Krýsuvík

 Brennisteinn var unninn í Krýsuvík um miðja 18. öld. Til er umsögn um námusvæðið og lýsing á ummerkjum þar stuttu síðar. Af þeim má sjá að á svæðinu ætti enn að móta fyrir tóftum af búðum námumanna. Ætlunin var að ganga um vinnslusvæðin og leita ummerkja.

Loftmynd af námusvæðunum í Krýsuvík

Þegar aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Krýsuvík, er skoðað má reka augun í eftirfarandi um Krýsuvíkursvæðið: “Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups. Tveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. 

Minjakort í aðalskipulaginu 2005-2025 - rauðir deplar

Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.
Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík.
Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.
Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið.

Við Seltún

Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu. Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997.
Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir Í Baðstofuhússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur Bústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.”
Þá kemur kafli um fornleifar. Þar segir m.a.: “
Krýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í sunnanverðu Ögmundarhrauni. Þar er mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.
Krýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200.
Minjaleifar undir BaðstofuMargt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Í ítarlegri skýrslu Bjarna F. Einarssonar um fornleifar og umhverfi í Krýsuvík eru 22 minjar teknar út sem merkar fornleifar og/eða þær sem lagt er til að verði merktar og gerðar aðgengilegar fyrir ferðamenn.

Krýsuvík 1810

Minjunum er skipt upp í fjóra flokka eftir mikilvægi:
1 Meint staðsetning Kaldrana, túngarðsleifar eyðibýlis, friðlýstar árið 1930.*
2 Rústir, trúlega sel.****
3 Rúst, hugsanlega sel en mögulegt er að hér hafi staðið hjáleigan Fell.*
4 Stóri-Nýibær, bæjarhóll og ógreinilegar rústir.**
5 Litli-Nýibær, bæjarhóll og afar fallegur brunnur.***
6 Gestsstaðir. Fornt eyðibýli (11-12. öld). Friðlýst 1964.****
7 Garður, trúlega engjagarður gerður úr jarðvegi og torfi.**
8 Mógrafir.*
Tóft í Krýsuvík9 Krýsuvíkurhverfi, rústir Krýsuvíkurbæjarins ásamt hjáleigum í og við heimatúnið. Hér má sjá heillegt
bæjarstæði fyrri tíma, stóran bæjarhól með húsarústum, tröðum, túngörðum o.fl. Ein hjáleigan,
Norðurkot er friðlýst frá 1964. Auk þess var Krýsuvíkurkirkja tekin á fornleifaskrá 1964.****
10 Rétt og rústir. Réttin er gott dæmi um litla heimarétt.**
11 Rúst, stekkur og skúti.****
12 Arnarfell, eyðibýli.***
13 Rétt, hlaðin úr grjóti, vel farin og falleg.**
14 Fitjar, heillegar rústir eyðibýlis.****
15 Fjárhús.****
16 Rústir, trúlega sel.****
17 Eyðibýli, e.t.v. rústir hjáleigunnar Eyri er fór í eyði 1775.****
18 Rústir, trúlega skepnuhús.*
Krysuvik-22119 Sundavarða, sjómerki og rúst.***
20 Nátthagi, eini nátthaginn sem vitað er um í Krýsuvíkurlandi.***
21 Rúst, afar falllegt beitarhús, skúti að hluta.***
22 Rétt, gamla Krýsuvíkurréttin.**
**** = gull *** = silfur ** = brons * = aðrar minjar.”
Hér að framan er ekki minnst á sýnilegar tóftir á námusvæðunum í Baðstofu eða við Seltún. Hins vegar eru merktar inn fornleifar (sel) utan í vestanverðu Nýjalandi sunnan Kleifarvatns, en þar eru engar slíkar. Bæði var það vegna þess að svæðið flæddi reglulega þegar hækkaði í Kleifarvatni og auk þess skorti þar vatn í millum til þess að hægt væri að byggja þar selstöðu. Norðar eru tóftir, líklega af bænum Kaldrana, sem þar átti að hafa verið í fornöld.

Krysuvik-222

Aftur á móti er Kaldranasel ekki skráð í hinni “ítarlegri” skýrslu. Ekki heldur útihúsa frá fornbýlinu Gestsstöðum, forna tóft suðaustan Stóra-Nýjabæjar, tóft á Bæjarfellshálsi og svo mætti lengi telja.
Við Seltún eru og leifar frá brennisteinsvinnslunni um miðja 18. öld. Ein tóftin er skammt suðvestan við aðalnámuvinnslusvæðið. Safnhaugurinn var þar sem nú er bifreiðastæði.
Við skoðun á nágrenni Baðstofu mátti sjá leifar gömlu námubúðanna. Þær eru nú að hluta komnar undir veg, sem lagður var upp í Baðstofu þegar borað var fyrir heitu vatni fyrir Krýsuvíkurhúsin árið 1954.
Þegar fyrrnefnt aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – Krýsuvík er skoðað má reka augun í fjölmargt um Krýsuvíkursvæðið, sem hér hefur verið rakið að hluta. En þar er líka fjölmargt ósagt. Spyrja mætti – og það með nokkrum sanni; hvers vegna er verið að leggja svona mikla vinnu í “rannsóknir”, “skráningar” og miklar “skýrslugerðir”, sem væntanlega er ætlað að byggja marktækar ákvarðanir á, þegar svo augljóslega er kastað til höndunum?! Er með sæmilegu móti hægt að byggja heilt aðalskipulag tiltekins svæðis á slíkum gögnum?
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2025 – KRÝSUVÍK.Leifar brennisteinsvinnslunnar frá því á 19. öld