll). Í berginu vestan við vörðurnar er hellirinn Dimma.
Ofan við Eyri eru klapparhóll. Á honum eru þrjú hákarlabyrgi er nefnast einu nafni Hákarlabyrgi. Miðbyrgið stendur heilt að hálfu. Á milli þess og vestasta byrgisins er hlaðinn refagildra.
Svæði þetta er sennilega eitt það afskiptasta á landinu, en þó svo nálægt. Þegar laxeldisstöðin var reist í Hundadal var klippt á gamla Reykjanesveginn, sem liggur þarna meðfram gömlu byggðinni. Staðurinn hefur upp á allt að bjóða fólki, sem vill ganga um og skoða sögulega minjar og fallega náttúru. Þarna þarf að tengja gamla þjóðveginn þeim nýja og lagfæra hann svolítið. Upplýsingatafla á staðnum með skýringarmyndum myndi enn auka áhuga fólks á að koma þarna við, skoða sig um og njóta svæðisins. Veðurblíðan er og jafnan með eindæmum.
Frábært veður. (Sjá meira HÉRog HÉR.)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Gömlu-Hafnir

Haldið var að Sandhöfn, Kirkjuhöfn og Eyrarhöfn (Eyri) og gengið þaðan vestur götuna áleiðis upp á Hafnaberg. Lýsing hafði fengist af gamalli rétt þar í slakka hægra megin götunnar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – vörslugarður.

Þrátt fyrir nokkra leit fannst réttin ekki að þessu sinni, enda getur reynst erfitt að greina eitt frá öðru þarna í flæminu. Svæðið virðist eyðilegt, en það leynir á sér. Víða má sjá landnámsplöntur, fjölskúðugt fuglalíf og auk þess ber ýmislegt fyrir augu þegar betur er að gáð. Skúmurinn verpir t.d. þarna í sandinum og getur látið ólíkindalega.
Hlaðið gerði fannst skammt vestan og norðan Sandhafnar. Það er hlaðið nokkrun veginn sporöskjulaga með hringlaga hliðargerði við það norðanvert. Til norðurs út frá því er stuttur leiðigarður. Líklega hefur þarna verið rétt fyrrum. Skammt norðvestan er vörslugarður er liggur til suðvesturs upp að meginvörslugarðinum ofan Hafnabæjanna.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Gerðinu var bætt inn á uppdrátt, sem gerður hafði verið af svæðinu. Mikið af mannvistarleifum er þarna með ströndinni og ofan hennar, s.s. hákarlabyrgi refagildra o.fl. T.a.m. er þarna sögn um grafreit. Tóft er í honum, auk annarrar utar.
Sigurjón Hinriksson frá Merkinesi sagðist muna vel eftir leifum bæjanna, einkum Kirkjuhafnar, ofan við garðana. Bæjarleifarnar hefðu síðan smám saman fokið í burtu. Lengst af hefðu leifar bæjarins Eyri verið þarna á tanganum. Sandhólarnir væru sandumorpnir klapparhólar, en bein hefðu verið flutt úr kirkjugarðinum yfir í garðinn við Kirkjuvog.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 11 mín. (Sjá meira HÉR og HÉR).

Hafnaberg

Hafnaberg.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um “Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi”.

“Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun”. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.
Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
“Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur” segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.”
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.” – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

“Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: “Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar”.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar. Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.
Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt. Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town”. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.
Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð. Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.
Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.
Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis. Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring”. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnu gur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu). Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.” – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi