Óttarsstaðaborg

Fjórar götur lágu út frá eða nálægt Óttarsstöðum í Hraunum. Nyrst var sjávargatan ofan strandar áleiðis að Lónakoti, Skógargatan (Óttarstaðaselsstígur) lá til suðurs að Óttarsstaðaseli og Fjárborgargatan lá til suðausturs upp að Fjárborginni vestan við Smalaskálahæð. Fjórða gatan, Hraunagatan (Hraunavegur, studdum nefndur Óttarstaðavegur) lá svo frá Straumi áleiðis vestur að Hvassahrauni, ofan Óttarsstaða og Lónakots. Enn ofar var svo Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja.
Óttarsstaðir vestriAð þessu sinni var skoðuð Hraunagatan ofan Óttarsstaða og Fjárborgargatan, en síðarnefnda gatan þverar þá fyrrnefndu skammt norðan við Jakobshæð.
Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði og Straum er getið um þessar götur. Í lýsingu fyrir Straum segir: “[Gata liggur] suðvestan við Straumstúnið, upp á Gunnarsskarð, framhjá Lambhúsgerði, vestur um Karstensvörðu, sem var í Óttarsstaðalandi, en hefur nú verið rifin. Hraunagata eða Hraunavegur og Óttarsstaðavegur voru einnig nöfn á þessari leið um Hraun.”
StekkurÍ lýsingu Óttarsstaða segir um Fjárborgargötuna og Skógargötuna: “Svonefnd Skógargata lá frá Eyðikotshliði upp að Óttarsstaðaseli. Þar sem hún lá yfir hæðirnar, var kallað Kotaklif. Skammt austur af því, á sömu hæðinni, er Eystraklif. Þar lá gatan frá Eyðikotinu upp í hraunið. Önnur gata lá yfir Eystraklifið upp í Nónhóla. Hún lá út af Skógargötunni rétt austan við Hrafnagjá, sem brátt verður nefnd.
Sunnan við túnið á Vesturbænum er Hádegishæð, eyktamark. Á henni var Hádegishæðarvarða. Hæðin var mjög sprungin og miklar gjár í henni. Suðaustar svolítið er feiknamikil hæð með sprungu, sem nefnist Hrafnagjá. Í henni var Fiskabyrgið. Þar var geymdur fiskur harður og geymdist vel. Sést fyrir byrginu enn þann dag í dag.
JakobsvarðaVestur af Hrafnagjá er Miðmundahæð. Vestast á henni er stór varða, sem heitir Miðmundavarða, en vestan við hæðina er lægð, sem heitir Miðmundaskarð. Stígurinn frá Óttarsstöðum liggur upp úr því. Stóra réttin, sem fyrr var nefnd, var inni í krika vestan undir hæðinni. Þar er skúti stór með miklum hleðslum og þröngum dyrum. Hefur hann sennilega verið notaður sem fjárhús einhvern tíma í gamla daga…
Austur af Ingveldi er Jakobsvörðuhæð og á henni Jakobsvarða. Norðan undir hæðinni var eins og ævagamall stekkur eða rétt. Hæðin er suður af Klofa, við götuslóða, sem lá neðan frá Óttarsstöðum upp að fjárborg, sem er þarna miklu ofar.”
Um fjárborgina segir: “Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót [1900]. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.”
GöturnarOg þá um Skógargötuna: “Á háhæðinni á Kotaklifinu, við Skógargötuna, er Kotaklifsvarða. Þaðan liggur Skógargatan suður um hraunið. Sunnan undir Miðmundahæð er klapparskarð, sem heitir Djúpaskarð. Skammt ofan við Kotaklifið er djúpt, sporöskjulaga jarðfall við götuna. Er það kallað Hlandkoppsgjörð. Þaðan liggur stígurinn um einstigi, og blasir þá við klapparhóll með þúfu uppi á, nefndur Spói. Er þá komið upp að Reykjanesbraut. Frá Stóra-Nónhól vestur að Spóa eru kallaðir Nónhólar.
Frá Spóa hlykkjar Skógargatan sig eftir lægðum upp að Reykjanesbraut og suður fyrir hana. Langt vestur af Stóra-Nónhól er hóll, sem heitir Goltrahóll. Á honum var Goltravarða, nú fallin.
Skógargatan liggur áfram suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra, en Suðurnesjavegurinn lá milli Rauðamelanna. Rauðimelur litli var lágur melhóll. Rauðimelur stóri var sunnar. Hann var feiknastór, og var varða á honum í gamla daga. Vestast á honum var rofabarð með hríslum. Nú eru melar þessir horfnir vegna flugvallargerðar og komin tjörn, þar sem sá syðri var. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar um liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn.
Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur Skjólstígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir… Skammt sunnan við Meitla er komið í laut nokkuð langa og blasir þá Óttarsstaðaselið við.”
Tækifærið var notað og “hinn ævaforni stekkur” undir Jakobshæð skoðaður. Hann er tvískiptur með lágum hraunhrygg á millum.
Hraunagötunni er lýst annars staðar á vefsíðunni .
Svæðið milli Straumsvíkur og Hvassahrauns nefnast einu nafni Hraunin. Þegar talað var um bæina í Hraunum var jafnan átt við Lambahagabæina, Þorbjarnarstaði, Straum, Óttarsstaðabæina, Eyðikot og Lónakot. Hvassahraun virðist hafa verið þar undan skilið, þó eflaust megi finna fólks, sem fyrrum hefur talið Hraunið hluta af fyrrnefndri heild, enda bæði eðlilegt og sjálfsagt. Ástæða fyrirstöðunnar hefur án efa verið hreppamarkalegs eðlis því síðastnefndi bærinn tilheyrði Vatnsleysustrandar-hreppi, en þeir fyrrnefndu Garðahreppi. Má með sanni segja að þar hafi langsum þverskallast frásögnin af Hólmfasti!
RefagildraÞegar gengið var um Hraunin ofan við Lónakot og utan og ofan við Óttarsstaði mátti víða sjá mannvistaleifar. Á einum stað, norðavestan undir Tindhólum, skammt frá Lónakotsselsstígnum, var t.d. fallega hlaðin vörðulaga refagildra, ein sú heillagasta af 36 slíkum, sem vitað er um á Reykjanesskaganum. Refagildran hafði op mót austri. Fallhellan lá framan við opið. Þrátt fyrir að FERLIR hafi marggengið um bæði Lónakotssels-stíginn og svæðið neðan við Sjónarhól hafi sjónin aldrei áður fests á refagildru þessari – svo vel fellur hún inn í umhverfið. Má ætla að hið sama gildi um fjölmargar aðrar mannvistarleifar í Hraununum. Því til staðfestu má nefna hlaðið skjól í skúta við Óttarstaðasel-stíginn.
HraunagatanÞrátt fyrir margar ferðir fram og aftur um götuna hafði skjólið aldrei opinberast fyrr en einmitt nú. Um er að ræða fallegar hleðslur við niðurgang í náttúrulegt lítið jarðfall, sem án efa hefur verið reft yfir fyrrum. Inn undir því er hið ágætasta skjól. Gæti það hugsanlega hafa verið brúkað af fólki er fara þurfti upp í Óttarsstaðasel – og jafnvel lengra því gatan sú lá einnig sem afleggjari bæði upp á Hrauntungustíg og í Skógarnef og áfram um Mosa að Dyngjum.
Margt af því sem birtist hefur þegar verið skráð í örnefnalýsingar. Stundum getur verið erfitt að lesa úr lýsingunum því bæði áttir geta verið misvísandi sem og fjarlægðir. Þannig er oft getið um “vestur af” eða “niður af” og getur þá verið um verulegar fjarlægðir að ræða. Sá, sem heldur á örnefnalýsingu á stað eins og Hraununum, þarf annað hvort að vera mjög kunnugur á svæðinu eða óvenju vel læs á landslag. Hvorutveggju er varla til að dreifa í dag því flestir þeir, sem þekktu til, eru dauðir, og örfáir núleifandi eru læsir á framangreint.
Af öllu þessu má ætla að ekki væri vanþörf á að að senda liðssveit “sérfræðinga” (og er þá ekki átt við háskólamenntaða nema í undantekningartilvikum) á vettvang og “skanna” upp öll örnefni og mannvistarleifar, sem kunna að leynast á svæðum sem þessum. Slík vinna fæli bæði í sér mikla verðmætasköpun til framtíðar og ómetanlegt vermætagildi komandi kynslóðum til handa.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Óttarsstaði og Straum (GS).

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.